miðvikudagur, 30. nóvember 2005

Það er komið að skyndiprófi. Í þetta sinn er það raunhæft dæmi úr mínu daglega lífi.

Á hádegi í dag varð ég vitni að mjög skrautlegri framkomu. Manneskja setti 100 krónur í sjálfsala í troðfullum matsalnum og bað um diet kók. Þegar ekkert gerðist hóf hún að sparka og lemja í sjálfsalann ásamt því að blóta mjög hátt og snjallt svo glumdi í salnum og vakti það mikla athygli. Þetta gerði hún í þrjár mínútur eða þangað til sjálfsalinn henti peningnum til baka þar sem um stíflu var að ræða í sjálfsalanum.

Þá tók hún sig til og setti peninginn aftur í sjálfsalann og við tók endurtekning á ferlinu. Þegar hún svo ætlaði að setja pening í kassann í þriðja sinn kom þar manneskja að og sagði henni að um bilaðan kassa væri að ræða. Þá hætti hún og verslaði gos í mötuneytinu, við hliðina á sjálfsalanum

Nú kemur prófið; hvaða gerð af manneskju var þetta?
a. Ungur piltur
b. Ung stúlka
c. Miðaldra tussa
d. Halim Al

Á hvað mat manneskjan sjálfsvirðingu sína?
a. 100.000 dollara
b. 100 krónur
c. Tvær sultukrukkur
d. 124.500 krónur fyrir vsk.

Ég held að allir fái tíu á þessu prófi.
Ég var að komast að einu merkilegu varðandi Kára Jósefs. Hann fór í ME (Menntaskólann á Egilsstöðum) á sínum tíma, því næst í IR (Iðnskólann í Reykjavík) og að lokum í HR (Háskólann í Reykjavík).

ME + IR = Meir
ME + HR = Mehr = Þýska yfir Meir.

Þetta er meira en lítil tilviljun.

Allavega, lokapróf í lögfræði eftir hálftíma og ég að missa tökin á hvað er raunverulegt og hvað ekki af stressi.

þriðjudagur, 29. nóvember 2005

Ég rakaði mig í gær, sem er fréttnæmt vegna þess að í dag þekkir mig ekki nokkur maður í skólanum. Þetta er fyrsta vísbendingin um að ég þurfi að raka mig oftar eða aldrei.
Þessari færslu á sennilega enginn eftir að trúa en ég læt reyna á það.

Það er í alvöru til fólk sem...

...þvær sér ekki um hendurnar eftir klósettferðir.
...hefur ekkert betra við peningana sína að gera en að kaupa sér jeppa.
...kaupir sér Kristal og Topp í stað þess að drekka vatn úr krana.
...skrifar færri en tvær bloggfærslur á dag.
...hlustar á Iron Maiden.
...finnst tölfræði ekki skemmtileg.
...hreyfir sig aldrei neitt með góðri samvisku.
...er ekki nákvæmlega eins og ég hvað smekk varðar á öllu.

Ótrúlegt!

mánudagur, 28. nóvember 2005

Ef síðustu tvær færslur eru sérkennilegar og jafnvel leiðinlegar þá er ástæðan sú að ég sat og vann tölfræðiverkefni frá klukkan 14:00 27. nóvember síðastliðinn til klukkan 15:00 daginn eftir, sem gera 25 klukkutíma samfleytt án svefns. Aldrei að blogga svefnlaus.

Ef færslurnar eru hinsvegar ekki svo slæmar þá hef ég enga afsökun.
Það tilkynnist hérmeð að ég hef skipt um stafrænan hlátur eftir mikla umhugsun. Tók ég þessa ákvörðun í kjölfar þess að ég lauk við mína fyrstu rannsókn í dag en hún fól í sér að kanna áhrifavalda á gengi körfuboltaliða í NBA deildinni fyrir Hagnýt Tölfræði II áfangann sem ég tek á þessari önn.

Niðurstöðurnar eru sláandi:

"hohohoho"

Þessi hlátur ætti að fara vel með gráu hárunum á hausnum á mér. NBA rannsóknin sagði mér annars ekkert sem ég vissi ekki áður.
Hér átti að vera færsla um það hversu ömurlegt mér finnst að þurfa að hætta við að skrifa allskonar færslur af því ég finn aldrei neitt fyndið til að segja í endann en þar sem ég virðist ekki getað fundið neitt fyndið til að segja í endann þá verður þessi færsla að standa auð sem stendur.

sunnudagur, 27. nóvember 2005

Mér bauðst í dag að mæta undir eins í munnlegt próf í stjórnun starfsframa til að spara kennaranum tíma, þegar ég átti í raun að fara í prófið einhverntíman á morgun. Ég samþykkti, las fyrir prófið í ca 30 sekúndur og mætti svo galvaskur. Það gekk ágætlega miðað við undirbúning.

Núna þarf ég að klára að skrifa 20 blaðsíðna tölfræðiskýrslu á næsta sólhringi um rannsókn sem ég hef ekki lokið fyllilega. Fyrst þurfti ég samt að tefla við Óla og skrifa þessa færslu.

Eftir að þessari skýrslu verður lokið hef ég sólarhring til að læra fyrir lokaprófið í viðskiptalögfræðinni en ég hef ekki haft tíma til að mæta í einn einasta lögfræðitíma í ca 6 vikur núna.

Það er ekki laust við að ég sé með snert af kæruleysi á versta tíma.

laugardagur, 26. nóvember 2005

Síðustu níu vikur hefur meintur fjörfiskur verið að drepa mig andlega með því að láta svæði nálægt vinstra auganu skjálfa og nötra. Nú er svo komið að ég er farinn að efast um þetta sé fjörfiskur. Fjörfiskar endast sjaldnast lengur en einn dag, hvað þá 63.

Ef ekki er um fjörfisk að ræða þá hlýtur þetta að vera eitthvað annað. Ég hef því dregið saman nokkra möguleika:

* Allur kvíði líkamans safnast saman á einu svæði núna; við vinstra augað.
* Ég er 0,02% flogaveikur, bara við vinstra augað.
* Einhver padda hefur verpt eggjum í svæði nálægt vinstra auganu sem klákust út fyrir 9 vikum.
* Svæðið við vinstra augað skelfur ekki. Allt annað á líkama mínum skelfur auk alls heimsins.

Svo gæti ég auðvitað líka bara skroppið til læknis og látið athuga þetta.
Öðrum leik liðs míns í utandeild Breiðabliks er lokið. Lið mitt, Forsetinn, lék gegn Moppunni í Smáranum í gærkvöldi klukkan 21:00. Eins og áður segir er leikurinn aðeins 2x16 mínútur með engu stoppi, nema síðustu 3 mínútur seinni hálfleiks sem útskýrir lágt stigaskor vonandi. Við töpuðum leiknum 34-32 enda hefur liðið aldrei leikið jafn illa.

Allavega, nóg um smáatriðin. Aðalatriðið er auðvitað að ég var stigahæstur í leiknum með 10 stig eða 31,25% stiga liðsins. Ég held ég geti lofað því að þetta muni aldrei gerast aftur. Hér er tölfræðin mín ásamt heildartölfræðinni:



* Gærkvöldið er grálitað.

föstudagur, 25. nóvember 2005

Ég varð fyrir fremur ónotalegri lífsreynslu í gær í Smáralindinni þegar ég stóð upp við glerhandrið og hugsaði um William Hung. Þá vatt sér að mér stúlka ein, á að giska 16-17 ára, helförðuð og hóf að angra mig. Samtalið var eitthvað á þessa leið:

Glyðran: Vá, djöfull er flott á þér hárið. Rosaflott lína í því.
Ég: Takk! (furðu lostinn).
Glyðran: Hvernig ferðu að þessu? Þetta er svakalegt. Örugglega erfitt að ná svona. Hvar léstu gera þetta?
Ég: (leitandi að falinni myndavél) ha?
Glyðran: Án gríns. Vá. Ég vil fá svona.
Ég: Viltu ekki bara labba áfram?
Glyðran: Nei, ég er ekki að grínast!

Ég hefði lúbarið hana á þessum tímapunkti ef það hefði ekki ruglað hárgreiðslunni minni. Þess í stað snéri ég mér bara undan þangað til hún lét sig hverfa.
Til marks um það hversu utan við mig ég er í dag þá gleymdi ég öllu mínu dóti heima nema skóladótinu. Þetta uppgötvaði ég auðvitað þegar ég var mættur í skólann. Ég var ekki með neitt aðgangskort, engann pening, ekkert kort, engan farsíma og engar nærbuxur. Það var eiginlega bara heppni að ég var í fötum yfirleitt því ég minnist þess ekki að hafa klætt mig í þau í morgun. Þegar ég nefni þá þá man ég ekki eftir því að hafa byrjað þessa bloggfærslu.

fimmtudagur, 24. nóvember 2005

Hér eru nokkrar mælingar á líkama mínum:

Hár á haus: 18 cm að meðaltali.
Langatöng: 9 cm.
Il: 25,5 cm ca.
Munnur: 5 cm.
Breidd lófa: 9 cm.

Þetta var það fyrsta sem mér datt í hug að mæla svona í fljótu bragði. Allar óskir um mælingar eru illa séðar, helvítis pervertar.

Alveg ótengt þessu; ég var að fá gefna reglustriku frá Alþjóðaskrifstofu Háskólastigsins. Mjög fallegt af þeim.
Ég var að bæra við nýjum fjórförum. Þessir fjórfarar sem birtast núna hafa verið í fæðingu í góða átta mánuði, Simma Bónda til mikillar gleði. Kíkið á þá hér.
Til að koma til móts við þá sem eru of þunglyndir þessar mundir og lásu ofan í það síðustu færslu koma hér nokkur atriði yfir aðgerðir sem ættu að koma ykkur í betra skap:

* Rista eitthvað fallegt í húðina. Þannig víkur andlegur sársauki fyrir líkamlegum sársauka.

* Hnerra þrisvar í röð. Vanmetin skemmtun.

Ef þetta virkar ekki þá eruð þið sennilega dauðadæmd. Ég er þó enginn læknir, þannig að ekki taka fyllilega mark á mér.

miðvikudagur, 23. nóvember 2005

Núna og næstu ca tvo mánuðina verður myrkrið allsráðandi hjá Íslendingum. Þá er tilvalið að skella sér í þunglyndi. Sumir geta það þó ekki, einhvera hluta vegna, og því þurfa þeir einstaklingar hjálp. Hér er listi yfir aðgerðir sem koma ykkur amk í vont skap, ef ekki alla leið í þunglyndi:

* Keyra í Reykjavík frá klukkan 7:30-9:00 á morgnanna eða frá klukkan 16:00-18:00(kom fyrir mig um daginn). Umferðarkerfi Reykjavíkur er svo út í hött að það myndast alltaf flækjur allsstaðar.

* Versla í Bónus (kom fyrir mig um daginn). Nóg sagt.

* Fara í kirkju (kom fyrir mig um árið). Drepleiðinlegt.

* Reyna að ná sambandi við þjónustuver Símans(kom fyrir mig um daginn). Tekur lágmark 15 mínútur. Reyndar er tónlist spiluð á meðan á bið stendur en samt er aðgerðin niðurdrepandi.

* Hnerra þangað til þú hnerrar blóði (kom fyrir mig um daginn).

* Gleyma ljósunum á bílnum daginn eftir að hann varð rafmagnslaus fyrir það sama (kom fyrir frænda minn um daginn). Sjúklega vandræðalegt, að sögn.

þriðjudagur, 22. nóvember 2005

Blogglægð hrjáir mig. Dýpt lægðarinnar má útskýra með grafískum hætti:


----Hér blómstra ég.




----Hér næ ég viðunandi árangri.




----Hér get ég ekki skrifað vegna lægðar.






----Hér er Geirfinnur.




----Hér er ég.


Þá vitið þið það. Þessi færsla tók nógu mikið pláss svo ég skrifa ekki meira í dag með góðri samvisku.

mánudagur, 21. nóvember 2005

Hér er formúla fyrir leiðinlegasta og minnst aðlaðandi útvarpsþátt sögunnar, að mínu mati:

Þátturinn...

...þarf að hafa Valtýr Björn sem rödd þáttarins.
...þarf að fjalla um fótbolta.
...þarf að vera tveir tímar á lengd, frá 12:00-14:00 helst.
...þarf nauðsynlega að hafa símann alltaf opinn svo menn, sem halda að það sé áhugaverðast í heimi að þeir séu aðdáendur einhvers liðs í ensku deildinni, geti hringt inn og sagt skoðun sína á hverju sem er, enda vita þeir betur.
...þarf að heita því leiðinlega nafni "Mín skoðun".

Ég vona að enginn lesi þessa færslu og ákveði að hefja einn svona þátt. Ég myndi ekki afbera það, þar sem ég trúi ekki á að skipta um útvarpsstöð.
Í dag hyggst ég æla á mig úr þreytu.

En nóg um það. Í morgun tókst mér að fá snjókorn í augað þrátt fyrir að vera með gleraugu og derhúfu, auk þess sem ég var að horfa niður þegar umrædd snjókoma í augað á mér átti sér stað. Góður snúningur á snjókorninu og klárlega vísbending um að dagurinn verði góður.
Lengi vel hélt ég því fram að hljómsveitin White Stripes væri sú svalasta í bransanum. Eftir tónleika gærkvöldsins er það álit gjörbreytt. Nú finnst mér þetta langsvalasta hljómsveitin í bransanum og þótt víðar væri leitað. Aldrei áður hef ég næstum fengið blóðnasir vegna sval-leika hljómsveitar. Hér er dómur minn á tónleikunum:




Ég man ekki hvað upphitunarsveitin heitir enda ný á sjónarsviðinu. Nektin hjá White Stripes fólst í því að Jack White fór úr jakkanum og tók hattinn af.

Allavega, ég hef ákveðið að helga lífi mínu þessari sveit. Mitt fyrsta verk er að skrifa þessa færslu. Næsta verk er að fá alla í heiminum til að hlusta á hana. Þriðja verk mitt er að plana hvernig öðru skrefi verður komið á.

sunnudagur, 20. nóvember 2005

Ég má ekki vera að þessari vitleysu. Ég er að fara á tónleika hjá the White Stripes, einni af minni uppáhaldshljómsveit. Gerið betur.

laugardagur, 19. nóvember 2005

Í gær fór fram körfuboltaleikur í Smáranum í Kópavogi en þar mættust liðin Forsetinn og Hafnarmenn. Til að gera langa sögu stutta þá sigraði mitt lið; Forsetinn með 41 stigi gegn 33. Leikurinn var óvenju stuttur eða 2x 16 mínútur auk þess sem tíminn var aldrei stoppaður þegar bolti fór úr leik, sem útskýrir vonandi lágt stigaskor.

Hörgull var á tölfræðivinnslu en eftirfarandi er vitað; Kjarri Kjartansson var stigahæstur hjá okkur og ég saug rassgat. Hér má sjá minn árangur í tölum:



Ég er stoltur af því að hafa verið hræðilegur í leiknum.

föstudagur, 18. nóvember 2005

Ég steingleymdi að nefna að ég er að fara að keppa í körfubolta með liðinu Forsetinn í kvöld í Smáranum, Kópavogi klukkan 21:00.

Ég er nokkuð feginn því að ég gleymdi þessu þar sem ég verð meira taugaspenntur með fleiri áhorfendum og með meiri taugaspennu stóraukast líkurnar á því að ég sjúgi rassgat í leiknum.

Mikið er ég feginn því að ég er hættur að blogga allt sem mér dettur í hug og sleppi núna tilgangslausum færslum sem þessum.
Þegar ég er saddur þá verð ég þreyttur.
þegar ég er þreyttur þá verður mér kalt.
Þegar mér er kalt fer ég í fleiri föt.
Þegar ég er í mörgum fötum þá fæ ég innilokunarkennd.
Þegar ég fæ innilokunarkennd þá snappa ég.
Þegar ég snappa þá er ég til alls líklegur.
Þegar ég er til alls líklegur þá er ég óáreiðanlegur.
Og mér finnst ekki gaman að vera óáreiðanlegur.

Þá vitið þið af hverju ég er svona mjór.

fimmtudagur, 17. nóvember 2005

Einhversstaðar heyrði ég að ef mann klæjar í lófann þá á maður von á gestum. Einnig heyrði ég að ef maður fær hiksta er einhver að tala illa um viðkomandi.

Síðast en ekki síst heyrði ég að ef maður er búinn að vera með fjörfisk í auganu í sjö vikur þá sé maður að verða geðveikur. Skemmtileg tilviljun því ég einmitt hef verið með fjörfisk í vinstra auganu í sjö helvítis vikur!

Ef einhver er með ráðleggingar, hugmyndir, lækningar, nudd, lyf, dóp eða heróín gegn þessu, látið mig vita.

miðvikudagur, 16. nóvember 2005

Ef aðeins ég hefði látið hugboð mitt í fyrra ráða um að kaupa milljón eyrnatappa (þeim er stungið í eyrun til að heyra ekkert, notað til að læra) þegar tækifæri gafst, væri ég orðinn vellauðugur í dag. Eyrnatappar hafa nefnilega hækkað úr kr. 35 stykkið í kr. 50 stykkið á bókasafni HR! Það gerir alls ca 43% hækkun á milli ára. Ég hefði betur hringt í bankann í fyrra og beðið um 35 milljón króna yfirdrátt fyrir eyrnatöppum.

Skiptir ekki mál. Mér finnst peningar ofmetnir hvort eð er. Ég er meira fyrir núðlur.
Í gær urðu straumhvörf í sjálfsvitund minni þegar mér var sýndur minn endanlegi tvífari. Þetta vakti það mikla athygli hjá mér að ég hrópaði upp yfir og brast svo í trylltan hlátur. Hérmeð birtist þessi umræddi tvífari minn:


Victor Van Dort úr Corpse's Bride sem sýnd er í bíóhúsum.


Þakkir fær Esther Ösp fyrir að taka eftir þessu í bíóhúsi um daginn með vinkonum sínum.

þriðjudagur, 15. nóvember 2005

Ó vei mér!

Þvílík vansæld. Þvílík óhamingja! Mér hefur ekki liðið svona illa í margar vikur. Ég vildi að ég gæti gert eitthvað í því. Af hverju ég? Hvað hef ég gert til að verðskulda þessa vesæld?

Bíllinn er rafmagnslaus fyrir utan HR og ég þarf að ganga heim.

Ég reyni allavega að vera óhamingjusamur. Allt fyrir blogglistina.
Jóna bað mig á síðunni sinni að svara einhverjum spurningalista. Ég ákvað að setja hann hingað og svara honum. Ykkur er velkomið að gera það sama en ég bið engann um það.

Þarmeð líkur þessum spurningalistum sem hefur tröllriðið internetsamfélaginu. Ég mun ekki svara fleirum hér, nema eitthvað verði sent á mig auðvitað.

mánudagur, 14. nóvember 2005

Þið, lesendur góðir, eruð veimiltítur ef þið þorið ekki að kjósa Arthúr (www.fjandinn.com/arthur) sem besta afþreyingarvefinn hér. Ennfremur eruð þið flón ef þið áttið ykkur ekki á því að Rassgatið (www.rassgat.org) er besta einstaklingssíðan þarna úti.

Þessi tilraun til að handleika hug ykkar með hjálp öfugrar sálfræði er skrifuð í gríni ef þið takið henni illa. Ef þið takið henni vel þá hefur mér aldrei verið meira alvara.
Lífið er ekki alltaf eins og maður heldur. Hér eru nokkur dæmi um misskilning hjá mér:

* Ég er búinn að vera að kvarta undan bakverki undanfarið. Í sturtu í nótt komst ég svo að því að þetta er ekki bakverkur heldur bóla sem er farin að hafa áhrif á jafnvægisskyn mitt.

* Ég hef staðið í þeirri meiningu að ég sé á kraftmesta bíl landsins þar sem ég spóla alltaf af stað og lengri leiðir. Nýlega var mér svo tjáð að þetta væri ekki spóluískur heldur væri einhver reim í vélinni laus. Ég fór á risabömmer við þessar fréttir.

* Um daginn keypti ég mér, að ég hélt, baunasalatssamloku. Þegar ég beit í hana reyndist þetta vera túnfisksamloka en ég myndi frekar borða andlitið á mér en túnfisk.

* Ég hélt að það væri ekkert mál að halda athygli yfir náminu og sleppa því að skrifa bloggfærslu fyrri hluta dags en það reyndist mjög erfitt, jafnvel ómögulegt.

sunnudagur, 13. nóvember 2005

Það hafa liðið vikur og dagar síðan ég skrifaði mannsæmandi bloggfærslu hérna sem ýmist er áhugaverð eða ekki hrútleiðinleg. Örsökin var ókunn þangað til í dag þegar ég loksins áttaði mig. Þetta útskýrist allt með mynd:



Áhrif hamingju vefsíðustjóra á skemmtanagildi vefsíðunnar.

Þessi mynd, sem unnin er í samráði við sænska vísindamenn, segir okkur eftirfarandi:

* Með aukinni hamingju undirritaðs verður þessi síða leiðinlegri.
* Með leiðinlegri færslum eykst hatur lesenda í garð undirritaðs.
* Undirritaður notar Excel og er ótrúlega smekklegur í litavali.

Hamingjustig mitt er í 90% eins og sést á myndinni. Þetta leiðir af sér að skemmtanagildi þessarar síðu er komin niður fyrir 0 og hatur lesenda nálgast alhatur* svokallað.

Ég biðst hérmeð afsökunnar á hamingju minni.

* Alhatur er það sama og Alkul**, nema bara batur í staðinn fyrir hitastig og nær bara upp í 10 stig.
** Alkul = -273,15°C.
Í nótt dreymdi mig að ég ætti að segja hlekk á einhverja Önnu Björg Kristinsdóttur. Þar sagði einnig að hún væri búin að hlekkja á mig og son minn, Arthúr. Þegar ég fór svo að grenslast fyrir kom í ljós að þessi Anna Björg er til. Ekki nóg með það heldur er hún kærasta Óla Rúnars, sem ég umgengst daglega, jafnvel oftar. Ótrúleg tilviljun.

Hér getið þið skoðað síðuna hennar.

föstudagur, 11. nóvember 2005

Um daginn gekk ég af bókasafninu í HR niður í mötuneyti sama húsnæðis til að fá mér mat í formi sælgætis. Á leiðinni hitti ég tvær ca fertugar konur sem gengu sömu leið og ég. Þegar þær hittu mig fór önnur þeirra að flissa og og hvíslaði einhverju að hinni, sem snéri sér alveg við, leit á mig og hvíslaði svo einhverju til baka. Þá tók við mikið fliss og mér var hugsað hvort þarna væru á ferðinni 12 ára stelpur í líkama fertugra tussa.

Svona barnaleg hegðan er nóg til að ég hætti að mæta ber að ofan í skólann eftir að hafa verið að lyfta.

fimmtudagur, 10. nóvember 2005

Talandi um ráðstefnur; á morgun verður haldin ráðstefnan Framasýn í HR. Ég er einn af ca 50 manns sem halda hana og er ég í sölu- og markaðshóp sem sér um auglýsingar og fleira.

Hér er veggspjaldið fyrir herlegheitin.

Byrjar klukkan 17:00 á morgun, föstudaginn og lýkur þegar sá síðasti maður tryllist eða klukkan 20:00.
Ég er að fara að halda fyrirlestur í Tölfræði II og ég hef aldrei verið jafn rólegur á ævi minni. Ástæðan er einföld.

Ég var að komast að því að Hildur Vala, idolmeistari Íslands, á sér tvífara og það engan venjulegan tvífara. Tvífari hennar er kolsvartur á hörund, næstum 210 cm á hæð og yfir 100 kg. Gjörið svo vel:




Lamar Odom og systir hans, Hildur Vala.

miðvikudagur, 9. nóvember 2005

Nýjir fjórfarar hafa litið dagsins stafræna ljós. Kíkið á þá hér. Passið ykkur bara að [eitthvað fyndið hér].
Á morgun á ég að:

* Halda fyrirlestur í Hagnýtri Tölfræði II um gengi rannsóknar minnar á NBA deildinni. Felur í sér sjúka rannsóknarvinnu.

* Halda hálftíma fyrirlestur í Rafrænum Viðskiptum um viðskiptahugmynd okkar á internetinu. Felur í sér fundi og talsverða vinnu.

* Skila inn verkefni í Framleiðslustjórnun. Er ekki byrjaður á því.

* Leggja lokahönd á ráðstefnu sem við höldum á föstudaginn en vinnan á bakvið hana er geðsjúk.

Ég ætlaði að klára þetta allt og svo horfa á video með systkinum mínum, Björgvini og Kollu í kvöld. Ég áttaði mig þó fljótlega á því að til að það gæti gengið upp þyrfti sólarhringurinn að lengjast um 200 klukkustundir, gróflega áætlað. Ég vonast því bara eftir að loftsteinn skelli á jörðinni svo hún snúist hægar næsta sólarhringinn eða svo.

þriðjudagur, 8. nóvember 2005




Ég nenni ekki að hlekkja á þessar myndir eða skrifa margar færslur um þær. Flettið þeim sjálf upp hér.

Þetta er semsagt listi yfir þær myndir sem ég hef séð síðan síðasta kvikmyndagagnrýnifærsla var skráð.
Ég hef engan tíma til að hugsa eitthvað frumlegt til að skrifa á þessa síðu. Þið fáið því bara enn eitt draslið til að fylla út hér.

Ef tími gefst til hendi ég inn nýjum fjórförum, mér í sjóinn og jafnvel nýju umræðuefni á spjallið seinna í/á kvöld/nótt/fyrramálið/morgun/aldrei.

mánudagur, 7. nóvember 2005

Ég var að bæta við 10 laufléttum myndum í myndaalbúmið mitt. Endilega skoðið, gefið einkunn og skrifið komment við myndirnar eða ég kveiki í þessari síðu og brenni ykkur öll inni.

Kíkið hér á nýju myndirnar.
Hrós dagsins fer til Háskólans í Reykjavík en þar stunda ég nám. Skólagjöldin eru reyndar há en það er auðvelt að réttlæta það:

Til að byrja með er lærdómsaðstaðan til fyrirmyndar. Að hafa mötuneytið á sama stað og aðal lærdómsaðstaðan er meistaraleg uppsetning. Ennfremur eru stólarnir fallegir en óþægilegir, enda er það útlitið sem skiptir öllu máli.

Nettenging er amk annan hvern dag í skólanum, enda ekki hægt að ætlast til þess að það sé hvern dag þar sem kerfið ræður ekki við endalausa notendur.

Sem færir okkur næsta atriði; nemendur eru gríðarmargir og þeim alltaf að fjölga. Aðstaðan reyndar minnkar en það er sanngjarnt gjald fyrir að fá að kynnast miklu magni af nýju fólki. Ef fer fram sem horfir verður HR orðinn stærsti skóli alheimsins innan 10-15 ára.

Sem aftur færir okkur í næsta atriði; bílastæði HR er lítið og nett sem fær mann til að spara sér milljónir króna í bensín þar sem maður neyðist til að ganga í skólann í stað þess að leita endalaust að lausu stæði.

Vinnuálagið er talsvert hátt. Sem dæmi má taka að ég á að halda tvo fyrirlestra á fimmtudaginn, fyrir hvorn ég þarf að vinna ótakmarkaða heimildavinnu (netlaus annan hvern dag), auk þess sem ráðstefna er haldin á föstudaginn en fyrir hana þarf að vinna dag og nótt. Þetta allt ýtir undir taugaveiklun, kvíða- og stressköst og fleiri grá hár; eitthvað sem ég myndi hvort eð er þjást af síðar meir. Um að gera að ljúka því af strax.

Ég vil því þakka HR fyrir góða daga. Besti skóli landsins.

Nöldur dagsins fæ hinsvar ég sjálfur fyrir að blóta stanslaust í fjóra tíma í dag en það er önnur saga.

sunnudagur, 6. nóvember 2005

Ég er búinn að fá nóg af fólki sem hlær að mér fyrir að halda hinu rétta fram; nágrannar er raunveruleikasjónvarp. Hér eru nokkrar spurningar fyrir ykkur sem halda því fram að þetta sé allt "gert eftir handritum", leikið og leikstýrt:

* Hvernig í ósköpunum áttu leikstjórarnir og höfundarnir að láta Madge hans Harold fá krabbamein og deyja? Þeir eru kannski leikstjórar en ekki guðir!

* Ef þetta er allt samið og leikstýrt; af hverju er þá ekki búið að góma þann sem kveikti í Lou's Place og kaffistofu Harold? Þeir sem skrifuðu þetta hljóta að vita hver gerði þetta og því væri hægt að handtaka helvítið strax.

* Nýlega kom í ljós að Gus nokkur var myrtur og brenndur. Hvaða leikari haldið þið að samþykki að láta drepa sig og brenna? Enginn!

Ég hef sagt það áður og ég segi það aftur; Nágrannar er bein útsending frá Ástralíu. Það er ekkert samsæri í gangi, engir leikstjórar og enginn leikari. Hættið þessu tuði.
Vegna fjölda áskoranna birti ég hér með vöðvann sem þarf að skera upp á mér til að losa taug undan ógnarvaldi vöðvans, svo ég fái aftur tilfinningu í rist og táslur hægri fótar:

Vöðvinn heitir Extensor Digitorum Longus.

Ykkur skal finnast þetta áhugavert af því mér finnst þetta áhugavert!

föstudagur, 4. nóvember 2005

Ég virðist algjörlega hættur að geta talað við fólk í persónu sem ég hitti alla jafna ekki oft. Hver einasta bráðfyndna skemmtisaga mín er trufluð með orðunum "Ég veit. Las það á síðunni þinni."

Ég mun því ekki segja frá því hér að ekkert er að frétta af mér þessa dagana. Bara svo ég geti haft eitthvað að segja í næsta samtali.
Alltaf þegar ég panta miða á tónleika með snilldarbandinu White Stripes verð ég mjög spenntur.

Alltaf þegar ég verð mjög spenntur smellur eitthvað í hausnum á mér.

Alltaf þegar eitthvað smellur í hausnum á mér þá fæ ég óminni (blackout).

Alltaf þegar ég ranka við mér er ég nakinn á opinberum stöðum.

Alltaf þegar ég nakinn á opinberum stöðum verð ég að blogga.

Og það vill svo skemmtilega til að ég var að kaupa miða á tónleika White stripes í Laugardalshöllinni þann 20. nóvember næstkomandi með ótrúlegum afleiðingum.

fimmtudagur, 3. nóvember 2005

Ostertag hefur aldrei skilið körfubolta almennilega.
NBA tímabilið er hafið enn eina ferðina. Eins og myndin hér að ofan gefur til kynna er risinn Greg Ostertag kominn aftur til Utah Jazz (mitt lið) eftir eins árs fjarveru.

Allavega; Utah Jazz unnu í nótt og standa þá leikar þannig:
Unnir leikir: 1
Tapaðir leikir: 0

Ef Jazz halda áfram á þessari braut munu þeir sigra 82 leiki á tímabilinu og tapa engum, sem yrði nýtt met í NBA deildinni. Ég er vægast sagt orðinn spenntur fyrir tímabilinu.
Í morgun mætti ég korteri of snemma í skólann til að forðast mikla morgunumferð. Þegar ég var búinn að finna fínt stæði við HR fattaði ég að ég hafði gleymt öllu mínu skóladrasli heima. Ég mætti því 20 mínútum of seint í skólann í morgun.

En ég sé ekki eftir neinu. Morgunumferð Reykjavíkur er frábær!

miðvikudagur, 2. nóvember 2005

Það er komið að stórri stund í sögu þessarar síðu. Í fyrsta sinn ætla ég að segja algjöran sannleik. Ég vara þó viðkvæma nöldurseggi við; ég mun vera væminn.

Þessa dagana og vikurnar...

...er skólinn að reyna að drepa mig úr verkefnavinnu. Ég á enga frístund og hef engan veginn undan í vinnslu á umræddum verkefnum.
...hef ég hef sjaldan spilað jafn lítinn körfubolta.
...standa peningamál mín óvenju höllum fæti.
...er ég að verða gráhærður af náttúrulegum orsökum.

Allt eru þetta liðir sem alla jafna myndu gera mig geðveikan en ekki í þetta skiptið. Ástæðan er fyrir því að ég helst réttum megin við strikið og reyndar langt hinum megin við strikið, má sjá á mynd hér að neðan:

Hér er venjulega myndin.

Svona sé ég þessa sömu mynd.
Bergvin er mættur aftur á bloggsjónarsviðið eftir áralanga pásu. Hér getið þið lesið allt um líf hans þessa dagana.

Sem minnir mig á það; konur sem hafa mikið estrógen þykja fallegri.
Nú þarf ég hjálp ykkar, lesendur góðir.

Er eitthvað stórkostlegt að mér að hlæja að þessari mynd í korter samfleytt?

þriðjudagur, 1. nóvember 2005

Takið þetta.

Stundum hata ég sjálfan mig svo mikið.
Dagskráin hjá mér í skólanum þessa önnina er orðin býsna skrautleg. Föstudaginn 11. nóvember næstkomandi verð ég að vera búinn að skila inn fjórum risaverkefnum sem gilda samtals 137 prósent af heildareinkunn námskeiða (sem eru 5 talsins). Sú hugsun að dreifa þessum verkefnum jafnara yfir önnina er kennurum fjarlæg svo að nú eru góð ráð dýr. Ég hef sett fram eftirfarandi áætlun:

2.-9. nóvember: Læra.
9. nóvember: Æla blóði af stressi. Fá mér smá að borða. Fara í sturtu. Skipta um nærbuxur.
10.-11. nóvember: Læra.

Hljómar eins og skotheld áætlun.
Ég veit ekki af hverju en mér fannst ég þurfa að skrifa þetta.