fimmtudagur, 31. janúar 2008

Í dag lenti ég í heilmiklum ævintýrum.

Í nótt vaknaði ég fjórum sinnum og hélt ég væri að sofa yfir mig. Svo svaf ég yfir mig.

Í vinnunni gekk ég framhjá stelpu sem reyndi að heilsa mér tvisvar með "hæ"-i án þess að fá svar frá mér. Þá hækkaði hún röddina og kallaði svo á eftir mér "hæ" þegar ég var kominn í afgreiðslu mötuneytisins með augun föst á risahrauni. Þá tók ég eftir henni og heilsaði. Svona er ég mikill herramaður.

Eftir vinnu dansaði ég yfir í Dressmann þar sem ég ætlaði að kaupa mér buxur. Þar ég lenti ég á einum rosalegasta sölumanni sem ég hef hitt. Eða kynnst, svo góður var hann. Hann náði að selja mér hluti sem hélt ég myndi aldrei kaupa og láta mig gera hluti sem ég er ekki stoltur af.

Í kvöld ætlaði ég í ræktina en ákvað að fara í bíó í staðinn. Svo ákvað ég að nenna ekki í bíó, þannig að ég ætlaði að þrífa íbúðina, sem ég nennti ekki heldur. Þá ákvað ég að borða ekkert nammi. Það gekk illa. Þannig að ég ákvað að hlaupa bara um íbúðina í sykurvímu. Það gekk ágætlega.
Þetta (sjá myndband að neðan) ætla ég að fá mér! Ég er amk orðinn þreyttur á góðu-stráka útlitinu. Ótrúlegt að ég geti samræmt innri og ytri mann með einum gleraugum.



miðvikudagur, 30. janúar 2008

Fréttablogg!

* Þetta eru skelfilegar fréttir. Þýðir þetta að ég þurfi að setja vetrardekkin undir bílinn? Ég nenni því alls ekki. Ömurlegt.

* Til að taka af allan vafa þá er þetta ekki ég á þessari mynd. Jú, ég var með skeifuskegg um svipað leyti og greiddi hárið svona. Og já, ég var með of stóran gervitanngarð og var í Portúgal. Og já, stal einhverju barni*. En þetta er ekki ég á þessari mynd.

* Ef lögreglan er með vesen: þetta er grín.

þriðjudagur, 29. janúar 2008

Ég á erfitt með að lýsa því hversu illa mér er við orð. Mér er illa við þau af því það má túlka þau á alla vegu. Dæmi er samtal frá því um daginn:

[Tekið úr tilfinningaþrungnu samtali á msn]
Ég: Jó, votop?
x: Allt sæmilegt, en þú?
ég: sæmilegt? er ekki allt í lagi?
x: jú, ég sagði sæmilegt. Mér finnst það bara nokkuð gott.
ég: ó ;););(:(:(:/;/;/:(;;(:/:/

Þarna túlkaði ég líðanina "sæmilegt" sem eitthvað slæmt á meðan hinn aðilinn taldi það viðunandi líðan.

Ég legg, í kjölfarið, til breytingu á íslenska málinu; að fólk segi tölur á skalanum 0-10 um það hvernig því líður. 0 myndi tákna verstu mögulegu líðan og 10 þá bestu. Þannig hefði samtalið gengið betur upp:

Ég: Jó, votop?
x: bara 6,5. En þú?
ég: flott, gott að heyra. Ég segi 8,75.
x: frábært. Þá er ég komin upp í 7.
ég: og ég upp í 9.
x: :D
ég: :D:D:;(;););/(::(;););):

Allt gengur upp og enginn misskilningur!

Þetta má yfirfæra á hvað sem er. Meira um það síðar.

mánudagur, 28. janúar 2008

Ég held ég sé ávaxtarasisti. Ég vil amk alls ekki, undir neinum kringumstæðum, blanda saman mismunandi gerðum af ávöxtum svo úr verði "blandaður ávaxtasafi". Mér býður við tilhugsuninni.

sunnudagur, 27. janúar 2008

Ég heyrði nýlega einhvern segja að það verði aldrei neinn jafn góður og Jack Nicholson í hlutverki The Joker. Á yfirborðinu kinkaði ég kolli en innra með mér öskraði ég úr hlátri, vitandi af nýja náunganum sem leikur The Joker í Batmanmyndinni sem kemur út í sumar.

Hér er smá upprifjun:



Þetta er Jack Nicholson í hlutverki Jokersins. Alls ekki asnaleg múndering. Af henni að dæma er Sprellarinn (The Joker) miðaldra kelling sem er með blæti fyrir 1985 fötum.




Þetta er hinsvegar Heath Ledger í sama hlutverki, 19 árum síðar. Af þessu útliti að dæma er Sprellarinn geðsjúkur og viðbjóðslegur. Sem kannski lýsir þessum karakter betur.

Leitt að Heath Ledger hafi dáið um daginn, þar sem hann hefði endanlega komist á kortið yfir stórleikara eftir þetta hlutverk, þar sem hann flengir fyrrum Sprellara.

Ég vona að sem flestir séu sammála mér núna. Annars þarf að koma önnur færsla um þetta.
Í dag samþykkti ég að kenna stærðfræði í skiptum fyrir máltíð. Það eru, án nokkurs vafa, bestu skipti sem ég hef gert um ævina þar sem viðkomandi nemandi er mjög góður kokkur og ég er versti kennari landsins.

Til að koma ekki upp um hversu léleg skipti nemandinn gerði þá ætla ég að kvarta stanslaust undan matnum, jafnvel kasta upp.

laugardagur, 26. janúar 2008

Áætlun þessa laugardagskvölds hefur verið breytt lítillega í kjölfar smá neyðartilfellis.

Svo virðist sem mjólkin mín renni út á miðnætti en ég á ca 4 lítra með sömu "síðasti neysludagur" stimplun. Kvöldið fer því að drekka mjólk áður en hún rennur út í stað þess að fara í partí. Ég sem hlakkaði svo til að drekka áfengi*.

* ósatt.

föstudagur, 25. janúar 2008

Ég hef verið að vinna í ítarlegustu ævisögu allra tíma undanfarið sem ég hyggst gefa út rétt fyrir dauða minn eftir rúmlega 50 ár. Hér eru nokkrir kaflar úr bókinni:

14. kafli
Ég grét frekar mikið þennan daginn. Ég bætti það þó upp með svefni.

5.114. kafli
Þennan dag rakaði ég mig í fyrsta sinn og skar mig frekar illa. Ég huggaði mig við að ég ætti eftir að þjálfast í þessu og aldrei skera mig á fullorðinsárum. Sjaldan hefur nokkur maður haft jafn rangt fyrir sér.

10.773. kafli
Þennan snjóþunga dag hugsaði ég ekkert.


Talið er að bókin verði um 30.000 kaflar í tæplega 30 blaðsíðna bók. Harðspjalda.
Það hefur nóg gengið á undanfarið:

* Í gær hjálpaði ég til við flutninga frá kl. 18 til miðnættis. Það var mun skemmtilegra en það hljómar.
* Í dag fékk ég mér kleinuhring í morgunmat.

Eftir á að hyggja hefur ekkert svo mikið gerst.

fimmtudagur, 24. janúar 2008

Undanfarið hef ég barist hatursfullur við nammifíkn mín. Mér hefur verið bent á að hafa aðeins einn nammidag í viku, en að bíða heila viku eftir því að fá að borða nammi er mér um megn eða hefur verið það hingað til.

Ég ætla samt að taka upp þessa nammidagareglu, nema ég ætla að breyta henni lítillega.

Óbreytt nammidagareglan felur í sér að borða aðeins nammi einn dag í viku. Í einni viku eru 168 klukkutímar. Í einum (nammi)degi eru 24 klukkutímar, eða 1/7 úr viku, auðvitað.

Hér er breytingin:

Í stað þess að borða nammi sjöunda hvern dag (og borða þá nammi í sólarhring), hyggst ég borða nammi sjöunda hvern klukkutíma (og borða þá í eina klukkustund). Samtals mun ég því borða nammi í 24 klukkustundir á einni viku eða einn sólarhring.

Mér finnst líklegt að ég bugist undan fíkninni. Ef það gerist mun ég breyta reglunni í sjöundu hverja mínútu, sem gera 24 klukkutíma yfir vikuna.

miðvikudagur, 23. janúar 2008

Nammilausi dagurinn fer að nálgast en hann fer fram hvert einasta ár þegar mér hentar. Í ár fellur hann á 26. janúar næstkomandi. Þessi dagur er haldinn hátíðlegur til að sporna við slæmu mataræði mínu.

Ég nota nammi til að halda mér vakandi yfir daginn. Þá vaknar spurningin; hvernig held ég mér vakandi á laugardaginn? Hér eru nokkrar tillögur:

* Neyta ólöglegra örvandi efna. Ólögleg örvandi efni hafa of örvandi áhrif á mig. Það er ekki vinsælt í vinnunni að kýla kviknakinn og öskrandi í veggi.

* Fara snemma að sofa daginn áður. Við vitum öll að það er útilokað.

* Drekka kaffi. Það er sama hversu mikið ég hata sjálfan mig, ég get ekki fengið mig til að drekka þennan viðbjóð.

* Leggja mig yfir miðjan dag. Laugardagurinn er skipulagður frá morgni til kvölds og enginn tími gefst til lagningar.

* Hengja mig. Það er slæmt til lengri tíma litið.

* Háma í mig orkudrykki. Einn orkudrykkur virkar á mig í ca korter. Ef ég drekk fleiri en 3 á sólarhring líður mér illa innvortis. Ekki þess virði.

* Borða nammi þegar enginn sér til og segja engum frá því. Eina gallalausa hugmyndin.

Meira um þennan dag síðar.

þriðjudagur, 22. janúar 2008

Í fréttum er þetta helst:

* Eftirfarandi excel sellu skrifaði ég frá grunni í vinnunni í morgun. Hún fjallar um lítill strák sem er hræddur um að fólk komist að því að excel sella sem hann skrifar hafi engan tilgang.




* Arthúrsíðan hrundi til grunna í gærkvöldi. Það þýðir aðeins eitt; að byrja upp á nýtt. Sem betur fer eru allar strípurnar enn inni en það mun taka talsverðan tíma að setja síðuna upp aftur, sérstaklega með tárin í augunum.

* Ég hef skráð mig á árshátíð 365 sem fram fer 9. febrúar. Vinsamlegast ekki vera fyrir mér!

mánudagur, 21. janúar 2008


Svona lít ég út þessa stundina á suð-vestur horni andlitsins á mér.

Þetta er samt ekki jafn slæmt og það lítur út fyrir að vera. Ég var ekki dreginn í húsasund um helgina og laminn af 15 manns á meðan einn skar mig ítrekað í framan með rambóhníf. Ég skar mig bara við rakstur. Á þremur stöðum á sama svæðinu.

Myndavélasíminn nær þó ekki mikilfengleika þessara sára. Þau eru djúp og flókin.

sunnudagur, 20. janúar 2008

Ég var að hnoða inn örfáum myndum frá áramótum mínum á Egilsstöðum. Þar fiktaði ég í myndavélinni þar til hún fór að taka sérkennilegar myndir.

Hér eru myndirnar.

Hér eru þær hinsvegar ekki.

laugardagur, 19. janúar 2008

UMFÁ sigraði ÍBV í dag 84-70 í stórskemmtilegum leik á Álftanesi. Hér eru nokkrir punktar:

* ÍBV sigraði UMFÁ í Eyjum í haust með 13 stigum. Við unnum þá með 14 stigum. Það þýðir að samtals erum við betri. Í alvöru.
* Ég spilaði nýja stöðu; SF, en hingað til hef ég spilað FC. Ef þið skiljið þetta ekki, kinkið bara kolli.
* Liðið hitti úr 26 af 32 vítum, sem er framför frá 5 af 20 í síðasta leik, um ca hellings prósent.
* Ég meiddist í nára rétt fyrir hálfleik. Ég spilaði þó aðeins í seinni hálfleik.
* Liðið sýndi fyrst og fremst að það er hægt að velja í lið eftir útliti og samt vinna leiki.
* Aldrei áður hafa jafn margir mætt á leik með UMFÁ. Það er talist tengjast síðasta atriði.

Að lokum er hér ca mín tölfræði, skrifuð eftir minni.

föstudagur, 18. janúar 2008

Á morgun, laugardaginn 19. janúar, fer fram leikur UMFÁ gegn ÍBV á Álftanesi (klukkan 16:00). Ég skora á sem flesta að mæta og hvetja sinn mann áfram (Davíð Frey).

Ég er strax farinn að kvíða þessum leik, ekki af því ég sýg rassgat (myndlíking!) á vellinum heldur vegna þess að ég þarf að setja linsur í augun á mér fyrir leikinn. Ég get ekki ímyndað mér neitt ömurlegra en að hnoðast með puttana í augunum á mér. Ef ég verð heppinn stingur einhver augun úr mér á leiðinni heim á eftir.

Allavega, mætið og sjáið mig rauðan um augun. Og UMFÁ vinna.

fimmtudagur, 17. janúar 2008

Jónas skoraði á mig í dag í keppni um það hvor okkar væri staddur í stjörnufræðitíma.

Ég tók áskoruninni og tapaði keppninni naumlega, þar sem ég var ekki staddur í stjörnufræðitíma heldur í vinnunni en Jónas var í þessum umrædda tíma. Ég varð þó í öðru sæti, sem er ásættanlegt. Það sem olli tapinu var líklega að ég hafði ekki fengið mér morgunmat og var frekar þreyttur. Einnig hefði ég mátt leggja mig meira fram.

Ég óska Jónasi til hamingju með sigurinn. Næsta keppni við Jónas verður um það hvor okkar er yngri og fer hún fram á morgun. Ég hef þegar hafið undirbúninginn.

miðvikudagur, 16. janúar 2008

Ég er orðinn þreyttur á spurningunni "Hvað er eiginlega að þér (hálfvitinn þinn)?" þegar ég segist ekki komast á körfuboltaæfingu, eða þegar ég reyni að kyssa stelpur.

Ég er þó orðinn þreyttari á því að þurfa að útskýra hvað er að mér. Hér kemur útskýringin í myndaformi í þeirri von að ég þurfi aldrei að útskýra það aftur:



1. Taugar í fótunum á mér eru kramdar af vöðvum sem veldur tilfinningaleysi og sársauka á víxl, auk þess sem ég verð haltur við áreynslu. Þarfnast uppskurðar.
2. Skaddaðir liðþófar. Ekki mjög alvarlegt.
3. Álagsverkir í náranum. Ekki spyrja.
4. Ég dofna upp í tveimur puttum vinstri handar annað slagið. Ég veit ekki ástæðuna. Og ég veit ekki af hverju ég merkti við hægri höndina á myndinni.
5. Ég er "mjög geðveikur í fokking hausnum" eins og læknar hafa orðað það.
6. Hjartað mitt er óvenju lítið, dautt og ógeðslegt.

Ég hef því afsökun fyrir öllu sem ég geri og segi.
Þau leiðu mistök áttu sér stað í hádeginu áðan að ég sullaði smá pizzasósu á samfestinginn sem ég var íklæddur svo myndaðist dökkrauður blettur. Ég hafði þegar verið frekar lengi í hádegishléi og það tekur mig amk hálftíma að keyra heim í Hafnarfjörðinn og til baka, ef ég ætla að skipta um föt. Ég vil síður vera rekinn, þannig að það kom ekki til greina.

Skelfing greip um sig þar sem ég sá fyrir mér samstarfsaðila hlæjandi og bendandi á mig og pizzasósublettinn í samfestingnum.

Sem betur fer náði ég, fyrir mikinn klaufaskap, að hella pizzasósu yfir mig allan í framhaldinu. Nú tekur enginn eftir litla blettinum.

þriðjudagur, 15. janúar 2008

Ég var ekki viss um að eftirfarandi færsla ætti heima á þessu bloggi en svo fór ég að hugsa; ef einhver manneskja á skilið að fá ritaða um sig færslu þá er það amma mín. Og ef eitthvað er tilefnið þá er það andlát.

Amma mín, Helga Gunnarsdóttir, dó í dag. Hennar tími var kominn. Hún hafði lifað góðu lífi og var orðin þreytt á veikindunum, svo ég býst við að hún sé fegin. Ég er það þó ekki, jafn eigingjarnt og það hljómar. Heimurinn er verri eftir fráhvarf hennar og ég mun sakna hennar mjög mikið. Betri og óeigingjarnari manneskju var ekki hægt að finna og skemmtilegri ömmu ekki hægt að ímynda sér.

Ég mun hugsa til hennar daglega hér eftir sem hingað til og sakna hennar.

mánudagur, 14. janúar 2008

Í dag heilsaði ég samstarfsfólki mínu á mjög skýran hátt og að fyrra bragði. Enginn hrósaði mér fyrir það. Ég sagðist vera svangur á einum tímapunkti og kom með athugasemd á tónlistarsmekk samstarfsmanns míns. Enginn klappaði og hrópaði eitthvað snjallt í áttina til mín.

En ef einhver páfagaukur gerir þetta þá verður allt vitlaust! Fáránlegt.

sunnudagur, 13. janúar 2008

Ég hef ekki getað einbeitt mér að neinu nema formúlum og Excel eftir að ég fékk fyrirspurn frá Stefáni Erni Jónssyni á MSN. Fyrirspurnin er ein sú áhugaverðasta sem ég hef fengið um ævina og hefur hún reynt bæði á andlegan styrk minn og stærðfræðikunnáttu. Hún er eftirfarandi:

Hverjir myndu vinna í liðaglímu; Stephan Derrick og John Rambo eða Jim Taggart og Chuck Norris?

Ef einhver hefur svar við þessu, látið vita í athugasemdum með útreikningum og jafnvel útskýringamyndum.
Ég sef ekki fyrr en ég hef mælt með lagi.


Lagið er Satisfaction með Benny Benassi, básúnuleikara.

Myndbandið finnst mér vera svo flott að ég á erfitt með að dansa við lagið, þar sem ég hræðist að missa af sekúndu úr því. Og ég hræðist að dansa ekki við lagið af ótta við að útlimirnir rifni af mér, dansandi í allar áttir ef ég geri það ekki.
Allavega, fínt lag.

Þeir sem ekki fíla svona nýaldartónlist er hér eitt gamalt og gott, sem ég hef raulað í huganum núna samfleitt í 7 ár; Toploader með Dancing in the moonlight.




Þeir sem ekki fíla tónlist er hér bloggfærsla fyrir ofan sem þægilegt er að lesa.

laugardagur, 12. janúar 2008

Ég hef ákveðið að taka að mér aukavinnu við að gera við rafmagnstæki eftir að kona í blokkinni bað mig um að hjálpa sér með myndlykilinn sinn eða sjónvarpið, þar sem engin mynd birtist. Ég var að sjálfsögðu til í að hjálpa, ýtti á on takkann. Það virtist virka. Þá hafði konan misst öll föt niðrum sig og stemningin var vandræðaleg, svo ég valhoppaði bara heim, blístrandi lítið lag.

Ef einhver er í vandræðum með on takka, hafið samband. Tek bara 50.000 krónur á tímann (ca 250 krónur hvert skipti).

föstudagur, 11. janúar 2008

Árið 2007 er að baki las ég einhversstaðar.

Þetta gerðist á árinu 2007 hjá mér:

Janúar
Gerðist óvart plebbi: stofnaði moggablogg.
Fór með bíl í viðgerð, hedpakkning fór.
Byrjaði að taka strætó.
Varð þunglyndur af peningaleysi.

Febrúar
Smakkaði mangó. Lífið breyttist.
Ævintýradagar í strætó. Sé marga skrítna karaktera.
Borga viðgerð á bílnum með því að selja sálina Landsbankanum.
Klára bjórflösku í fyrsta sinn síðan 2001.
Arthúr bollar til sölu.

Mars
Vann á skattstofu austurlands um helgar til að borga viðgerð á bíl.
Vann könnun fyrir Félag viðskipta- og hagfræðinga.
DV keypti Arthúr strípur.
Keypti mér nýja tölvu.
Björgvin og Jónas kepptu í úrslitum í fyndnasti maður Íslands.
Byrjaði að nota linsur daglega.
Hætti við að nota linsur daglega sökum klaufaskaps.

Apríl
Fluttur á milli borða í vinnunni.
Vann giskunarleik í vinnunni. Varð óvinsælasti starfsmaðurinn.
Bloggaði hættulega sjaldan.
Lokaði moggablogginu af ótta við plebba.

Maí
Ég valdi að vinna í Reykjavík frekar en flytjast austur.
Ég sá eftir því.

Júní
Sumarfrí á Egilsstöðum. Tonn af skemmtun.

Júlí
Varð einhleypur.
Keypti mér golfkylfu í fyrsta sinn.
Spilaði golf.
Gekk fjöll.
Átti afmæli. Ömurlegasti afmælisdagur allra tíma.
Fór í partý og drakk áfengi í fyrsta sinn í 2 ár.

Ágúst
Arthúr átti 2ja ára afmæli.
Styrmir bróðir kíkti í heimsókn með syni sína tvo; Kristján og Gabríel.
Flutti frá Grafarholti til pabba í Laugardalnum.
Fékk mér nýja körfuboltaskó, hágrátandi.

September
Flutti frá pabba til Hafnarfjarðar.
Byrjaði að æfa körfubolta með UMFÁ.
Bakkað á mig. Sem betur fer var ég staddur í bílnum mínum. Bíllinn skemmdist.
Bakkað á mig aftur. Bíllinn skemmdist ekki.
Skipaður Forstöðumaður Samskiptasviðs Meistaraflokks Körfuknattleiksdeildar Álftaness.
Keypti mér nýtt rúm, skrifborð og innbú. Fjárhagsleg lægð skók mig í kjölfarið.

Október
Málaði tvær myndir.
Bloggfærsla númer 3.000 rituð.
Keppnistímabil UMFÁ hefst með ferð til Vestmannaeyja. Ég æli í 3 klukkustundir án þess að stoppa í Herjólfi.
Kláraði að lesa bókina The Cell eftir Stephen King á aðeins 6 mánuðum.

Nóvember
Bíllinn bilaði. Hedpakkning fór aftur.
Lyftingaátak hafið.

Desember
Jólaglögg UMFÁ haldið. Víðir og pungur saman á mynd.
Jólafrí á Egilsstöðum. Mikill körfubolti spilaður.
2ja ára afmæli Arthúrs var haldið hátíðlegt í formi kökuáts.
Sturlað veður var á austurlandi.

Á heildina litið var árið 2007 nokkuð gott; ár breytinga þar sem ég flutti endanlega til Reykjavíkur. Ef ég væri spurður hvað væri eftirminnilegast á árinu myndi ég líklega segja mangóávöxturinn sem ég borðaði.

Valva Við rætur hugans:

Árið 2008 verður þó mun skemmtilegra. Á því mun eftirfarandi gerast:

Ég mun...
* verða áfengisdrukkinn.
* fara í bíó.
* verða áfengisdrukkinn og fara í bíó.
* þyngjast (líkamlega).
* léttast (andlega).
* fitna (huglægt).
* hugsa minna.
* gera fleiri mistök.

fimmtudagur, 10. janúar 2008

Í dag fór ég til læknis vegna eymsla í nára annars vegar og af ótta við heilakrabbamein hinsvegar. Einnig vildi ég gjarnan laga þurrkublett sem er að leggja líf mitt í rúst.

Það er skemmst frá því að segja að í fyrsta sinn á ævinni fékk ég lausn allra minna vandamála og það hjá heimilislækni! Ég fékk meira að segja lausn á vandamáli sem ég sóttist ekki eftir að láta lækna.

1. Ég fékk krem sem á að myrða þurrkublettinn, sem ég kýs að kalla Stefán.
2. Á mér var káfað ákaft á nárasvæðinu af mjög huggulegum kvenlækni (sóttist ekki eftir því).
3. Læknirinn fullvissaði mig um að ég væri ekki með heilakrabbamein, heldur að ég væri bara mjög alvarlega geðveikur.
4. Ég losaði mig við 1.000 krónur í heimsóknargjald, en flestir vita að ég á alltof mikið af peningum.

Þessi ferð hefur verið tilnefnd best heppnaða læknaferð síðustu 50 ára.
Ef lesendur síðunnar vilja sjá frumlega, skemmtilega, fyndna, vel leikna og raunhæfa stórmynd þá ekki sjá The Golden Compass en hana sá ég í gærkvöldi með Möggu. Sú mynd er ekkert af þessu. Hún er þó ömurleg, ef það höfðar til einhverra.

Ef einhver sér mig á annarri mynd þar sem dýr geta talað, kýlið mig í magann því ég er þá hálfviti.

Hálf stjarna af fjórum fyrir að ég lifði myndina af.

miðvikudagur, 9. janúar 2008

Ég slæ ekki slöku við í myndamálum. Í keppnisferð UMFÁ til Stykkishólms síðasta sunnudag, tók ég myndavélina með. Ég lét ekki tap hafa áhrif á mig og tók nokkrar myndir, óþarflega hress.

Þær má sjá hér.


Þetta er lagið Sing for Absolution (ísl. Trallandi fyrir syndafyrirgefningu) með Muse (Ísl. Sálin hans Jóns míns).

Það vita það ekki margir að þegar ég get ekki sofið finnst mér mjög róandi að öskra þetta lag eins hátt og ég get í rúminu.

En hvað um það, lagið er gott.

þriðjudagur, 8. janúar 2008

Ég hef hafið stríð gegn hinni gerðinni af mér; hinum sofandi mér (sem hér eftir kallast Svefn Finnur), þar sem hann stundar það að slökkva á vekjurunum í svefni sem veldur því að ég sef mjög oft yfir mig.

Ég gerði árás í nótt með því að fela vekjarann. Svefn Finnur náði að slökkva á einum vekjaranum en ég lifnaði úr dáinu áður en næsti var slökktur. Fagnaðarlátum mínum ætlaði aldrei að linna.

Ég: 1
Svefn Finnur: 0

Svefn Finnur hafði hinsvegar þegar hrundið af stað gagnárás með því að láta mig vakna öfugan í rúminu með sængina á gólfinu. Auk þess hafði hann falið buxurnar mínar.

Í nótt hyggst ég stinga Svefn Finn á hol með stærðarinnar steikarhníf, sem ég geymi undir koddanum. Þá ætti lækka í honum rostann og tryggja mér sigur.

mánudagur, 7. janúar 2008

Myndir frá 2ja ára afmæli Arthúrs, sem haldið var þann 22. desember síðastliðinn í félagsmiðstöðinni í Fellabæ af mér og Jónasi og aðeins fáum útvöldum var boðið í, eru komnar á netið.

Þær eru hér.

sunnudagur, 6. janúar 2008

Ég fór til Stykkishólms í dag að keppa í körfubolta með UMFÁ gegn Mostra. Mostri sigraði með 77 stigum gegn 65 stigum UMFÁ.

Til að dreifa athygli ykkar frá þessu ömurlega tapi birti ég hér að neðan mynd af máltíð kvöldsins, sem ég eldaði aleinn (ég sver að ég þurfti enga hjálp). Þetta er besta máltíð sem ég hef snætt í langan tíma.

Grænmetisborgari.

Hér er um að ræða grænmetisborgara með steiktu eggi og einhverju fleiru sem ég fann vísvegar í kringum húsið.
Ég fattaði fyrir viku síðan af hverju veðurfréttarmennirnir spá alltaf kolvitlaust fyrir veður. Ég hef litið á Egilsstaði á kortinu þeirra síðustu ár án þess að fatta það, þegar ég er staddur í Reykjavík.

Ég fattaði líka fyrir nokkru síðan af hverju ég fitna ekki. Ég hef verið að leita að mat í þvottavélinni, í stað ísskápsins.

Rétt í þessu fattaði ég svo af hverju ég hafði ekki bloggað um þetta áður. Ég hafði reynt að skrifa þessa færslu í sjónvarpið, en ekki í tölvuna.

laugardagur, 5. janúar 2008

Í dag ætlaði ég í Kringluna til að borga eitt stykki reikning og spyrja spurninga varðandi reikninginn. Ég vafraði í kringlum Kringluna í 25 mínútur áður en ég gafst upp og fór heim. Svo virðist sem 70% Reykvíkinga hafi mætt þangað í dag, hver á tveimur bílum.

Í kvöld ætlaði ég svo í keilu. Eftir að hafa beðið eftir afgreiðslu í 25 mínútur gafst ég upp og fór heim. Svo virðist sem afgreiðslumaðurinn hafi ekki haft undan að afgreiða alla aðra en mig, en talsverður fjöldi var í Öskjuhlíðinni.

Þá kem ég mér að kjarna málsins: er ekki kominn tími á fólksfækkunarplan eitthvað? Bara hugmynd.

föstudagur, 4. janúar 2008

Í ljósi áramótaheitis (um meiri áfengisneyslu á árinu 2008) og dags (föstudagur) þá birti ég drykk dagsins:

Baileys mjólkurhristingur skref fyrir skref:

1. Slatta af vanillu- eða súkkulaðirjómaís sett í blandara (magn er smekksatriði).
2. Slatta af mjólk sett í blandara (magn er smekksatriði).
3. Slatta af Baileys sett í blandara (magn er smekksatriði).
4. Þrýst á on. Látið ganga í ca mínútu. Ef enginn on takki er á tækinu þá hefurðu líklega óvart notast við glas í stað blandara. Byrjaðu aftur á atriði númer 1.
5. Hellt í glös.
6. Rætt um hversu skemmtilegur ég sé að brydda upp á þessum gríðarlega flókna drykk á síðunni.

Sterkari útgáfa:

Skiptið út rjómaísnum, mjólkinni og Baileys fyrir Vodka. Skipti blandaranum út fyrir glas.

Njótið.
Þar sem ég hef ekki sofið neitt af viti í um 36 tíma hef ég lítið að segja nema meðmælum. Ég ákvað að leggja af stað til Reykjavíkur um hánótt í gær í stað þess að sofa, þar sem ég lá andvaka.

Þessa stundina mæli ég með:

* Rúmi.
* Sæng.
* Svefni.
* Að hrjóta mjög hátt.
* Kæfisvefni.
* Að vera mjög þreyttur á morgun.
Viðbót:
* Sofa yfir mig um 2 klukkutíma!

miðvikudagur, 2. janúar 2008

Á morgun mun ég aka til Reykjavíkur, syngjandi og trallandi til skiptis, mér til skemmtunar.

Ef ég mun blogga einhverntíman aftur þá hef ég ekki lent í vandræðum á leiðinni og öfugt.

þriðjudagur, 1. janúar 2008

Ég óska lesendum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir lesturinn á árinu sem er að líða.

Hér eru listar.

Áramótaheiti mín í ár:
1. Drekka meira áfengi og mæta í partí sem mér er boðið í. Frá september til ársloka var mér boðið í ca 10 partí. Ég mætti í ekkert þeirra. Ég ætla að reyna að ná nýtingunni upp í amk 90% mætingu. Ekki hætta að bjóða mér, vinsamlegast.

2. Halda áfram að þyngja mig með lyftingum og prótein-/kreatín-/glútamínáti. Þegar hingað er komið við sögu hef ég aldrei mælst þyngri, fyrir utan þegar ég svindla á vigtinni. Stefnan er tekin á að verða eðlilegur.

3. Taka mataræðið í gegn. Það gengur ekki til lengdar að borða nánast eingöngu nammi. Ég hyggst skipta namminu út fyrir ávexti og jafnvel smá mat. Það verður erfitt en hvað er það versta sem gæti gerst? Hjartastopp er ekki jafn slæmt og það hljómar.

Framundan á blogginu (þegar ég er kominn aftur til Reykjavíkur):
1. Listi yfir hvað gerðist hjá mér á árinu 2007.
2. Myndir frá jólafríinu mínu.
3. Myndir frá 2ja ára afmæli Arthúrs.
4. Mögulega breytt útlit á síðunni.

Það er við hæfi að byrja árið með upptalningabloggi.