Alltaf þegar maður heldur að lífið geti ekki orðið betra þá gerist eitthvað svo stórkostlegt að það er erfitt að blogga ekki um það. Hér eru nokkrar vísbendingar um að heimur batnandi fer:
* Telma Tómasson er aftur farin að segja fréttir á Stöð 2. Hún nær að láta fiskifréttir hljóma áhugaverðar og jafnvel kynþokkafullar.
* Myllan breytti nýlega uppskriftinni að skúffukökunum sínum; frá því að vera með fáránlega þurran og andstyggilegan botn í að vera með einn safaríkasta og bragðbesta botn á skúffuköku sem ég hef smakkað. Af hverju ætti ég að borða eitthvað annað en skúffuköku hér eftir?
* Bensínverð hefur ekki hækkað núna í þrjú korter. Stórkostlegt!
* Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að vera skuldlaus. Fyrir nokkrum dögum fékk ég reikning sem hjálpar mér að verða skuldlaus. Fyrsta afborgun af LÍN lánum; 85.000 krónur í einu. Ég veit ekki hvort ég eigi að gráta eða stökkva út um gluggann úr hamingju.
* Það hefur verið sól og blíða í Reykjavík núna síðustu 3 vikur amk. Engin rigning í allan þennan tíma. Ég væri sennilega löngu búinn að gleyma hvernig vatn lítur út ef ég færi ekki í sturtu, sund, drykki það ekki, svitnaði ekki og skyrpti því ekki framan í fólk.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.