þriðjudagur, 16. janúar 2007

Nýlega fékk ég þá uppástungu í formi tölvupósts frá nafna mínum sem býr í Svíþjóð um að halda partí fyrir menn sem heita Finnur. Þetta yrði gert svo hægt væri að drekka eins mikið áfengi og líffræðilega er mögulegt og samt munað nöfn allra. Snjöll hugmynd, þangað til rýnt er í tölfræðina.

Hér er ca svar mitt:

Samkvæmt Hagstofu Íslands eru 271 sem heita Finnur sem fyrra nafn og 50 sem bera það í seinna nafninu*(1). Alls koma því 321 manns til greina.

Ég geri ráð fyrir eftirfarandi:

1. Á Íslandi búa 304.334 manns, þar af 154.287 karlar. 321 af þeim heita Finnur að einhverju leyti eða 0,21% (1)(2).
2. 26,1% eru yngri en 18 ára og er því ekki boðið (2).
3. 14,88% eru eldri en 60 ára og er því ekki boðið (2).
Eftir standa 92.799 karlmenn.
4. 59,18% af restinni búa á höfuðborgarsvæðinu og geta því mætt (2).
5. 29,2% af þeirri rest eiga börn og geta því afar líklega ekki mætt (2).

Eftir standa 38.882 barnlausir karlmenn á aldrinum 18-60 ára. Af þeim heita 0,21% Finnur að einhverju leyti eða 81 manns.

Það er mín reynsla að ef ég býð í teiti mæti um 10% af þeim sem boðið er þar sem ég er frekar leiðinlegur maður í persónu. 8 munu því mæta.

Ennfremur er það mín reynsla að helmingur allra eiga kærustur sem vilja hitta kærasta sína á djamminu eða heima, sem fyrst. Kærustur eru bannaðar (nema þær heiti Finnur) og því munu 4 fara snemma heim úr partíinu. Eftir standa 4.

Áfengi myndi verða við hönd.

Alltaf er einn sem drekkur of mikið og drepst snemma. Eftir standa 3.

Einn yrði að vera á bíl til að keyra hina niður í bæ, þar sem þetta yrði haldið á Broadway. Hann er því súkkulaði og telst ekki með. Eftir standa tveir.

Finnur Ingólfsson er leiðinlegur með víni. Honum yrði fleygt út.

Eftir stendur einn, dauðadrukkinn að skemmta sér vel, munandi öll nöfn viðstaddra.

Öllum Finnum sem lesa síðuna er boðið!

Heimildaskrá:
1. www.hagstofan.is/?PageID=21&nafn=Finnur
2. www.hagstofa.is

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.