laugardagur, 30. apríl 2005

Skrapp í pásu.

Kem aftur á morgun.

föstudagur, 29. apríl 2005

Komin eru ýmis kurl til grafar í gleraugnamálinu mikla en í dag pantaði ég gleraugun ógurlegu sem sjást hér að neðan. Við kaupin fékk ég ýmsar nýjar upplýsingar sem olli því að ég skrifa þessa færslu.

Fyrir utan að það tekur tvær vikur að smíða gleraugun en ekki fjóra daga þá lítur út fyrir þau að kosti næstum 1/20 úr milljón krónum. Lítið verð fyrir góða sjón næstu árin. Allavega, ég kem, í kjölfarið, með eina skrítnustu fyrirspurn allra tíma hérna; Getur einhver sem er á leið til útlanda fljótlega sparað mér rúmlega 9.000 krónur með því að lána mér farseðil sinn í ca 10 mínútur?

Ef svo er, kærar þakkir. Ef ekki, brennið öll í helvíti um alla eilífð, á góðan hátt.



Um miðja næstu viku mun undirritaður fá ný gleraugu en þau sjást hér að ofan á nefi fyrrnefnts undirritaðs. Þá hef ég tekið enn eitt skrefið í átt að verða fullorðinn. Næsta skref er að eignast börn og barnabörn.

Allavega, fyrir neðan má sjá gömlu gleraugun á andliti viðkomandi áðurnefnts undirritaðs. ATH. myndinni hefur verið breytt örlítið í myndaforriti svo áðurnefndur viðkomandi fyrrnefndur undirritaður líti betur út.


fimmtudagur, 28. apríl 2005

Í dag nenni ég ekki að blogga neitt. Þess í stað ætla ég að setja upp "gerðu-það-sjálf(ur)" bloggfærslu fyrir ykkur að fylla inn í og skemmta ykkur yfir.

"Í [dag/gær] fór ég í [einhver afþreying] með [nafn], [nafn] og [nafn]. Ég skemmti mér [ekki/mjög] vel og allt gekk [vel/illa]. Til að bæta [gráu ofan á svart/enn á gleðina] tók ég mig til og [einhver klaufalegur/ánægjulegur atburður] beint á andlitið á [nafn] þegar [kvöldinu/nóttinni] var að ljúka.

[Einhver fyndin lokasetning sem helst gerir grín að undirrituðum á góðlátlegan hátt]."

Hvernig gekk þetta svo? Í kommentin með heimatilbúnu færslurnar.



Heiðdís brást ókvæða við þegar ég tilkynnti henni að hún hafði verið búin að vera með flösku í andlitinu allan morguninn án þess að taka eftir því.

miðvikudagur, 27. apríl 2005




Hvaða þrjú atriði eru röng við þessa mynd? Svör fyrir neðan.


Svar:
1. Sóparinn snýr vitlaust.
2. Gólfið/húsið snýr vitlaust.
3. Alltof stórt kústskaft á kústinum.


Besta mynd ársins?


Í gær gerðust þau undur og stórmerki að ég hló frá klukkan 22:00 til ca 2:00 um nóttina, síðast ca 10 sekúndum áður en ég flaug í draumalandið.

Ástæðan var bíóferð sem hélt í með Garðari Eyjólfs. Myndin Napoleon Dynamite, sem ég hef viljað sjá í rúma átta mánuði, varð fyrir valinu en hún er hluti af íslensku kvikmyndahátíðinni sem er í gangi og ég mæli sterklega með að fólk kíki á.

Allavega, myndin fjallar um Napoleon, ungan, félagslega heftan náunga sem tekst á við ævintýri gagnfræðiskóla smábæjar síns. Stórkostlegir karakterar eru kynntir til leiks, hver öðrum fyndnari. Leikurinn er frábær og allt við þessa mynd magnað.

Ég hef aldrei hlegið svona mikið í bíói. Fjórar stjörnur af fjórum.

Fyrsta fjögra stjörnu myndin á árinu.

mánudagur, 25. apríl 2005

Fyrir um sex vikum síðan hóf ég einfalt átak sem fól í sér að taka eins margar armbeygjur og ég gæti áður en ég færi í sturtu daglega. Mér brá heldur betur í brún þegar mér tókst að taka 50 armbeygjur um daginn, sérstaklega í ljósi þess að þegar ég byrjaði var ég búinn, bæði andlega og líkamlega, eftir 10 stykki.

Einnig skelfir það mig að líta til framtíðar því ef fer fram sem horfir (þ.e. ég fimmfaldi krafta mína á sex vikna fresti) mun ég, að ári liðnu, taka um 97.656.250 armbeygjur í einu og ég hef bara alls ekki tíma fyrir það.
Ég ákvað í brjálæði mínu að eyða nýliðinni helgi heima á stúdentagörðunum. Þar stefndi ég á að lifa lífinu með internetinu en allt kom fyrir ekki; netið datt út á föstudaginn og kom ekki aftur inn. Það er þess vegna sem ekkert hefur verið skrifað hérna síðustu tvo daga. Ef þið eruð hatursfull í kjölfarið, vinsamlegast beinið hatrinu að Símanum þar sem þeir sjá um "þjónustuna" á stúdentagörðunum.

Vinsamlegast gerið mér þann greiða að versla við Hive eða OgVodafone héreftir en ekki þetta djöflafyrirtæki sem síminn er.

föstudagur, 22. apríl 2005

Helgi bróðir er kominn með nýja síðu. Mæli með því að fólk kíki á hana hér.

Mér finnst þó rétt að vara fólk, sem er haldið Anatidaephobia, við þar sem þema síðunnar eru gæsir.
Á morgun þarf ég að mæta í skólann fyrir klukkan 15:00. Ég er 10 mínutur að tannbursta mig og koma útlitinu í lag og 25 mínútur að labba í skólann. Við þessar upplýsingar myndast eftirfarandi formúla í hausnum á mér:

k + (x + 10 + 25) =< 15:00

k = klukkan þegar ég fer að sofa.
x = svefnmínútur, breyta stærri en 0.

Ennfremur myndast formúla fyrir lágmarkssvefn minn:

(x - 480)/100 - b = y

x = svefnmínútur, stærri breyta en 0.
y = pirrstuðull. Ef hann fer undir -2 verð ég mjög pirraður. Ef hann fer yfir 2 verð ég mjög þreyttur og utan við mig.
b = sjá formúlu að neðan.

Að lokum er hér svo möguleikinn að ég hafi tíma útaf fyrir mig, sem aftur getur núllað pirrstuðulinn og rúmlega það.

(15:00 - (k + x + 10 + 25))/200 = b

b = stuðull sem yfirleitt lækkar pirrstuðulinn. Getur þó hækkað hann ef ég mæti of seint.

Alls er því pirrstuðullinn eftirfarandi formúla:

(x - 480)/100 - ((15:00 - (k + x + 10 + 25))/200) = y

Svo er það bara að ákveða breyturnar K og X. Þetta gefur okkur að því lægri sem k er, því hærri getur x orðið og öfugt. Varast ber þó að færa y af skalanum -2 < y < 2.

Nú hafið þið skygnst inn í tölfræðilegan hugsunarhátt minn og séð hvernig hann virkar. Ég vona að enginn hafi kastað upp.

fimmtudagur, 21. apríl 2005

Sökum þess að mér leiddist skyndilega úr hauskúpunni í dag ákvað ég að fara í bíó klukkan 18:00. Þetta er snemmasta bíóferð mín hingað til.

Myndin sem varð fyrir valinu var The Woodsman (Ísl.: Skógarbúinn) með Kevin Bacon í aðalhlutverki sem barnaníðingur sem losnar úr fangelsi eftir 12 ára dvöl. Samfélagið hefur snúið við honum baki og allar leiðir eru honum ófærar. Semsagt; mannlega hliðin á barnaníðingum.

Myndin er mjög vel leikin, athyglisverð svo ekki sé meira sagt og vel skrifuð. Það er ekki laust við að maður beri hatursfulla vorkunn til þessa tiltekins barnaníðings, slíkur er leikurinn og handritið.

Þrjár stjörnur af fjórum.

Svo vil ég biðja áhugasama kvikmyndahátíðargesti að hætta að fara á Downfall. Það er uppselt á hverja einustu sýningu!

miðvikudagur, 20. apríl 2005

Ég hefði átt að vita betur en að láta almenning vita af bíóferðum mínum. Það var fullt út úr húsi í Regnboganum í kvöld og uppselt á Downfall. Mátulegt á þá vitleysinga sem fóru á myndina að aðdráttarafl myndarinnar, Finnur.tk, mætti ekki heldur fékk sér bara hamborgara.

Talandi um hamborgara, í kvöld var bætt heimsmet þegar hvorki fleiri né færri en níu servéttur fylgdu hamborgaranum. Aldrei hefur undirritaður orðið fyrir jafn átakanlegri viðreynslu og það frá karlmanni. Ég sagði afgreiðslumanni, eins vingjarnlega og aðstæður leyfðu, að ég væri ekki fyrir karlmenn og hljóp svo í burtu, hlæjandi held ég.
Næstu þrjár vikur mun ég ekki hafa neitt að gera á kvöldin, fyrir utan einstakar körfuboltaæfingar. Ég hóf því í gær leit að nýrri afþreyingu og fann Iceland International Film Festival 2005 bækling í HR. Hann hef ég nú skoðað og langar mig að sjá hvorki fleiri né færri en 13 myndir. Hér er topp fimm listi yfir myndir sem ég vil sjá (niðurtalning til að hafa þetta rosalega spennandi):

5. Hotel Rwanda
4. The Woodsman
3. Garden State
2. Napoleon Dynamite
1. Downfall

Í kvöld byrja ég á að sjá Downfall í Regnboganum, ef allt fer eftir áætlun.

þriðjudagur, 19. apríl 2005

Þá er komið að hinni æsispennandi getraun dagsins;

Á hvaða pakkningu stendur örlitlum stöfum á óáberandi stað: "Mikil neysla getur haft hægðalosandi áhrif"?

Í verðlaun er nánast óopnaður, sykurlaus, blár opal pakki sem ég hef ekki lengur áhuga á að borða.
Ég er að lesa handbók fyrir Iceland international film festival 2005 sem er í gangi þessa dagana við mikla hrifningu mína. Á einni blaðsíðu bæklingsins er fjallað um tvær mjög svipaðar bíómyndir.

Önnur þeirra fjallar um risavandamál 15 ára stelpu en vegna íhaldsemi heimabæjar hennar getur hún illa komið af stað kynlífsumræðu. Greyið stelpan.

Hin myndin fjallar um lítilsháttar vandamál í Rwanda en þar var um 800.000 manns slátrað á síðustu öld á meðan heimurinn horfði á og borðaði popp.

Þau eru misstór vandamálin í heiminum.


Ég nenni ekki á fætur.

Innsend færsla á gsmbloggið fyrr í dag.

mánudagur, 18. apríl 2005

Vegna fjölda áskoranna mun ég reyna að kreista fram fleiri sögur af prófalestri mínum.

Allavega rétt í þessu var ég að koma úr síðasta prófi annarinnar; Fjármál II en það tók ég, berháttaði og rassskellti eins og ekkert væri sjálfsagðara. Við lærdóminn fyrir þetta próf hef ég grætt um 45% meiri visku á fjármálageiranum en tapað á móti um 65% af persónuleika mínum. Sanngjörn skipti það.

Meira um prófalestur á næstu önn.

sunnudagur, 17. apríl 2005

Á morgun, mánudaginn 18. apríl 2005, klukkan ca 17:00 í Háskóla Reykjavíkur mun maður hlaupa alelda af hamingju úr skólanum, öskrandi alsæll og sá maður verður ég. Ástæðan er einföld; sennilega síðasta próf mitt í þessum skóla verður þá lokið en á næsta ári er, að ég held, aðeins um próflausa áfanga að ræða.

Allavega, þangað til þá vil ég sem minnst rita um hvað ég er að hugsa til að koma í veg fyrir að fólk varpi sér út um glugga af leiðindum. Þess í stað vil ég gjarnan benda gestum og gangandi á þessa síðu en þarna getið þið fundið ykkar eigin fjórfara.

Hér eru mínir fjórfarar, samkvæmt síðunni. Endilega birtið ykkar í ummælum hér að neðan eða segir frá þeim.
Það er ótrúlegt hvað væntingar manns til skemmtunar breytast við prófalestur. Setjum það upp í dæmi:

Ég hlakka venjulega til:
* Að kaupa nýja hluti
* Fara í körfubolta
* Hitta ákveðið kvenfólk
* Fara á djammið

Núna hinsvegar hlakka ég aðeins til:
* Næstu kaffipásu
* Að lesa fréttablaðið
* Að fá mér að borða
* Að fara að sofa
* Að blikka augunum
öðrum orðum; hlakka til alls þess sem tengist náminu á engan hátt.

Niðurstaða: Því meira sem maður lærir samfleitt, því lægri verða kröfurnar um skemmtun. Þetta verður birt í Sænska vísindaritinu í næsta mánuði og í "Sexually Transmitted Infections" á næst ári, ef ég er heppinn.

laugardagur, 16. apríl 2005

Þá er ég að læra hvernig á að höndla ýmiskonar verðbréf, hvernig hægt er að græða á þeim og fleira peningalega tengt í sjúkri törn fyrir fjármál tvö prófið sem verður á mánudaginn. Þetta er reyndar alls ekki allt sem ég læri á þessu heldur læri ég einnig að lifa af vöðvabólgu, félagslega einangrun og blóðnasastress. Svona er nú prófkerfið dásamlegt.

föstudagur, 15. apríl 2005

Fátt finnst mér meira pirrandi en þegar fólk hlustar ekki á ráðleggingar mínar. Það er hinsvegar ekkert meira gleðjandi en þegar viðkomandi áttar sig á því að ég hafði rétt fyrir mér allan tímann.




Þessi mynd var tekin af Óla í nýja jakkanum sínum sem ég ráðlagði honum að kaupa ekki, rétt eftir að hann áttaði sig að ég hafði rétt fyrir mér.

Það er vissara að taka fram að færslan hér að ofan er hluti af glensstefnu veftímaritsins. Óli keypti þennan jakka ekki í alvöru, ég réði honum ekki frá því að kaupa hann og Óli er ekki svona stafrænn í alvöru.
Þriðja lokaprófinu af fjórum var að ljúka en það var í aðgerðagreiningu og stóð ég mig ágætlega að ég held.

Allavega, ég hef ákveðið að fá mér frí í kvöld og læra þess í stað alla helgina fyrir síðasta prófið. Það er aðeins einn hængur þar á; ég man ekki alveg hvað "frí" er og hvað maður gerir við það. Allar líkur eru þó á því að þetta umtalaða "frí" sé ný áleggstegund frá osta- og smjörsölunni sem ég kaupi þá til að borða yfir lærdómnum í kvöld.



Þessa dagana er prófavika í HR. Eins og sjá má á myndinni að ofan leggjast prófin misvel í nemendur en þar er Heiðdís Sóllilja í miðju floga- og kvíðakasti á göngum HR. Enginn slasaðist en þriggja er saknað.

fimmtudagur, 14. apríl 2005

Vangavelta dagsins:

Ef einhver vill að einhver kaupi fyrir sig kaffi er þá ekki rétt að segja "Viltu kaupa kaffi!"? Þarna er talað um kaffi í eintölu.

Hvað ef viðkomandi vill fá kaffi í fleirtölu? Væri þá ekki rétt að segja "Viltu kaupa köff?"
Sama gildir um nammi og nömm.

Svo er ég líka að velta fyrir mér næstkomandi prófi í aðgerðagreiningu sem er á morgun.

miðvikudagur, 13. apríl 2005

Markaðsfræðilokaprófinu lokið.

Slæmt gengi.

Langt, skriflegt próf.

Næst; aðgerðagreining.

Krampi í hendi.


Próflærdómur við sjúkt blúsgítarsóló.

Fyrsta brúnhvíta mynd síðunnar.

þriðjudagur, 12. apríl 2005

Jahérna. Klukkan að verða þrjú strax og ég enganveginn að komast yfir allt þetta efni í þessum markaðsfræðiáfanga, í hverjum ég verð prófaður í síðasta skipti á morgun. Ég brýt því heildarvandamálið niður í smærri einingar og vel mér eitt til að leysa:

Vandamál 1: Of mikið efni til að lesa fyrir prófið.
Vandamál 2: Ekki næg þekking mín á efninu.
Vandamál 3: Hvergi nærri nægur tími til að lesa þetta allt.

Vandamál valið til að leysa: Vandamál 3.

Lausn: Óska hérmeð eftir manneskju til að keyra mjög hratt með mig út um allt á meðan ég les fyrir prófið. Samkvæmt Einstein líður tíminn örlítið hægar þegar maður er á mikilli ferð.
Í dag læri ég fyrir markaðsfræði og hef ekki tíma fyrir þetta.

Þess í stað, lesið þetta og komið með álit ykkar fyrir neðan greinina.

mánudagur, 11. apríl 2005

Ég og Óli vorum að velta því fyrir okkur hvernig við hefðum litið út ef við hefðum fæðst í t.d. Mexíkó og alist þar upp við mikla tónlistariðkunn. Google.com finnur allt, þar á meðal mynd af okkur undir þeim kringumstæðum:



Þessir menn eru víst til í alvörunni og nefnast saman Mars Volta.
Fjórfarar vikunnar eru að þessu sinni allir dökkhærðir. Ekkert illt er meint með þessum lið síðunnar.



Pee Wee Herman, besti vinur barnanna


Alan Cumming, næstbesti vinur barnanna


Edward Furlong, besti vinur bakkusar


Frissi frændi, besti vinur sjósins
Einu mesta ruglprófi síðustu ára lokið þar sem uppsetningin var eftirfarandi:

50%: 18 krossaspurningar úr þremur köflum

20%: Velja 5 af 6 spurningum til að svara úr öllu efninu. Ca hálf blaðsíða hvert svar.

30%: Velja 2 af 3 ritgerðarefnum úr öllu efninu. 2-3 blaðsíður hver ritgerð.

Þetta var allt handskrifað, auðvitað, og stóð í 3 tíma auk þess sem kennarinn gleymdi að skrá vægi hvers hluta fyrir sig. Mjög gott. Allavega, nóg um mannauðsstjórnun um alla eilífð. Ég hef tapað nógu miklu blóði yfir þessu rugli.

sunnudagur, 10. apríl 2005

Hvernig veistu að kennarinn þinn sé að reyna allt til að gera einfalt námsefni mjög flókið svo hann virðist gáfaðri?

Svar: Hann gerir svona glærur:



Kenningin um atferli einstaklinga. Spáið í þessa mynd.


Próf í þessu helvíti á morgun.

laugardagur, 9. apríl 2005

Þessu æsifjöruga laugardagskvöldi hefur verið eytt með eyrnatappa, lesandi glósur um uppbyggingu mannauðsstjórnunar og margar, heillandi, gerðir hennar.

Það skemmtilega við þetta er að þetta er langt frá því að vera leiðinlegasta laugardagskvöld sem ég hef lifað.

Með "skemmtilega" á ég auðvitað við "stórkostlega ömurlega".

Þegar ég hugsa um það þá held ég að ég hafi aldrei verið jafn nálægt því að gráta úr leiðindum og núna, fyrir utan auðvitað þegar ég grét úr leiðindum.


Þrátt fyrir próflokalærdómsstuð næstu vikuna tók ég mér tíma til að spila manna við Bergvin og Garðar í gærkvöldi. Eins og lesa má úr spilunum hér að ofan sigraði ég hvað eftir annað og stóð uppi sem sigurvegari kvöldsins, aldrei þessu vant.

Í verðlaun var rétturinn til að fara í sturtu, sem ég leysti út heima hjá mér að spili loknu.

föstudagur, 8. apríl 2005

Þá er síðasta skóladeginum lokið og ekkert eftir að gera nema að læra fyrir fjögur lokapróf á einni viku, eyða þremur vikum í verkefnavinnu, þrífa herbergið sem ég bý í, fara austur, koma bílnum í lag, vinna, eiga afmæli, byrja aftur í skóla í haust og taka próf í desember.

Nóg að gera þessa dagana.



Í gærkvöldi hélt ég minn fyrsta skyndidæmatíma þar sem ég tók fyrir bola- og bjarnabreiðu í hlutabréfakaupum fyrir gesti og gangandi. Aðsóknin var ágæt, launin engin og hamingjan sem fylgdi í kjölfarið algjör.

Á myndinni er Heiðdís að velta fyrir sér tilgangi þessa alls, eins og hún orðaði það.

fimmtudagur, 7. apríl 2005

Í dag missti ég af megninu af síðasta markaðfræðitíma mínum á önninni þegar ég fékk stórkostlegar blóðnasir í miðjum tíma. Ég áttaði mig að sjálfsögðu ekki á blóðnösunum fyrr en ég var orðinn alblóðugur í framan og peysan útötuð í blóði.

Ég náði samt að snara mér fimlega úr stofunni svo lítið bæri á og þrífa mig á góðum hálftíma áður en ég snéri aftur í kennslustund til þess að heyra kennarann þakka fyrir sig.

Með því einkennilegasta sem ég hef upplifað. Þegar fyrri umferð þrifanna var lokið varð ég að taka mynd, sem þið getið séð hérna.
Hérmeð staðfestist að undirritaður sé orðinn það veikur að hann tók inn verkjatöflu rétt í þessu. Þetta er þá fyrsta verkjataflan sem tekin hefur verið inn á þessu ári sem væri ekki í frásögu færandi nema...

...þegar ég hugsa út í það þá er þetta sennilega ekkert í frásögu færandi. Hvernig stroka ég aftur út á þessu tæki?

miðvikudagur, 6. apríl 2005

Hætturnar leynast víða. Ef þú ert ekki úrræðagóður eins og ég geturðu gengið í hverja gildruna á fætur annarri. Sjálfur hef ég upplifað endalausa hættu og hef, með tímanum, lært að nota þá reynslu mér til góðs, jafnvel til að bægja mér og mínum frá bráðri hættu.

Ein slík aðstæða kom upp í dag þegar ég mætti í klippingu. Ef ekki hefði verið fyrir langa reynslu af eftirfarandi máli hefði getað farið illa. Hér er hetjulegt samtal mitt við afgreiðsludömuna:

Afgreiðsludaman: Góðan dag. Ertu með gel í hárinu?
Ég: Emm... er hérna ekki einhver náungi ennþá að vinna hérna?
Afgreiðsludaman: Jú, hann hérna inni.
Ég: Ah... nei, ég er ekki með gel í hárinu.
Afgreiðsludaman: Þá kemuru bara hérna inn í stólinn.
Ég: Ég veit.

Allavega, ég er nýklipptur og náði, í þetta sinn, að forða mér á glæsilegan hátt frá því að láta þvo mér um hárið af karlmanni.
Þessi frétt vakti athygli mína. Ekki vegna þess að samkynhneigðir karlmenn safna að sér sjúkdómum heldur vegna þessa setningabrots:

"...varð hans vart í Rotterdam þegar um 100 samkynhneigðir menn smituðust, að því er kemur fram í aprílhefti tímaritsins Sexually Transmitted Infections..."

Hvar ætli maður fái þetta stórskemmtilega tímarit 'Sexually Transmitted Infections'?

þriðjudagur, 5. apríl 2005

Jæja, ég þarf að fara á fund, má ekki vera að þessu.

Þetta hefur mig langað til að segja og meina allt frá því að ég var 6 ára og sá Matlock segja þetta við aðstoðarmenn sína.
Það lítur út fyrir að ég sé að fá kvef aftur. Það þýðir aðeins eitt; lokaprófin byrja í næstu viku. Síðast fékk ég kvef þegar ég las fyrir veikindalokapróf í janúar. Þar á undan fékk ég kvef fyrir lokaprófin í desember og þar á undan í lokaprófunum á vorönn 2004, fyrir utan hið hefðbundna sumarkvef.

Ef einhver kann að skipta á ónæmiskerfi og vill skipta við mig á sínu, þá gjörðu svo vel. Ég er jafnvel til í að borga eitthvað á milli.

mánudagur, 4. apríl 2005

Í gær bætti ég sérkennilegt met mitt þegar ég hjálpaði sjö hópum að klára skilaverkefni fyrir aðgerðagreiningu sem ég hafði klárað nokkrum dögum fyrr. Það sem vakti einna helst athygli mína var sú einkennilega tilviljun að hver einasta manneskja sem þáði aðstoð mína var kvenkyn.

Alls voru þetta um tuttugu kvenmenn í þessum sjö hópum og því eru líkurnar á þessu, í ljósi þess að um 58% allra nema í þessum áfanga eru kvenmenn, 0,001359 prósent eða 1 á móti 311.827.


Höttur er kominn upp um deild, aftur


Í annað sinn á skömmum tíma hefur körfuknattleiksdeild Hattar komið sér upp um deild með glæsilegum árangri. Síðast í gærkvöldi þegar þeir sigruðu Val, 91-56, í umspili fyrstu deildar um sæti í úrvalsdeildinni. Hamingjuóskir til leikmanna Hattar!

Ennfremur hef ég ákveðið að hætta þessu menntunarrugli, segja mig úr háskólanum og fara austur að æfa körfubolta. En fyrst er að jafna sig á geðshræringunni, þrífa málninguna af líkamanum, fara í einhver föt og drífa sig heim að sofa.

sunnudagur, 3. apríl 2005




Þessi kælir hefur staðið tómur í átta mánuði í matsal HR. Enginn veit hvernig hann komst þangað, til hvers hann er og af hverju er kveikt á honum. Hann er læstur svo enginn getur sett neitt í hann en samt fær hann að standa áfram.

Það gerir hann að áttunda undri veraldar, hér í matsal Háskóla Reykjavíkur.
Þá er komið að því; nú mun birtast top 10 listi yfir mest heimsóttu síður á netinu af Finni.tk. Þessi færsla gæti haft gríðarlegt auglýsingagildi fyrir viðkomandi síður. Gjörið svo vel:

10. imdb.com
9. visir.is
8. ebay.com
7. ru.is
6. mbl.is
5. b2.is
4. jazzhoops.com
3. finnurtg.blogspot.com
2. google.com
1. ijbl.net (upphafssíðan mín)

Þessi listi er unninn úr historytakkanum sem ég nýlega var að uppgötva í internet explorernum.
Eftir körfuboltaæfingu gærkvöldsins og át á American Style með Óla var farið í bíó á myndina Danny the Dog (Ísl.: Hvuttinn Daníel), sem einnig er nefnd Unleashed (Ísl.:Laustauma) fyrir bandaríkjamarkað. Myndin fjallar um piltung einn, Danny, sem alinn hefur verið upp sem slagsmálatól fyrir eldri mann sem stundar glæpi ýmiskonar og er slæmur maður, vægast sagt. Piltungurinn, sem Jet Li leikur ágætlega, hefur engan sjálfstæðan vilja en kynnist þá blindum manni, leikinn af Morgan Freeman, og lærir í kjölfarið á dásemdir lífsins.

Myndin er bland af sleepless in seattle og fight club sem er fáránleg blanda og getur aldrei gengið upp. Markhópurinn er semsagt fólk sem elskar geðsjúka væmni og ennþá geðsjúkara ofbeldi. Mjög sérstök blanda.

Fínustu bardagaatriði eru í myndinni en væmnin keyrir um þverbak. 1 stjarna af fjórum.

laugardagur, 2. apríl 2005




Gærkvöldið fór í partý heima hjá Garðari og Eygló. Síðar um nóttina var farið niður í bæ þar sem ég fór beint á matsölustað og heim enda ekki mikið fyrir næturlífið, hvað þá boogie. Nokkrar myndir frá þessu á gsmblogginu.

föstudagur, 1. apríl 2005




Í gærkvöldi var spilaður Kani heima hjá Garðari og Eygló en með okkur spilaði Bergvin, einn mesti spilagúrú landsins. Spilað var í marga tíma og langt fram á nótt eins og við er að búast þegar skemmtilegt fólk kemur saman. Sigurvegara kvöldsins er svo að finna hér á gsmblogginu.
Þar sem það er kominn nýr mánuður kemur hér ljóð eftir ungt ljóðskáld, hvers nafn ég man ekki eins og er.

1. Apríl
Marsbúinn