laugardagur, 31. maí 2003

Það er til ein þjóð í alheiminum sem lítur upp til Íslendina, einhverra hluta vegna. Ætli ástæðan sé ekki helst sú að við drekkum eins og svín, kvenfólkið okkar er lausgirt og börnin okkar eru þau feitustu í heimi. En allavega, þetta eru Færeyingar. Hvað gera Íslendingar þegar eitthvað land lítur upp til þeirra? Þeir gera auglýsingu þar sem gert er grín að því landi, í þessu tilviki Færeyingum. Þetta gerði einmitt dominos pizzafyrirtækið á dögunum og sýna þetta nú í hverjum auglýsingatíma. Í auglýsingunni er fjölskylda komin til landsins til að heimsækja dominos. Það eina sem á að vera fyndið við auglýsinguna er að þau tala færeysku. Ég er nokkuð viss um að ef Norðmenn eða Danir myndu gera svipaða auglýsingu með aulalega Íslendinga þá yrði allt vitlaust á Íslandi. Ótrúlegt hvað Íslendingar geta verið smekklausir og viðbjóðslegir.
Það er ekkert yndislegra en að vakna edrú á laugardegi, algjörlega úthvíldur eftir að hafa vaknað snemma hvern einasta dag síðustu ca 3 vikur. Ég skil ekki lengur í því hvers vegna fólk vill fórna þessari tilfinningu fyrir áfengi sem eyðileggur alla morgna.

Síðan skólar hættu (ca 10-15 dagar síðan) hefur aðsókn á þessa síðu hrunið niður úr 50-60 heimsóknir á dag niður í ca 20-40. Þetta er eiginlega ekkert áhyggjuefni því nú hef ég minna á samviskunni ef ég sleppi færslu.

Ég gerði heiðarlega tilraun til að skokka í gærkvöldi með slæmum árangri. Ætlaði fyrst í skóginn að taka hring þar en þá var einhver ratleikur þar með fullt af krökkum sem fylltu skóginn. Næst stefndi ég á fótboltavöllinn en þar var víst fótboltaleikur í gangi, sem ég gleymdi að mæta á. Því næst var það að skokka frá Brekkubrún til Þorskhausaverksmiðjunnar og til baka en þar var verið að malbika upp á nýtt. Ég ákveð því að fara bara að skjóta á körfuna í Fellabæ en þá varð hvasst, sem reyndar stoppaði mig ekki. Boðskapur þessarar sögu er að sleppa því að reyna, krakkar mínir.

föstudagur, 30. maí 2003

Eftirtaldir frasar hafa nýlega verið notaðir á google leitarsíðunni til að finna dagbók þessa:

Myndir af Adolf Hitler
kynlífsstellingar
Eurovision nína nótur
íslenska girls nakinn
Myndir af Birgittu Haukdal

og
tussa iceland

Þeir sem notað hafa þessar setningar fyrir ofan og fundið mína síðu hafa allir orðið fyrir vonbrigðum.

fimmtudagur, 29. maí 2003

Það er ýmislegt spennandi að gerast í lífi mínu þessa dagana.
Fyrst ber að nefna að í dag var nánast venjulegur vinnudagur hjá mér en eins og flestir vita er frídagur í dag.
Næst er það gærkvöldið en þá horfði ég á æsispennandi erótíska gamanmynd sem ber nafnið Human Nature og skartar þeim Patricia Arquette, Rhys Ifans (úr Notting Hill) og Tim Robbins í aðalhlutverkum. Þetta er fín saga og ágætir leikarar en myndin er sett svo bjánalega upp og illa unnið úr efninu að það er ómögulegt að skemmta sér yfir henni, fyrir utan þau atriði þar sem Patricia Arquette hleypur um alsnakin. Hún er fönguleg stúlkan. Myndin fær 1 stjörnu fyrir nekt.
Þriðja atriðið er verkefni sem ég er að leggjast í heima við en það tengist nba roster síðunni minni sem ég hýsi á geocities. Ég slæ inn alla NBA körfuboltaleikmenn dagsins í dag í forrit, ýmsar upplýsingar um þá, tölfræði þeirra í ár og samningsupphæðir og þegar því er lokið er svo notast við gagnagrunninn í tölvuleik sem ber nafnið Jumpshot Basketball en þar þjálfar maður NBA lið. Einnig læri ég mikið um bestu körfuknattleiksmenn samtímans með þessu.

miðvikudagur, 28. maí 2003

Skemmtileg tilviljun að í dag, eftir að hafa ritað niður bestu og verstu útvarpsmenn landsins, frétti ég að góðkunningi minn og Utah Jazz aðdáandinn Baldur Hans frá Reyðarfirði væri byrjaður með útvarpsþátt á X-inu í Reykjavík á sunnudögum milli 11-15. Ég hef það óhugnarlega sterkt á tilfinningunni að þetta sé aðeins byrjunin fyrir Baldur en hann kann að koma fyrir sig orðinu auk þess sem hann er drepfyndinn. Ef einhver les þetta í Reykjavík skal sá hinn sami hlusta á x-ið alla sunnudaga milli 11 og 15 ellegar hljóta verra af.
Hér kemur svo listi minn yfir útvarpsmenn landsins þar sem nr 1 er í uppáhaldi og sá neðsti í minnstu uppáhaldi. Ég veit að öllum er sama en þetta er mér hjartans mál. Þeir sem ekki eru á þessum lista hef ég ekki heyrt nóg í til að dæma.

1. Freyr Eyjólfsson - Rás 2. Húmoristi sem spilar alla réttu tónlistina.
2. Óli Palli Gunnarsson - Rás 2. Fróðleiksbrunnur um tónlist og tónlistarmenn. Misgóður.
3. Guðni Már Henningsson - Rás 2. Sallarólegur með góða rödd og svolítið þunga tónlist. Nýungagjarn.
4. Gestur Einar Jónasson - Rás 2. Fínn kall sem spilar mikið af gamalli tónlist.
5. Hver sem er á FM957 - Hresst fólk. Kannski aðeins of. Árni Már er samt góður ;)
6. Hrafnhildur Halldórsdóttir - Rás 2. Fín rödd en spilar bara kerlingatónlist.
7. Hver sem er á Bylgjunni - Ömurleg útvarpsstöð með ömurlegri tónlist og jafnvel verri útvarpsmenn.
Í dag hef ég verið valinn þreyttasti maður alheimsins. Dagurinn byrjaði á því að ég vaknaði kl 7:58 eða 8 mínútum seinna en venjulega þannig að ég náði ekki inn fyrir kl 8. Ég var steinsofandi á leið í vinnuna, með slökkt ljósin. Fattaði í bílnum að ég var í öfugri peysu og gleymdi gemsanum heima. Hlakka til að klára þennan dag, ef hann klárast einhverntíman.

þriðjudagur, 27. maí 2003

Ég snéri aftur til unaðsemda unglingavinnunnar eftir vinnu í gær, tók mig til og sló garðinn hérna á skattstofunni og er hann býsna stór. Þetta tók mig næstum 2 tíma. Eftir það var ég svo úrvinda að ég fór í sturtubað, tróð inn myndum á netið og lagðist svo í þægindastólinn minn og horfði á The Wedding Singer sem ég á á spólu áður en ég fór að sofa. Ég mæli með þeirri mynd, hef líka séð hana nokkrum sinnum. Tónlistin er góð, persónurnar skemmtilegar og söguþráðurinn fallegur. Hvað er hægt að biðja um meira? Jú, Drew Barrymore er flott í henni, aldrei þessu vant og Adam Sandler er fyndinn í henni enda skrifaði hann ekki handritið.

mánudagur, 26. maí 2003

Rétt í þessu var að ég bæta við 28 myndum á myndasíðuna ófrægu frá Eurovision/útskriftarpartíinu sem fram fór um helgina. Smellið hér til að sjá þær og leyfið myndunum að hlaðast (gæti tekið nokkrar mínútur) áður en þið skrifið ummæli fyrir neðan hverja mynd.
Þá er Björgvin lagður af stað til Reykjavíkur og þaðan út til heitu landanna í útskriftarferð. Til hamingju með það, Björgvin. Þetta er í þriðja sinn á einni viku sem ég óska Björgvini til hamingju með eitthvað. Fyrst með útskrift, því næst fyrir nýja ljóðabók og nú þetta. Ég var að fá það staðfest hjá hagstofunni að þetta er Íslandsmet í hamingjuóskum, miðað við höfðatölu mína.

sunnudagur, 25. maí 2003

Það kom líka skemmtilega á óvart að sjá Hörpu Bandaríkjafara í hörkustuði á útskriftinni. Hún yfirgefur þó graftarbólu jarðarinnar (Ísland) 7. júní næstkomandi mörgum, ef ekki öllum, til mikillar sorgar.
Eurovision og útskrift að baki og frá ýmislegu að segja. Útskriftin var haldin að þessu sinni í íþróttahúsinu og gekk hún vel. Björgvin fékk viðurkenningu fyrir glæsilega baráttu sína fyrir skákíþróttinni og fyrir að vekja athygli á ljóðlistinni. Eftir þessa samankomu var farið í Menntaskólann og kökur étnar. Því næst í Fellabæinn en þar hafði mamma smá samankomu sem heppnaðist vel. Upp úr klukkan ca 6:30 fórum við Björgvin svo í bústað til að horfa á Eurovision en þangað átti að mæta lokaður hópur vina og kunningja ásamt nokkrum tonnum af áfengi. Í bústaðinn mættu of margir, ýmsu var hellt niður og myndir teknar eins og venjulega. Ég mun birta þær síðar í vikunni. Eurovision gekk vel fyrir Íslendinga og var smá veðmál í gangi í bústaðnum um það í hvaða sæti Ísland myndi verða. Björgvin sigraði það örugglega, spáði 9. sæti sem var næst en Ísland lenti í 8.-9. sæti. Var að ljúka við að framkalla myndirnar og þær eru frekar slappar. Nokkrar eru þó nothæfar.

Fyrir einhverja einskæra heppni náði ég á ball (Þakka þér kærlega, Jón), en þangað hefði ég betur ekki farið. Ég eyddi, eins og venjulega, of miklum peningi og gerði mig sennilega að fífli. Hljómsveitin Tvö dónaleg haust spiluðu og var hún mjög góð, tóku m.a. Luftgítar og sló í gegn held ég örugglega. Ég var meira að segja svo heppinn að fá eiginhandaáritun frá engum öðrum en Óla Rúnari, gítarleika og athafnamanni. Einhversstaðar í nóttinni tók ég mér samt pásu á dansiballinu og fór á Kaffi Níelsen með Garðari. Þar fengum við okkur súkkulaðitertusneið með ískaldri nýmjólk. Ég veit ekki af hverju en það hljómaði eins og snilldarhugmynd á þeim tíma. Piltungur nokkur spjallaði við mig á ballinu og sagðist lesa síðuna mína og lofaði ég honum í staðinn að nefna hann hérna. Það er mér heiður að nefna þig hérmeð. Takk fyrir að lesa, Ívar.

Í dag hef ég verið að berjast við að koma áfenginu úr líkamanum með öllum tiltækum ráðum ásamt því að þrífa bústað. Takk fyrir hjálpina Helgi og Björgvin. Ég stóð þá ekki einn á bakvið þetta teit eftir allt saman. Það hefðu líka fleiri mátt greiða í púkkið sem var fyrir þennan samastað en ég tek tapið á mig eins og við er að búast. Ólíklegt að þessi leikur verði nokkurntíman endurtekinn, ekki af minni hálfu allavega.

laugardagur, 24. maí 2003

Stór dagur framundan. Klukkan er núna ca 20 mínútur miðnætti og ég að gera mig tilbúinn fyrir svefn. Á morgun útskrifast Björgvin með tilheyrandi útskriftarveislu í íþróttahúsinu. Eftir það er kaffi í menntaskólanum og veisla í Fellabænum þar sem ættingjar og vinir koma og fá sér að borða. Eftir það er lokað heljarteiti, horft verður á Eurovision og drukknir áfengir drykkir. Ég þori ekki að segja hvenær ég get skráð eitthvað hérna næst því eftir síðustu helgi, sem var nánast blogglaus hjá mér, hrundi aðsóknin í þessa síðu um rúmlega 30%. Fólk notar hvaða afsökun sem er til að sleppa því að lesa þessa síðu. Það er svosem í lagi, minni pressa á mér.

En allavega, Björgvin að útskrifast og hörku helgi framundan. Til hamingju aftur Björgvin.

föstudagur, 23. maí 2003

Ljóðasafn Lubba Klettaskáld er komið út undir nafninu Svart á hvítu. Ég fékk þann heiður að sjá bókina með þeim fyrstu og get því mælt sterklega með henni. Þið sem viljið versla hana geta send Lubba e-mail hér eða jafnvel sent mér e-mail og ég kem skilaboðunum áleiðis.

fimmtudagur, 22. maí 2003

Fór að lyfta í gær með Bergvini í fyrsta sinn í rúmlega mánuð. Þessi mánaðarhvíld má rekja til úlnliðsmeiðsla sem hafa hrjáð mig síðan ég fór í fótbolta síðast. Lærði ég í þessum lyftingum að úlnliðurinn er handónýtur en það þýðir ekki að gefast upp, sérstaklega þar sem ég keypti mánaðarkort eins og nefapi. Á þessum mánuði hef ég lést um 3-4 kg. Ágætis megrunarkúr það, að hætta að lyfta.

Ég hef líka ákveðið að í dag, eftir vinnu ætla ég að taka út spjallgluggann hérna til hægri og setja í staðinn könnunina sem er í gangi hverju sinni. Þeir sem hafa eitthvað við það að athuga geta annað hvort kveikt í sér í mótmælaskyni eins og erótísku munkarnir í Tíbet gerðu eða skrifað eitthvað í athugasemdirnar hérna fyrir neðan.
Lagalistinn fyrir helgardjammið hefur verið opinberaður. Hann inniheldur 18 stórgóð lög með ýmsum flytjendum, eins og við var að búast. Mesta athygli vakti sú furðulega ákvörðun DJ finnur.tk að hafa ekkert Nick Cave lag.

Hér er listinn. Athugasemdir eru illa þegnar

1. Kylie Minogue - Outta my head
2. Toploader - Dancing in the moonlight
3. Dandy Warhols - Get off
4. Bomfunk Mc's - Freestyler
5. Junior Senior - Move your feet
6. Panjabi MC - Mundian to bach ke
7. Elvis Presley vs JXL - A little less conversation
8. Rollo & King - Never ever let you go
9. Liam Lynch - United states of whatever
10. Sugarcubes & Johnny Victory - Luftgítar
11. Puddle of Mudd - She fucking hates me
12. TATU - All the things she said
13. Gus Gus - David
14. Crazy Town - Butterfly
15. Armand van Helden - You don't know me
16. Chumbawamba - Tubthumping
17. Óþekkt hljómsveit - I just died in your arms
18. Daft Punk - Crescendolls

miðvikudagur, 21. maí 2003

Ég heyrði lagið 'Katla Kalda' með Mosa Frænda í gær á rás 2, í fyrsta sinn síðan ca 1988. Lagið er/var meistaraverk og hluti af textanum er svona:

Þú varst búinn að lofa
hjá honum að sofa
í staðinn strýkurðu Sveini
um brjóst og lær' í leyni

Vernharður Lár, vinur hans Atla
Hann er sorrí, svekktur, sár.
Þú ert skepna Katla.


Þetta fannst mér amk mjög flott þegar ég var 10 ára.
Þá er ég kominn með netið heima og í gærkvöldi fengum við sjónvarpsstöðvarnar aftur inn en við höfum þurft að lifa við að vera loftnetslausir síðan á laugardaginn. Þetta er allt að smella saman í nýju íbúðinni. Ég sakna þó nokkurra atriða úr gamla kjallaranum eins og t.d. að loftið var mun hærra í Tjarnarlöndunum, sturtan mun betri og á hálfs árs fresti kom klámálfurinn í heimsókn og skildi eftir glænýtt klámblað í ónotuðu bókahilluna. Samtals voru komin um 6-7 klámblöð frá klámálfinum undir lokin, sem við skildum eftir þar sem við fundum þau með þakkarbréfi, mjólkurglasi og smákökum.

þriðjudagur, 20. maí 2003

Ég mæli sterklega með þessari síðu. Þarna er fjallað um íþróttir á skemmtilegan hátt og allt það nýjasta dregið fram í ljósið. Helst er þarna fjallað um körfubolta, fyrir fagurlimaða og tignarlega körfuboltaáhugamenn eins og mig, fótbolta fyrir dýrvitlausa, bjórþambandi villimenn og box fyrir hellisbúana. Verði ykkur að góðu.
Ég sá The Majestic í gær með Jim Carrey í aðalhlutverki. Ég bjóst ekki við miklu og það er akkúrat það sem ég fékk. Myndin fjallar um mann sem ásakaður er um að vera kommúnisti og er settur á svarta listann í landinu þar sem málfrelsi ríkir ásamt allskonar öðruvísi frelsi. Í öngum sínum drekkur hann sig fullan og keyrir út í óvissuna, lendir í slysi og missir minnið.
Þetta er ein af þeim myndum sem gerð er fyrir óskarsverðlaunin en ólíkt öðrum myndum af sömu gerð, vantar eitthvað uppá hjá þessari. Leikararnir standa sig bærilega en söguþráðurinn er ævintýrakenndur. Þetta er samt þægileg mynd og Jim Carrey stendur sig alltaf vel. Síðasti hálftíminn er einn væmnasti kafli í mynd sem ég hef séð en ég fer ekki nánar út í það, enda orðinn klökkur bara á því að nefna það. 2 stjörnur af 4.

mánudagur, 19. maí 2003

Mér finnst alltaf jafn skondið að sjá skák í bíómyndum. Ef staðan er ekki gjörsamlega út í hött, t.d. peð upp í borði eða báðir biskuparnir af sama lit á samlita reitum, þá er skákinni alveg að ljúka og ekki með því að annar gefur eða með jafntefli heldur í hvert einasta skipti með máti. Mátið kemur iðulega á óvart og taparinn er alltaf agndofa. Óvænt mát eru mjög sjaldgæf meðal fólks sem kann mannganginn. Venjulega er mátið yfirvofandi eða staðan það vonlaus fyrir annan að hann gefur hana. Gott dæmi um þetta er atriði úr einhverri bíómynd sem er það ómerkileg að ég nennti ekki að muna nafnið á. Í þeirri mynd skákar hvítur upp í borði með drottningu en þá kemur ótrúlegasti gagnleikur sem sögur fara af; svartur leikur hrók og mátar andstæðinginn án þess að virða skák drottningarinnar. Það ætti ekki að vera erfitt að fá eina manneskju til að leiðbeina leikstjóranum við gerð skáksena í bíómyndum. Það kunna þetta nánast allir.

Ég rakst svo á merkilegt taflsett sem var til sölu í BT um jólin síðustu. Ég skoðaði umbúðirnar vandlega og tók þá eftir stöðunni sem var á borðinu. Kóngarnir voru hlið við hlið, 2 peð voru upp í borði og allir 4 biskuparnir á samlita reitum. Það hefði sennilega verið of mikið vandamál fyrir fíflið sem gerði þetta að raða bara í upphafstöðuna því hann hefur örugglega ekki kunnað það.

Ég verð að róa mig niður eftir að hafa rifjað allt þetta upp. Sigur Rós er sett á fóninn.
Við fórum hvorki meira né minna en 10 manns í körfubolta í gærkvöldi á Hallormsstöðum. Körfuboltinn var skemmtilegur og mórallinn góður (ég hefði þó mátt vera í betra skapi). Þessu lauk um kl 23:00 sem olli því að ég svaf yfir mig í vinnuna í morgun, sem er í fínu lagi því ég vinn það af mér seinna í dag.

Ég var svo vitlaus að panta mér klippingu í dag á sama stað og síðast. Þar með ætla ég að fara aftur í gyn ljónsins því fyrir ca mánuði drullaði ég yfir klippinguna mína eftir að hafa farið þangað. Sjáum til hvort ég verði ekki með Ómar Ragnarsson klippinguna í kvöld, þeas ef einhver á þessari klippistofu les þessa síðu.
Styrmir bróðir benti mér á þetta. Hann rakst á þetta hérna og þeir rákust á þetta hérna. Ef Íslendingur verður draftaður í NBA þá verður allt vitlaust á Íslandi. Þið lásuð það fyrst hér.

sunnudagur, 18. maí 2003

Þá er flutningum lokið. Á föstudaginn eftir vinnu var hafist handa við að flytja draslið yfir í nýju íbúðina til kl ca 00:30 með aðstoð Jökuls nokkurs Óttars sem kom askvaðandi í matarhléinu sínu og tók stærstu hlutina í stærðarinnar bifreið. Daginn eftir vöknuðum við eldsnemma (10:30 ca) og héldum áfram flutningum. Miriam Fissers kom svo kl ca 14:00 og hófust þá þrif. Ég stend í ævarandi skuld við Miriam fyrir hjálpina en hún stóð sig mjög vel, betur en við vitleysingarnir. Garðar mætti svo síðar og aðstoðaði við þrif og þakka ég honum hérmeð opinberlega. Miriam, Jökli og Garðari skulda ég greiða.

Um kvöldið ætlaði ég svo að elda ofan í þá sem hjálpuðu en sökum gríðarlegra tafa varð lítið úr því. Ýmislegt vantaði í eldhúsið og varð ég því að skjótast til móður minnar til að fá lánað ýmislegt. Miriam tók því við eldamennskunni og gerði mig að fífli en það er allt í lagi. Um kl 23:00 átum við svo dýrindis máltíð með rauðvíni og öllu tilheyrandi, nema ég gleymdi hvítlauksbrauðinu.

Ég skrifa þetta í tölvuna hans Helga bróðir því nýja íbúðin er netlaus. Það líður þó ekki á löngu þar til ADSL tenging verður komin þar á og allt verður iðandi af lífi. Nýja íbúðin er annars mjög þægileg og að mörgu leyti mun betri en kjallarinn í Tjarnarlöndum, ef ekki er talið með að það vantar ca 2 cm upp á að ég snerti loftið með hausnum.

föstudagur, 16. maí 2003

Ég rakst á enn eina sannleikssíðu á netinu. Þar eru alvöru fréttir birtar en ekki fegraðar fréttir sem birtast t.d. á FOX stöðinni. Einnig er bent á rangfærslur hér og þar. Mæli sterklega með þessari síðu.

Núna er ég farinn í helgina. Góðar stundir.
Ef þú blandar saman tónlist PUSA (þegar voru upp á sitt besta), The Hives og Nirvana færðu eitthvað svipað og The White Stripes eru að spila. Fékk diskinn 'White blood cells' með þeim lánaðan hjá yfirmanni mínum og hef nú hlustað á hann ca 5 sinnum á 3 dögum. Öll lögin eru góð, þó 1 eða 2 hefði mátt laga og lengja talsvert að mínu mati. Ég er jafnvel að spá í að kópera diskinn og kaupa mér 'Elephant' sem var að koma út nýlega.
Síðasta nóttin í Tjarnarlöndunum að baki. Í dag munum við, ef allt gengur eftir, flytja allt okkar yfir í Hjarðarhlíð. Á morgun verður íbúðin svo þrifin við mikla stemningu og fyrir þá sem hjálpa ætla ég að elda eitthvað einfalt og gott síðar um kvöldið í nýju íbúðinni. Þar verður líklega drukkið eitthvað áfengt en því stillt í hóf að sjálfsögðu.

Netlaus kjallari (til að byrja með) og skemmtilegir dagar framundan. Góða helgi.

fimmtudagur, 15. maí 2003

Ég mæli með því að fólk kíki á heimasíðu hljómsveitarinnar Tvö Dónaleg Haust en í henni eru m.a. austfirskir piltungar að nafni Óli Rúnar Jónsson og Einar Sævarsson. Hljómsveitin hefur látið að sér kveða víða síðasta árið, þar á meðal í djúpu lauginni, sem tónlistaratriði auðvitað og á skjá einum í óstöðvandi tónlist með myndband við lagið Óvart sem þið getið einmitt niðurhlaðið hér. Að vísu fékk ég leyfi fyrir því að setja hlekk á lagið svo þið eruð ekki að brjóta lög með því að hlusta á það, því miður. Hér getið þið svo lesið textann og trallað með.

miðvikudagur, 14. maí 2003

Þar sem ég er sagður vera svolítið forvitinn þá ætla ég að ýta undir þann orðróm með því að henda inn hérna smá könnun. Í þessari könunn getið þið kosið einu sinni og valið alla 5 möguleikana í einu, þó að "Ekkert" eigi ekki heima nema eitt og sér auðvitað.

Smelltu hér til að taka þátt.
Ég held að Egils ölgerðin eigi skilið að fá heimsins bestu verðlaun fyrir markaðsetningu á Egils Kristal drykknum. Fólk á Ísland, af öllum stöðum í heiminum, er að borga ca 120-150 krónur fyrir hálfan lítra af kolsýrðu uppþvottavatni. Ég hef aldrei keypt Egils Kristal en fengið að bragða á þessum ósköpum einu sinni eða tvisvar. Þetta er einn versti drykkur sem ég hef smakkað um ævina á eftir kaffi sem alltaf mun halda fyrsta sætinu og Brennivíni. Þetta er að vísu hollt en vatn er það líka og það er hægt að fá ókeypis úr krönum landsins, án kolsýrunnar sem gerir uppþvottavatnið jafnvel verra.
Eiríkur frændi minn skrifaði þessa grein um launahækkun æðstu manna hér í landi. Auðvitað er ég sammála honum, eins og ca 98% landsmanna. Með þessari grein frá Eika fylgir þetta frá Baggalútur punktur is. Þið kusuð þetta yfir ykkur nefaparnir ykkar.

þriðjudagur, 13. maí 2003

Var að bæta við flokki hér til hægri fyrir lög sem ég hef bent fólki á hérna á síðunni. Með því að hægri smella á hlekkina og velja 'save target as...' getið þið eignað ykkur lagið. Skringileg tilviljun að öll 5 lögin byrja annað hvort á M eða V. Sennilega eitthvað í undirmeðvitundinni minni. Þið megið koma með kenningar í athugasemdirnar hér fyrir neðan.
Nú eru bandaríkin að gefast upp á því að finna gjöreyðingarvopn í Írak. Hver ætli ástæðan hafi verið fyrir stríðinu þá? Bandaríkjamenn og Bretar sögðu hana vera gjöreyðingarvopn. Skulda þær þjóðir sem stóðu á bakvið þetta ekki afsökunnarbeiðni amk? Hér getið þið lesið grein um þetta.
Í dag er "spilum bara leiðinleg lög" dagurinn á rás 2. Hrafndís sem er á morgnanna hélt sig við leiðinlegu lögin sem hún spilar oftast. Eftir hádegi tók svo Óli Palli við og hefur þegar hingað er komið aðeins spilað leiðinleg lög, m.a. með Celine Dion, Cardigans, Iron Maiden og Siggu Beinteins. Það vantar bara Leoncie til að gera þennan dag leiðinlegasta tónlistardag í sögu útvarps á Íslandi.
Það er því heppilegt fyrir mig að ég skuli vera með diska á borð við 'White blood cells' með The white stripes, 'Discovery' með Daft Punk og auðvitað 'Best of Nick Cave & the bad seeds' í tölvunni til að bjarga geðheilsu minni.
Það má búast við hörkurifrildi hér fyrir neðan í athugasemdunum frá Iron Maiden og Siggu Beinteins aðdáendum.
Í gærkvöldi sá ég óvænt myndina 'Master of Disguise' með Dana Carvey í aðalhlutverki. Kynningin á myndinni er nokkuð spaugileg en hún gefur ekki í skyn hversu fáránlega ömurleg þessi mynd er. Ef þið hafið verið svo óheppin að sjá myndina 'The Pest', sem er versta mynd sem ég hef séð um ævina, þá vitiði ca um hvað hún snýst. Master of Disguise er sambland af verulega slæmum aulabröndurum og vitleysislegum fíflagangi. Það sorglegasta við myndina var að ég gat ekki hætt að hlægja, því brandararnir eru svo gjörsamlega út í hött.
Dæmi um atriði: Dana Carvey er mikið fyrir stelpur með stóra rassa í myndinni. Þegar hann og afi hans eru úti að labba í myndinni, borðandi ís í brauðformi sjá þeir aftan á síðhærða, feita manneskju með risarass og hund í eftirdragi. Þá segir afinn "Þetta gæti verið konan fyrir þig" og Dana Carvey tekur undir það. Þá snýr manneskjan sér við og í ljós kemur að þetta er skeggjaður karlmaður. Þeir kumpánar verða hvumsa og stinga þess vegna öllum ísnum upp í munninn, nema brauðforminu. Atriðið búið. Það liðu ca 4-5 sekúndur þar til ég, Björgvin og Andri vopnfirðingur sprungum úr hlátri.

mánudagur, 12. maí 2003

Í gær sá ég magnaða auglýsingu í sjónvarpinu fyrir kvikmynd sem sýnd er í háskólabíói um þessar mundir, ef ég man rétt. Textinn í auglýsingunni er eitthvað á þessa leið: "Sennilega eina og besta erótíska myndin um munka frá Tíbet sem þú munt sjá á árinu". Annað hvort er maðurinn sem samdi þetta einn af fyndnari mönnum samtímans eða hann er bara vitleysingur. Til að byrja með; hver hefur áhuga á að sjá mynd um munka frá Tíbet, hvað þá erótíska? Í öðru lagi; þetta væri ekki eina myndin af þessari gerð sem ég sæi á árinu, heldur á ævinni. Í þriðja lagi: Ef þetta er eina erótíska myndin um munka, þá er hún örugglega besta erótíska myndin um munka, jafnframt sú leiðinlegasta og svo framvegis.
Betra væri að auglýsa þetta sem einstakt tækifæri því það mun aldrei aftur vera gerð önnur svona mynd, hvað þá að hún nái í kvikmyndahús á Íslandi.
Annars hef ég ekkert á móti munkum eða Tíbetbúum, svo lengi sem þeir gera ekki bíómyndir um erótíska munka.
Ég vil þakka kærlega þeim 5 sem sendu mér sms um daginn þegar ég hvatti fólk til þess. Flest voru þau ómerkt, send frá vit.is en það er auðvitað í lagi líka. Kærar þakkir.

sunnudagur, 11. maí 2003

Á myndasíðunni eru núna rúmlega 250 myndir allt í allt. Rétt í þessu var ég að bæta við 22 myndum þar úr sumarbústaðateiti einu sem haldið var nýlega af einhverjum. Munið að leyfa síðunni að hlaðast í ca 2-5 mínútur áður en þið skrifið ummæli. Takk fyrir.
Í gær keypti ég m.a. skó sem ég hyggst nota á djammið og jafnvel dags daglega. Þarmeð líkur valdatíð skónna sem ég hef notað í rúm 3 ár við göngutúra jafnt sem skemmtanalíf. Þá keypti ég í mars 2000 í Krummafæti sem nú er löngu farinn á hausinn. Þeir voru upp á sitt besta þegar ég stundaði nám í Háskóla Íslands haustið 2000 en þá gekk ég rúma 4 kílómetra daglega í þeim. Þeir lifðu einnig af tvo vetur í næturvörslu á hótel héraði, hvort sem ég gekk í vinnuna í snjó eða rigningu. Skórnir hafa hjálpað mér í gegnum súrt og sætt en nú er tímabil þeirra að líða undir lok. Þeir líta út fyrir að vera nýjir enn í dag en hér getið þið séð mynd af þeim. Blóm og kransar eru vel þegnir.
Ferðin til Akureyrar tókst fullkomlega ef ekki er talið með að þriðji hjólkoppurinn flaug af á miðri leið til baka. Áætlanirnar tvær hér fyrir neðan blönduðust aðeins og úr varð fín ferð. Við töfðumst talsvert og lögðum ekki af stað fyrr en að verða 11:30 en vorum bara tvo og hálfan tíma á hvorri leið þannig að þar sparaðist talsverður tími. Ég held ég hafi verslað fyrir samtals um kr. 25.000 enda ekki keypt mér föt í háa herrans tíð sökum fátæktar og slæmra fjárfestinga. Þegar verslunarleiðangri var lokið tókum við bræður okkur til og fórum á kvikmyndasýningu. Fyrir valinu var myndin X-men II og engin eftirsjá þar. Myndin er spennandi, vel gerð og á tímabili erótísk, en þó ekki nægilega. 3 stjörnur af 4 mögulegum. Spurning um að hækka hana upp í þrjár og hálfa stjörnu fyrir að vera með áróður gegn heimsvaldastefnu bandaríkjamanna.

Allir annars úti á lífinu í kvöld, nema ég sem bara horfi á myndbönd á skjá einum. Næsta djamm hjá mér verður hinsvegar um næstu helgi þegar við bræður flytjum úr þessum kjallara yfir í annan. Þarnæsta drykkja hjá mér og flestum öðrum sem ég kýs að þekkja er 24. maí næstkomandi þegar Eurovision verður haldið hátíðlegt ásamt því að útskrift úr Menntaskólanum á Egilsstöðum fer fram við mikla drykkju.

laugardagur, 10. maí 2003

Í dag ætlum við Björgvin að gera nýstárlega tilraun. Við ætlum að fara á nýja bílnum mínum (sem ég hef átt núna í 4 mánuði) og keyra á honum til Akureyrar. Ekki nóg með það heldur ætlum við líka að versla okkur föt, mat og annað skemmtileg. Gróf áætlun ferðarinnar hljómar eitthvað á þessa leið:

10:00: Kjósa X-U að sjálfsögðu.
10:10: Versla eitthvað til að borða á leiðinni norður.
10:20: Leggja af stað.
14:00: Byrja að versla.
16:00: Fá okkur subway.
17:00: Bíó. Í bíóinu ætla ég að brjóta blað í sögu hössls með því að hössla 2 stelpur amk.
19:10: Leggja af stað heim.

Ég held samt að ferðin verði svona:

10:20: Kjósum X-U en náum að gera seðilinn ógildan einhvernveginn.
10:50: Versla eitthvað en gleyma drykkjunum.
11:30: Leggja af stað.
13:50: Bíllinn springur í loft upp á miðri leið.

Sjáum til.

föstudagur, 9. maí 2003

Ég var að troða saman annari gerð af þessari síðu. Hér getið þið séð hana. Ef þið viljið að ég breyti henni í þetta til frambúðar, skrifið það í athugasemdirnar hér fyrir neðan. Ykkar álit skiptir máli, og þó.
Lífleg umræða hefur skapast um stjórnmál í athugasemdunum á þessari síðu. Mönnum er oft heitt í hamsi og vil ég minna á að þetta er allt í góðu, allavega frá minni hálfu þó að oft verði ég æstur. Til að róa mig niður spila ég því þessa stundina diskinn Murder Ballads með Nick Cave & the bad seeds um leið og ég dunda mér við að rista í húðina á mér "X-U". Með þessu hlæ svo þægilegum, rólegum hlátri.

Nýja lagið með Radiohead, "There there" er að mínu mati verulega grípandi og verður betra með tímanum. Ég hef aldrei verið sérstaklega mikið fyrir Radiohead þó mér finnist mörg lög með þeim mjög góð en þetta lag fangaði mig. Húrra fyrir því.

fimmtudagur, 8. maí 2003

Í dag er þessi síða tvöhundruð og sautján daga gömul. Ég byrjaði með hana 3. október 2002 og reiknið nú. Blómvendir og peningar eru vel þegnir að þessu tilefni.
Það var í gær sem ég tók mig til og bölvaði heiminum í sand og ösku, einu sinni sem oftar. Í þetta sinn var ástæðan sú að 2 vikur höfðu liðið án þess að ég fengi svo mikið sem 1 sms sent í símann minn. Það er reyndar alveg skiljanlegt því ég sendi aldrei neinum skilaboð og hringi sjaldnast í neinn. Þegar þetta er ritað hef ég ekki átt innistæðu í langan tíma, það gæti verið að ég hafi ekki átt innistæðu í mánuð. En allavega, rúmum sólarhringi síðar hef ég fengið hvorki meira né minna en 4 sms, allt frá stelpum (1 frá systir minni að vísu) og öll skemmtileg. Að fá sms getur verið mjög gaman. Þess vegna vil ég hvetja sem flesta til að senda mér sms hér eða bara í gegnum símann sinn.

Ég hef líka lagað hlekkinn hérna upp til hægri, svo þið getið sent mér sms hvenær sem er sólarhringsins en þessi hlekkur hefur verið bilaður síðan tal.is sameinaðist einhverju fyrirtæki og myndaði Og Vodafone
Fólk segir stundum „George W. Bush getur varla verið svo vitlaus fyrst hann er forseti“. Hérmeð afsannast það. Staðreyndirnar tala sínu máli.

miðvikudagur, 7. maí 2003

Jæja gott fólk. Síðstu 4 tímana hef ég verið að troða saman nýju útliti á dagbókarfærslusíðu (bloggið) þessa. Fyrst ætla ég þó að fá álit ykkar, þeas hvort þið viljið breytingu eða ekki. Hér getið þið séð nýja útlitið og fyrir neðan kjósið þið. ATH. allar færslurnar hingað til munu færast inn á þetta ef ég mun breyta.

Smelltu hér til að taka þátt.
Í gær var enn einu sinni farið í körfubolta í íþróttahúsi Hallormsstaða. Tekinn var inn nýr hópur en í stað Sigfúsar, Hjálmars og Jökuls komu Árni Berúlfur, Skúli fógeti og Eiríkur Stefán. Körfuboltinn var stórskemmtilegur og spiluðum við í rúma 2 tíma að þessu sinni.

Og þá í allt annað. Ég var rétt í þessu að loka óvart einum af fjölmörgum gluggum í tölvunni sem ég vinn í í vinnunni en ég hef ekki hugmynd hvaða gluggi það var. Ekki laust við að skelfing hafi gripið um sig hjá mér. Hvað ef þetta var mikilvægur gluggi? Hvað ef þetta hafi verið eitthvað sem ég gæti þurft að nota síðar?

Þessi atburður er aðeins toppurinn af ísjakanum því það gerist ýmislegt neyðarlegt og/eða sniðugt í vinnunni sem þið fáið ekki að frétta, þangað til núna ykkur eflaust til mikillar gleði.
Mér leikur forvitni á að vita hvaða skeggapa datt í hug að setja ekki eina heldur tvær hraðahindranir í Selásinn, götuna sem ég vinn í. Ekki nóg með að önnur þeirra sé án viðvörunnar heldur er hin sett upp óvænt en skiltin sem segja til um að þarna sé hraðahindrum hafa staðið í götunni í marga mánuði, sem gerir það af verkum að fólk reiknar ekki með hraðahindrun þarna þegar hún loksins kemur, hvað þá tvemur. Þetta er ekki allt því hraðahindranirnar tvær eru þær leiðinlegustu sem um getur. Þær eru gerðar úr járni, valda gríðarlegu hossi þó litlar séu og gætu skemmt bíla án efa ef fólk hægir ekki á sér.

Til að komast í betra skap kíkti ég á baggalút, sá þessa frétt og ákvað að deila með ykkur.

þriðjudagur, 6. maí 2003

Gleymdi að segja frá því að við Björgvin kíktum á nýju íbúðina á sunnudaginn. Hörkuíbúð með fínum herbergjum og ágætis plássi. Spurning hvort þar sé að finna símalínu, ef ekki þá verð ég víst netlaus í sumar utan vinnunnar sem þýðir færri myndir og minna um dagbókarfærslur. Áætlaður innflutningur er helgin 16.-18. maí næstkomandi.
Þessa stundina eru nokkur atriði sem ég skil lítið í. Þessi atriði eiga það öll sameiginlegt að vera tilgangslaus. Hér eru þau:

1. Hádegisleikfimin á stöð 2. Byrjar kl 12:25 ca og er til 12:35. Í fyrsta lagi, hver hreyfir sig í 10 mínútur? Í öðru lagi, hver hreyfir sig í hádeginu með magann fullan af mat? Í þriðja lagi, hver hreyfir sig fyrir framan sjónvarpið?
2. Fermingar. Til hvers í ósköpunum? Staðfesta skírnina? Og hvað?
3. Orðið "Alfarið" í sömu meiningu og "alveg". Dæmi: „Þessi ákvörðun er tekin alfarið á mína ábyrgð“. Af hverju ekki nota bara orðið "alveg"?
4. Innanbæjarslúður. Botna bara ekki í hvað er spennandi við það.
5. Kaffihús og kaffihúsapakk. Af hverju að sitja í óþægilegum stólum, borga alltof hátt verð fyrir kaffi eða aðra þjónustu og kafna úr sígarettureyk þegar hægt er að vera heima og sleppa við öll óþægindin?
6. Dans. Eins og áður segir; það dansar enginn edrú eða óbrjálaður.
7. Trú. Tæknin hefur gert hana tilgangslausa, a.m.k. fyrir mig.
8. Reykingar. Nokkrar ástæður fyrir því að reykja ekki. 1. Reykingar drepa, ekki bara vitleysinginn sem reykir heldur alla nálægt. 2. Gular tennir og mikil andfýla. 3. Verulega slæm lykt af reykingarmanni, fötum hans og allra í kringum reykingar. 4. Úthald minnkar mikið. 5. Hrukkur koma fyrr, þ.m.t. appelsínuhúðin. 6. Lækkar verð bíla ef þú reykir í honum, sama má segja um íbúðir. Lyktin næst seint úr. Ástæðan með reykingum: „Þetta er svo gott“.
9. Blogg. Af hverju ætti fólk að vilja lesa hugsanir annarra? Ó...

Man ekki eftir fleiri atriðum í augnablikinu.

mánudagur, 5. maí 2003

Í gær, sunnudaginn 4. maí 2003 gerðist eitthvað sem aldrei hefur áður gerst í mínu litla lífi. Ég keypti rauðan bol og það sem meira er, ég er í honum þegar þetta er ritað. Hingað til hef ég keypt ýmist gráa, dökkbláa eða svarta boli en málstaðurinn fékk mig til að versla þennan lit. Bolinn fékk ég á litlar þúsund krónur í verslun og kosningaskrifstofu vinstri grænna, Fellabæ. Ég vona að þessi kaup mín fái ekki þröngsýna til að fordæma mig. Lengi lifi tjáningarfrelsið!
Það gleður mig að tilkynna að í vikunni sem var að líða (talið frá mánudegi til mánudags) var þessi síða heimsótt hvorki meira né minna en 341 sinni eða 48,7 sinnum á dag. Þetta er mesta aðsóknarvikan hingað til fyrir utan viku í janúar þegar ég fékk hlekk á mig á batman.is, og í kjölfarið mættu um 1200 manns á 2 dögum. Næst aðsóknarmesta vikan var akkúrat fyrir 2 mánuðum, eða í byrjun mars. Þá mættu 336. Ég nota auðvitað tækifærið og þakka öllum þeim sem lesa vitleysuna á þessari síðu en þó sérstaklega þeim sem skrifa í ummælin fyrir neðan hverja færslu. Það gleður alltaf mitt kalda hjarta að sjá fólk skrifa eitthvað sniðugt.
Í gær fórum við í körfubolta í íþróttahúsi Hallormsstaða. Í fyrsta sinn í langan tíma skemmti ég mér bærilega þrátt fyrir að tapa, enn eina ferðina. Að sjálfsögðu fór ég í öðru John Stockton vestinu mínu í tilefni af því að hann var að hætta, eins og kannski einhverjir sem lesa þessa síðu hafa tekið eftir. Ég fékk myndarlegt olnbogaskot í hausinn þegar leikurinn stóð sem hæst, rétt eins og Stockton fékk fyrir nokkrum árum frá Chris Webber. Þetta var þó ekki jafn mikið högg og ég komst óskaddaður frá þessu, aldrei þessu vant.
Sá svo síðasta klukkutímann af changing lanes með Ben Affleck og Samuel L. Jackson í aðalhlutverkum. Myndin er frekar sérstök í myndatöku og söguþráðurinn er svolítið skrítinn. Ákvarðanir söguhetjanna eru furðulegar og nánast óskiljanlegar oft, jafnvel barnalegar sem gera þessa mynd frekar slappa. Samuel L. Jackson er, eins og alltaf, góður í hlutverki óvirks alkohólista sem er að missa börnin sín. Get lítið sagt meira um þessa mynd þar sem ég sá ekki byrjunina.

sunnudagur, 4. maí 2003

Afsakið dagbókarfærsluleysið.

Í gærkvöldi skrifaði ég full harðort bréf til íþróttadeildar mbl.is og skammaði þá illilega fyrir að skrifa ekki svo mikið sem eina smágrein um goðið John Stockton sem hætti nú nýlega að spila körfubolta, mér til mikillar sorgar. Ég þurfti að bíða í heila 6 tíma þar til þeir voru búnir að snara sama þessari grein um John Stockton á mbl.is og ennfremur skrifað mér bréf þess efnis að á mánudaginn (morgun) mun stærðarinnar grein um tvíeikið stórkostlega, John Stockton og Karl Malone í Utah Jazz birtast í morgunblaðinu, íþrótta hlutanum.

Það má eiginlega segja að ég sé hetja allra þeirra sem halda upp á Utah Jazz í dag.

laugardagur, 3. maí 2003





Var að lesa rétt í þessu að John Stockton, besti bakvörður allra tíma í körfubolta og leikmaður Utah Jazz, var að lýsa því yfir að hann væri hættur. Ég er með tárin í augunum og mun lítið sofa í nótt. Maðurinn er orðinn 41s árs gamall og er enn með þeim bestu. Þetta er frekar mikið högg fyrir mig og alla aðdáendur alvöru körfubolta þar sem engin leikmaður mun nokkurntíman koma með tærnar þar sem Stockton var með hælana. Hógværð hans var til fyrirmyndar svo ekki sé minnst á stórkostlegan hæfileika til að gera meðspilara sína betri.
Að því tilefni eru hér myndir af Stockton, ferilskráin hans, ummæli frá aðdáendum hans þegar þeir fréttu þetta og fréttamannafundurinn þar sem hann tilkynnti þetta. Einn sorglegasti dagur sem ég hef upplifað er runninn upp.

Á fréttamannafundi Stocktons:

Question – What has it meant to you to be here for 19 years and have such a wonderful career?
John – You have got to stop asking me these tough questions because I have to get through this.
Ég er ekki oft rómantískur en hef ákveðið að breyta svolítið til í kvöld og bjóða öllum sætu stelpunum þarna úti upp á fallegt lag sem kemur beint frá hjarta mínu. Það er aðeins 1,5 mb og tekur því enga stund að niðurhlaðast. Þið getið annað hvort smellt hér og hlustað á það eða hægrismellt hér og valið "save target as..." til að eiga það. Stelpur, þetta er mitt lag til ykkar.
Sumt fólk hefur verið að hringja í mig síðustu daga, vikur og mánuði og hrósað mér fyrir að vera með fallegt og ómþýtt nef. Það hryggir mig mikið að tilkynna ykkur að sá barnslegi þokki sem nefið færði andliti mínu er horfinn á braut. Hann yfirgaf andlitið klukkan 23:37 í kvöld að staðartíma með rakvélablaði sem sveif létt yfir andlitið á mér við ljúfan Nick Cave söng sem ómaði í hausnum á mér. Ég semsagt skar mig á nefinu við rakstur og er að leita á netinu að einhverjum sem hefur tekist þetta líka. Sjaldan hef ég séð jafn mikið blóð. Gæti þegið dömubindi núna sem tekur ca 2-3 lítra.

Með þessum orðum kynni ég til leiks frænda minn sem heitir Eiríkur Óli og er frá Eskifirði. Hann kann að heilla dömurnar og segir skemmtilegar skrítlur þegar svo ber undir. Hér getið þið fundið síðuna hans og hér er mynd af kauða. Fáir eru fyndnari en margir ljótari.

föstudagur, 2. maí 2003

Það virðist vera orðinn fastur liður í hverri viku hjá mér að sofa yfir mig að minnsta kosti einu sinni. Ekki nóg með það heldur virðist ég alltaf hafa sofið á krumpu í koddanum þegar það gerist sem veldur því að ég fæ skemmtilegt eldrautt munstur í andlitið einhversstaðar sem fer ekki fyrr en seint og síðar meir, jafnvel ekki fyrr en á hádegi (þeas ef ég hef ekki sofið framyfir hádegi). Þetta munstur getur verið margvíslegt og í morgun náði ég þeim árangri að sofa á eins krumpu og sjá má í andlitinu á ný-sjálensku mönnunum í once were warriors. Hér má sjá mynd af krumpu morgunsins, sem enn lifir góðu lífi klukkan 10:35.
Er sallarólegur að hlusta á Lynard Skynard raula um sæta heimilið í Alabama. Eina góða kauntrílagið sem ég hef heyrt. Í kvöld horfði ég á Sorority boys með Gylfa, Björgvini og Eiríki Stefáni. Myndin er, nokkuð óvænt, frekar fyndin á köflum. Auðvitað er hún klisjukennd en það þarf ekki að vera slæmt ef maður býst ekki við miklu. Leikararnir eru fínir en það vantaði þó áþreifanlega meiri nekt. 2 stjörnur af 4.

Úr einu í annað. Það lítur út fyrir að ég og Björgvin séum komnir með íbúð í sumar. Þetta eru stórkostlegar fréttir og komu mjög á óvart þar sem eitthvað svona gengur mjög sjaldan upp hjá okkur bræðrunum. Þetta þýðir aðeins eitt; það verður innflutningsteiti á næsta leyti. Hafði planað að fá einhverja vini á góðum laugardegi í að hjálpa smá til með þessa íbúð, þeas að flytja allt draslið á milli og ýmislegt annað en í staðinn myndi ég elda fyrir vinina um kvöldið og djamma, svona eins og í bíómyndunum. Pant vera Pee Wee Herman.

fimmtudagur, 1. maí 2003

Tveir og hálfur tími af körfubolta að baki og mér finnst ég vera sjötugur. Gylfi Þór er í bænum og að því tilefni farið í körfubolta. Að sjálfsögðu var tekin smá myndasería áður sem birt verður innan skamms en þar komu við sögu hárkollur, skapahár og geðsjúklingar.

Sjaldan hef ég kynnst annari eins ritstíflu og hrjáir mig núna. Það er aðeins eitt við því að gera, þegja.
Nú hef ég loksins lokið við að bæta við myndum á myndasíðuna. Að þessu sinni voru það fáar myndir frá síðustu ca 6 vikunum í lífi mínu. Alls um 10 myndir sem þýðir að síðan er fljót að hlaðast.

Þá er ekki fleira í þættinum að sinni. Veriði sæl.