mánudagur, 30. júní 2008

Sebbi Tell.

Á föstudaginn reif ég gat á buxurnar við að taka VISA kortið úr rassvasanum (öskrandi) til að geta keypt mér miða á Sebastien Tellier tónleikana sem fram fara 28. ágúst, slík var ákvefðin, en miðasalan hófst einmitt þá.

Svona er þá tónleikaferill minn hingað til, fyrir utan böll (eða belli):

1. Foo fighters 2003. Nýfluttur í bæinn og vissi ekkert. Fínir tónleikar.
2. White stripes 2006. Bestu tónleikar sem ég hef farið á.
3. Atómstöðin, næstu helgi. Forhlustun á nýja disk Atómstöðvarinnar, Exile Republic. Mæli mjög með disknum en ég fékk eintak í vikunni. Tónlistin er þannig að maður vill hækka þar til tennurnar á manni brotna. Mjög gott rokk.
4. Sebastien Tellier, 28. ágúst 2008. Verða líklega sturlaðir tónleikar. Hvernig er annað hægt þegar alskeggjaður maður á í hlut?

Hér er smá dæmi; lagið er Divine, endurhljóðblandað (Remix) gert af Danger.

Til að koma í veg fyrir að skelfilegt myndband skemmi lífsreynsluna hef útilokað möguleikann á því að þið sjáið það. Forsjárhyggjan í fyrirrúmi. Þrýstið á play takkann. NÚNA!


Það gleður mig að tilkynna að fyndnasti maður heims er byrjaður með myndablogg.

Ég mæli með því, þrátt fyrir að það hafi valdið því að ég ældi úr hlátri og eyddi kvöldinu í þrif.

Hér er myndablogg Helga.

sunnudagur, 29. júní 2008

Í gær braut ég odd af oflæti mínu og lét sjá mig á almannafæri, nánar tiltekið á tónleikum Sigur Rósar og Bjarkar í Laugardalnum. Hér má sjá myndir frá því. Heilar þrjár.

Sökum kulda og fleiri karaktereinkenna minna stoppuðum við Óli stutt við á tónleikunum og fengum okkur ís í staðinn. Eftir það tefldum við, enda laugardagskvöld.

föstudagur, 27. júní 2008

Í gærkvöldi skrapp ég til Óla og Ernu og skoðaði nýjasta karakterinn í þeirra fjölskyldu, ungan nafnlausan dreng sem fæddist 25. júní síðastliðinn. Hér má sjá nokkrar myndir frá heimsókninni.

Það er ekki oft sem ég sleppi af mér beislinu en hér kemur það; barnið er krúsídúllu mússí mússu rassgat!

fimmtudagur, 26. júní 2008

Ég er skráður á tímaeyðslusíðuna Facebook, þar sem hægt er að velja úr sjálfdýrkandi drasli (e. application) til að hafa á síðunni sinni.

Í einu þeirra, sem ég setti upp hjá mér, getur fólk valið eiginleika mína og draslið skilar svo niðurstöðu reglulega um það hvernig fólk skynjar mig.

Ég var að fá niðurstöðu og hún er óhugnarlega nákvæm:

Kostir:
Mannasiðaðastur (Best mannered).
Hef fengið atkvæði hér frá fólki sem les ekki þessa síðu.

Frægastur (Most famous).
Vann náttúrulega einu sinni disk vikunnar á Rás 2. Fólk hefur ekki gleymt mér síðan.

Mest skapandi (Most creative).
Þetta á líklega við eldamennskuna mína. Fólk veit aldrei hvað ég ætla að elda; núðlur eða Cheerios.

Á mest vin sem eignaðist barn í gærdag (Most friend of a guy who had a baby yesterday).
Þetta stemmir. Óli Rúnar og Erna eignuðust strák í gær á hádegi. Ég óska þeim skötuhjúum innilega til hamingju og ítreka tillögu mína að nafni á strákinn; Excel Risahraun Ólason.


Ókostir:
Minnst svalur (Least cool).
Bömmer.

Með verstu myndina (Person with the worst profile picture).
Hef haft ca þessa mynd undanfarið. Mér finnst hún lýsa mínum innri manni mjög vel.

Mesti fokking hálfvitinn (Most fucking asshole).
Stemmir.

Hver segir svo að Facebook sé tímaeyðsla!

miðvikudagur, 25. júní 2008

Stundum hlusta ég á gömul Quarashi lög af Youtube í vinnunni og hugsa mér mér, orðrétt: "vá".

Stundum velti ég því fyrir mér af hverju Quarashi varð ekki heimsfræg fyrir skemmtilega slagara og kraftmikið öskurrapp.

Stundum fæ ég tár í augun yfir því að Quarashi skuli hafa hætt. Þó ekki sorgartár, þar sem ég er grunsamlega mikið karlmenni. Nei, ég græt bara reiðitárum yfir ósanngirninni.

Stundum hugsa ég hvort Hössi fari ekki að útskrifast úr háskóla svo hljómsveitin geti haldið áfram í sinni upprunalegu mynd.

Stundum hringi ég í þá kappa og öskra eitthvað, í geðshræringu rétt áður en skellt er á mig.

Stundum það meira að hlusta á Quarashi og stundum með, hátt og snjallt. Við getum byrjað hér fyrir neðan á Mr. Jinx.



Ég held það sé kominn tími á að hringja á vælubílinn fyrir mig.

þriðjudagur, 24. júní 2008

Ég hef bætt...

...við nýjum fjórförum á fjórfarasíðuna. Þessir fjórfarar hafa verið að veltast um í hausnum á mér í 2 ár, sem útskýrir umtalsvert magn af mígreni undanfarið.

...á mig 11 kílóum síðan ég byrjaði að mæta í ræktina fyrir hálfu ári síðan. Stefnan er tekin á að bæta á mig 10 kg í viðbót og tveimur hornum með lítilsháttar aðgerð, að því gefnu að ég missi ekki úr neina máltíð og þurfi að byrja upp á nýtt.

...aðsóknina á Arthúr vonandi eitthvað með því að svara nokkrum spurningum frá Morgunblaðinu og senda þeim nokkrar strípur til birtingar. Birtist líklega á morgun. Þetta er viðvörun.

...metið í montbloggi og sjálfsauglýsingu.

...líðan mína með því að hafa bloggað í dag. Ég mun sofa í nótt.

mánudagur, 23. júní 2008

Eftir vinnu í dag ætlaði ég að gera eftirfarandi:

* Fara í ræktina.
* Þvo þvott.
* Leita að ísbjörnum og mögulega flytja þá til síns heima.
* Nefna í bloggfærslu að George Carlin lést um helgina, en hann kom m.a. með þessa snilld.
* Leita leiða til að bjarga krónunni, en hún er í sögulegu lágmarki.
* Elda mér núðlur.
* Lækka stýrivexti.
* Minna á að Arthúr er byrjaður aftur.
* Fara í langa sturtu.

En nei, ég sofnaði í sófanum heima eftir vinnu og vaknaði svo seint að það er enginn tími fyrir neitt nema núðlur og sturtu.

Planið út mánuðinn er svo þéttbókað að ég sé ekki fram á að komast í þessi verkefni alveg í bráð.

sunnudagur, 22. júní 2008

Sögustund


Sögustund
Originally uploaded by finnurtg
Dagurinn í dag skiptist niður í ræktarferð, heitapottsliggj og út að borða, allt með Heiðdísi nokkurri (borið fram: BFF).

Á myndinni má sjá að Heiðdís skemmti sér mjög vel við matinn og sögurnar mínar, sem fyrir einhverja sérkennilega tilviljun snérust allar um drepsóttir.

Myndin er tekin eftir að ég skellti Róhypnol töflu í glasið hennar, til að róa hana aðeins niður.

föstudagur, 20. júní 2008

Ég fór til tannlæknis í morgun að láta fylla upp í holu í sálinni minni og tönn, en í gær hrökk fylling úr (tönninni, ekki sálinni) við að borða brauðsneið, af öllum sneiðum. Núna tala ég eins og Sylvester Stallone, enda nýkominn frá tannlækni og dofinn.

Ef einhver hefur löngun í að kýla mig þá vinsamlegast kýldu mig í andlitið vinstra megin, rétt við hliðina á nefinu og bara næstu 2 tíma. Og hringdu á undan. Annars máttu sleppa því.

fimmtudagur, 19. júní 2008

Alltaf þegar maður heldur að lífið geti ekki orðið betra þá gerist eitthvað svo stórkostlegt að það er erfitt að blogga ekki um það. Hér eru nokkrar vísbendingar um að heimur batnandi fer:

* Telma Tómasson er aftur farin að segja fréttir á Stöð 2. Hún nær að láta fiskifréttir hljóma áhugaverðar og jafnvel kynþokkafullar.

* Myllan breytti nýlega uppskriftinni að skúffukökunum sínum; frá því að vera með fáránlega þurran og andstyggilegan botn í að vera með einn safaríkasta og bragðbesta botn á skúffuköku sem ég hef smakkað. Af hverju ætti ég að borða eitthvað annað en skúffuköku hér eftir?

* Bensínverð hefur ekki hækkað núna í þrjú korter. Stórkostlegt!

* Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að vera skuldlaus. Fyrir nokkrum dögum fékk ég reikning sem hjálpar mér að verða skuldlaus. Fyrsta afborgun af LÍN lánum; 85.000 krónur í einu. Ég veit ekki hvort ég eigi að gráta eða stökkva út um gluggann úr hamingju.

* Það hefur verið sól og blíða í Reykjavík núna síðustu 3 vikur amk. Engin rigning í allan þennan tíma. Ég væri sennilega löngu búinn að gleyma hvernig vatn lítur út ef ég færi ekki í sturtu, sund, drykki það ekki, svitnaði ekki og skyrpti því ekki framan í fólk.

miðvikudagur, 18. júní 2008

Í gær skipti ég um kynstofn þegar ég fór í 3ja tíma aðgerð í Laugardalnum. Aðgerðin fól í sér að liggja á bekk við sundlaugarbakkann og baða sig í sólinni.

Hér eftir þekkist ég ekki lengur sem hinn hundleiðinlegi og náföli Aría-Finnur, heldur sem hinn ofurhressi, dansóði og síbrosandi (lesist: Dauðadrukkni) Latínó-Finnur. Næsta skref er að safna yfirvaraskeggi.

Ég kýs að sanna þetta ekki með mynd, þar sem umbúðirnar eftir aðgerðina hylja enn andlitið á mér.

mánudagur, 16. júní 2008

Í kvikmyndahúsum landsins eru 13 myndir í spilun. Þar af er ein barnamynd. Eftir sitja 12 myndir. Ég hef séð 7 af þeim sem þýðir að ég hef séð 58% allra mannsæmandi mynda bíóhúsanna.

Hér eru þær sem ég hef ekki gagnrýnt nú þegar:

88 minutes
Þryllir [lesist: Þrydlir] með Al Pacino og öðrum smærri. Ekki líkamlega smærri, þar sem það er erfitt. Al Pacino hefur aldrei verið jafn lágvaxinn og með hárið jafn mikið upp í loftið og í þessari mynd. Verulega ómerkileg mynd með ruglingslegum og fyrirsjáanlegum söguþræði.
1 stjarna af 4.

Indiana Jones IV
Ef utan eru talin 19 ár, þá eldist Indiana Jones ekki neitt. Í þetta sinn er leitað að gullborg einhverri með hjálp kristalhauskúpu. Myndin tekur óvænt valhopp í vísindaskáldskapinn undir lokin sem skemmir eitthvað fyrir. Samt skemmtileg mynd.
2,5 stjörnur af 4.

The Happening
Eitthvað í loftinu veldur því að fólk fær Goth veikina; reynir að drepa sig. Fólk reynir að flýja þessa tískustefnu með misgóðum árangri. Fín afþreying. Hraðasta mynd leikstjórans M. Night Shyamalan til þessa. Eitthvað vantar þó.
2 stjörnuur af 4.

The Incredible Hulk
Raunarsaga eins skapstærsta manns í heimi. Þegar hann tryllist þá rústar hann öllu og drepur fólk. Herinn eltir hann og vill fá að beisla reiði hans. Helst í flösku. Merkilega góð mynd, þrátt fyrir þunnan söguþráð. Eitthvað vantar [lesist: ekkert kynlífsatriði].
2,5 stjörnur af 4.

sunnudagur, 15. júní 2008

Stórfréttir: Ég kláraði bók um daginn. Það er ekki allt því ég kláraði hana á tæpum mánuði. Og það er ekki heldur allt því ég er byrjaður á næstu og stefni á að klára hana á 3 vikum! Og það er ekki heldur allt! Ég borðaði hana á eftir.

Bókin sem ég kláraði er Darkly Dreaming Dexter, en sjónvarpsþátturinn um Dexter er ca sá eini sem ég horfi á.

Bókin sem ég stefni á að klára á 3 vikum er Dearly Devoted Dexter.

Meðaltíminn sem ég tek í að klára bækur er 9 mánuðir, 2 vikur, 4 dagar og 12 klukkutímar.

föstudagur, 13. júní 2008

Sú hugmynd valt inn á borð hjá mér nýlega að skreppa á sólarströnd með frænda mínum í viku í lok júní. Ég stökk á hugmyndina og faðmaði hana þéttingsfast, þar til hún næstum kafnaði.

Allavega, í huga mínum hófst greiningarvinna á hugmyndinni. Til að einfalda greininguna setti ég upp í kosti og galla:

Gallar:
Ég á engan pening.
Það er of mikið að gera í vinnunni.
Ég hata að ferðast.
Það er nóg af sól í Reykjavík.
Ég mun sakna vina minna.
Ég þarf að endurnýja vegabréfið ef ég fer.
Það fæst ekkert Risahraun í útlöndum.

Kostir:
Vatnsleikjagarður!

Svo hefst talningin. Fyrir hvert atriði fæst 1 stig. Fyrir hvert upphrópunarmerki fást 100.000.000 stig.

Kostir: 100.00.001 stig.
Gallar: 7 stig.

Ég fer út!

Ef einhver hefur áhuga á að koma líka, látið vita.

fimmtudagur, 12. júní 2008


Þessa okursíðu fann ég nýlega. Svo hrifinn var ég af hugmyndinni að ég sendi inn mína eigin Okursögu. Hún var eftirfarandi:

„Lið eitt í NBA vantaði miðherja. Þeir enduðu á því að gera nokkra ára samning við leikmann einn. Á næsta ári fæ þessi leikmaður 9 milljónir dollara í laun (rúmlega 710 milljónir krónur). Þetta verð fyrir leikmann sem er með 14,5 stig og 7,7 fráköst að meðaltali. Þetta er MEHMET OKUR! Hjá Utah Jazz.“

Annars er það helst í fréttum að í gær svaf ég frá 20:00 til 08:30 daginn eftir. Það er meira en ég hef sofið samtals hingað til um ævina (gróflega áætlað). Hoppfæv! Jafnvel hoppfæv í sjó að hætti lyftingamanna (sjá hér).

miðvikudagur, 11. júní 2008

Þraut dagsins:



Tekið við setningu prestastefnu í gær.

Finnið hvað á ekki við í myndskeiðinu.

Svar: Þessi pípuhattur er stílbrot við annars fína búninga.

þriðjudagur, 10. júní 2008

Í volæði mínu í gær horfði ég á Jay Leno. Aðallega af því ég var of þreyttur til að standa upp og ekki nógu þreyttur til að sofna. Svo ég lét mig hafa það. Ég er venjulega meira fyrir hámenningarefni á borð við Nágranna eða óperur.

Allavega, tvennt kom fram í þessum þætti sem ég vil koma á framfæri:

* Leikarinn Dustin Hoffman er einn fyndnasti náungi í heimi. Hann sagði m.a. brandarann "John McCain er svo gamall að hann átti einu sinni Sidney Poitier." Ég held reyndar að brandarinn hafi verið saminn af öðrum en mér er sama. Það breytir því ekki að ég ældi úr hlátri.

* Hljómsveitin Flobots flutti rapprokklagið Handlebars við mikinn fögnuð.

Í miðju slammi, liggjandi í sófanum, tók ég eftir línunni: „I can tell you about Leif Ericson“. Ég fékk blóðnasir af þjóðarstolti en blótaði þó í hljóði þar sem búast má við 150.000% aukningu ferðamanna* til Íslands í kjölfar vinsælda lagsins. 10% aukning er í lagi, jafnvel 50%, en 150.000% er of mikið.

Hver vill ekki kynna sér land Leifs Eiríkssonar, sem kemur fram í einni línu í meðalvinsælu lagi rokkrapphljómsveitar frá Bandaríkjunum?

Allavega, hér fyrir neðan er lagið og hér er textinn.



* Gróflega áætlað af mér. Engir útreikningar liggja fyrir þessari áætlun, aðrir en trú mín á þessu. Ekki véfengja trú mína!

mánudagur, 9. júní 2008

Í nótt horfði ég NBA úrslitaleik í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Svali og Benni lýstu leiknum nokkuð vel. Í miðri útsendingu segir Svali allt í einu: "Ég vil benda krökkum fyrir norðan sem eru að fara að dimmitera á að klæða sig ekki upp sem ísbirnir". Þetta kom engu við sem fram fór í útsendingunni.

Ég hló svo mikið að ég sá mig tilneyddan til að kýla í vegg þar til sársaukinn yfirgnæfði hláturþörfina og eðlilegt ástand komst á. Fyrir utan allt blóðið og mölbrotinn vegg.

Ég veit ekkert hvernig leikurinn fór.

sunnudagur, 8. júní 2008


Í gær vann ég samtals 112,3 dollara í gegnum póker á netinu. Það gera ca 8.556 krónur.

Sama dag tapaði ég samtals kr. 114,7 dollurum í gegnum sama póker. Það gera 8.739 krónur.

Í gær hló ég í 25 mínútur. Það gera tæplega 0,42 gleðistundir.

Sama dag orgaði ég í 29 mínútur. Það gera ca 0,48 óhamingjustundir.

Nettó var gærdagurinn frekar vondur.

föstudagur, 6. júní 2008

Tiltölulega nýlega fór ég í klippingu þar sem klippikonan stakk upp á því að augabrúnirnar á mér yrðu snyrtar. Ég samþykkti það, sótsvartur í framan af vandræðaleika yfir þessu leiða DNA vandamáli mínu.

Allavega, fólk (Björgvin bróðir) bað um mynd af nýju klippingunni á augabrúnunum. Hver er ég að neita æstum almúganum um mynd af mér?

Svona leit ég út fyrir klippinguna.

Svona lít ég svo út eftir klippinguna.

112 fyrir áfallahjálp. 118 fyrir upplýsingar ýmiskonar.

fimmtudagur, 5. júní 2008

Í dag fór ég í göngugreiningu. Þar fékk ég mjög óvæntar fréttir; svo virðist sem fæturnir á mér séu ekki jafn langir. Eða jafn stuttir, eftir því hvernig litið er á það.

Samkvæmt mjög nákvæmri skoðun, fjöldan öllum af mælingum og myndatöku var það staðfest að miðfóturinn er 5 sentimetrum styttri en hinir tveir.
Þessa stundina er ég að upplifa sömu tilfinningu og þegar ég beið eftir að pakkar voru opnaðir á aðfangadag þegar ég var 6 ára; ég er að niðurhala þjónustupakka fyrir Excel 2007, en eins og alþjóð veit hef ég margoft brotið á mér hnúana við að vinna á þessa stórkostlega gölluðu útgáfu af Excel.

Það er vonandi að forritið verði nothæft eftir þessa uppfærslu. Ef ekki þá veit ég ekki hvað ég get gert. Eina ráðið mitt við þessu; að fá blóðnasir úr pirringi, hefur verið notað í dag.

miðvikudagur, 4. júní 2008

Þegar ég hef ekki frá neinu að segja þá finnst mér ágætt að bregða á það ráð að dansa fyrir fólk.

Það er því miður ekki hægt þegar kemur að bloggi, svo ég notast við næstbesta ráðið; að mæla með lagi.

En í þetta skiptið mæli ég ekki aðeins með lagi. Ég mæli líka með myndbandi. Sem betur fer er myndbandið við sama lag og ég ætlaði að mæla með. Ótrúleg tilviljun.

Allavega, lagið heitir Frontier psychiatrist og er með sprelligosunum í The Avalanches. Þið munið kannski eftir endurgerð lagsins hjá Sálinni hans Jóns míns en þá hét það Hey Kanína.

Myndbandið skartar allri hljómsveitinni á tónleikaferðalagi sínu um Grænland:

þriðjudagur, 3. júní 2008



Áður en lengra er haldið; smellið á myndina hér að ofan. Hún er tekin af Facebook síðunni minni (nöfn hafa verið svert þar sem enginn vill viðurkenna að tengjast mér á neinn hátt).

Takið eftir Just-eat auglýsingunni niðri í vinstra horni. Áhugavert.

Getur verið að Just-eat hafi framkallað þennan gjörning til að glæða viðskiptin lífi? Eitthvað til að hugsa um í kvöld og nótt, ef þið liggið andvaka (af vænisýki).
Ég vaknaði áðan í vinnunni, kviknakinn og man ekkert hvað gerst hafði í morgun.

Svo var mér litið á tölvuskjáinn. Þar var formúla fyrir útreikning á áhorfi og þessi útskýring með formúlunni:

„* Rtg% uppsafnað er áætlun uppsafnaðs meðaláhorfs út frá hlutfallslegri aukningu frá frumsýningu til uppsafnaðs áhorfs í Rch% (dekkun).“

Ég býst við því að eyða restinni af vikunni í að reyna að átta mig á því hvað ég hafi átt við með þessu og að finna fötin mín.

mánudagur, 2. júní 2008

Það eru 50% líkur á því að á þessari mynd (hér á hægri hönd), sé hún skoðuð í fullri stærð, leynist fólk vera að stunda mök, jafnvel ástarmök.

Finnirðu þetta fólk áttu í vændum stórkostleg verðlaun í mínu boði.

Svo eru 50% líkur á því að það sé ekkert á þessari mynd nema bílar, hús, tré og annað ótengt mökum og að þetta sé bara ömurleg tilraun mín til að fá fólk til að skoða GSM myndasíðuna mína.

Nokkuð góðar líkur. Til mikils að vinna.

sunnudagur, 1. júní 2008

Ég er haldinn þeirri einstaklega sérstöku áráttu að viðurkenna aldrei að hafa verið sofandi, ef ég er vakinn með símtali. Yfirleitt segist ég hafa verið nývaknaður og ekki kominn fram úr rúminu en í nótt kom ég með þá fáránlegustu hingað til.

Símtalið barst mjög seint eða kl. 04:00 ca og því erfitt að segjast hafa verið nývaknaður. Svona var samtalið ca:

Hringjandi: Hæ, Finnur?
Ég: ehh..já?
Hringjandi: Var ég að vekja þig?
Ég: Nei nei.
Hringjandi: Nú? Hvað varstu að gera?
Ég: Ehmm....ég var...að hérna...ehmm...ég var að hugsa.
Hringjandi: Hugsa?
Ég: Já, ég lá hérna og hugsaði.
Hringjandi: Ok, ég vakti þig semsagt.
Ég: Nei nei. Var að hugsa.
Hringjandi: Ég hringi bara á morgun.
Ég: Fínt.

Ég held hún hafi trúað þessu.