sunnudagur, 17. janúar 2010

Í kvöld fór ég í bíó á myndina Sherlock Holmes.

Löng saga stutt: Þættirnir House plús ofbeldi = Sherlock Holmes. Þar sem ég er aðdáandi þáttanna um House þá gef ég myndinni þrjár stjörnur af fjórum.

Ég læt bíóferðir hljóma auðveldar, sem þær eru alls ekki. Hér eru nokkrar reglur sem ég hef skrifaðar á miða og tek með mér:

  • Kauptu miðana á netinu og láttu senda þér þá sem MMS skilaboð í símann. Þannig þarftu ekki að bíða eins og fífl í röð í miðasölunni, ert hipp og kúl og sparar pappírinn. Stundum er líka netafsláttur af miðum.

  • Mættu í fötum í bíóið. Mjög mikilvægt!

  • Ef fjölmennt er í bíó er góð regla að fara strax í salinn og tryggja sér sæti. Ég skil oft yfirhöfn eftir í sætinu eða bið bíófélagann að sitja eftir. Ég býðst svo til að kaupa nammið (gegn vægu gjaldi).

  • Þegar gengið er í salinn, veldu lengstu leiðina að sætunum (t.d. ef hægri gangurinn er tvöfalt lengri en sá vinstri, farðu til hægri). Því lengra sem er að sætunum, því færri eru þar. Fólk er latt (og ógeðslegt). Fínt að vera í fámenni.

  • Fólk sest yfirleitt í miðju sætaraðarinnar. Ég sest því við endana til að vera í fámenni. Það er sérstaklega hentugt ef þú ætlar fyrst(ur) í sjoppuna í hlénu, en þá þarftu að vera snögg(ur) þegar hléið byrjar.

  • Fólk sest yfirleitt fyrir miðju salar. Passið að fara ekki of hátt, því þar eru ótillitsömu töffararnir yfirleitt. Ekki heldur of neðarlega. Þar er yfirleitt fólkið sem mætti of seint. Og það er ótillitsamt.

  • Gott er að setjast fyrir neðan miðjugang, ef miðjugang er að finna í salnum, svo enginn sitji fyrir aftan þig.

  • Þegar enginn er í næstu röð fyrir framan og fótaplássið er fáránlega lítið (fæturnir á þér ekki afbrigðilega langir!), er gott að leggja fæturnar á sætin fyrir framan, án þess þó að skíta þau út. Bannað er að stynja "ahhhh" þegar það er gert.

  • Ekki taka svefntöflu óvart í stað verkjatöflu áður en farið er í bíó með vini þínum sem þú hefur ekki hitt lengi. Hrotur eru ekki jafn vinsælar og ætla mætti.

  • Þegar gengið er út í fjölmenni, ekki tala við bíófélagann um að það hafi vantað kynlífssenu í myndina þegar hún er um feðga að draga fram lífið í miðjum heimsendi.
Ég gleymdi þessum miða einu sinni. Þið hafið líklega lesið um það á cnn.com.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.