þriðjudagur, 30. mars 2004



Skötuhjúin.


Á laugardagskvöldið síðasta notaði ég tækifærið, þar sem ég var einn heima á Tunguvegi 18, lokaði mig inni í herbergi og horfði á myndina 'Eternal sunshine of the spotless mind' eða 'Eilíft sólskin flekklausa hugans' eins og það yfirfærist. Myndin er merkileg fyrir þær sakir að hún er nýjasta afurð Charlie Kaufman en hann er geðsjúklingurinn sem stendur á bakvið myndirnar 'Being John Malcovich' og 'Adaptation'. Í aðalhlutverki eru Jim Carrey og Kate Winslet, sem margir muna eftir í miklum hremmingum í Titanic hér um árið. Auk þeirra leika Elijah Wood og Kirsten Dunst ágætis hlutverk þarna.
Myndin fjallar um mann sem kemst að því að kærasta hans hefur látið eyða honum úr minni sínu eftir rifrildi. Hann ákveður að gera það sama.
Þetta er vægast sagt sérkennileg mynd, mun furðulegri en 'Being John Malcovich' og þó var hún með þeim furðulegri (en samt góð). Myndin er flokkuð sem vísindaskáldsögu-drama-gaman-spennu-rómantík á imdb.com og er það nokkuð nærri lagi. Ég veit eiginlega ekki hvaða álit ég á að hafa á henni þar sem hún er svo gjörsamlega allt öðruvísi en allar aðrar myndir sem ég hef séð þannig að ég gef henni tvær stjörnur af fjórum. Takið áhættu og farið á hana þegar hún kemur í bíóhúsin.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.