miðvikudagur, 28. febrúar 2007

Samkvæmt frétt frá Blaðinu eru nöfnin Bambi og Dreki loksins orðið lögleg karlmannsnöfn. Þetta veldur því að ég ætla að gera eftirfarandi fljótlega:

* Eignast barn sem fyrst, um leið og ég fatta hvernig það er gert. Eilífur Bambi Finnsson er fallegt nafn á barn.
* Ég ætla að gabba pabba til að breyta nafninu sínu í Dreki. Finnur Torfi Drekason er sturlað nafn! Ef fólk myndi spyrja mig; "hverra manna ert þú?" myndi ég svara, helst spúandi eldi með hjálp olíu og kindli, "Pabbi minn er Dreki Finnsson!".

Spennandi tímar framundan.

Guðjón Rúnarsson á sér tvífara. Sá heitir Jack Weber og leikur í einhverjum þáttum á Stöð 2 þessa dagana.

Guðjón Rúnarsson
Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.

Jack Weber
Jack Weber, leikari.

Kæmi mér reyndar ekkert á óvart ef um sama mann væri að ræða. Jack þénar örugglega betur í fjármálageiranum á Íslandi en leiklistinni í Hollywood. Hann þarf bara að greiða hárið í hina áttina og enginn virðist þekkja hann sem Jack Weber á Íslandi.

þriðjudagur, 27. febrúar 2007

Ég hef verið fullkomlega andlaus undandarið. Ástæðan er tvíþætt. Annars vegar gerist ekkert í mínu lífi og hinsvegar hef ég ekki sofið út síðustu 15 daga, sem veldur þreytu. Þegar ég hugsa út í það þá hefur sennilega ekkert fyndið gerst í lífi mínu vegna þessarar þreytu. Í gegnum tíðina hef ég uppgötvað að með aukinni þreytu fæ ég fleiri hugmyndir að bloggum og öðru. Ef þreytan fer yfir ákveðið stig hrynur hinsvegar hugmyndaflæðið.

Allavega, til að vita hversu þreyttur ég er skoða ég graf sem ég hef unnið en það sýnir fylgni þreytu og hugmyndaleysis. Ég hef fengið 0 hugmyndir að bloggum í dag. Samkvæmt grafinu... 



...er ég 10 þreyttur. Ég sakna þess að hafa bara verið 6 þreyttur en þá er hugmyndaflæði mitt í hámarki. Í þreytustigi númer 10 er ég orðinn lífshættulega þreyttur, þannig að ég ætti að passa mig.

Smellið á myndina fyrir stærra einstak.

mánudagur, 26. febrúar 2007

Kæra dagbók.

Í dag og héðan í frá, er hægt að panta Arthúrbolla HÉRNA. Þeir kosta aðeins kr. 1.990 stykkið. Finnst þér það ekki ótrúlegt? SVARAÐU!

Hágæðabolli


Svo vann ég 22 tíma um helgina og er ÞREYTTUR!

Kv.
Finnur

laugardagur, 24. febrúar 2007

Hjálmar sendi inn fyrirspurn. Fyrirspurnina í heild sinni má sjá hér. Svarið er hér að neðan:

Spurt er: ef A skuldar B X og B skuldar A X, þar sem X táknar "knús", hvernig er hægt að gera upp skuldirnar?

Svar: Þar sem ég er lærður viðskiptafræðingur og flagga því við hvert tækifæri (t.d. við kaup á mjólk) þá finnst mér gaman að skipta öllu út fyrir peninga, sérstaklega í ljósi þess að mitt svarta, dauða hjarta skilur ekki hugtakið knús. Skiptum því X út fyrir kr. 100.000.000 (100 milljónir). Þá hljómar dæmi svona:

Ef A skuldar B kr. 100.000.000 og B skuldar A kr. 100.000.000, hvernig er hægt að gera upp skuldirnar?

Svarið við þessu er mjög einfalt. Óþarfi er að gera upp skuldirnar því þær núllast út ef um enga eða jafnháa vexti er að ræða á skuldunum. Ef misháir vextir þá er nóg að greiða aðeins nettó mismun.

Svarið við gátunni er því: Óþarfi er að stunda þetta umrædda "knús". "Knús"skuldin núllast sjálfkrafa. Þið sleppið bæði. Heppinn.
Bróðir minn, Björgvin og samstarfsmaður minn, Jónas Reynir, komust nýlega í úrslit keppninnar Fyndnasti Maður Íslands en það er keppni í uppistandi. Ég vil gjarnan nota tækifærið og gerast persónulegur og mjög tilfinningasamur: Til hamingju strákar.

Alls komust 16 manns í úrslit. 12,5% keppenda er því upphaflega frá Fellabæ við Egilsstaði. Mjög sérkennilegt þar sem aðeins um 0,2% landsmanna eru frá Fellabæ. Ég hendi, í framhaldinu, fram kenningu: „Ég er að meðaltali meira fyrir að henda fram kenningum en aðrir Íslendingar.“

Nú þarf ég bara stærra úrtak til að sanna þessa kenningu.

Allavega, meira um uppistandið hér.

föstudagur, 23. febrúar 2007

Í gærkvöldi drakk ég heila 0,33 lítra bjórflösku. Þetta er í fyrsta sinn í rúmlega eitt og hálft ár sem ég smakka bjór. Ég get ekki sagt að ég hafi saknað hans. Þetta er ennfremur í fyrsta sinn síðan árið 2001 að ég klára heila bjórflösku.

Ástæðan fyrir bjórdrykkjunni var að það gerist ekkert markvert til að blogga um.

fimmtudagur, 22. febrúar 2007

Í gærkvöldi náði ég nýjum hæðum í afkastaleysi (leti).

Ég nennti ekki að versla neitt að borða.
Ég nennti ekki að útbúa mat.
Ég nennti ekki að leggja á borð.
Ég nennti ekki að útbúa meðlæti.
Ég nennti ekki einu sinni að skera mér mangóávöxt af því steinninn í miðjunni er erfiður.

Ég borðaði melónu í kvöldmat. Ég hafði þó fyrir að skera hana. Soffía er semsagt á Egilsstöðum í starfsnámi við Menntaskólann á Egilsstöðum.
Í gær var farið í keilu í tilefni afmæli Björgvins bróður. Þátttakendur voru ég, Björgvin, Svetlana kærasta hans, Bergvin, Raphaël og Stulli. Þrjár umferðir voru spilaðar.

Ég náði, í fyrsta sinn, ekki yfir 100 stig í neinni umferð. Ég verð að sætta mig við að ég verð aldrei draftaður af atvinnukeilaraliðum í Bandarísku keiludeildinni (NBA: National Bowling association).

Að öllu gamni slepptu; ég hefði ekki staðið mig verr þó ég hefði verið myrtur í upphafi leiks.

Allavega, til hamingju Stulli, fyrir að hafa næstum bætt heimsmetið með yfir 180 stigum í einni umferð og Bergvin, fyrir að hafa náð þínum besta árangri hingað til með 163 stig. Ég hata ykkur.

miðvikudagur, 21. febrúar 2007

Ég hef löngum verið sniðgenginn af Fréttablaðinu í gerð á spurningalistum ýmiskonar. Nú hefur Blaðið tekið upp á þessu líka, birtandi viðtöl við alla aðra en mig. Ég berst á móti og fylli inn í þessa spurningalista jafnóðum á netinu. Hér er einn:

Allt um Finn.

Hvað ertu að gera núna?
Reyna að vinna fyrir ykkur uppáþrengjandi fjölmiðlum!

Hvaða flík langar þig mest í?
Sokka. Mig langar alltaf í sokka!

Aukhluti?
Skrítin spurning. Mig langar í fleiri peningaseðla.

Hvernig lætur þú gott af þér leiða?
Með því að greiða skatta og vera vingjarnlegur.

Uppáhaldsverslanir?
Dressman og tækniverslanir.

Netverslanir?
ebay.com og tshirthell.com.

Ertu með Ör?
Það eru allir með ör! Uppáhaldsörið mitt er á enninu á mér síðan ég flaug á hausinn 2ja ára.

Fegurðarráð?
Ég er ekki réttur maður í þessa spurningu en ég skal reyna.
Andleg fegurð: Tillitssemi.
Líkamleg fegurð: Brosa og raka á sér bringuna.

Uppáhaldsveitingastaður?
Sbarro.

Hvaða tónlist ertu að hlusta á núna?
James Morrison, The Chemical Brothers, Prodigy, Röyksopp og flr.

Uppáhaldsstaður í Reykjavík?
Í bíó, veggsport eða heima.

Hvaða bókum mælir þú með?
Tricks of the mind eftir Derren Brown. Hún er ca 1/4 allra bóka sem ég man eftir að hafa lesið.

Uppáhaldshlutur?
Þessa stundina; Buxurnar. Annars væri ég á nærbuxunum í vinnunni.

Fyrir hvað hrósar fólk þér oftast?
Fyrir hárgreiðsluna (eitt hrós samtals, sennilega í hæðni).

þriðjudagur, 20. febrúar 2007

Björgvin bróðir á afmæli í dag. 27 ára, hvorki meira né minna. Hann fer bráðum að ná mér.

Allavega, ég keypti körfubolta í gjöf til hans í tilefni dagsins. Þetta var ekki auðvelt:


Náði allavega að gabba hann. Hann hélt að þetta væri bók.
Posted by Picasa
Loksins hef ég fundið leið til að græða nógu mikinn pening til að koma út í hagnaði á tiltölulega skjótum tíma. Það eina sem ég þarf að gera er að deyja. Ég var semsagt að líftryggja mig í von um skjóta niðurgreiðslu á lánum. Og þegar ég er búinn að greiða lánin get ég fyrst farið að lifa lífinu.

Ég þarf því að deyja til að getað lifað lífinu. Frábært.

mánudagur, 19. febrúar 2007

Nýlega sást Jude Law á landinu. Íslendingar fagna því að fræga fólkið hafi áhuga á landi og þjóð.

Hvernig stendur á því að það koma bara frægir karlmenn til landsins en aldrei frægir kvenmenn, til að slappa af og skreppa á jafnvel á djammið? Mér er slétt sama. Finnst þetta bara áhugavert.

Getur verið að það sé vegna þess að (frægar) konur hugsa ekki með æxlunarfærum sínum? Það mætti halda að það væri auðvelt að fá sér á broddinn hérna.

Little miss sunshine

Ástæða vals: Markús Mark hafði samband eða ég við hann fimmtudagskvöld fyrir nokkrum vikum. Hvorugur þorði að viðurkenna í fyrstu að við vildum sjá þessa mynd. Svo rauf Markús þögnina. Þá var ekki aftur snúið.

Söguþráður: Klámfenginn öldungur, uppreisnargjarn unglingur, þunglyndur hommi í ástarsorg, einfalt stelpubarn, sjálfumglaður hrokagikkur og raunsær kvenmaður leggja af stað í ferð yfir bandaríkin til að vera viðstödd fegurðarsamkeppni barna, Little Miss Sunshine. Myndin er byggð upp á samtölum fyrst og fremst og lítið um fíflalæti.

Leikarar: 4 meðalfrægir leikarar. 3-4 semifrægir. Restin nánast óþekkt. Allir leikarar standa sig mjög vel. Gott ef einhverjir hafi ekki verið tilnefndir til verðlauna fyrir leik.

Umgjörð: Það er ekkert sérstakt við umgjörð myndarinnar. Hún líður rólega í gegn, sem er gott. Þægilegur endir sem gerir hana næstum að 'feel-good' mynd. Næstum því.

Skemmtanagildi: Myndin er fyrst og fremst þægileg. Hún er ekkert sérstaklega fyndin og alls ekki spennandi. Hún hefur þó talsvert skemmtanagildi.

Annað: Myndin var sýnd í Regnboganum í "Grænni sýningu" sem þýðir að það er ekkert hlé og engum er hleypt inn eftir að myndin byrjar. Við Markús mættum á mínútunni sem átti að loka.

Annað2: Sýningin var vægast sagt skrítin. Þegar við vorum komnir inn og sestir kom í ljós að það var enginn undir fimmtugu í salnum. Ekki nóg með það heldur kom í ljós að þetta fólk ætlaði að skemmta sér í bíóinu, reynandi að hlæja að hverju einasta atriði, þó það hafi ekki verið eða hafi átt að vera fyndið.

Stjörnur: Þrjár stjörnur af fjórum. Fínasta mynd.

sunnudagur, 18. febrúar 2007

Hér er dagskráin þessa helgina:

Laugardagur
8:30 Vakna.
9:00 Vinna á skattstofu austurlands.
22:30 Hætta að vinna.
23:00 Spila skrafl með Helga gegn Soffíu og Svandísi.
01:00 Gjörtapa Skrafli.
01:30 Sofna.

Sunnudagur
8:45 Vakna.
9:00 Vinna á skattstofu austurlands.
20:50 Fljúga suður.
22:00 Sofna.
22:35 Dreyma.

Þannig að ég hef engan tíma fyrir að blogga. Þess í stað fáið þið bara að njóta þessarar strípu en hún birtist í Fréttablaðinu í dag, ótrúlegt nokk.
Hver er munurinn á aðferðafræði trúarinnar og vísindanna? Muninn má útskýra með einni mynd. Hún er hér.

laugardagur, 17. febrúar 2007

Ef einhver hefði sagt mér að ég myndi verða að vinna á skattstofu og hlustandi á eurovision forkeppni RÚV klukkan 20:40, laugardagskvöldið 17. febrúar 2007, fyrir 18 árum síðan þegar ég var 10 ára þá hefði ég sennilega ekki trúað því.

Ef ég hefði hinsvegar trúað því þá hefði ég byrjað í heróíni undir eins til að koma í veg fyrir að þessi atburðarás gæti átt sér stað.

Það virkaði samt ekki.
Ég hef verið að fikta við að fegra myndir af mér í myndvinnsluforritum án þess að sýna neinum, þangað til núna. Þetta er aðallega gert til að losa mig við bauga, ótímabær grá hár á hausnum og bólur sem geta skemmt heilu partíin.

Í myndinni sem ég hef unnið í alla síðustu vikuna hef ég náð að gera myndina mýkri og nokkuð skýra, en þó ekki gert það augljóst að myndin er unnin í myndvinnsluforriti. Öll heimsins tækni virðist þó ekki getað þurrkað út bóluna undir nefinu á mér eða gráu hárin. Hér er myndin.

föstudagur, 16. febrúar 2007

Það er skrítið til þess að hugsa að ef smávægileg breyting á ýmsum atriðum í lífi....eh... nóg af röfli. Hér er listi:

* Ef ég væri jafn þurr í andliti og á handarbakinu þá væri ég múmía (af krókódíl).
* Ef ég hefði jafn mikla list á mat og á nammi þá væri ég 300 kg, lágmark.
* Ef líkami minn endurspeglaði félagslega hæfni mína þá væri ég mjög horaður dvergur.
* Ef ég væri með minni vöðva þá myndi líkami minn hverfa ofan í sjálfan sig.
* Ef ég hugsaði jafn mikið um eitthvað og ég hugsa um Soffíu, þá væri ég með (heims)meistaragráðu og Nóbelsverðlaun í því, sama hvað það er.
* Ef ég heyrði jafn vel og ég sé þá þyrfti ég glereyru.
* Ef ég fengi borgað fyrir hverja hugsun mína þá væri ég orðinn tugamæringur.
Ég veit ekkert um innihald þessarar fréttar (fyrir neðan) en ég vona að myndin sem með henni fylgir sé breytt í myndaforriti! Ef ekki þá er myndin ein og sér mjög stór frétt. Risafiskar ráðast á bát. Ekki nóg með það heldur er báturinn siglandi í peningum! Þessi mynd gæti, þeas ef hún er ekki unnin í photoshop, verið stærsta frétt ársins á landinu, jafnvel heiminum.

Er ég virkilega sá eini sem sér þetta??

fimmtudagur, 15. febrúar 2007

Í fréttum af mér er þetta helst:

* Annað hvort er ég með krabbamein í andliti eða bólu sem harðneitar að hverfa.
* Ég vaknaði með hártoppinn að hluta til í lungunum í morgun. Ákvað því að panta klippingu. Þessi klipping verður svo tímabær að hún mun ekki aðeins breyta útliti mínu talsvert heldur heiminum, svo eitthvað sé nefnt.
* Ég var áreittur í Kringlunni í gær þegar ég spókaði mig við glerhandrið við Hagkaup. Nokkrar upprennandi mellur komu til mín (ca 12 ára) og buðu mér dollu af ís, rétt eins og ég væri konungur (hneygðu sig og allt). Ég afþakkaði og gekk svo í burtu þegar önnur stelpa bað mig hlæjandi um að reima skónna sína. Bölvaðar hórur út um allt.
* Ég fer á Egilsstaði um helgina og hyggst vinna þar á föstu-, laugar- og sunnudaginn, allan daginn, alltaf, á skattstofu austurlands.
* Bíllinn, Peugeot 206, hefur gengið núna í 6 daga í röð án þess að bila. Það er fréttnæmt.

Fleira er ekki í fréttum. Veriði sæl.

miðvikudagur, 14. febrúar 2007

Þetta ætla ég að prófa næst í ræktinni:



Ef ég byrja að æfa mig núna ætti mér að takast þetta klukkan 18:00 eftir 12 ár.
Ég er smámsaman að komast að því að langar bloggfærslur eru talsvert óvinsælli en stuttar.

þriðjudagur, 13. febrúar 2007

Gjörðir dagsins:

* Skrifaði tvær bloggfærslur.
* Skrifaði tvær Arthúrshugmyndir.
* Skrifaði eina frétt í fréttabréf SkáME (kemur síðar).
* Fór á tvo fundi í vinnunni.
* Verkaði mikilvægt skjal fyrir söludeild innan 365.
* Las allar fréttir á visir.is og mbl.is nokkrum sinnum.

Og dagurinn er rétt hálfnaður.

Mér er sama hvað hver segir; amfetamínsterar virka.
Í síðustu 3 skipti sem ég hef borðað heimatilbúnu samlokuna mína við skrifborðið í hádegishlénu mínu, hef ég klárað hana í 7 bitum.

Þetta er furðulegt þar sem síðustu tvær vikurnar hef ég klárað samlokuna í 9 bitum að meðaltali. Bitum hefur því fækkað um rúmlega 20%.

Í kjölfarið fór ég að velta vöngum yfir ástæðunni. Nokkrir möguleikar eru fyrir hendi:

1. Munnurinn á mér er að stækka.
2. Samlokan er úr mýkra efni sem beyglast betur upp í mig sem veldur stærri bitum.
3. Samlokan er að minnka.
4. Ákafi minn er að aukast.
5. Ég hef talið vitlaust vegna heilabilunnar.

Hér hrek ég þessa möguleika:

1. Líffræðilega ómögulegt án skurðaðgerðar og ég hef ekki farið í skurðaðgerð.
2. Samlokan er þvert á móti harðari en áður þar sem ég nota sífellt eldra brauð.
3. Samlokan er ekki að minnka þar sem ég kaupi alltaf sömu tegund af brauði. Myllan sagði í símtali ekki vera að minnka samlokubrauðin.
4. Möguleiki. En hvað gæti valdið því?
5. Ég þekki engan í Reykjavík (skrítið) og því get ég ekki fengið óháð álit. Álit mitt er hinsvegar að ég er mjög heilbrigður eins og þessi færsla sýnir.

Ákefð er því ástæðan. En hver er orsök ákvefðarinnar?

Ég velti þessu fyrir mér í marga klukkutíma í síðastliðna nótt. Þegar ég svo mætti í vinnuna í dag rann upp fyrir mér ljós. Síðustu 3 skipti hef ég verið með Risahraun (besta vin minn) í eftirmat, en það hefur verið sannað margoft vísindalega að ég er vitlaus í Risahraun. Ástæða ákefðar er því fundinn.

Hér eru því niðurstöðurnar í stuttu máli; ég hef náð að sýna fram á að Risahraun hefur jákvæð áhrif á stærð munnbita á heimatilbúnar samlokur í hádegishléum hjá mér.

Verki mínu hér er lokið.
Undanfarið hef ég ekkert getað hugsað eða einbeitt mér að neinu. Ég hef ekki getað horft á sjónvarpið eða skrifað neitt gáfulegt, hvað þá hlusta á tónlist af heilum hug eða lesið dagblöð hérna heima. Ég kom ekki fingri á hvert vandamálið var. Þetta gekk svo langt að ég hugsaði mér að taka mataræðið í gegn ellegar fara til læknis, jafnvel geðlæknis.

Þá slökknaði á ísskápnum.

mánudagur, 12. febrúar 2007

Í dag eru 560 dagur liðinn síðan ég og Jónas birtum okkar fyrstu Arthúrsstrípu. Það gera 1,53 ár eða 18,41 mánuði eða rúmlega 80 vikur. Samkvæmt talningu minni (í huganum) gera þetta einnig 13.449 klukkustundir síðan fyrsta strípan birtist, 806.965 mínútur eða 48.418.272 sekúndur. Á þeim tíma hafa birst 228 strípur á síðunni. Það gera 0,0000047 strípur á sekúndu.


Sem einmitt minnir mig á það. Takið 20. sekúndu 53. mínútu 22. klukkutíma þess 2. mars næstkomandi (02.03.2007 klukkan 22:53:20) frá. Þá heldur Arthúr upp á 50.000.000 (50 milljóna) sekúndna afmæli sitt. Veislan mun vara í ca. 0,000057 daga.

sunnudagur, 11. febrúar 2007

Ég er mjög tapsár maður.

Ég lýg því reyndar. Það er fátt sem mér finnst leiðinlegra að gera en tapa. Eitt gerði ég þó í gær sem mér finnst leiðinlegra að hafa gert. Ég braut tölvumúsina þegar ég tapaði í póker.

Ég er því ekki mjög tapsár maður. Ég er tapsárt lítið barn.
Ég sit hérna og spila póker við fólk allsstaðar að úr heiminum í gegnum internetið um leið og ég horfi á leikmenn spila körfubolta í NBA deildinni í USA í sjónvarpinu, nokkrum sekúndum eftir að hann er leikinn.

Ég er að tapa í pókernum og myndin í sjónvarpinu frýs í 2-3 sekúndur á nokkra mínútna fresti.

Tæknin í dag er ömurleg.

föstudagur, 9. febrúar 2007

Ég var að glata kr. 140.000.

Ég var að láta víkka á mér andlega hringvöðvann.

Ég var að fá hjartsláttatruflanir.

Ég var að fá bílinn úr viðgerð.

Þessum tímamótum ætla ég að fagna með því að borða ekkert næstu vikurnar, þar sem það er það næsta sem ég kemst því að borga ekkert næstu vikurnar.
Hvað er andstæðan við hrós? Óhrós?

Jæja, ég vil gefa óhrós til Sirkus sem fylgir Fréttablaðinu á föstudögum. Sirkus á að höfða til unga fólksins. Ef marka má forsíðu Sirkus í dag mætti draga þá ályktun að Sirkus höfðaði til fólks sem horfir á umræðuþætti og hlusta á kóra (aldurshópurinn 55-75 ára en ekki 12-35 ára).

Hér má sjá forsíðuna. Fyrir þá lesendur með hlekkjaóþol, skal ég lesa fyrirsagnirnar á forsíðunni upp:

1. Kórstjórinn Óskar Einarsson hugsar vel um heilsuna. 14 armbeygjur á annarri hendi. [Auh! Miðaldra kórstjóri sem hugsar um heilsuna. Er hægt að ímynda sér eitthvað meira spennandi í þessu lífi?]
2. Á leið til London. X-faktor-kynnirinn Halla Vilhjálmsdóttir hyggst bregða búi á næ[s]tu mánuðum og flytja til London til að freista gæfunnar. [Vá!]
3. Steingrímur og Þórhallur. Þáttastjórnendurnir, sem berjast um hylli sjónvarpsáhorfenda á hverju kvöldi, halda báðir með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. [Það er þrennt í þessu lífi sem mér finnst óspennandi að lesa um; íslenska spjallþáttastjórnendur, tíðahvörf miðaldra kvenna og enska boltann]

Gríðarlega spennandi tímarit, Sirkus.

fimmtudagur, 8. febrúar 2007

Í dag á viðgerðin á bílnum mínum 3ja vikna afmæli. Þann 18. janúar fór ég með hann í olíuskipti og fékk þau tíðindi að headpakkning væri slöpp. Svona er heildarsagan:

* 18. janúar: V(iðgerðarmaður) ætlar að kíkja á hann daginn eftir.
* 19. janúar: V tilkynnir að það muni kosta kr. 120.000 að gera við. Hann ætlar að byrja eftir helgi. Ég fæ mitt fyrsta taugaáfall við fréttirnar.
* 22. janúar: V segir bílinn verða tilbúinn 26. janúar.
* 26. janúar: V segir bílinn ekki alveg tilbúinn. Hann verði það eftir helgi.
* 29. janúar: V segir eitthvað að vatnskassanum. Bíllinn verður tilbúinn 2. febrúar.
* 2. febrúar: V segir vanta eitthvað í vatnskassann. Hann pantar að utan. Verður komið 7. febrúar.
* 7. febrúar: Hluturinn ekki kominn. Hann kemur 8. febrúar.
* 8. febrúar: Hluturinn er kominn en enginn tími til að setja hann í. Hann verður til 9. febrúar.

Á morgun er 9. febrúar. Ég þori að veðja miltanu að hann verði ekki tilbúinn þá.

Að lokum; Krakkar: Munið að tannbursta ykkur kvölds og morgna og aldrei nokkurntíman, undir neinum kringumstæðum versla ykkur Peugeot bifreið.
Í þessu blaði birtist nýlega viðtal við okkur Jónas vegna Arthúrs. Ekki gott viðtal. Reyndar mjög slæmt viðtal, ef ég á að segja eins og er og standa undir nafni sem bölsýnt fífl.

Allavega, smá ábending fyrir ykkur sem nennið ekki í ræktina en vantar afsökun: rekið höfuðið bylmingsfast í vegghorn þegar þið ætlið að klæða ykkur úr skónum, svo þið neyðist til að grípa um höfuðið og setjast niður, rétt áður en stærðarinnar kúla myndast á enninu og þú deyrð smá innra með þér.

miðvikudagur, 7. febrúar 2007

Rannsóknir* hafa sýnt að enginn þolir fólk sem montar sig. Þess vegna ætla ég ekki að skrifa um sigurför mína um pókerheima internetsins í kvöld þegar ég sigraði hvert mótið á fætur öðru og vann mér inn 43,5 dollara nettó eða um kr. 3.000. Það gera 24 krónur eftir skattgreiðslur.

Þess í stað ætla ég að tala um ævintýraferð mína í Bónus í dag. Ég ætla þó að sleppa þeim kafla í ævintýraferðinni sem kallast "Geðsjúklingur í strætóskýli" sem fjallar um konu sem missti vitið í strætóskýli við Kringluna og var haldið niðri þar til lögreglan mætti, af því mér finnst það ekki sanngjarnt fyrir aumingja, slefandi geðsjúklinginn.

Allavega, ég keypti kleinuhringjapoka sem ber heitið "Bónus 5 stykki kleinuhringir". Þegar ég kom heim, kom í ljós að í pokanum voru 6 stykki kleinuhringir. Að lokum ætla ég að sleppa því að spyrja þeirrar spurningar hvort fljótfærni Bónusmanna og sparnaðaraðgerðir valdi því að ekki sé hægt að ráða fólk sem kann að telja til að framleiða vörur fyrir þá. Að spyrja að því á internetinu væri ósmekklegt og óviðeigandi þar sem Bónus er fyrirtaksverslun.

Allavega, 20% fleiri kleinuhringir þýðir 20% meiri óhollusta fyrir mig. Húrra! Ævintýradeginum er lokið.

*Rannsóknir mínar. Háóvísindalega framkvæmdar.
Mér datt stórkostlegt sprell í hug í sambandi við næstu alþingiskosningar. Til að framkvæma sprellið þarf tvennt:

* Fella þarf úr gildi þá reglu að hafa aðeins einn staf við hvert framboð og auka þá í þrjá. Samfylkingin gæti þannig heitið Sam í stað S.

* Fram þarf að koma flokkur sem sérhæfir sig í réttindum karlmanna, rétt eins og kvennalistinn var fyrir konur.

Þannig gæti orðið til Karlalistinn með stafina MEN. Í auglýsingum myndi þá hljóma slagorðið X-MEN, sem er...

...ekki svo fyndið, eftir á að hyggja

þriðjudagur, 6. febrúar 2007

Hér eru nokkrar vangaveltur síðustu daga:

* Af hverju eru bankarnir að keppast við að monta sig sem mest af hagnaði ársins, þegar þeir níðast á fólkinu sem lánaði þeim peninginn sem notaður var til að skapa þennan hagnað, til að byrja með? Þetta allavega lítur þannig út að þeir séu að keppast við að níðast á fólkinu með háum vöxtum og þjónustugjöldum (og greiðslugjaldi).

* Maður einn beið eftir strætó, tók ég eftir um daginn. Þegar hann var kominn um borð var hans fyrsta verk, eftir að hafa sýnt kortið sitt, að ýta á stöðvunartakkann. Strætóinn stoppaði við næsta skýli, ca 200 metrum síðar, þar sem hann gekk út og af stað. Af hverju? Er möguleiki á því að ég hafi séð latasta mann í heimi?

* Ég er að borga bílalán af járnhrúgunni sem ber heitið Peugeot 206. Með hverri afborgun greiði ég sérstakt "Greiðslugjald" upp á kr. 275. Hvað er ég að borga fyrir? Ef marka má nafnið er ég að borga fyrir að fá að greiða reikninginn. Getur það virkilega verið? Eru himinháir vextir ekki nóg? Af hverju þá að stoppa þar? Af hverju ekki Greiðslugjaldsgreiðslugjald líka? Þannig væri ég að borga fyrir að fá að greiða greiðslugjaldið. Ný gróðavon fyrir bankana.
SVR hækkaði gjaldskrá sína nýlega. Dæmi:

* Stakur miði: úr kr. 250 í kr. 280 (12% hækkun).
* Tveggja vikna kort: úr kr. 3.000 í kr. 3.500 (16,7% hækkun).

Þetta er ekkert!

Nýlega hækkaði íþróttahús Egilsstaða gjaldskrá sína. Dæmi:

* Stakur miði í lyftingasal: úr kr. 500 í kr. 800 (60% hækkun).
* Mánaðarkort í lyftingarsal: úr kr. 4.000 í kr. 7.000 (75% hækkun).

Talið er að báðar þessar hækkanir séu framkvæmdar til að koma í veg fyrir þá skelfilegu þróun að fólk taki strætó í Reykjavík og stundi líkamsrækt á Egilsstöðum. Stórsnjallt!

Til að sporna við óðaverðbólgunni sem þessu fylgir hef ég ákveðið að bjóða upp á ókeypis heilsun. Ef fólk heilsar mér úti á götu heilsa ég til baka, án endurgjalds (gildir ekki ef heilsað er í strætó). Ekki er talið að þessi gjafmildi mín muni hafa langtímaáhrif á viðskiptahallann.

mánudagur, 5. febrúar 2007

Á þessari síðu og til hægri hef ég bætt við einu lagi. Þeir/þær/þau sem fattar hvert lagið er fær píanó í verðlaun, ókeypis sendingu á viðkomandi píanói og 50 kennslutíma á sama píanó*.

Vísbending: Lagið er ekki leiðinlegt.

(* Píanó ekki innifalið).
Ég tók eftir því nýlega að gangstéttirnar í Grafarholti eru upphitaðar. Þetta kemur í veg fyrir að fólk eins og ég fljúgi á hausinn og stórslasi sig. En þetta framkallar hinsvegar mun verra vandamál. Vandamál sem kemur í veg fyrir að ég gangi á gangbrautum að sumri til.

Þegar gangbrautin er upphituð hverfur snjórinn, sem annars hylur línurnar á gangstéttinni. Og á gangstéttum grafarholts er of stutt á milli lína svo hægt sé að komast hjá því að stíga á þær.

Það snertir enginn heilvita maður gangstéttalínur.

laugardagur, 3. febrúar 2007

Í kvöld hrópaði strætóbílstjóri að okkur Soffíu, þegar við fórum úr strætónum; "Góða helgi".

Ákveðið hefur verið að gera bíómynd um þennan mjög vingjarnlega mann þar sem þetta er fyrsti vingjarnlegi strætóbílstjórinn sem fundist hefur frá því að strætósamgöngur hófust (eða amk frá því ég fór að taka strætó), er talið.

Myndin mun heita "Á hálum ís" og vera með Sylvester Stallone í aðalhlutverki.

föstudagur, 2. febrúar 2007

Mig hefur oft langað til að verða rappari með stafina MC fyrir framan nafnið mitt (MC Finnur). Það er þó gömul tugga að vera með stafina MC og hætt við því að maður yrði álitinn ófrumlegur, velji maður þessa stafi.

Ég hef því brugðið á það ráð að finna nýja stafi.

MC er væntanlega hluti úr formúlunni E = mc² sem þýðir að orka (E) er jafnt og massi (m) sinnum hraði ljósins (c²).

Ég veit semsagt að mc² er E, en hvað er mc eitt og sér? Leiðum þetta helvíti út!

E = mc²
E/m = (mc²)/m
E/m = c²
(E/m)^0,5 = (c²)^0,5
(E/m)^0,5 = c
m*(E/m)^0,5 = mc

MC er því m*(E/m)^0,5.

Ég ætla því að taka mér upp nafnið "m*(E/m)^0,5 Finnur" ef ég gerist rappari. Ég hugsa að ég neyðist til þess. Það erfiðasta við rapparastarfið er komið; að finna nafnið.

ATH. ^0,5 táknar kvaðratrótin af eða í hálfta veldi.

fimmtudagur, 1. febrúar 2007

Tvær leiðréttingar á frægum setningum, út frá reynslu síðustu tveggja vikna:

Upphaflega: It's only after we've lost everything that we're free to do anything.

Leiðrétt útgáfa: It's only after we've bought Peugeot 206 and lost everything through car repair that we're free to do anything.

Upphaflega: Allt sem drepur þig ekki, styrkir þig.

Leiðrétt útgáfa: Allt sem drepur þig ekki, styrkir þig. Nema að ferðast með strætó.

Algjörlega óskylt þessu; ég var að fá símtal frá viðgerðarmanninum á bílnum (hver hefur verið að gera við bílinn í 2 vikur núna) og hann sagði að bíllinn verður tilbúinn í fyrsta lagi eftir viku.
Ég hef smakkað ávöxtinn mangó í fyrsta skipti. Ekkert er eins eftir það. Ég hef lifað í lygi hingað til. Mangó er lífstíll. Mangó er miðpunktur lífs míns héðan í frá.

Með öðrum orðum; hann smakkaðist nokkuð vel.