miðvikudagur, 31. mars 2004

Ég komst að því í dæmatíma áðan þegar glæsilegi kvenkyns dæmatímakennarinn reyndi að ná augnsambandi við mig að ég get ómögulega haldið augnsambandi lengur en eina sekúndu við fagurt kvenfólk.
Þannig að ef þú ert kvenmaður og ert að tala við mig og nærð góðu augnsambandi þá ertu ekki mjög girnileg að mínu mati, nema auðvitað ég hafi náð tali af sálfræðingi í millitíðinni.
Ég vaknaði klukkutíma of snemma í morgun, tannburstaði mig klukkutíma of snemma, las fréttablaðið klukkutíma of snemma, tók strætó klukkutíma of snemma, heilsaði strætóbílstjóranum aðeins til að fá fnuss til baka klukkutíma of snemma, mætti í skólann klukkutíma of snemma og sat í kennslustofunni, furðandi mig á því hvar kennarinn og nemendurnir voru, klukkutíma of snemma.

Ég sá semsagt ekki að klukkan var 8, en ekki 9 þegar ég vaknaði í morgun.

Þetta gæti þó verið verra. Ég gæti vaknað um hánótt, gengið smáspöl með fósturbróðir mínum og beðið eftir að rúta sækti mig á gatnamótum Fellabæjar, til að komast í skólann eins og Gylfi Þór meistari gerði um árið, ekki einu sinni heldur tvisvar.

þriðjudagur, 30. mars 2004



Skötuhjúin.


Á laugardagskvöldið síðasta notaði ég tækifærið, þar sem ég var einn heima á Tunguvegi 18, lokaði mig inni í herbergi og horfði á myndina 'Eternal sunshine of the spotless mind' eða 'Eilíft sólskin flekklausa hugans' eins og það yfirfærist. Myndin er merkileg fyrir þær sakir að hún er nýjasta afurð Charlie Kaufman en hann er geðsjúklingurinn sem stendur á bakvið myndirnar 'Being John Malcovich' og 'Adaptation'. Í aðalhlutverki eru Jim Carrey og Kate Winslet, sem margir muna eftir í miklum hremmingum í Titanic hér um árið. Auk þeirra leika Elijah Wood og Kirsten Dunst ágætis hlutverk þarna.
Myndin fjallar um mann sem kemst að því að kærasta hans hefur látið eyða honum úr minni sínu eftir rifrildi. Hann ákveður að gera það sama.
Þetta er vægast sagt sérkennileg mynd, mun furðulegri en 'Being John Malcovich' og þó var hún með þeim furðulegri (en samt góð). Myndin er flokkuð sem vísindaskáldsögu-drama-gaman-spennu-rómantík á imdb.com og er það nokkuð nærri lagi. Ég veit eiginlega ekki hvaða álit ég á að hafa á henni þar sem hún er svo gjörsamlega allt öðruvísi en allar aðrar myndir sem ég hef séð þannig að ég gef henni tvær stjörnur af fjórum. Takið áhættu og farið á hana þegar hún kemur í bíóhúsin.
Enn er að bætast við bloggflóru landsins. Eyrún A., gamall nágranni minn, er nýlega búin að opna fréttasíðu. Þemað er hún sjálf, eins og á vel flestum bloggsíðum auðvitað. Hér er hlekkurinn.

Þetta fékk hún bara fyrir að skrifa í gestabókina.
Þessi síða hefur náð markaðsjafnvægi í ca 70 gestum á dag. Ég virka nefnilega þannig að ef það mæta of margir á síðuna er pressan of mikil á mér við að segja eitthvað áhugavert og ég brotna niður, enda svo á því að skrifa bara eitthvað bjánalegt og fæli fólk frá. Ef hinsvegar mjög fáir mæta leik ég við hvurn minn fingur og blogga um allar lífsins dásemdir sem eykur aðsókn, að því er virðist.
Nú er svo komið, eins og áður segir, að jafnvægi hefur náðst sem þýðir aðeins eitt. Þessi færsla er hvorki áhugaverð né ömurleg. Bara svona meðal-jafnvægis færsla.

mánudagur, 29. mars 2004

Afsakið færsluleysið í dag. Er að vinna þetta bölvaða verkefni. Verð miklu meira virkur í netmálum þegar því líkur eftir nákvæmlega þrjá tíma núna. Hver veit nema ég hendi inn einhverjum myndum, bæti við ókeypis lagi, bjargi 200 börnum frá hræðilegum dauðdaga eða skrifi eitthvað sniðugt þá, ef ég nenni.
Vonda skapið er í rénun. Ég hef nú tæpa 6 tíma til að skila inn þessu 35% lokaverkefni í upplýsingatækni og mér líður nokkuð vel. Ótrúlegt hvað nokkur tár og sjálfspynting gerir fyrir geðheilsuna.

sunnudagur, 28. mars 2004

Ég hef aldrei á ævi minni verið í jafn vondu skapi. Það er svona þegar rúmlega 20 tíma vinna fer í súginn af því ein forritunarskipun virkar ekki eins og allar aðrar í excel. Það er þó gott að kennarinn hvatti mig til að nota þessa formúlu, ekki vitandi að hún virkar ekki svona. Góð kennsla. Þá er bara að byrja upp á nýtt. Verst að það þarf að skila inn verkefninu innan sólarhrings núna.

Ég lít þó á björtu hliðarnar; það kemur ömurlegur dagur eftir þennan ömurlega dag.
Ég er staddur í aukatíma í upplýsingatækni. Ég hef beðið núna í tvo og hálfan tíma eftir aðstoð kennarans. Ég náði inn einni spurningu áðan (klukkan 16:30) og hann svaraði henni vel, nema að leiðbeiningar hans virka ekki. Ég finn hvernig heilablóðfallið er að byggjast upp auk þess sem það er farið að blæða úr hnefunum og eyrunum á mér af reiði.

Þetta er að öllum líkindum síðasta færslan mín á þessa síðu þar sem ég mun sitja inni á geðdeild næstu árin.

laugardagur, 27. mars 2004

Í fyrsta sinn í meira en ár missteig ég mig í körfubolta þrátt fyrir að hafa spilað á þeim tíma í hlaupaskóm, sem hvetja til meiðsla frekar en hitt. Ég, víkingurinn, hristi þó meiðslin af mér og kom sterkur inn aftur, hittandi ekki úr einu einasta skoti og var ánægður að hafa ekki staðið mig verr. Þá er ekkert annað í stöðunni en að refsa mér með því að nærast lítið og gefa sjálfum mér löðrung annað slagið. Það ætti að kenna mér.
Erlingur Barbari er drengur góður. Hann hefur loks byrjað að skrá niður hugsanir sínar fyrir allan heiminn að sjá. Hér getið þið lesið þær. Verði ykkur að góðu.

föstudagur, 26. mars 2004



Finnar fortíðar. Þið búið til Finna framtíðar!
Vorleikurinn er hafinn!



Það muna margir eftir sumarleik mínum fyrir rúmlega níu mánuðum síðan þar sem fólk nefndi tölur gegn því að fá bifreið í verðlaun. Nú er komið að vorleik veftímaritsins. Ég áttaði mig nefnilega á því nýlega að það eru ekki til nægilega margir Finnar á Íslandi. Þessi vorleikur mun að öllum líkindum laga ástandið fyrir einmanna meðlimi félags Finna á landinu.

Hér er leikreglurnar:

1. Skíra skal hvert það barn sem fæðist á tímabili leiksins Finnur.
2. Bannað er að breyta nafninu eftir að leik er lokið.
3. Bannað er að endurskíra barn sem nú þegar er skírt einhverju öðru nafni.
4. Þeir Finnar sem til eru þegar þetta er ritað teljast ekki með.
5. Sá/sú sem nær að kreista í gegn nafinu Finnur.tk fær 0,1 aukastig.
6. Leiknum líkur 26. mars 2014 að staðartíma.
7. Sá/Sú sem skírir flest börnin sín Finnur vinnur.
8. Í verðlaun verður eintak af bókinni "Hvernig ég varð frægasti bloggari alheimsins og milljarðamæringur" eftir sjálfan mig (kemur út um 2013).
Þið sem spjallið við mig á MSN; ég er ekki þunglyndur, fúllyndur, ofboðslega leiðinlegur (krosslegg fingur) eða þurr á manninn. Ég ákvað bara að skerða notkun mína á brosköllum þar sem það er minna óhugnarlegt fyrir viðmælendur mína. Enn hef ég ekki fundið hæfilegt notkunarmagn þannig að verið þolinmóð.

fimmtudagur, 25. mars 2004

Ný lægð í kvennamálum hófst í dag þegar gullfallegur kvenmaður veigraði sér ekki við að bora í nefið fyrir framan mig í skólanum og stuttu síðar leysa vind.
Þá hef vinnsla í síðasta skilaverkefni vetrarins. Eftir skil á því tekur við próflestur og eftir það 3ja vikna vinna fyrir fyrirlestur sem fluttur verður af mér og mínum hóp 14. maí næstkomandi. Eftir það er ég kominn í íslenskt sumarfrí sem þýðir vinna í þrjá mánuði. Ég get ekki beðið eftir því að vinna bara frá 8-17 á daginn.

miðvikudagur, 24. mars 2004

Í nótt dreymdi mig þetta.

Ég er hættur að vara við nektarhlekkjum þar sem samkvæmt könnun er yngsti lesandi 16 ára og ekki bandaríkjamaður.


Stórgóð mynd.


Í gærkvöldi sá ég myndina American Splendor, eða Amerískur ljómi eins og það yfirfærist. Hún fjallar um þunglyndan, svartsýnan og stórskemmtilegan mann sem ákveður einn daginn að semja myndasögu. Hún slær í gegn í bandaríkjunum og hann upp að vissu marki líka.

Það besta við þessa mynd er leikurinn og að, þar sem þetta er sannsöguleg mynd, láta alvörufólkið sem er verið að leika koma annað slagið fram í myndinni. Þetta jók skemmtanagildið umtalsvert.

Þrusumynd. Mæli með henni í bíóferð, ekki í gegnum tölvu eins og ég sá hana. Þrjár og hálfa stjörnu af fjórum.
Stórkostlegu vonbrigði dagsins voru að sjálfsögðu þau að blóðsugurnar á síðunni sem heldur uppi skoðannakönnuninni minni (neita að hlekkja á síðuna þeirra) vilja fá 50 dollara fyrir mánaðaráskrift að síðunni þeirra. Þangað til ég greiði það hafa þær lokað könnuninni sem eru mikil vonbrigði þar sem ég var kominn í startholurnar að slá þessar upplýsingar inn og vinna úr þeim.

Ég sendi þeim þó tölvupóst og bauðst til að greiða einn dag eða jafnvel eina viku, bara ekki heilan mánuð fyrir nokkra tíma vinnu. Sýnið þolinmæði.

þriðjudagur, 23. mars 2004

Ég hef lengi verið að væla yfir því að ekki séu til minnistöflur og að sá sem þær myndi framleiða gæti grætt umtalsverða peninga á þeim minnislausu. Svo brá ég út af vana mínum og fór að hugsa; hvernig í ósköpunum eigum við minnislausa fólkið að muna eftir því að kaupa þessar umtöluðu töflur? Sjálfur hef ég ætlað mér í rúma 2 mánuði að allavega spyrja út í svona töflur á næsta apóteki, en auðvitað gleymt því.

Eina leiðin sem ég sé í þessu er að fólk sem þjáist ekki í alvöru af minnisleysi en heldur að það geri það kaupi þetta. Það er þó ekki stór markaður og lítil gróðavon í því.

Til gamans má geta þess að ég hef einmitt ætlað að skrifa um þetta í nokkrar vikur en gleymt því þar til núna, þrátt fyrir minnisbókina mína góðu.
Það lítur út fyrir að tímamótaverk mitt, vísindaskáldsagan um vingjarnlega strætóbílstjórann verði að bíða þar sem bílstjóri dagsins bauð góðan daginn og mér að gjöra svo vel eftir að ég sýndi honum kortið sem gerir allar stelpur vitlausar, 3ja mánaða strætókortið.

mánudagur, 22. mars 2004

Í gær horfði ég á NBA leik milli New Jersey Nets og Dallas Mavericks. Leikurinn var skemmtilegur og lýsingin stórkostleg. Þar fengu gáfulegir og frambærilegir frasar eins og "Vá, sástu þetta?", "Nau, rosalegt skot" og "Hvað ætli þessi sé að hugsa?" að fjúka, eitthvað sem almenningur varð að fá að vita við þessa ákveðnu atburði. Þessi sami lýsir hafði nóg af smá upplýsingum um leikmenn og leikinn fram að færa eins og að Dirk Nowitzki sé með skrítið skegg, áhorfendurnir með fyndin skilti á lofti og þjálfari Nets hafi verið æstur þarna.

Valtýr Björn, ég hylli þig.

(Þið sem kunnið ekki að greina kaldhæðni frá raunaðdáaun þá ætla ég að umorða þetta: Sýn: RÁÐIÐ SNORRA STURLUSON AFTUR! Apaköttur gæti lýst körfubolta betur en Valtýr.)
Ég hef uppgötvað yfirnáttúrulega sorpkvörn fyrir mat, drykk og nammi og er hún staðsett á Tunguvegi 18. Svo virðist sem allt matarkyns sem lagt er frá sér í meira en 10 mínútur á stofuborð Tunguvegs 18 hverfi algjörlega sporlaust. Sænskir vísindamenn standa ráðþrota gagnvart þessu undraverða borði.
Þetta hefur þó leyst mörg vandamálin hjá mér a.m.k. þar sem ég hef oft misst mat í viðbjóðslegt gólfið eða fundið einhvern ósómann undir sófapullunum, ekki nennt að ganga með hann í ruslið í eldhúsinu og því lagt hann á borðið um stundarsakir aðeins til þess að sjá hann horfinn nokkrum mínútum síðar eftir að ég skrepp t.d. í sturtu.

sunnudagur, 21. mars 2004

Ævintýralegt kvöld fyrir framan sjónvarpið að baki. Eftir heimkomu úr skólanum, rétt eftir miðnætti, settist ég fyrir framan sjónvarpið og svissaði á milli sjónvarpsstöðva. Fyrst varð ég vitni að svakalegri gyðju tjútta frá sér allt vit í nærbuxum sem voru nokkrum númerum og litlar í myndbandi Black Eyed Peas, Hey mama. Ég er ekki frá því að ég hrópað upp yfir mig "Fari það grábölvað!" þegar sem heitast var í kolunum. Þegar Kylie Minogue kom svo næst ákvað ég að svissa yfir á bíórásina svo ég færi ekki yfirum, jafnsorglegt og það hljómar. Þar var The Runner í gangi og í sorglega atriðinu sem var nýbyrjað hljómaði lagið "people ain't no good" með Nick Cave sem fékk mig til að kasta upp af hamingju. Þá flutti ég mig yfir á ríkissjónvarpið þar sem Nurse Betty var í gangi og viti menn, Gus Gus hljómuðu undir einhverju spjallatriði með lagið "Lady Shave".

Ævintýrin leynast víða.
Ef þið viljið skoða bloggsíðu andlega tvíburabróður míns, sem heldur mikið upp á Nick Cave og Utah Jazz eins og ég auk þess sem hann er með sama útlit á blogginu sínu og ég (þegar ég byrjaði á þessari síðu þeas), smellið þá hér. Hann ber nafnið Oddbergur og ég efast ekki um að hann noti skó númer 45,5, eins og ég.

laugardagur, 20. mars 2004

Ég hef eytt síðustu fimm mínútunum úr minni stórbrotnu ævi í að hlægja mig máttlausan. Ég fór inn á síðu bróður míns, Helga, og rakst á þessa færslu. Hann tenglar á þessa auglýsingu sem olli hlátrinum.

Allir að kaupa Super Timor!
48 manns tóku þátt í könnuninni sem ég var með í gangi hérna í vikunni. Takk kærlega fyrir það þið sem tókuð hana. Þið hin skuluð skammast ykkar.

Ég hlakka til að sökkva tönnum mínum í það gríðarmagn talna og upplýsinga sem í gagnagrunninum er að finna. Það verður þó að bíða eitthvað þar sem stanslaust flæði verkefnaskila eru í skólanum þessa dagana. Ég lofa þó að birta þetta innan skamms.

föstudagur, 19. mars 2004

Ég gerðist bjartsýnn í gær og keypti mér 10 óskrifaða, marglita diska fyrir 15% af öllum mínum auðæfum eða kr. 790 sem mér fannst ansi vel sloppið. Í framhaldi af því ætlaði ég mér að hefja skrift á diskum fyrir ættingja víðsvegar um heiminn. Ég þurfti aðeins að klára eitt skref í aðgerðinni og það var að komast klakklaus heim með strætó en allt kom fyrir ekki. Ég steingleymdi diskunum í strætisbifreiðinni og mundi svo eftir því rúmlega sólarhring síðar í miðjum dæmatíma. Ég greip fyrir andlit mitt og lagðist fram á borðið þegar ég áttaði mig á mistökunum, hringdi í þjónustuver strætóanna og það var sem mig grunaði, þeir voru týndir og tröllum gefnir (tröllin verandi þá skepnurnar sem settust í sætið mitt á eftir mér).

Ég get ekkert gert nema lært af reynslunni, hvort sem það er að kaupa aldrei nokkurn skapaðan hlut, ferðast með strætó eða að fara ekki út úr húsi vegna heimsku.


School of rock.


Í gærkvöldi veitti ég sjálfum mér það bessaleyfi að fara í bíó með Gylfa en hann er staðsettur í bænum þessa dagana. Myndin sem varð fyrir valinu heitir School of Rock og er ágætis afþreying. Hér eru nokkrar skemmtilegar staðreyndir varðandi myndina, kvöldið og annað mjög áhugavert:

* Jack Black leikur aðalhlutverkið með Mike White. Þeir eru eins og svart og hvítt (gengur þessi ekki upp?). Uppáhaldssöngvari minn heitir einmitt Jack White úr hljómsveitinni White Stripes (utan Nick Cave auðvitað).
* Bíóferðin tók 3,75 tíma. Myndin er 2 tímar, ferðin þangað tók 30 mín og ferðin til baka með strætóum tók klukkutíma og korter.
* Myndin minnir óhugnarlega á Sister Act, sérstaklega síðustu 15 mínúturnar ca.
* Ég fékk mér lakkrís með poppinu.
* Allir krakkarnir spila í alvöru á hljóðfærin í myndinni.
* Ég sá manneskju sem kemst inn á top 10 listann minn yfir útlitslega framúrskarandi vel gerðar konur. Sarah Silverman heitir hún.
* Allir foreldrarnir í myndinni keyra Volvo.
* Í þessari færslu eru 10 hlekkir og tveir svigar (ef þessi er ekki talinn með).

Myndin fær tvær og hálfa stjörnu af fjórum frá mér. Þið getið dregið hálfa stjörnu frá þessum dóm á tveggja ára fresti. Ætti þannig að vera komin í enga stjörnu eftir 10 ár, rétt um það leiti sem þetta verður álitin skelfilega hallærisleg mynd og ég verð búinn að eignast minn fyrsta milljarð króna.

fimmtudagur, 18. mars 2004

Ég er mikið að spá í að henda upp öðru útliti á þessa dagbók mína. Hugmyndin er að hafa hana mjög dökka útlits með ljósum stöfum. Með þessu dökka útliti ætlaði ég mér að hafa myndir og er ég m.a. að spá í að hafa þessa mynd í forgrunni eða efst á síðunni:





Endilega skráið uppástungur eða athugasemdir í kommentakerfið, nema um hvorutveggja sé að ræða, þá er kannski hægt að semja um að þið skrifið bæði.
Þessar stelpur gera sér sennilega ekki grein fyrir því hversu heppnar þær eru í raun og veru að Skyr hafi styrkt þær í staðinn fyrir fyrirtækin "Drusla" eða "Heimsk glyðra" sem börðust um að styrkja þessa uppbyggjandi athöfn sem þarna fer fram.
Alltaf gaman að rekast á myndasögu sem hittir naglann beint á höfuðið. Þetta finnst mér magnaður punktur.

miðvikudagur, 17. mars 2004

Þegar ég stóð í lyftunni í skólanum áðan og beið eftir að hún lokaðist, þar sem ég myndi halda mína leið upp á fjórðu hæð til að halda áfram að læra, gekk stúlka framhjá sem ég sé daglega. Hún starði á mig og brosti undurblítt til mín. Þetta er í fyrsta sinn sem eitthvað brosir til mín (ég kýs að líta svo á að hún hafi ekki verið að brosa að mér heldur til mín). Eins allir harðkjarna piparsveinar þá vissi ég ekki hvernig átti að bregðast við en hér koma nokkrar hugmyndir sem flugu í gegnum hausinn á mér á þessari millisekúndu:

* Girða niðrum mig og hlaupa á eftir henni með útbaðaðar hendur.
* Öskra "Glyðra!"
* Brosa til baka.
* Veifa/kinka kolli og brosa.
* Þrýsta á loka lyftuhurð takkann sem óður væri.
* Missa andlitið og líta út eins og dádýr rétt áður en keyrt er yfir það.

Ég kaus síðasta möguleikann.
Gaman að segja frá því að ég var að komast yfir tveggja daga múrinn af tónlist sem ég á í tölvunni minni. Það náðist með því að taka 100 bestu one-hit-wonders disk af netinu og eyða svo 85 lögum af þeim vegna þess hversu leiðinleg þau voru.

Meira af tölfræði:

Hár mitt hefur nú náð níu sentímetra markinu. Þegar ég kom til Reykjavíkur í lok ágústs var það í þremur sentímetrum ca. Ég fór svo í klippingu í desember og lét skerða það um einn sentímetra. Þá fæ ég út að það hefur vaxið nákvæmlega sjö sentímetra á sjö mánuðum eða einn sentímetra á mánuði sem svo segir mér að ég er með eðlilegan hárvöxt. Þarmeð get ég eytt einu áhyggjuefninu af lista mínum sem spannar nokkrar síður, þéttskrifaðar.

Annars er gúrkutíð í fréttum og hugrenningum.

þriðjudagur, 16. mars 2004

Þökk sé þessu forriti sem ég var að niðurhlaða ókeypis mun ég aldrei gleyma neinu hér eftir. Þeir sem þekkja mig vita að ég gleymi yfirleitt ca öllu sem mér er sagt að gera í nánustu framtíð. Ef þið eigið við sama vandamál að stríða og eigið tölvu náið í forritið ókeypis hér.
Þá hef ég náð nægilega slæmum árangri í körfubolta til að skrá það á þessa síðu. Ég misnotaði nær öll mín skot á körfuna í gærkvöldi og lið mitt þurfti að sætta sig við jafntefli, tveir leikir gegn tveimur, við Egilsstaðabúana Danna K, Guðjón Braga, Víði og Björgvin Luther. Með mér í liði voru Óli Rúnar, Víðir Þórarins og Aðalsteinn Ingi.
Ég lít þó á björtu hliðarnar eins og alltaf og einblíni á þá tölfræði að ég blokkaði 14-15 skot á þessum klukkutíma, jafnótrúlegt og það hljómar.
Í síðasta sinn minni ég fólk á að taka þátt í könnuninni minni sem brátt syngur sitt síðasta. Þá mun ég slá allar upplýsingar í excel, finna út stórkostlegar niðurstöður og birta þær hér.

Einn heppinn þátttakandi fær píanó í verðlaun að verðmæti 500.000 krónur.

Takið þátt hérna.

mánudagur, 15. mars 2004

Í ljósi gríðarlegs blíðviðris í Reykjavík hef ég ákveðið að taka mér frí frá bloggi það sem eftir er dags til þess að vinna excelskilaverkefni fyrir fjármál fyrirtækja og spila innikörfubolta í kvöld með ófríðu föruneyti. Ég biðst velvirðingar.
Ég er kominn í nýjan klúbb en hingað til hef ég aðeins verið í Skákklúbbi Menntaskólans á Egilsstöðum. Þar sem það eru 5 ár liðin síðan ég útskrifaðist þaðan fannst mér rétt að finna mér eitthvað nýtt og í raun löngu kominn tími á að ég skrái mig í þennan umrædda klúbb.

Kíkið á þessa færslu Kristjáns Orra og skráið ykkur, þið sem fyllið skilyrðin. Piparsveinaklúbbur austurlands, hér kem ég!

*Þetta er fyrsta færslan sem er skráð í miðjum tíma í háskólanum.*

sunnudagur, 14. mars 2004

Í þriðja sinn minni ég fólk á að taka könnunina. Á morgun eða hinn tek ég hana niður, vinn úr niðurstöðunum og birti hér. Ég lifi í voninni að 50 manns taki hana en núna hafa rúmlega 30 manns tekið hana.

Þið sem eigið það eftir, smellið hér. Munið, þið fáið mitt ævarandi þakklæti í laun.
Ég heyrði Kalla Bjarna Idolstjörnu syngja í fyrsta sinn í gærkvöldi. Vann hann í alvöru? Og var þetta án gríns vinsælasta sjónvarpsefni landsins? Ef svarið er já við báðum spurningum þá neita ég að trúa því. Annars biðst ég afsökunnar á tuðinu.
Ég var að skoða myndir í tölvunni minni þegar ég rakst á þessa mynd sem ég hafði breytt fyrir einhverju síðan. Mér brá nógu mikið til að láta mér detta til hugar að birta hana hér. Verði ykkur að góðu.

laugardagur, 13. mars 2004

Ég minni ykkur sem eigið eftir að taka þátt í könnuninni að taka þátt hérna. Þegar þetta er ritað hafa um 20 manns tekið þátt. Vinsamlegast takið þátt ef þið hafið ekki gert það hingað til. Niðurstöður verða birtar hérna á síðunni innan skamms.
Þegar ég snéri heim á Tunguveginn úr skólanum í kvöld var engu líkara en ég sjálfur hafði komið snemma heim því búið var að borða bananana mína, drekka vatnið sem ég geymi í ísskápnum, nota sápuna mína, hársápuna, raksápuna og hárnæringuna mína auk þess sem var kveikt á tölvunni minni og handklæði mitt rennandi blautt eftir augljósa notkun. Ég kíkti inn í herbergið mitt og þar var engin Gullbrá sofandi, hvað þá nakin en þá rann upp fyrir mér ljós; ég lifi í kommúnu á Tunguvegi 18 með fimm strákum. Furðulegt þar sem ég hélt að allir hérna væru ýmist á miðjunni eða hægri sinnaðir, nema ég auðvitað.
Ég er staddur í svokölluðu 'catch-22' þessa dagana. Þannig er mál með vexti að:

1. Mig vantar nýja úlpu.
2. Til að kaupa mér úlpu þarf ég pening.
3. Til að eiga pening þarf ég vinnu.
4. Til að vera í vinnu þarf ég að klára skólann.
5. Til að klára skólann þarf ég að mæta í skólann.
6. Til að mæta í skólann þarf ég nýja úlpu.

Algjörlega vonlaust. Ég enda sem nakinn róni niðri á laugarvegi ef fer fram sem horfir.

föstudagur, 12. mars 2004

Ég bið ykkur, lesendur síðunnar og aðrir gestir, auðmjúklega að taka þessa könnun fyrir mig. Ég er alltaf að reyna að bæta þessa síðu á einhvern hátt og þessi könnun aðeins eitt skref af milljörðum tekin til þess.

Smellið hér til að taka könnunina, tekur í mesta lagi 5 mínútur. Í staðinn fáið þið mitt eilíflega þakklæti.

Niðurstöður verða birtar mjög fljótlega á þessari síðu ásamt allskonar dásamlegri tölfræði. Takk fyrir.
Ég frétti það við að hlera Verslunarskólastelpur í strætó í morgun að stelpur á Egilsstöðum væru byrjaðar að kaupa sér trúlofunarhring til að sleppa við viðreynslur Ítala. Getur einhver vottað þetta?

Ef þetta er satt standa kenningar mínar varðandi það hversu einhleypur ég er á austurlandi á brauðfótum. Þær greinilega kunna gott að meta.
Áður en þessi dagur er úti ætla ég mér að vera giftur þeirri manneskju sem lyktar svona ótrúlega vel hérna í tölvuverinu í háskólanum en ég hef ekki enn náð að átta mig á því hver það er nákvæmlega.
Ég vona bara að það sé spænska gellan fyrir framan mig frekar en þrælfeita kellingin fyrir aftan mig eða alskeggjaði mótorhjólatöffarinn við hliðinni á mér. Best væri þó, að sjálfsögðu, ef lyktin væri af sjálfum mér.

fimmtudagur, 11. mars 2004

Ég er talsvert mikið fyrir að skoða myndir af körfuboltafígúrum ýmiskonar þar sem Sýn sýnir örfáa NBA leiki og Íslenski körfuboltinn er varla upp í nös á ketti. Allavega, ég hef fundið flottustu mynd fyrr og síðar. Hér getið þið séð hana. Takið eftir því hvernig sóknarmaðurinn reynir að skapa pláss með olnboganum en allt kemur fyrir ekki. Þarna fer einmitt sá leikmaður sem ég dái sem mest um þessar mundir, Andrei Kirilenko að nafni.

Þessi mynd varð í öðru sæti hjá mér í myndakeppninni og viti menn, hver kemur þarna á móti kauða og niðurlægir hann? Enginn annar en Andrei Kirilenko.
Ég segi ekki oft frá draumum mínum enda þeir frekar óspennandi, eins og vel flestir draumar. Í þetta skiptið ætla ég þó að bregða mér úr viðjum vanans og segja frá ekki einum draumi heldur tveimur því þeir eru með þeim skemmtilegustu sem mig hefur dreymt.
Í nótt dreymdi mig að ég hafi drukkið kasúldna mjólk sem var útrunnin fyrir tveimur dögum síðan.
Síðari draumur minn var mun meira spennandi en þar var Styrmir bróðir í aðalhlutverki þegar kom í ljós að hann hafði verið í NBA hér um árið hjá San Antonio Spurs. Ástæðan fyrir því að hann sagði engum frá var tölfræðin hjá honum. Eftir því sem ég best man var hann með eitt skot af átta ofan í einum leik sínum og einn tapaðan bolta. Í seinni leiknum hans tvö skot af sjö ofan í, tvö fráköst og fjóra tapaða bolta.

Ótrúlegt að ég muni tölfræði úr draumum mínum en get svo ekki munað eitt einasta nafn sem mér er sagt í raunverulega heiminum.

miðvikudagur, 10. mars 2004

Ingi Björn heitir piltungur vel máli farinn og fríður ásýndum, að sögn. Hann heldur dagbók á netinu þar sem hann lætur allt flakka. Tölvuhakkarinn ég náði að kryfja inngangsorðasíðu kappans á bak aftur og ætla nú að sýna öllum dagbókina hans. Gjörið svo vel.
Eftirfarandi bloggsíður hef ég sett upp eða hjálpað við það:

Blogg Björgvins
Blogg Maggýar
Blogg Ölmu
Blogg Gullu
Blogg Helga
Blogg Söndru
Blogg Þóru E

og fleiri sem ég er að gleyma. Einnig hafa nokkrir breytt útlitinu síðan.

Í dag gerðist ég svo atvinnublogguppsetningamaður þegar ég bjó til bloggviðmót fyrir Gylfa Þór gegn því að ég fengi greitt í einni pizzu og ca 33o ml af pepsi. Þetta tók mig þrjá tíma sem gera ca 667 krónur á tímann sem er ágætis byrjunartaxti.

Ég vona bara að enginn sjái það munstur úr þessum lista að ég hjálpi bara ættmennum, fallegu kvenfólki eða fólki sem býður upp á pizzu og pepsi. Eða jú annars.
Þá hef ég náð enn einum merkisáfanganum því í morgun mætti ég mjög stundvíslega í skólann klukkan átta eftir tólf tíma svefn. Ég svaf frá 19:00 til 07:15 í morgun og er nýr maður. Nýr maður að því leiti að ég er algjörlega tómur í hausnum.

þriðjudagur, 9. mars 2004

Þessi dagur hefur verið frekar langur. Hann byrjaði í gærmorgun klukkan 7:30 og fer að ljúka þegar þetta er ritað. Á þeim tíma hef ég eytt öllum mínum tíma í að lesa fyrir þjóðhagfræðipróf sem var í morgun og gekk mér þónokkuð vel á því. Eftir prófið tók við ein átakanlegasta kennslustund allra tíma því aldrei áður hefur nokkur maður barist jafn hatrammri baráttu við svefninn og ég gerði einmitt á þessum 90 mínútum. Ég hafði þó sigur úr býtum en fórnarkostnaðurinn var sá að ég veit ekkert hvað fór fram í tímanum, slík voru átökin.

Annars er ég að fá ágætis einkunnir hingað til. Fékk 9,25 fyrir 23ja blaðsíðna rekstrarbókhalsverkefni sem tók mig tvær vikur að vinna einn og 9,3 fyrir þjóðhagfræðiverkefni sem ég vann eina dásemdar nóttina í Háskóla Reykjavíkur Helvítis. Einnig fékk ég 8 í lokaprófi rekstrarbókhalds. Ég fékk hinsvegar alls ekki 6 í auðveldu skilaverkefni fyrir upplýsingatækni og þið munuð aldrei frétta það.

Allavega, þessum degi er lokið hjá mér.
Mér finnst textar í dögurlögum nútímans til háborinnar skammar og til að sanna mál mitt kem ég með sönnunargagn; textinn í lagi Red Hot Chili Peppers, Fortune Faded. Þar segir orðrétt:

"They say in chess you've got to kill the queen and then you made it."

Þetta er kjaftæði. Ég vann Óla Rúnar um daginn í skák og hann var enn með drottninguna á borðinu. Einnig skipti ég oft upp drottningu fyrir drottningu og sigra svo í endatafli. Engan hef ég heyrt segja að drepa þurfi drottninguna til að vinna. Þarna eru Red Hot Chili Peppers að misskilja skákíþróttina því þar þarf að drepa kónginn til að sigra. Furðulegt að þeir hafi ekki beðið skákfræðing um álit á textanum áður en þeir fóru að dreifa þessum lygum.

mánudagur, 8. mars 2004

Það er löngu kominn tími á að bæta við nýju lagi hérna. Að þessu sinni býð ég upp á lagið sem ég hlusta mest á meðan ég les námsefnið yfir. Tölvan segir mig hafa hlustað á það 21 sinni síðustu 2 vikur og tek ég hana trúanlega. Næst er lag með Nick Cave, spilað 12 sinnum.

Allavega, lagið heitir Too Easy og er með Wiseguys. Þið þekkið það líklega betur sem Hunts tómatsósulagið. Hægri smellið hér og veljið save as eða vinstri smellið og bíðið smástund.
Síðustu tvo tíma hef ég kveinkað mér yfir því að hafa ekki neitt til að skrifa um þennan daginn á bloggið mitt. Svo fór ég að hugsa; hvað með öll börnin í afríku sem eiga ekki einu sinni blogg til að skrifa hugsanir sínar í? Með þessari hugleiðingu brosti ég í annað og var nokkuð sáttur við ritstífluna.

sunnudagur, 7. mars 2004

Í ljósi nýrra niðurstaðna í þyngdarmálum mínum, en í gær mældist ég grunsamlega nálægt kjörþynd, hef ég ákveðið að skipta út kóki af matseðli mínum við þreytu fyrir vatn og kaffi. Hreina svínafitan er þó enn á sínum stað en nú elda ég hana í George Forman fitueyðandi grillinu hans Óla Rú.
Var að koma af óskarsverðlaunatilnefndu myndinni Lost in Translation. Myndin fjallar um gamla kvikmyndastjörnu sem fer til Japans til að leika í vískí auglýsingu fyrir tvær milljónir dollara, sem samsvarar ca 140 milljónum króna fyrir ykkur sem eru að velta því fyrir sér. Á hótelinu sem hann dvelur á kynnist hann ungum heimspekingi og saman skemmta þau sér nægjanlega til að lifa af McDonalds-, jay leno- og bandaríska fánans-leysið.
Ég hef heyrt að þetta eigi að vera gamanmynd en eini hláturinn sem ég heyrði í salnum var þegar hrokafullu bandaríkjamennirnir gerðu grín að austurlenskri menningu. Leikurinn er nokkuð góður en sagan gæti drepið hross. Ef kvikmyndir væru gos væri þessi kók án sykurs, bragðefnis, litarefnis og kolsýru.
Ein stjarna af fjórum.
Laugardagskvöld þetta var notað í að spila skák á sjötta borði fyrir hönd austurlands í deildarsveitakeppni. Til að gera líflega sögu stutta þá tapaði ég skákinni eftir aðeins 210 mínútna leik.
Skákin var tefld í menntaskólanum í Hamrahlíð en þar voru komnar saman fjórar deildir af skáktöffurum eða rúmlega 240 skákmenn og álíka magn af æstum aðdáendum. Sjálfur gleymdi ég possunum mínum heima.

föstudagur, 5. mars 2004

Þú veist að þú ert býsna fráhrindandi einstaklingur þegar...

...þú finnur engan til að fara í bíó með þér í rúmar tvær vikur.
...þú finnur engan til að drekka áfengi með þér um stóra djammhelgi, á Íslandi!
...einu símtöl dagsins eru annað hvort mamma þín eða röng númer.
...þú sigrar sjálfan þig óvænt í skákeinvígi, 16-14.
...þú faðmar skattaskýrsluna þína.
...fólk segir við þig "þú ert fráhrindandi einstaklingur".

Með þessum orðum höldum við í helgina full tilhlökkunar.
Það verð alltaf sorgmæddur í nokkra daga á eftir að ég uppgötva stærðarinnar mistök í bíómyndum sem eru hátt skrifaðar hjá mér, svo stór mistök að myndin gengur engan veginn upp. Tvisvar hefur þetta hent mig síðasta mánuðinn:

1. Ace Ventura: Pet Detective. Ace eyðir allri myndinni í að leita að hring sem liðsfélagar fótboltaliðs fengu fyrir að lenda í öðru sæti bandarísku fótboltadeildarinnar sem gæti tengt viðkomandi við rán á höfrungi. Mistökin: Aðeins sigurliðið fær hring í verðlaun. Annað sætið fær ekki nokkurn skapaðan hlut.

*Spillari (gæti skemmt fyrir þá sem hafa ekki séð myndina fyrir)*

2. Fight Club. Í lokin á myndinni springa nokkur háhýsi og Tyler Durden stendur með dömu sinni á hæstu hæð háhýsis, horfir á ósköpin og gefur í skyn að samband þeirra sé rétt að byrja. Mistökin: Í byrjuninni á myndinni er sýnt hvernig háhýsið sem þau standa í er hlaðið gríðarstórri tímasprengju. Samt hrynur háhýsið sem þau standa í ekki.

fimmtudagur, 4. mars 2004

Sigríður Fanney benti mér góðlega á brandara í svínasúpunni í ummælum fyrir stuttu. Í brandaranum, sem sýndur var 27. febrúar síðastliðinn, er talað um bananaananas sem hefur nú fengið tugi þúsunda Íslendinga til að hlægja. Ef þið lítið hér og skoðið fyrstu færslu 12. ágústs 2003 sjáið þið klárlega að þarna hafði ég uppgötvað þetta orð. Orð fá ekki lýst heift minni í garð höfunda svínasúpunnar sem greinilega hafa tekið sér það bessaleyfi að hnupla orði af blogginu mínu sér til framdráttar.
Ég er smámsaman að breytast í Reykvíking eftir 7 mánaða veru í borginni. Það sannast best með eftirfarandi aðgerðum mínum:

Ég...
...ruddist og slóst um vörur í bónus í gær, biðjandi enga(n) afsökunnar.
...skaust framfyrir í röðinni að kassanum í bónus.
...var mjög fúllyndur og dónalegur allan gærdaginn.
...var stressaður.
...bauð ekki góðan daginn þegar ég sýndi strætókortið í strætó.
...var hávær og ótillitssamur á tunguveginum í gær.
...er fordómafullur með þessari færslu.

Ég er þó ekki fullur sjálfsánægju, áfengisfullur eða hrokafullur en hver veit hvað tíminn leiðir í ljós.

miðvikudagur, 3. mars 2004

Ég niðurhlóð nýlega myndinni Lost in translation (tapaður í þýðingu) um daginn og hugsaði mér gott til glóðarinnar. Á laugardaginn gerði ég svo tilraun til að horfa á herlegheitin. Þegar ca 5 mínútur voru komnar af myndinni byrjaði Bill Murray að tala spænsku við japanska fólkið. Ég hló nett, enda hélt ég að þetta væri svakaleg gamanmynd. Þegar svo hann var búinn að tala spænsku í ca 10 mínútur við hina og þessa ákvað ég að stoppa þetta því sjálfur var ég tapaður í þýðingu spánverja enda um talsetta mynd að ræða. Skemmtileg tilviljun það.

Þess í stað horfði ég á myndina Amazon women on the moon. Hún fjallar um leiðangur sem gerður er út til tunglsins en þar lendir hópurinn í vandræðum með Amazon konur sem vilja þá feiga. Æsispennandi og fyndin gamanmynd.
Tvær og hálfa stjörnu af fjórum.
Það fyrsta sem flestum dettur í hug þegar þeir hugsa um austurland og skemmtanalífið þar er ekki ullarsokkur, heldur ullarsokkurinn.com. Núna er komin síða sem ber þetta sama nafn. Síðan er stórkostlega vel upp sett og skemmtileg í alla staði. Allir þangað, eftir að þið kíkið á bloggið hennar Maggýar auðvitað.
Maggý var að fá sér nýjan borða efst á síðuna sína og mæli ég með því að fólk kíki á herlegheitin. Núna!

þriðjudagur, 2. mars 2004

Ótrúlegt hvernig markaðsstjórar geta gabbað allan heiminn. Þessi er t.d. vinsælli en þessi, þó svo að sú síðarnefnda sé með betri tónlist (þó að ég hlusti á hvoruga), betri söngkona og augljóslega mun fallegri.
Í morgun tók ég vetnisstrætó í fyrsta sinn. Fyrir Íslendinga er það ekki merkilegt þannig að þetta er bara skráning í dagbókina svo ég viti nákvæmlega hvenær ég tók þannig strætó fyrst, ef einhver gella spyr mig síðar í lífinu.
Hverjar eru líkurnar á þessu: Þegar ég fæ mitt fyrsta alvöru glóðarauga og mæti stoltur í skólann hefur önnur manneskja, og stelpa í þokkabót, fengið mun stærra og glæsilegra glóðarauga. Mín heppni (Síðasta færslan um glóðaraugu, ég lofa).

mánudagur, 1. mars 2004

Ég var að koma úr körfubolta og það á ekki nokkur maður eftir að trúa þessu en ég fékk mitt fyrsta alvöru glóðarauga í þetta skiptið, á réttum stað meira að segja. Þetta er líka í fyrsta skipti sem ég hlakka til að sjá andlitið á mér eftir hörkuspennandi nótt. Vona að þetta verði ekki of stórt, og alls ekki of lítið.
Nýtt ómenni Háskóla Reykjavíkur er fætt.
Sean Penn fór fínt í að drulla yfir George Bush á óskarsverðlaununum í gærkvöldi þegar hann vann óskarinn fyrir að vera besti leikari ársins í aðalhlutverki og sagði (í lauslegri þýðingu minni): "Ef það er eitthvað sem leikarar vita, fyrir utan að það fundust engin gjöreyðingarvopn í Írak, þá er það að enginn er bestur í að leika."
Tim Robbins vann líka óskarinn fyrir besta karlleikara í aukahlutverki en hann er gríðarlegur friðarsinni eins og Penn og virði ég þá mikið fyrir það. Verst þó að þeir léku báðir í hræðilegri mynd, Mystic River, sem er eins og dæmigerð Colombomynd án áhugaverðs söguþráðar. Ennþá verra er þó að þessi bloggfærsla er um óskarsverðlaunin, sem er sjálfdýrkandi athöfn leikara bandaríkjanna.
Þá er komið í ljós að árásin á tvíburaturnana í New York 11. september 2001 var sett á svið af Bandaríkjamönnum til að fara í olíustríð. Þið sem enn efist og haldið að vondir kallar frá mið austurlöndum hafi gert þetta, lesið þetta og skoðið allar vísbendingar.