Þessi dagur hefur verið frekar langur. Hann byrjaði í gærmorgun klukkan 7:30 og fer að ljúka þegar þetta er ritað. Á þeim tíma hef ég eytt öllum mínum tíma í að lesa fyrir þjóðhagfræðipróf sem var í morgun og gekk mér þónokkuð vel á því. Eftir prófið tók við ein átakanlegasta kennslustund allra tíma því aldrei áður hefur nokkur maður barist jafn hatrammri baráttu við svefninn og ég gerði einmitt á þessum 90 mínútum. Ég hafði þó sigur úr býtum en fórnarkostnaðurinn var sá að ég veit ekkert hvað fór fram í tímanum, slík voru átökin.
Annars er ég að fá ágætis einkunnir hingað til. Fékk 9,25 fyrir 23ja blaðsíðna rekstrarbókhalsverkefni sem tók mig tvær vikur að vinna einn og 9,3 fyrir þjóðhagfræðiverkefni sem ég vann eina dásemdar nóttina í Háskóla Reykjavíkur Helvítis. Einnig fékk ég 8 í lokaprófi rekstrarbókhalds. Ég fékk hinsvegar alls ekki 6 í auðveldu skilaverkefni fyrir upplýsingatækni og þið munuð aldrei frétta það.
Allavega, þessum degi er lokið hjá mér.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.