föstudagur, 30. mars 2007

Það er vandræðalegt að viðurkenna mistök sín. Þess vegna ætla ég ekki að viðurkenna þau.

Um daginn var alþjóðlegur gestabókadagur internetsins. Ég setti hlekk á gestabókina mína en sá hlekkur var rangur. Ekki mér að kenna. Ég ásaka samfélagið fyrir að dreifa athygli minni.

Allavega, gestabókin er hér. Skrifið í hana. Ég grátbið ykkur, á virðulegan hátt þó.
Ég lagði bílnum svo vel hérna í vinnunni í morgun að ég hef brosað allan daginn. Ég meira að segja skellti upp úr þegar manneskja stórslasaði sig á kaffivélinni í morgun, svo góð var lagningin á bílnum.

Ég nefnilega bakkaði bílnum í stæði af svo mikilli nákvæmni og snilld að ég efast um að snillingar á borð við Harrison Ford eða Mozart gætu leikið þetta eftir.

Ég held ég taki strætó heim í dag og leyfi lagningunni að njóta sig yfir helgina.

fimmtudagur, 29. mars 2007

Annað hvort var ég að snýta síðustu kvefslettunum úr mér eða ég var að eignast afkvæmi í gegnum nefið. Ég vona að það sé það fyrra, þó mér finnist það ólíklegt þar sem viðkomandi klessa innihélt m.a. tennur og hár.

Aldrei hefur það verið jafn gefandi að vera með flensuna.

miðvikudagur, 28. mars 2007

Ég villtist inn á sjónvarpsstöðina Sýn rétt í þessu. Ísland að keppa við Spán í fótbolta í öskrandi bíómyndarigningu og Ísland í hvítum treyjum.

Þetta er hvalreki fyrir kvenfólk um allan heim. Aldrei hef ég séð jafn mikið af geirvörtum. Helvítis klám allsstaðar!

þriðjudagur, 27. mars 2007

Ég fór á veikindasölustað um daginn og fékk mér eftirfarandi rétt:

Forréttur: Hausverkur í viku, blandað með smá ógleði.

Aðalréttur: Flensan meðe beinverkjum, svitaköstum, leiða, sleni, hnerra og meiri ógleði.

Eftirréttur: Óstjórnlegur hósti, kvef og almenn vanlíðan með snert af jarðaberjasósu.

Ég er við það að klára eftirréttinn þegar ég frétti í gær að með aðalréttinum hafi upphaflega átt að vera æluhneigð. Ég hugsa að ég fái endurgreitt. Næst ætla ég bara að fá mér kvef. Óþarfi að prófa eitthvað exótískt þegar kvef gerir það fyrir mig.

mánudagur, 26. mars 2007

Í dag er hinn alþjóðlegi "Skrifaðuígestabókinaeðaéglemþig" dagurinn. Ég vil því minna fólk á að skrifa í gestabókina hérna ellegar verða fyrir barsmíðum. Það yrði ekki mér að kenna heldur deginum. Óþarfi að horfa svona á mig.

sunnudagur, 25. mars 2007

Hér er skilgreining á Tussu:

Tussa er miðaldra kona sem ryðst framfyrir fólk í röð í t.d. Krónunni eða Bónus með troð-djöfull-fulla körfu af vörum þegar fórnarlömbin eru með örfáar vörur.

Tilviljun; ég og Soffía urðum fyrir árás Tussu í Krónunni áðan. Ömurleg tilfinning.

föstudagur, 23. mars 2007

Hér er sannsögulegt samtal í vinnunni í dag.

Samstarfsmaður A: "Hefur einhver sagt þér að þú ert alveg eins og Barði í Bang Gang?"
ég : "nei"
Samstarfsmaður A: "Þú ert alveg eins og hann."
ég: "nú. frábært."
Samstarfsmaður A: "HAHA Þú talar meira að segja eins og hann! 'nú. frábært.' hahahha."
ég: "takk. ég skrifa þetta hjá mér."

Stuttu síðar, langt fyrir aftan mig.
Samstarfsmaður B: "Hvað sagði hann?"
Samstarfsmaður A: "Hann sagði 'nú. frábært' hahahaha."
Ég *hvíslandi*: "spurning um að blogga um þetta."

Allt fólk er eiginhagsmunaseggir. Allir eiginhagsmunaseggir eru vondir. Allir vondir eru fífl.

Þess vegna er allt fólk fífl. Og ég hata það. En nóg um mig.

"Fólkhatarar allra landa sameinist! Nei annars."
-Billy Hicks-
Ég hef bætt við nýjum fjórförum, litlum níu mánuðum eftir að ég setti síðustu fjórfara upp.

Kíkið á nýju fjórfarana hérna.

fimmtudagur, 22. mars 2007

Ég mæli með því að fólk fjölmenni í gamla Austurbæjarbíóið hjá Snorrabraut í kvöld klukkan 20:30 og fagni með Björgvini bróðir en hann mun þá keppa í Fyndnasti maður Íslands, með uppistandi og mögulega dansi (ef hann verður nógu drukkinn).

Öðrum orðum: Mætið og öskrið úr hlátri.

miðvikudagur, 21. mars 2007

Ég hef nú svitnað stanslaust frá því klukkan 8 í morgun. Ég vona að það tengist flensunni en ekki skuldastöðu minni. Ég hef varla undan að drekka vatn.

Þetta er síðasti dagur flensunnar hjá mér, sama hvað líkami minn segir. Á morgun heldur lífið áfram. Öðrum orðum, á morgun hætti ég að grát...ehmm...svitna.

þriðjudagur, 20. mars 2007

Ef mælikvarðinn yfir leti væri hversu oft maður rakar sig á ári, tekið mið af skeggvexti, skeggtískunni og annarra ómerkilegri atburða og því lægri tala, því latari er viðkomandi, þá væri ég hátt skráður á lista latra. Ég var að raka mig í fimmta sinn á árinu. Í þetta sinn var liðinn tæpur mánuður síðan síðast. Ég hef aldrei séð svona mikið af hárum framan í einni manneskju. Aldrei aftur! Héðan í frá raka ég mig á 3ja vikna fresti og ekkert múður.

mánudagur, 19. mars 2007

Þau tímamót áttu sér stað í dag að ég klæddist fötum í fyrsta sinn síðan á föstudaginn síðasta. Ástæðan er flensan. Ég þurfti að taka á móti heimsendri pizzu, sem ég veiddi í gegnum símann.

Í öðrum fréttum er það helst að ég öðlaðist ofurheyrn, að ég hélt, í gær eftir sturtu. Síðar, þegar ég var búinn að sauma ofurhetjubúning við þennan ofurhæfileika minn, kom í ljósa að ég hafði bara verið með hellu í nokkra daga án þess að vita af því. Ekki orð um það meir.

sunnudagur, 18. mars 2007

Ég hef ekki farið á netið í 48 tíma þegar þetta er ritað, þökk sé flensunni sem réðist á mig í lok vinnu á föstudaginn, að sjálfsögðu. Eftir að hafa snúið mig niður, nauðgaði flensan mér og reyndi svo ítrekað að drepa mig. Þökk sé Soffíu þá er ég enn á lífi, ennþá. Búist er við næstu árás flensunnar í nótt.

Hér er tæmandi listi yfir aðgerðir síðustu 48 tíma:
* Liggja
* Horfa á sjónvarp
* Drekka vatn
* Grenja yfir vanlíðan

Ég vona að ég nái 50 netlausum tímum.

föstudagur, 16. mars 2007

Í nótt var ég staddur á Pizza 67 á Egilsstöðum að panta mér pizzu. Einhverra hluta vegna vildi ég láta senda mér hana heim. Ég hætti þó snarlega við þegar afgreiðslumaðurinn tjáði mér að heimsending kostaði kr. 101.000 aukalega. Ég varð bálreiður við þessar fréttir og tuðaði í afgreiðslumanninum í langan tíma. Þegar róni, sem var staddur á staðnum, var farinn að fá bláar eldingar í hausinn í gegnum gluggann þá fóru að renna á mig tvær grímur. Þegar ég sá svo að ég sá ekkert andlit á afgreiðslufólkinu, velti ég fyrir mér, upphátt, hvort mig gæti verið að dreyma. Þá varð afgreiðslufólkið mjög vandræðalegt og þarmeð komst upp um ráðabruggið.

Pizza 67 var að reyna að féfletta mig í draumnum mínum. Þegar ég var þess fullviss að mig væri að dreyma hló mjög hátt og snjallt þangað til ég vaknaði í morgun. Ég hefði betur nýtt tímann í að fljúga eða eitthvað skemmtilegt.

Þessi saga skal vera öðrum víti til varnaðar. Allsstaðar leynast svikahrappar (og bláar eldingar).

fimmtudagur, 15. mars 2007

Í gær sá ég myndina The number 23 með Soffíu. Myndin er með Jim Carreyji í aðalhlutverki og þar sem myndin er myrk þá vildi ég gjarnan sjá hana, haldandi að eitthvað vit væri í henni.

Myndin fjallar um mann sem sér töluna 23 í öllu eftir að hafa lesið bók um efnið. Reynt er að sýna fram á að 23 viðkemur flestum (völdum) atburðum sögunnar.

Myndin er órökrétt og vitlaus en á sína smáu spretti. Hugmyndin að hafa myndina í stíl einhverrar einkaspæjaramyndar frá 1960 var slæm hugmynd. Jim Carrey skiptist á að leika vel og ofleika (vel). Mæli ekkert sérstaklega með henni.

Ég gef myndinni 1 stjörnu af fjórum, sem er ótrúleg tilviljun! Af hverju kunnið þið að spyrja. Ástæðan er sáraeinföld:

Ég sá myndina í gær:
14 mars 2007 sem túlka má 14 03 2007 eða 14 03 07.
14+3+7 = 24.
Ég gaf myndinni 1 stjörnu. 24+1 = 25.
Ég er með tvö augu. 25-2 = 23.

Ótrúlegt!

Ég sef ekki mikið eftir að hafa uppgötvað þetta. Og þið ekki heldur, fjandinn hafi það!

Fyrir stuttu birti ég uppistand með mínum uppáhaldsgrínista, Gary Gulman þar sem hann talaði um Pepsi. Nú er komið að George Carlin. Hann kemst í topp 5 yfir uppáhaldsgrínista mína. Hér er dæmi:

Religion easily—has the best bullshit story of all time. Think about it. Religion has convinced people that there’s an invisible man…living in the sky. Who watches everything you do every minute of every day. And the invisible man has a list of ten specific things he doesn’t want you to do. And if you do any of these things, he will send you to a special place, of burning and fire and smoke and torture and anguish for you to live forever, and suffer, and burn, and scream, until the end of time.

But he loves you. He love you. He loves you... and he needs money!

Lausleg þýðing:

Trúarbrögð er langbesta kjaftæðissaga allra tíma. Hugsið um það. Trúarbrögð hafa sannfært fólk um að það sé ósýnilegur maður, búandi í himninum, sem sér allt sem þú gerir, hverja einustu mínútu, hvern einasta dag. Og ósýnilegi maðurinn á lista yfir tíu ákveðna hluti sem hann vill ekki að þú gerir. Og ef þú gerir eitthvað af þessum hlutum, þá mun hann senda þig á ákveðinn stað, með bruna og eld og reyk og pyntingum og angist fyrir þig að lifa á að eilífu, og kvalir, og bruna og öskur, að eilífu.

En hann elskar þig. Hann elskar þig. Hann elskar þig... og hann þarf pening!

Hér er svo myndbandið:

þriðjudagur, 13. mars 2007

Sökum anna okkar Jónasar þá höfum við brugðið á það ráð að biðja fræga teiknara að gera gestastrípur fyrir Arthúr. Á morgun birtist sú fyrsta en hún er teiknuð af einum besta stríputeiknara landsins og þótt víðar væri leitað. Hugmyndin er reyndar okkar en hann útfærir hana á stórskemmtilegan hátt. Kíkið á Arthúr á morgun.

Allavega, ég stefni á tölvukaup fljótlega þar sem fartölvan mín er í dauðaflogakasti öll kvöld. Í kjölfarið get ég hafið rannsókn, stofnað nýja heimasíðu og jafnvel hætt að fá blackout úr pirringi yfir hægri tölvu. Það kemur í ljós síðar. Kannski ekki.

Ég reyni að skrifa eitthvað meira áhugavert á morgun.

mánudagur, 12. mars 2007

Þróun tísku kvenna er áhugaverð, amk undanfarið. Fyrir einhverjum árum komust stígvél í tísku, jafn fáránlegt og það hljómar. Stuttu síðar komust sjöl í tísku. Engin venjuleg sjöl heldur svona ferhyrn sjöl sem konurnar klæðast í miðju, svo sjalið kemur fyrir framan og aftan.

Um daginn sá ég svo kvenmann klæðast bæði stígvélum og svona sjali. Mér fannst það fyndið. Ég tók mynd af henni þar sem hún talar við dökkklæddan herramann. Ég prófaði að bæta við kúrekahatti á hausinn á henni í myndvinnsluforriti. Niðurstaðan er sláandi:

Stelputíska

Stúlkan er vinstra megin. Tískan í dag er spes.

sunnudagur, 11. mars 2007

Uppáhaldsuppistandarinn minn, fyrir utan Björgvin bróðir og Jónas [vandræðalegur hlátur hér], er Gary Gulman. Gary er fjallmyndarlegur og risavaxinn fyrrum endurskoðandi sem talar ekki illa um neinn heldur grínist með smákökur, sjálfan sig og Pepsi. Hér er dæmi:

Now they make Oreos with chocolate in the middle. I don't know about that one. It's alittle scary. It's like; 'Oreo, have you been reading my diary?' Because this has been a fantasy of mine for some time now.“

Hér er video dæmi:

Allavega, það sem ég ætlaði að segja um Gary Gulman var....nau, sjáið mávinn þarna!

laugardagur, 10. mars 2007

Alltaf þegar ég sé svona fréttir um bensínsprengjur hugsa ég fyrst "æ, ógissla ömus" eins og gelgjurnar en svo panikka ég. Ég hugsa: "Hvað ef þetta var ekki bensínsprengja? Hvað ef Peugeot bifreiðar eru seldar í þessu landi? Það kæmi mér ekki á óvart ef einn, ef ekki fleiri, Peugeotinn hefði spurngið [já, ég hugsa með innsláttarvillum] úr fjölda bilanna."

Eins og alþjóð veit núorðið þá á ég Peugeot 206 og gerðist forseti peugeot-hatarafélagsins í kjölfar þess að bíll minn bilaði þrisvar frekar alvarlega á einu ári. Peugeot er því mesta drasl sem selt hefur verið hérlendis, samkvæmt rannsókn minni (úrtak: 1 bifreið). 

Ég vona að minn Peugeot bili ekki á þann hátt að hann springi í loft upp, á næstunni. Það hefði slæmar afleiðingar í för með sér, sérstaklega fyrir mig. Ég skulda nefnilega ennþá megnið af bílnum.

En allavega, 28 manns látnir. Ömurlegt.

Í dag átti að birtast Arthúrstrípa í DV en einhverra hluta vegna gerðist það ekki. Þarmeð fauk sú blogghugmynd út um gluggann.

Ég gerði ekkert í gærkvöldi nema vinna, af því ég hafði þessa skotheldu blogghugmynd; að tilkynna að Arthúrstrípa birtist í DV í dag. Þvílík vonbrigði. Þvílík tímaeyðsla að vinna þegar ég hefði t.d. getað flogið á hausinn einhversstaðar eða jafnvel gengið svo langt að hlaupa á ljósastaur.

Alyktun/lærdómur dagsins: Það er smá möguleiki á því að ég sé að verða örlítið geðveikur á að hugsa of mikið um bloggið.

föstudagur, 9. mars 2007

Helvítis klám

Nýlega kom út bæklingur frá Smáralindinni sem sýndi 14 ára stelpu á forsíðu, beygjandi sig fram með opinn munninn og greinilega mjög hress (sjá mynd að ofan). Enn nýlegar kom út gagnrýni á þessa forsíðu frá klámsérfræðingi sem segir stelpuna vera í miklum klámstellingum, bíðandi eftir hinu og þessu hér og þar í eða á líkamann. Áhugavert. Ég er sammála klámsérfræðingnum, þetta er siðlaus viðbjóður.

Í dag sá ég manneskju missa lyklana sína og beygja sig eftir þeim í vinnunni. Stuttu síðar geyspuðu nokkrir í vinnunni, þar af 3 strákar. Ég trúði varla mínum eigin augum! Svo ég tali ekki um göndullaga súkkulaðistykkið sem ég sá náunga stinga upp í sig áðan á lostafullan hátt, tyggjandi og gleypandi(!!!)! Hryllingurinn!

Hvað er að samfélaginu? Getur fólk ekki stundað þessar klámstellingar heima hjá sér? Ef ein manneskja í viðbót beygir sig eða opnar á sér munninn á næstunni þá brotna ég saman.

fimmtudagur, 8. mars 2007

Ég vinn frameftir í kvöld þar sem ný könnun var að koma í hús frá Capacent og hana þarf að verka.
Á morgun fer ég austur á Egilsstaði til að vinna á skattstofunni alla helgina.
Á mánudaginn byrja ég svo á nýju verkefni fyrir Félag Viðskipta- og Hagfræðinga (FVH) sem felur í sér kannanir, úrvinnslu þeirra og greinaskrif.
Í næstu viku einhverntíman mun ég semja við dagblað á landinu um birtingu á Arthúr.
Í næstu viku klára ég verklýsingu á nýrri síðu og fæ forritara til að smíða hana.

Í fyrsta sinn á ævinni er óhætt að segja að ég hafi nóg að gera.

Í fyrsta sinn um ævina slefa ég blóði af stressi.

Í fyrsta sinn um ævina lýg ég um að ég sé blóðstressaður í fyrsta sinn.

miðvikudagur, 7. mars 2007

Neyðarástand skapaðist fyrr í dag hjá mér í vinnunni þegar slæmt skipulag kom í veg fyrir að ákveðið verkefni kláraðist á viðunandi hátt. Ég átti um hálft súkkulaðistykki eftir þegar ég kláraði kókið, sem ég hafði í huga að drekka með súkkulaðistykkinu.

Ég leysti þó vandamálið á fagmannlegan hátt. Ég fleygði bara súkkulaðinu og málið hefði verið dautt ef manneskjan sem fékk súkkulaðið í hausinn hefði ekki verið með læti.

þriðjudagur, 6. mars 2007

Þessi dagur er búinn að vera stórmerkilegur. Hér eru nokkrar ástæður:

* Dagblað á landinu hringdi og vildi fá Arthúr í blaðið. Að fá greitt fyrir áhugamál mitt? Samþykkt.
* Náungi hjá ákveðnu félagi hringdi og vildi fá mig til að framkvæma rannsókn á tveimur hlutum. Að fá greitt fyrir áhugamál mitt? Samþykkt.
* Bíllinn kom úr atvinnuþrifum fyrir sölu. Ég vissi ekki að það væri hægt að eiga svona hreinan bíl. Hann glansar svo mikið að ég fékk flogakast við að sjá hann.
* Ég var með opna buxnaklauf í dag í fyrsta sinn síðan ég var 12 ára. Alsheimer? Já takk!
* Ég gleymdi, 10 daginn í röð, að senda inn líftryggingarblöðin. Ef ég dey á leiðinni á pósthúsið þá verður það fyndið.
* Ég ákvað í dag að einbeita mér meira að ópersónulegum netsíðum og er með eina í burðarliðnum þegar þetta er ritað. Meira um það síðar. Óvíst er hvað verður af þessu bloggi.
* Ég hef sjaldan verið jafn þungur og ég er núna eða um 82-83 kg. Því má þakka lyftingum, próteini og helvítis hellingi af nammiáti.

Ef eitthvað er til sem heitir karma mun heppni mín núllast með kvöldinu þegar ég verð fyrir loftsteini um leið og ég fæ eldingu í hausinn. Fjandinn hafi þessa heppni alltaf!

mánudagur, 5. mars 2007

Á morgun fer ég í hlutverk hórumangara (e.: pimp) þegar ég læt lappa upp á bílinn minn (e.: the whore) áður en ég sel hann einhverjum þurfandi.

Um leið leita ég mér að nýjum bíl.

Þá hef ég brugðið mér í hlutverk fórnarlambs ofbeldisseggs, leitandi sér að nýjum kærasta, þar sem ég spyr ítrekað: "bilar þessi bíll oft?" og bæti við "það eina sem skiptir máli er að hann bili ekki oft" Fórnarlömb ofbeldisseggjs spyrja á sama hátt: "Er hann ofbeldishneigður?" og bætir við "Það eina sem skiptir máli er að hann bilist ekki oft".

Ég er í allra kvikinda líki þessa dagana.
Fyndið hjá mbl.is að birta mynd af manni sem hefur mölbrotið á sér fæturnar við að spila golf með þessari frétt. Hann er þó þrautseigur og reynir að standa á lappir með aðstoð golfkylfunnar. Stórskemmtilegt.

Annars veit ég ekkert um hvað fréttin er, er haldinn athyglisbresti sem afsakar mig frá því að lesa nokkurn skapaðan hlut. Skoða bara myndirnar.
Ég hélt að bloggleti mín tengdist ofsaþreytu minni sökum þess að hafa ekki náð að sofa út undanfarið. Nú hef ég sofið út einu sinni um helgina. Ég er enn hugmyndasnauður.

Fréttir:

* Jónas keppir í FMÍ á fimmtudaginn. Ég þangað.
* Vantaði menn í dag á Álftanes í eitthvað barnamót í körfubolta, á stigatöflu eða eitthvað. Ég þangað.
* Mig dreymdi að mér þætti bjór góður í nótt. Í kvöld var einn bjór til í ísskápnum. Ég þangað.
* Utah Jazz leikur í sjónvarpinu. Ég þreyttur. Rúm í herberginu. Ég þangað.

föstudagur, 2. mars 2007

Í gær stakk ég puttunum í augun á mér. Það er ca það eina sem ég hélt að ég gæti aldrei gert.  Gerðist þessi viðburður í kjölfar þeirra tíðinda að sjón mín er orðin mun verri en fyrir ca 2 árum síðan og þarf ég því ný gleraugu. Þar sem gleraugnagler er rándýr munaður ákvað ég að fá mér linsur, eða að prófa það í viku eða svo.

Að lokum þessarar mjög mikilvægu tilkynningar, til gamans, er svo graf yfir sjón mína undanfarið. Allt eftir febrúar 2007 er spá næstu 10 ára út frá þróun sjónar minnar hingað til.

Þróun sjónar

ATH. Ekki er tekið tillit til þess í spánni, að sjón hætti að þróast á einhverum tímapunkti. Svo er alltaf möguleiki á því að ég deyji innan 10 ára, áður en ég verð staurblindur, ef ég er heppinn.

fimmtudagur, 1. mars 2007

Nammi lækkar um 14% og gos um 7-20% í dag. Þetta þýðir að ég spara um 70.000 krónur á mánuði, bara með þessari lækkun, slík er sælgætisneysla mín.

Það versta er að ég mun auka nammiát og gosneyslu mína um amk 200% þar sem þetta kostar nánast ekkert lengur og tapa gríðarlegum fjármunum á þessum sparnaði.