laugardagur, 3. júlí 2010

Þrívíddarhelvíti

Í gær fór ég í bíó á myndina Toy Story 3. Mér til hryllings áttaði ég mig á því þegar þangað var komið að um 3D sýningu var að ræða.

Nokkur atriði varðandi 3D sýningar:

  1. Bíóhúsin hafa snarhækkað verðið á bíómiðanum úr 1.000 krónum í 1.350 krónur.
  2. Þú þarft að kaupa þrívíddargleraugun sér á 150 krónur. Þá er verðið komið upp í 1.500 krónur.
  3. Ég geng yfirleitt með linsur af því mér finnst óþægilegt að ganga með gleraugu. Venjuleg gleraugu eru þó hátíð miðað við þrívíddargleraugu en þau eru allt í senn stór, þung og óþægileg.
  4. Ef þú mætir með gleraugu í bíó á þrívíddarsýningu geturðu ekki séð hana í þrívídd, nema þú viljir sjá hana í þrívídd og móðu.
  5. Þeir sem elska 3D myndir eru að meðaltali 15 ára líkamlega. Ef eldri en 15 ára líkamlega þá 15 ára andlega. Og 15 ára einstaklingar eru háværir og óþolandi í bíósölum.
  6. Ég fer í bíó til að skemmta mér yfir góðum söguþræði, góðum leik eða áhrifaríkri sögu. Þrívídd kemur málinu ekkert við og bætir engu við! Þrívíddarmyndir eru álíka heimskulegar og að setja súkkulaði í blikkandi umbúðir.
  7. Þrívíddarmyndir eru ekki textaðar. Ekki að það breyti miklu. En samt.

Samantekt: Þrívíddarsýningar kosta 50% meira en venjulegar sýningar og þú verður að hlunkast um með óþægileg gleraugu til að sjá hana í fullum sal af háværum krökkum. Gangirðu með gleraugu þá neyðistu til að sjá myndina, sem er ótextuð, í móðu.

Ég vona að þrívíddarmyndir deyji sóðalegum og kvalarfullum dauðdaga, sem fyrst. Ég mun aldrei aftur fara á þannig sýningu.

Annars var það sem ég sá af Toy Story 3 mjög gott.

2 ummæli:

  1. Ég spyr líka í framhaldinu, hvenær voru myndir í tvívídd?

    Ég bíð spenntur eftir fyrstu leiknu bíómyndinni í tvívídd!

    SvaraEyða
  2. hehehe ég væri til í einvíddarmynd. Eða tvívíddargleraugu, til að einfalda líf mitt talsvert.

    SvaraEyða

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.