Í dag fórum við Soffía í ræktina með strætó. Eftir ræktina gengum við í Húsgagnahallarhúsið á Höfða og versluðum í Krónunni. Eftir verslunarleiðangurinn biðum við eftir að Magga, systir Soffíu, kæmi til að sækja okkur í matarboð.
Við semsagt stóðum í Húsgagnahallarhúsinu með tvær fullar íþróttatöskur og tvo fulla poka af mjólk og cheerios. Af því það var og er tryllingslega kalt í Reykjavík þessa dagana, vikurnar og mánuðina, klæddum við okkur upp eins og ungabörn; í hnausþykkar úlpur, með trefla, húfur og í hönskum.
Í fyrsta sinn upplifði ég hvernig er að vera útigangsmaður. Fólk starði á okkur, leit svo á pokana og gekk aðeins hraðar frá okkur. Mjög þægileg lífsreynsla. Ef bíllinn kemst ekki í lag bráðum lem ég bifvélavirkjann til dauða með handleggjunum á honum.
En það er jákvæð hlið á þessu eins og öllu öðru; við náðum að betla 450 krónur.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.