föstudagur, 19. mars 2004

Ég gerðist bjartsýnn í gær og keypti mér 10 óskrifaða, marglita diska fyrir 15% af öllum mínum auðæfum eða kr. 790 sem mér fannst ansi vel sloppið. Í framhaldi af því ætlaði ég mér að hefja skrift á diskum fyrir ættingja víðsvegar um heiminn. Ég þurfti aðeins að klára eitt skref í aðgerðinni og það var að komast klakklaus heim með strætó en allt kom fyrir ekki. Ég steingleymdi diskunum í strætisbifreiðinni og mundi svo eftir því rúmlega sólarhring síðar í miðjum dæmatíma. Ég greip fyrir andlit mitt og lagðist fram á borðið þegar ég áttaði mig á mistökunum, hringdi í þjónustuver strætóanna og það var sem mig grunaði, þeir voru týndir og tröllum gefnir (tröllin verandi þá skepnurnar sem settust í sætið mitt á eftir mér).

Ég get ekkert gert nema lært af reynslunni, hvort sem það er að kaupa aldrei nokkurn skapaðan hlut, ferðast með strætó eða að fara ekki út úr húsi vegna heimsku.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.