sunnudagur, 21. september 2003

Klukkan tíu í gærkvöldi fórum við Björgvin, Gylfi og Eiríkur í Regnbogann á dans og söngvamyndina "28 days later" eða "Palli var einn í heiminum" eins og hún er þýdd (af mér). Myndin var sýnd í sal 3 sem er 50 sæta salur með ca 20 tommu sjónvarpi (skekkjumörk plús/mínus 30 tommur). Hún fjallar um mann sem vaknar af dái 28 dögum eftir að vírus braust út. Ég þori ekki að segja meira af ótta við að gefa of mikið upp.
Myndin er bresk sem kom þægilega á óvart. Hún er nokkuð vel leikin en óraunveruleg sem kemur ekki á óvart þar sem þetta er spennuhrollvekja. Byrjunaratriðin eru mjög vel gerð og algjörlega laus við tæknibrellur. Myndatakan er ekki góð og oft vissi ég ekkert hvað var um að vera fyrr en of seint. Hún er mjög spennandi og nokkrum sinnum hrökk ég svo við að ég hélt ég hefði slasað einhvern. Hún fær tvær og hálfa stjörnu frá mér.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.