Það tók fjórar tilraunir að komast austur þessi jólin:
4. tilraun: Ég lenti á Egilsstöðum í dag klukkan 14:00 fyrir tilstilli Flugfélags Íslands. Hér mun ég eyða jólum og áramótum. Sný aftur til Reykjavíkur 3. janúar næstkomandi.
3. tilraun: Ég flaug 75% af leiðinni til Egilsstaða í morgun. Flugvélin þurfti að snúa við vegna bilunnar þegar ég var rétt að byrja að verða flugveikur. Sennilega illa lokað húdd á flugvélinni. 90 mínútna flug til einskis.
2. tilraun: Ég reyndi að keyra bíl pabba vinar míns austur í gær. Á Hellisheiðinni opnaðist húddið* þegar ég var á 120 km hraða og lenti á framrúðunni sem brotnaði í tætlur (sennilega vegna öskra minna). Ég þurfti frá að hverfa og fór á körfuboltaæfingu og bíó í staðinn.
1. tilraun: Ég ætlaði að keyra bíl pabba vinar míns austur í fyrradag. En ég vaknaði mun verri af baktognun en ég var haldinn daginn áður, svo ég ákvað að fresta för þar til ég væri orðinn skárri.
Ég hlakka til að sjá hvernig ferðin til baka endar.
* Mögulega sök bensíntitts sem skipti tékkaði á olíunni fyrir för. Mögulega hönnunargalli. Mögulega Al-Qaeda.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.