laugardagur, 31. október 2009

Ég hef þurft að upplifa margan hryllinginn á hárgreiðslustofum. Ekki bara ný móðins hárgreiðslur sem ég hef ekki beðið um, heldur einnig aðstæður og viðburði sem ég á erfitt með að tjá mig um.

En ég geri það samt, til að vara aðra við mikilli skömm. Hér er því topp 5 yfir verstu lífsreynslurnar á hárgreiðslustofum:

5. Bartastytting
Klippikonan spurði hvort ég vildi láta snyrta bartana eitthvað. Ég samþykkti það. Þá rakaði hún þá alveg af. Ég var jafnvægislaus í viku á eftir.

4. Hnakkinn rakaður
Klippikonan rakaði allt hár fyrir neðan augu (og ofan háls) í burtu án þess að spyrja mig. Ég var 12 ára og hef ekki enn jafnað mig á þeim hryllingi.

3. Augabrúnir klipptar
Í miðjum klíðum við að klippa á mér hárið tók klippikonan upp á því að greiða augabrúnirnar á mér og klippa þær. Ég náði ekki andanum yfir ósvífninni. Kafnaði næstum.

2. Hárþvottur
Eitt sinn mætti ég svo illa til fara í klippingu að klippikonan krafðist þess að þvo mér um hárið. Þegar ég samþykkti vísaði hún mér að vöskunum, þar sem karlmaður beið mín.

Ég á frekar erfitt með nærveru annarra, er með ca 50 metra í comfort radíus. Ég get ekki ímyndað mér meiri innrás í þann radíus en að láta karlmann þvo mér um hárið. Ég var með vöðvabólgu í 6 mánuði eftir þvottinn og vott af búlimíu.

1. Niðurlæging
Þegar einni klippingunni var lokið spurði ég hvort væri ekki sniðugra að stytta hárið meira svo lokkur hætti að vera boginn. Klippikonan sagðist hafa lausn á því, vippaði fram sléttujárni og notaði á lokkinn. Það virkaði en það er aukaatriði. Ég hef aldrei farið aftur þangað og kýli yfirleitt í vegg þegar ég hugsa um lífsreynsluna.

Þrátt fyrir þessar upplifanir arka ég áfram sterkari en áður, vitandi að ekkert getur brotið mig niður, úr því ég lifði allt þetta af.

föstudagur, 30. október 2009

Ég hef verið með fjörfisk í vinstra augnloki síðustu fjórar vikurnar og í gær bættust við kippir í aftanvert vinstra lærið, sem ég kýs að kalla partífisk (þar sem fjörfiskur einskorðast við augnlok). Ennfremur er ég kinnfiskasoginn, að sögn.

Í dag fékk ég loksins nóg, þegar ég komst að því að það er fiskur í matinn í mötuneytinu. Nóg komið!

fimmtudagur, 29. október 2009

Mig grunar að lagið Air on a g-string hafi aldrei náð þeim vinsældum sem það á skilið því enginn vill segja "ég er að hlusta á Air í g-streng". Amk enginn karlmaður með sjálfsvirðingu.



Án efa fallegasta lag sem samið hefur verið, hvort sem hlustað sé á það í g-streng eða ekki.

mánudagur, 26. október 2009

Ég verð að hrósa Álftanesi fyrir frumlega aðferð til að ná hraðanum niður.

Á Álftanesi eru radarmælar með skjá sem sýnir hversu hratt þú keyrir. En í stað ljóss sem blikkar þegar ekið er of hratt þá birtist mynd af fýlukalli. Og þegar þú keyrir á löglegum hraða birtist broskall.

Árangurinn er glæsilegur; ofsaakstur krakka yngri en 10 ára hefur snarminnkað.
Um helgina æfði ég mig að teipa þumalinn á mér aftur, þar sem hann er tognaður.

Sársaukinn sem fylgir þessari tognun, sem er umtalsverður á stundum, er ekkert miðað við þann sársauka sem fylgir því að rífa teipið af úlnliðnum:


Mér hefur aldrei áður verið eingöngu kalt á hægri úlnliðnum.

föstudagur, 23. október 2009

Ég á pirraðasta blaðaútburðarmann landsins:

Þetta er krumpaður bæklingur frá Krónunni sem ég rétti úr fyrir myndatöku. Honum var troðið inn í pósthólfið í formi bolta. Gerist ca 2-3 sinnum í viku.

Umræddur blaðaútburðarmaður fæst fyrir lítið.

fimmtudagur, 22. október 2009

Í tölfræði síðasta leiks UMFÁ, gegn Mostra, vekur eitt athygli; aðeins einn leikmaður tók ekkert skot utan af velli. Það var ég. Samt skoraði ég 2 stig.

Ég var því með ∞ (endalaus) stig á hvert skot utan af velli. Það má þannig leiða að því líkur að ef ég hefði tekið skot hefði leikurinn líklega verið blásinn af, þar sem stigataflan ræður bara við 999 stig skoruð.

Það er ástæðan fyrir því að ég tók ekkert skot í leiknum.

þriðjudagur, 20. október 2009

Nokkrar misóáhugaverðar fréttir:

1. Svo virðist sem bréfið UMFÁ til Dorrit(ar) hafi verið birt á veffréttasíðunni Pressan.is. Ég kom ekki nálægt því. Mér finnst líklegt að Dorrit hafi sent þeim það.

Ekki nóg með það heldur var umrætt bréf tekið fyrir á stjórnarfundi 365 í dag, skilst mér. Ég geri ráð fyrir að það verði tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi á morgun og mögulega hjá Sameinuðu þjóðunum fyrir helgi.

2. Körfuboltaliðið mitt, UMFÁ, tekur þátt í bikarkeppni KKÍ í ár eins og í fyrra. Dregið var í 1. umferð nýlega. Svo virðist sem UMFÁ muni mæta næstbesta liði landsins; Snæfelli.

Besta lið landsins heitir UMFÁ. Þetta ætti að vera áhugaverður leikur. Hann fer líklega fram mánudaginn 9. nóvember næstkomandi kl 19:45 í Íþróttahúsi Álftaness.

3. Bíómyndir:
Mæli með
Stúlkan sem lék sér að eldinum
The ugly truth

Hvorki né
Surrogates
Funny people

Mæli alls ekki með
Gamer

Mig langar að sjá
9
Jóhannes

mánudagur, 19. október 2009

Eitt besta Excel bloggið á netinu; Pointy haired Dilbert, skrifaði í morgun grein um custom borða í Excel 2007, sem eitt og sér er óendanlega áhugavert eins og gefur að skilja.

Það sem gerir þessa grein jafnvel enn áhugaverðari er að hann skrifar hana eftir ábendingu frá mér. Ekki nóg með það heldur nefnir hann mig á nafn í færslunni.

Glöggir vegfarendur í 105 svæðinu í Reykjavík hafa væntanlega heyrt öskrin við andlegu sælublossana sem framkölluðust hjá mér við lesturinn. Ég biðst velvirðingar á því.

Sjá hér.

sunnudagur, 18. október 2009

Í dag fór ég í keppnisferðalag með liðinu mínu, UMFÁ, til Stykkishólms að keppa við Mostra.

Fyrir þá sem ekki vita hvar það er á landinu (t.d. mig) þá má sjá það á skýringamyndinni hér að neðan:

Tölfræðin
Kílómetrar eknir: 341,02
Tími í keyrslu: 242 mínútur
Stig skoruð af UMFÁ: 63
Stig skoruð af Mostra: 54
Sigrar UMFÁ: 1
Sigrar Mostra: 0
Töp UMFÁ: 0
Töp Mostra: 1
Syfjustig á leið heim (á skalanum 0-10): 7

föstudagur, 16. október 2009

Ég tók skrautlegt atriði í gær þegar ég átti óvart tíma hjá tannlækni kl 16:00 og í klippingu kl 16:30.

Upphafsvandamálin voru eftirfarandi:
1. Ég tafðist í vinnunni og varð seinn fyrir til tannlæknisins.
2. Ég vinn í miðbæ Reykjavíkur. Tannlæknirinn er uppi í Grafarvogi (ca. mörghundruð þúsund kílómetra í burtu).
3. Klukkan 16:00 hefst háannatími í umferðinni = gríðarlega erfitt að komast á milli staða.
4. Ég ek um á Peugeot 206. Sem er kraftlaus. En dugar.

Ég hafði 10 mínútur til að komast til tannlæknisins. Ég mætti klukkan 16:02 eftir að hafa ekið í gegnum nokkra bíla. Þá átti einhver kappi erfitt með að borga, svo tannlæknirinn tafðist. Klukkan 16:15 komst ég loksins að.

Samtal!
Ég: Hvað tekur þetta langan tíma?
T(annlæknir): Ca 20-30 mínútur.
Ég: Fökk.
T: Ertu að flýta þér?
Ég: Ég er að fara í lagning...eh... á mikilvægan viðskiptafund eftir korter.
T: Ok, við skulum reyna að flýta okkur þá.

Tannlæknirinn bókstaflega hljóp í myndatökuna og yfirlitið og kl 16:25 hljóp ég út, 10.000 krónum fátækari.

Þá tók við næsti vandamálapakki:
5. Tannlæknirinn er í Grafarvogi. Hárgreiðslustofan er í miðbæ Reykjavíkur (ca. mörghundruð þúsund kílómetra í burtu).
6. Klukkan 16:25 er nánast hápunktur háannatímans í Reykjavík. Bíll við bíl.
7. Ég ek um á Peugeot 206. Sem er kraftlaus. En dugar.

Eftir frekar spennandi ferð tók ég handbremsubeygju inn á planið hjá hárgreiðslustofunni og hljóp öskrandi inn á stofuna:

Ég: AFSAKIÐ HVAÐ ÉG KEM SEINT!!
H(árgreiðslukona): Ekkert mál.
Ég: Fökk.

Ég bað um James Bond klippinguna.

fimmtudagur, 15. október 2009

Þetta sár varð til á æfingu kvöldsins þegar barist var um frákast:

Ef einhver hefur áhuga á að myrða mig þá væri snjallt að gera það í nótt, þar sem körfuboltaleikmaðurinn sem gerði þetta sár er með DNA húðflögur úr mér undir nögl. Erfitt að líta framhjá þannig sönnunargögnum.

miðvikudagur, 14. október 2009

Hér er heilsuráð dagsins:

Eitt af mörgu sem fer í taugarnar á mér við að vakna á morgnanna eru stírurnar í augunum. Eftir að ég fór að nota linsur hefur þetta vandamál snaraukist einhverra hluta vegna og þannig eyði ég fyrsta hálftímanum á hverjum degi í að þrífa á mér augun.

Lausnin við vandamálinu er svo einföld að ég hálf skammast mín fyrir að segja frá henni. Hún er einfaldlega að sofa minna en hálftíma yfir nóttina. Augun hafa ekki tíma til að hnoða saman stírum á hálftíma og ég vakna hress yfir stíruleysinu.

mánudagur, 12. október 2009

Hér eru nýjustu fréttir:

1. Sigur
Fyrsti leikur körfuboltaliðsins UMFÁ í 2. deildinni fór fram í kvöld. Löng saga stutt:

UMFÁ 81 [mitt lið]
HK 53

Mjög stöðugur og góður leikur. En samt berst ég við tárin þar sem Dorrit mætti ekki.

2. Tónlist.is
Ég skráði mig inn á tónlist.is í fyrsta sinn í nokkur ár um daginn og komst að því að ég átti þar rúmlega 400 krónur inni. Ég keypti mér því fjögur íslensk lög en heiti því að gefa aldrei upp hvaða lög það voru.

Nokkrar vísbendingar:
* Eitt laganna er samið og sungið af Björgvini Halldórssyni.
* Ekkert þeirra er með Sálinni hans Jóns míns, enda er ég ekki geðsjúkur.
* Það er möguleiki á að eitt þeirra sé sungið af Pálma Gunnarssyni. Jafnvel tvö.
* Ég fyrirlít sjálfan mig fyrir að tralla með þessum lögum.
* Einu lagi póstaði ég í nýlegri bloggfærslu.

3. Hryllari
Ég er alvarlega að spá í að fara á hryllingsmynd í bíó en það hef ég ekki gert síðan ég var 15 ára.

Það hef alltaf verið á móti hryllingsmyndum. Ekki af því ég verð svo hræddur, enda er ég mikið karlmenni, heldur vegna fjárhagsástæðna.

Mér finnst ósanngjarnt að borga mig inn á heila mynd þegar ég sé ekki nema helminginn af henni fyrir höndunum á mér og heyri varla nema 75% af henni vegna öskra í mér öðrum bíógestum.

Myndin er Orphan og ástæðan sú að ég hef séð allar aðrar myndir.

sunnudagur, 11. október 2009

Á körfuboltaæfingu dagsins tognaði ég á þumalfingri hægri handar þegar boltinn skall á honum framanverðum. Ég er þá með þrjá tognaða fingur á hægri hönd.


Ég hef þó enn tvo nothæfa putta. Meira þarf ég ekki til að klúðra skotum.

Það verður áhugavert að sjá hvernig ég teipa höndina fyrir leikinn á mánudaginn. Hálfgerð ástæða til að mæta á leikinn, segja... engir.

föstudagur, 9. október 2009

Á mánudaginn næstkomandi (12. október 2009) spilar körfuboltalið mitt, UMFÁ, fyrsta leik tímabilsins í 2. deildinni.

Hann fer fram í íþróttahúsi Álftaness og hefst kl 20:00. Ég mæli með því að fólk mæti.

Allavega, ástæðan fyrir bloggskrifum þessum er sú að í dag skrifaði ég og sendi mitt fyrsta bréf (og vonandi ekki það síðasta) til Dorrit Moussaieff.

Bréfið er hér að neðan. Smellið á það fyrir stærra eintak í nýjum glugga.



Það eru ekki ýkjur að segja að leikmenn UMFÁ séu nánast óstarfhæfir úr spennu yfir mögulegri komu Dorritar á heimaleikina í vetur.
Í tilefni föstudags er hér íslenskt lag sem hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér eða frá því ég var ca 10 ára.

Skriðjöklar - Tengja [Lesið textann við lagið hér]








Textinn er, samkvæmt mælingu vísindamanna, mjög góður. Jafnvel bestur.

fimmtudagur, 8. október 2009

Það vita það ekki margir en líf mitt er einn stór gamanþáttur (sitcom). Hér er nýjasti þátturinn:

í gærkvöldi, heima:
Finnur hugsandi: "Hey, hvernig væri að hætta að borða sykur í einhvern tíma? Góð hugmynd Finnur, vel gert! Þú ert æði!"

*Fagnaðarlæti áhorfenda*

í dag, í vinnunni:
*Big ass súkkulaðikaka í boði fyrirtækisins útaf einhverju afmæli*

Finnur hugsandi: "ó boy. Þar fór það."

*Dósahlátur*
*Standandi lófatak*
*Finnur blikkar myndavélina*
*Finnur fær sér köku, skælbrosandi*
*Fagnaðarlæti áhorfenda*

*Finnur makar kökunni yfir sig allan*
*Starfsfólk kemur að*
*Dauðaþögn*

*Kredit listi*

Kannski ekki besti gamanþáttur í heimi en efnilegur.
Á leið minni frá bílnum upp í íbúðina, í gærkvöldi, þurfti ég að nota 4 lykla.

* Ég þurfti að læsa bílnum.
* Einn lykil til að opna pósthólfið, þar sem aðdáendabréf hafði borist mér (frá Lífeyrissjóðnum).
* Ég var með þvott í þvottahúsinu. Þar þarf auðvitað lykil.
* Til að komast í íbúðina þurfti ég svo enn einn lykilinn.

Þar á ofan þurfti ég lykilorð til að komast í tölvuna mína, þar sem ég millifærði peningum af einkabankanum. Til að geta það þurfti ég 5 lykilorð; tvö til að skrá mig inn, eitt millifærslulykilorð og tvö aukalykilorð af því ég hafði ekki millifært á þennan dealer lengi.

Er ekki nóg komið af paranojunni? Ég er að hugsa um að gera uppreisn gegn lyklum og lykilorðum. Amk einhvernskonar reisn. Ég er bugaður af því að þurfa að muna svona mörg lykilorð og bera svona marga lykla.

miðvikudagur, 7. október 2009

Í dag eru nákvæmlega 6 ár síðan ég hóf að nota Excel daglega (og Excel að nota mig). Fyrir þann tíma vorum við bara vinir.

Að því tilefni er hér lag sem er sérstaklega ætlað Excel. Lagið heitir Mein neues fahrrad (Ísl.: Nýi reiðfákurinn minn) og er með Siriusmo:



Afsakið dónaskapinn í myndbandinu.

þriðjudagur, 6. október 2009

Ég var að endurvirkja aðgang minn að tónlist.is en hafði gleymt lykilorðinu, svo ég lét senda mér nýtt, handahófskennt lykilorð í gegnum sms.

Ég fékk lykilorðið Smjörstöppusúpa.

Ekki aðeins get ég þá farið inn á tónlist.is aðganginn minn (þar sem ég átti óvænt inneign), heldur er ég kominn með frábæra hugmynd fyrir hádegismatinn.

sunnudagur, 4. október 2009

Eftir horror bíóferðina í Álfabakka á þriðjudaginn síðasta finn ég mig knúinn til að skrifa gagnrýni um öll bíóin, til að greiða úr andlegum flækjum sem fylgdu í kjölfar ferðarinnar.

Álfabakki
Aðstaða: Sex salir, þar af tveir stórir og einn VIP salur. Sætin eru þröng og óþægileg. Bakið er stíft og lítið fótapláss. VIP salurinn er góður. Salernisaðstaðan hlægilega lítil.
Bílastæði: Stórt og mikið bílastæði sem er alltaf troðfullt af bílum.
Afgreiðsla: Stór afgreiðsla fyrir miðasölu. Nammisalan er jafnvel enn stærri. Ætti að ganga hratt fyrir sig en er ein hægasta afgreiðsla norðurlanda. Ekki séns að kaupa í sjoppunni á innan við 10 mínútum.
Gestir: Gríðarlegur fjöldi unglinga og barna með athyglisbrest sem sækir þetta bíó. Hlýtur að vera grunnskóli og/eða menntaskóli nálægt. Getur skemmt bestu bíómyndir í heimi.
Annað/Umsögn: Stórt og flott bíó sem hefur alla burði til að vera mjög gott. En er það bara ekki. Svo langt í frá.
Einkunn: 4 af 10.

Háskólabíó
Aðstaða: Fjórir salir held ég. Sætin frekar óþægileg en gott fótapláss. Alltof hljóðbærir salir sem skemmir talsvert fyrir.
Bílastæði: Góð bílastæði.
Afgreiðsla: Mjög fljót afgreiðsla. Sennilega af því það er aldrei neinn í þessu bíói. Sem er gott.
Gestir: Fáir. Aðallega háskólanemar og eldri borgarar.
Annað/Umsögn: Ég man ekki eftir öðru en góðum bíóferðum í Háskólabíó. Fínt bíó ef þú vilt vera í fámenni og fá hraða og góða þjónustu.
Einkunn: 6 af 10.

Kringlubíó
Aðstaða: Þrír salir. Svipuð sæti og í Álfabakka. Þröng og óþægileg.
Bílastæði: Líklega þau bestu.
Afgreiðsla: Góð þjónusta og mjög hröð sjoppa einhverra hluta vegna.
Gestir: Allskonar. Aldrei of margir í bíó.
Annað/Umsögn: Meðalgott bíó með hraða og góða þjónustu.
Einkunn: 6,5 af 10.

Laugarásbíó
Aðstaða: Þrír salir. Góð sæti fínt fótapláss.
Bílastæði: Staðsetning bíósins býður upp á frekar slöpp bílastæði. En þau sleppa.
Afgreiðsla: Nokkuð hröð miðaþjónusta. Sjoppan er of lítil, sérstaklega þar sem bíóið er yfirleitt yfirfullt.
Gestir: Yfirleitt yfirfullt af allskonar fólki. Yfir meðaltali af nördum.
Annað/Umsögn: Væri líklega í harðri samkeppni við besta bíóið ef það væri ekki alltaf svona fjölmennt þar. Svo gott bíó að það verður verra vegna vinsælda.
Einkunn: 6,5 af 10.

Regnboginn
Aðstaða: Þrír salir. Þar af einn agnarsmár. Sætin eru ágæt. Vantar eitthvað upp á í loftræstingu. Tvisvar hef ég næstum kastað upp vegna reykingalyktar sem barst inn í salinn.
Bílastæði: Hræðileg. Staðsetning Regnbogans er mjög vond (Hverfisgata) þar sem engin bílastæði eru að finna.
Afgreiðsla: Fín þjónusta.
Gestir: Yfirleitt fámennt. Þar sem það kostar minna í þetta bíó er mikið um sparsamt fólk. Eldra fólk og unglingar. Einnig miðbæjarrottur.
Annað/Umsögn: Þægilegt bíó ef maður vill sjá mynd sem er komin úr sýningu í öðrum bíóum. En staðsetningin skemmir fyrir.
Einkunn: 5,5 af 10.

Smárabíó
Aðstaða: Fimm salir, hver öðrum betri. Einn VIP salur. Sætin til fyrirmyndar. Fótapláss nánast endalaust. Salernisaðstæðan svo góð að ég hlakka til að fara að pissa.
Bílastæði: Góð stæði.
Afgreiðsla: Góð þjónusta yfirleitt. Hef þó upplifað vöntun á fólki í sjoppuna.
Gestir: Yfirleitt mjög fjölmennt en það fer framhjá mér yfirleitt, þar sem bíóið er stórt og rúmgott.
Annað/Umsögn: Langbesta bíó höfuðborgarsvæðisins. Það eina sem vantar upp á er myndavalið.
Einkunn: 10 af 10.

fimmtudagur, 1. október 2009

Ég næ eftirfarandi lagi ekki úr hausnum á mér. Ég raula það hvert sem ég fer og dansa við raulið mitt hvar sem enginn sér mig. Tók óvenju margar pissupásur í vinnunni í dag.


Lagið er af nýrri plötu Vitalic sem ber heitið Flashmob. Mæli með henni. Lagið heitir Poison Lips (Ísl.: Baldni folinn).