Ég hef þurft að upplifa margan hryllinginn á hárgreiðslustofum. Ekki bara ný móðins hárgreiðslur sem ég hef ekki beðið um, heldur einnig aðstæður og viðburði sem ég á erfitt með að tjá mig um.
En ég geri það samt, til að vara aðra við mikilli skömm. Hér er því topp 5 yfir verstu lífsreynslurnar á hárgreiðslustofum:
5. Bartastytting
Klippikonan spurði hvort ég vildi láta snyrta bartana eitthvað. Ég samþykkti það. Þá rakaði hún þá alveg af. Ég var jafnvægislaus í viku á eftir.
4. Hnakkinn rakaður
Klippikonan rakaði allt hár fyrir neðan augu (og ofan háls) í burtu án þess að spyrja mig. Ég var 12 ára og hef ekki enn jafnað mig á þeim hryllingi.
3. Augabrúnir klipptar
Í miðjum klíðum við að klippa á mér hárið tók klippikonan upp á því að greiða augabrúnirnar á mér og klippa þær. Ég náði ekki andanum yfir ósvífninni. Kafnaði næstum.
2. Hárþvottur
Eitt sinn mætti ég svo illa til fara í klippingu að klippikonan krafðist þess að þvo mér um hárið. Þegar ég samþykkti vísaði hún mér að vöskunum, þar sem karlmaður beið mín.
Ég á frekar erfitt með nærveru annarra, er með ca 50 metra í comfort radíus. Ég get ekki ímyndað mér meiri innrás í þann radíus en að láta karlmann þvo mér um hárið. Ég var með vöðvabólgu í 6 mánuði eftir þvottinn og vott af búlimíu.
1. Niðurlæging
Þegar einni klippingunni var lokið spurði ég hvort væri ekki sniðugra að stytta hárið meira svo lokkur hætti að vera boginn. Klippikonan sagðist hafa lausn á því, vippaði fram sléttujárni og notaði á lokkinn. Það virkaði en það er aukaatriði. Ég hef aldrei farið aftur þangað og kýli yfirleitt í vegg þegar ég hugsa um lífsreynsluna.
Þrátt fyrir þessar upplifanir arka ég áfram sterkari en áður, vitandi að ekkert getur brotið mig niður, úr því ég lifði allt þetta af.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.