miðvikudagur, 14. september 2005

Það lítur út fyrir að ég hafi verið klukkaður af MajuE. Klukk er internetfár sem tröllríður bloggheimum þessa klukkutímana og felur í sér að viðkomandi fórnarlamb klukks á að skrifa fimm handahófskennd persónuleg atriði (sem hinn sótsvarti almúgi vissi ekki fyrir væntanlega) og klukka svo nokkur stykki bloggara til viðbótar. Þar sem þetta blogg mitt er mestmegnis lygar og kjaftæði dags daglega þá tek ég þessu klukki. Hér atriðin fimm:

1. Ég hef búið á fimm stöðum um ævina. Eskifirði, Hallormsstað, Trékyllisvík, Fellabæ/Egilsstöðum og Reykjavík. Trékyllisvík er í uppáhaldi og verður alltaf.

2. Ég er háður mat, lofti, ákveðnum manneskjum, internetinu, tölfræði og reglum. Ef mér eru ekki settar reglur ráfa ég stjórnlaus út í náttúruna, vitandi ekkert.

3. Ég tek lýsi daglega og finnst ég vera betri maður fyrir vikið. Betri en þeir villimenn sem taka það ekki að minnsta kosti.

4. Ég hef ekkert sérstaklega gaman af því að blogga en mér líður þó illa ef ég blogga ekki tvisvar á dag. Rétt eins og heróínfíklum líður ekkert svo vel ef þeir fá ekki dópskammtinn sinn eða stelpur sem sjá ekki The OC og fá móðursýkiskast í kjölfarið.

5. Ég byrjaði að drekka rúmlega tvítugur og drekk mjög sjaldan, hef aldrei tekið sígarettusmók á ævi minni, hef aldrei séð dóp, hvað þá tekið það inn og fer í sturtu daglega. Stundum 2-3 á dag. Samt er ég einn viðbjóðslegasti náungi sem ég þekki.

Ahh.. mér líður betur eftir þetta. Ég vona að ykkur líði verr.

Ég klukka hérmeð Soffíu, Gutta, Þóru Elísabet, Gísla Sig og Maggý. Ég býst ekki við neinum viðbrögðum við þessu klukki mínu.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.