þriðjudagur, 10. júní 2003

Fór, eins og þið sennilega vitið, til Borgarfjarðar í gær í heimsókn til pabba. Veðrið var eins og best verður á kosið og af því tilefni tók ég eitthvað af myndum á leiðinni. Alltaf gaman að kíkja til pabba í heimsókn.

Myndasíðan liggur enn niðri. Það lítur út fyrir að örlítill hluti (minna en 1%) af msspro hafi skemmst og verið er að laga það. Hvaða hluti ætli það hafi verið? Auðvitað hlutinn þar sem myndirnar mínar eru geymdar.

Í nótt lauk ég loksins við bókina 'Harry Potter og leyniklefinn' sem er önnur bókin í ritbálki þessum og þriðja bókin sem ég les um Harry Potter. Bókin er frekar langsótt og hálf klaufaleg á köflum en ef maður spáir ekki of mikið í hlutina, þar sem þetta er barnabók, þá gengur þetta ágætlega upp. Bókin fær 2 stjörnur af 4. Næst á dagskrá hjá mér er að lesa Lifandi Vísindi en ég hef staðist þá freistingu í næstum viku þar sem ég ætlaði að klára helv. Harry Potter bókina.

Eftir að hafa klárað bókina um kl 2:30 í nótt sofnaði ég loksins og dreymdi að ég væri einn í heiminum. Einhverra hluta vegna hrökk ég upp við það eins og þetta hafi verið martröð. Skrítið.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.