Eurovision og útskrift að baki og frá ýmislegu að segja. Útskriftin var haldin að þessu sinni í íþróttahúsinu og gekk hún vel. Björgvin fékk viðurkenningu fyrir glæsilega baráttu sína fyrir skákíþróttinni og fyrir að vekja athygli á ljóðlistinni. Eftir þessa samankomu var farið í Menntaskólann og kökur étnar. Því næst í Fellabæinn en þar hafði mamma smá samankomu sem heppnaðist vel. Upp úr klukkan ca 6:30 fórum við Björgvin svo í bústað til að horfa á Eurovision en þangað átti að mæta lokaður hópur vina og kunningja ásamt nokkrum tonnum af áfengi. Í bústaðinn mættu of margir, ýmsu var hellt niður og myndir teknar eins og venjulega. Ég mun birta þær síðar í vikunni. Eurovision gekk vel fyrir Íslendinga og var smá veðmál í gangi í bústaðnum um það í hvaða sæti Ísland myndi verða. Björgvin sigraði það örugglega, spáði 9. sæti sem var næst en Ísland lenti í 8.-9. sæti. Var að ljúka við að framkalla myndirnar og þær eru frekar slappar. Nokkrar eru þó nothæfar.
Fyrir einhverja einskæra heppni náði ég á ball (Þakka þér kærlega, Jón), en þangað hefði ég betur ekki farið. Ég eyddi, eins og venjulega, of miklum peningi og gerði mig sennilega að fífli. Hljómsveitin Tvö dónaleg haust spiluðu og var hún mjög góð, tóku m.a. Luftgítar og sló í gegn held ég örugglega. Ég var meira að segja svo heppinn að fá eiginhandaáritun frá engum öðrum en Óla Rúnari, gítarleika og athafnamanni. Einhversstaðar í nóttinni tók ég mér samt pásu á dansiballinu og fór á Kaffi Níelsen með Garðari. Þar fengum við okkur súkkulaðitertusneið með ískaldri nýmjólk. Ég veit ekki af hverju en það hljómaði eins og snilldarhugmynd á þeim tíma. Piltungur nokkur spjallaði við mig á ballinu og sagðist lesa síðuna mína og lofaði ég honum í staðinn að nefna hann hérna. Það er mér heiður að nefna þig hérmeð. Takk fyrir að lesa, Ívar.
Í dag hef ég verið að berjast við að koma áfenginu úr líkamanum með öllum tiltækum ráðum ásamt því að þrífa bústað. Takk fyrir hjálpina Helgi og Björgvin. Ég stóð þá ekki einn á bakvið þetta teit eftir allt saman. Það hefðu líka fleiri mátt greiða í púkkið sem var fyrir þennan samastað en ég tek tapið á mig eins og við er að búast. Ólíklegt að þessi leikur verði nokkurntíman endurtekinn, ekki af minni hálfu allavega.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.