fimmtudagur, 30. nóvember 2006

Ég hef skrifað og gefið út mína fyrstu vefbók. Ég ákvað að reyna að græða á heilsuæðinu sem er að tröllríða öllu.

Í bókinni er að finna alla mína vitneskju um megrunarmál og heilsu.

Hér er hún.
Í gær klemmdi ég mig á vísifingri vinstri handar í vinnunni. Sársaukinn var yfirþyrmandi. Það var þó bara byrjunin.

Eftir vinnu steikti ég samloku fyrir Soffíu og brenndi mig á sama fingri þegar ég ætlaði að snúa henni (samlokunni) við á pönnunni.

Þegar því var lokið klippti ég nöglina óvart of stutta sem veldur sársauka sem aldrei fyrr.

Ég lít þó á björtu hliðarnar. Þetta hefði getað verið hausinn á mér.

miðvikudagur, 29. nóvember 2006

Þegar ég fer í bíó finnst mér gott að lesa dóma um myndina sem ég ætla að sjá áður en ég legg af stað. Um daginn ætlaði ég svo að kaupa mér skúffuköku en fann hvergi dóma um skúffukökur á internetinu, í blöðum, í útvarpinu eða í sjónvarpinu.

Þetta er ófremdarástand. Því verða hér eftir á þessari síðu skúffukökugagnrýni með stjörnugjöf.

Hér er fyrsta gagnrýnin.

Gerð: Skúffukaka m/súkkulaðikremi í gulum bakka (án gúmmíbangsa).
Framleiðandi: Myllan.
Verð: Kr. 299 í Nóatúni.

Krem: Mjúkt krem sem harðnar ekki nema það sé skilið eftir utan umbúða lengur en sólarhring (gerðist einu sinni fyrir frænda minn). Gríðarlega bragðgott. Fullkomið krem. Mætti þó vera talsvert meira af því vegna lélegs botns. Þrjár stjörnur af fjórum.
Botn: Þurr og leiðinlegur botn. Kakan jafnvel tók upp á því að molna ef lítil sneið var skorin. Ágætur á bragðið. Mætti bæta sykri. Ein stjarna af fjórum.
Samsetning: Það vita það allir sem vit hafa á skúffukökum að þurr botn og mjúkt krem eiga illa saman. Kremið reynir að bjarga því sem bjargað verður en allt kemur fyrir ekki. Myllan má ekki vanmeta samsetningu krems og botns þegar kemur að skúffukökum. Hálf stjarna af fjórum.
Frágangur og útlit: Frágangur er góður. Kremið er snyrtilegt og umbúðir vel hannaðar úr pappa. Auðvelt að opna og allt til fyrirmyndar. Girnileg kaka. Fjórar stjörnur af fjórum.
Skraut: Ekkert skraut er á kökunni sem hvorki er jákvætt né neikvætt. Tvær stjörnur af fjórum.

Niðurstaða: Sæmileg kaka en væri skelfileg ef ekki væri fyrir bragðgott krem.

Tvær stjörnur af fjórum.

þriðjudagur, 28. nóvember 2006

Baráttan gegn glæpum er ekki að virka. Glæpir hverfa ekki, sama hversu miklum peningum er dælt í löggæslu. Ég held það sé kominn tími á að hugsa um þann möguleika að lögleiða glæpi.
Keppinautur Arthúrs númer 1, Soffía Björg, birti nýlega nýja strípu. Strípan er hárfín ádeila á nútímasamband foreldra og barna og endurspeglar þá skoðun utanaðkomandi sem kraumar undir niðri. Svo er hún helvíti fyndin.

Hér er strípan.

mánudagur, 27. nóvember 2006

Fyrir einhverja fáránlega tilviljun var ég með stillt á Ríkissjónvarpið í kvöld þegar ég sá bókagagnrýni í Kastljósi. Þarna var mættur maður, sem er þarna í hverri viku að sögn, og var að gagnrýna bækur sem hann hafði lesið í vikunni sem leið. Í þetta skiptið tók hann þrjár bækur fyrir.

Þrjár bækur. Í einni viku. Hvern þykist hann vera að gabba?

Ég les eina bók á sex mánuðum og finnst ég vera bara djöfull góður.
Ég hef einbeitt mér nóg að lífinu og uppskorið vel. Nú er nóg komið. Nú ætla ég að einbeita mér að blogginu mínu. Ég hef hent inn kommentakerfinu aftur í tilraunaskyni.
Með hærri aldrei hef ég alltaf horft minna og minna á sjónvarp. Sennilega vegna þess að ég hef stundað internetið meira og meira í frítíma mínum.

Allavega, ég er þó með nokkrar sjónvarpsstöðvar og þær hafa margfaldast undanfarið. Hér eru stöðvarnar og ástæðan fyrir því:

Byrjunarpakkinn: RÚV, RÚV+, Skjár 1, Skjár 1 plúseinn, Sirkus og Sirkus+.
Þessar stöðvar eru ókeypis eða maður neyddur til að fá þær.

Viðbót 1: Fótboltastöðvar einhverjar og Vod-hluti Skjásins.
Fékk þetta ókeypis með rándýrri internettengingu Símans.

Viðbót 2: Stöð 2, Stöð 2+, Sýn, Sýn+, Sýn Extra, NBA TV og allar erlendar stöðvar sem hægt er að fá hjá 365.
Þetta fékk ég á vægu verði þar sem ég er starfsmaður hjá 365. Ég vildi fá mér NBA TV og þar sem hinar stöðvarnar kosta ekkert aukalega fyrir mig þá tók ég því.

Hér eru stöðvarnar sem ég horfi eiginlega bara á: Skjár 1, Skjár 1 plúseinn, Sirkus, Sirkus+ og NBA TV.

Alls er ég því með, á að giska, um 80 stöðvar og ég horfi á fimm.

Það er 6,25% árangur. Frekar lélegt.

sunnudagur, 26. nóvember 2006

Ég gerði eitt í dag sem ég hef aldrei gert áður.

Ég hjólaði í ræktinni, sem ég hef gert nokkrum sinnum.

Ég hjólaði í ræktinni og hlustaði á tónlist úr mp3 spilara, samtímis, sem ég hef líka gert nokkrum sinnum.

Ég hjólaði í ræktinni, hlustaði á tónlist úr mp3 spilara og horfði á skák í sjónvarpinu, allt samtímis, sem ég hef ekki gert áður og efast um að nokkur maður hafi nokkurntíman gert um ævina.

föstudagur, 24. nóvember 2006

Hér að neðan er fínn listi yfir lög fyrir ykkur sem eruð að stunda hlaup eða almenna brennslu í ræktinni. Þau duga einnig ef fólk vill hlusta á góð lög. Þess er krafist að notast sé við höfuðtól þegar hlustað er á lögin.

Put your hands up for Detroit - Fedde Le Grand
The Boxer - Chemical Brothers
Voodoo child - Rogue Traders
Smack my bitch up - The Prodigy
So easy - Röyksopp
What else is there - Röyksopp

Það var ekkert.

fimmtudagur, 23. nóvember 2006

Ég hef bæði fengið mér NBA TV og bókina Tricks of the Mind eftir Derren Brown, snilling.

Bless heimur.

miðvikudagur, 22. nóvember 2006

Ég horfi oftar en ekki á raunveruleikaþáttinn The Biggest Loser á Skjá einum og hef gaman af, sérstaklega í ljósi þess að þarna græða allir og þá er ég ekki að tala um peningagróða. Þættirnir fjalla um feitt fólk sem eru að læra heilbrigðan lífstíl og keppa um hver missir mesta hlutfallslega þyngd.

Allavega, ég tek eftir því í lok hvers þáttar eru þátttakendur mældir og prósentan sýnd sem þeir hafa tapað. Það mesta sem ég hef séð var um 4% eftir að hafa djöflast í ræktinni í heila viku.

Fyrir rúmri viku síðan mældi ég mig í ræktinni eftir að hafa mætt tvisvar þá vikuna (í stað þess að mæta fjórum sinnum). Ég hafði lést um 4 kg.

Mér reiknast að þetta sé 4,88% létting og ég er því stærsti taparinn þessa vikuna. Allt með því að sleppa ræktinni tvisvar sinnum.

Betra að taka það fram að ég er í ræktinni til að þyngja mig.

þriðjudagur, 21. nóvember 2006

Ég hef uppgötvað hjá mér nýtt blæti (e.: fetish). Um daginn keypti ég risavaxið sápustykki á kr. 520 bara af því það lyktaði ómótstæðilega. Reyndar lyktuðu öll sápustykkin frá þessu fyrirtæki ómótstæðilega og ég var ca 25 mínútur að ákveða hvaða stykki ég ætti að velja.

Það er ekki auðvelt að vera með sápustykkjablæti. Sennilega álíka erfitt og að kunna illa að fara með peninga, nema kannski örlítið erfiðara.
Ég vil gjarnan biðja fólk um að kaupa ekki Arthúr bókina...

...nema það hafi áhuga á myndasögunum. Ekki kaupa þetta til að "styrkja" mig. Ég tapa engu á þessu og mun líklega ekkert græða. Takk samt.

Ef þið viljið hinsvegar styrkja Jónas, hafið samband við hann varðandi bankanúmer.
Ég lenti í slagsmálum á leið í vinnu í morgun. Ég nefnilega sofnaði í ca hálfa sekúndu keyrandi í vinnuna og ákvað að grípa til örþrifaráða. Ég byrjaði á því að löðrunga mig í framan og þegar það gekk illa jók ég kraftinn sem ég setti í höggin. Við það varð ég pirraður ofan í þreytuna svo ég ákvað að meiða mig meira. Ég sló hendinni í stýrið svo ég meiddi mig í hendinni.

Að lokum sættust allir og ég komst í vinnuna, þó ég muni ekki hvernig.

laugardagur, 18. nóvember 2006

Skilgreiningin á "Lán í óláni": að vera með ca 20 bólur framan í sér en hafa þær allar í augabrúnunum.

Svo skemmtilega vill til að ég er einmitt að kljást við þetta lán í óláni. Þetta er mér reyndar mjög auðvelt þar sem ég er með vígalegustu augabrúnir íslandssögunnar.

fimmtudagur, 16. nóvember 2006

Ef ég talaði svona væri ég orðinn miðaldra og samt að reyna að halda í hressleikann (án þess að ná að gabba neinn):

"Klukkan orðin 17:54 og ég enn vinnandi. Ha. Vinni vinni bara! HAHAHA! Maður er bara vinnandi fram á kvöld! Meiriháttar ha. HAHAHA. Ha? Meriháttar? Nei! MEIRIháttar. Láttu laga sjónina. HAHAHA ha? Eða heyrnina! HAHAHA"

En ég er það sem betur fer ekki.

Ég er þó enn að vinna og það er ekki kúl. Langt frá því meira að segja.

miðvikudagur, 15. nóvember 2006

Þegar ég var lítill dreymdi mig alltaf um að fá hlekk á hlekkjasíðu.

Í dag voru tveir hlekkir sem tengdust mér á hlekkjasíðu. Og ekki á bara einhverri hlekkjasíðu heldur stærstu hlekkjasíðu landsins!

Draumar mínir hafa ræst.

Hér er fyrri.
Hér er seinni.

þriðjudagur, 14. nóvember 2006

Hér er listi yfir það sem ég var að tala um í gær:

* Ég málaði mynd um helgina, í fyrsta sinn síðan í menntaskóla. Myndin er ægifögur. Fólk sem hefur séð hana hefur farið að gráta, slík er fegurðin. Hér er mynd af hluti DVD safns míns (og Soffíu) ásamt málverkinu.

* Ég mætti í fyrsta sinn alskeggjaður í "nýju" vinnuna mína hjá 365 í gær. Viðbrögðin voru blendin.

* Arthúr bókin er komin til landsins og verður dreift í verslanir um allt land í dag og næstu daga. Ég trúi varla ennþá að ég sé búinn að gefa út bók. Ég, sem á í erfiðleikum með að klæða mig í buxur, hvað þá að gefa út bók.

Hér getið þið séð myndir frá bókinni (skiptið 1.jpg út fyrir tölur upp í 10.jpg).

Hér getið þið séð tilkynninguna á Arthúrsíðunni.

Hér getið þið séð bókina hjá útgefandanum, Skruddu.
Tvær stórar fréttir á morgun.

Með "tvær" á ég auðvitað við "Ein frekar stór og önnur agnarsmá" og með "frekar stór" á ég þá við "frétt sem allir vissu að myndi gerast og kemur engum á óvart".

Semsagt nenni ekki að blogga.

Er of þreyttur í puttunum til að skrifa um það núna.

föstudagur, 10. nóvember 2006

Ég ákvað í kvöld að sleppa því að fara í ræktina og þess í stað að borða heilan snakkpoka.

Með þessari ákvörðun hef ég bætt heimsmetið í slæmri lengri tíma ákvörðunartöku og landsmetið í góðri skammtíma ákvörðunartöku. Ekki slæmur árangur, miðað við það að það eina sem ég gerði var að borða snakkpoka.

fimmtudagur, 9. nóvember 2006

Það eru þættir á Sirkus sem heita Ghost Whisperer (Draugahvíslari) sem fjalla um konu sem sér drauga og hjálpar þeim að leysa vandamál áður en þeir láta sig hverfa í eitthvað stórsniðugt ljós.

Eins og flestar gagnrýnt hugsandi manneskjur, fussaði ég yfir þessu, segjandi að draugar sé næstheimskulegasta uppfinning fólks, sem getur í eyður í stað þess að nota rök (heimskulegasta uppfinningin er guð).

Nú kunnið þið spyrja ykkur; "bíddu nú við, hver eru rök hans gegn því að draugar séu til?". Svarið er einfalt en felst þó í nokkrum spurningum:

Í fyrsta lagi þá ná upptökuvélarnar myndum af draugunum í þáttunum. Þá vakna nokkrar spurningar: Hvernig fara myndatökumennirnir að því að ná akkúrat myndum af draugunum á réttum tíma, að segja akkúrat línurnar sem þeir ættu að segja samkvæmt handritinu? Það hlýtur að þýða að draugarnir eru leikarar en þá vakna enn fleiri spurningar: Hvernig ræður maður drauga til að leika í þáttum? Og ætli þeir fá greitt fyrir? Hvar ætla draugar að nota peningana? Og af hverju ættu þeir að eyða sínum stutta tíma sem eftir er á jörðinni í að leika í þáttum fyrir peninga sem þeir geta ekki einu sinni eytt?

Niðurstaðan er sú að draugar eru ekki til. Ég hef þó ekki hugmynd hvernig draugarnir sjást í þáttunum nema ef þeir eru leiknir af lifandi fólki en þá erum við komnir út í súrealískar pælingar og læt ég því staðar numið.

miðvikudagur, 8. nóvember 2006

Í fréttablaði dagsins eru frambjóðendur í prófkjöri sjálfstæðisflokksins spurðir 10 spurninga. Til að fá staðfestingu á gruni mínum um sjálfstæðisflokkinn ákvað ég að lesa þessa grein.

Fyrsta spurning: "Var stuðningur íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak mistök?"

7 af 9 svara í aðalatriðum: "Nei, ekki miðað við fyrirliggjandi forsendur á þeim tíma." Hinir tveir svara "Já, í ljósi upplýsinga sem síðar bárust".

Fyrir utan þá staðreynd að Íslendingar voru gerðir meðábyrgir fyrir morð á tug- ef ekki hundruði þúsunda manna í Írak fyrir tilstilli tveggja manna (sjálfstæðis- og framsóknarflokksmenn) þá er þetta svar gjörsamlega út í hött.

Þetta er eins og að spyrja morðingja nokkrum árum eftir að hann drap fjölskylduna sína: "Voru það mistök að hafa myrt fjölskylduna?" og hann myndi svara: "Nei, ég hélt á þeim tíma að konan mín hafði haldið framhjá mér"

Ég hætti að lesa eftir fyrstu spurninguna og hélt skoðun minni á þessum flokki, sem er ekki við hæfi ungra barna.

þriðjudagur, 7. nóvember 2006

Ég hefði getað borgað upp í nýja tölvu eða keypt mér 7.000 karmellur. Ég hef jafnvel getað flogið austur á Egilsstaði, til baka og aftur austur. Ég hefði meira að segja getað borgað fyrir utanlandsferð. En nei!

Ég þarf að vera fullorðinn. Að kaupa nagladekk er það leiðinlegasta sem hægt er að kaupa fyrir morðfé.

mánudagur, 6. nóvember 2006

Nýlega eignaðist ég fyrstu tvær seríurnar af þáttum Derren Brown; Trick of the Mind.

Í kjölfar þess að horfa á þættina nánast alla í röð pantaði ég mér bókina Tricks of the Mind eftir Derren Brown.

Og þetta allt kaupi ég nokkrum mánuðum áður en ég ferðast til Bretlands þar sem ég sit fyrir utan hús Derren Brown í þeirri von að geta fengið að eiga hár úr hausnum á þessum mesta snillingi samtímans.

sunnudagur, 5. nóvember 2006

Yfir og yfir - Heit flaga.

Lagið er amk, að mínu mati, flott. Svo flott að ég vildi að ég gæti dansað edrú.

laugardagur, 4. nóvember 2006

Ég skal vera sá sem bendir á að konungurinn er ekki í neinum fötum:

Flatsjónvörp eru óskýrari og verri en hlussusjónvörp. Þau bara taka minna pláss.

Stafrænt sjónvarp er miklu óskýrara en sjónvarp í gegnum loftnet.

Þarna, ég sagði það.

föstudagur, 3. nóvember 2006

Fólk er alltaf að kýla mig í magann af því það heldur að ég hati kvenfólk. Það er vísbending um að kominn sé tími á að skrifa eitthvað fallegt um það:

Ef karlmenn myndu missa kosningaréttinn væri stjórnin fallin*.

Og þá í allt aðra sálma:

Ef peningagráðugir karlmenn misstu kosningaréttinn væri stjórnin fallin**.


* Gögn skv. áreiðanlegum heimildum.
** Gögn skv. ályktun minni.
Í gær fór ég á körfuboltaæfingu og datt á öxlina við baráttu um boltann.
Í morgun vaknaði ég með klemmda taug í sömu öxl svo ég get hana illa hreyft.
Í dag hef grenjað yfir sársaukanum sem þessu fylgir.
Í kvöld á ég að mæta á árshátíð SÍA, segir samstarfsfólk mitt.
Á morgun ætla ég að hlæja yfir því að hafa ekki mætt á árshátíðina.
Á sunnudaginn sker ég af mér hendina til að losna við klemmdu taugina.
Á mánudaginn verð ég svo skammaður fyrir að hafa ekki mætt á helvítis árshátíðina.

fimmtudagur, 2. nóvember 2006

Ég hef áður skrifað um að það vanti þúsundarpunkt í ártöl. Dæmi: Núna er árið 2006. Af hverju er það ekki skrifað 2.006? Glórulaust að mínu mati.

Nú er ég kominn með uppfærða hugmynd að ritun ártals. Gaman og þægilegt væri ef ártalið væri ritað með fjórum aukastöfum. Þannig gætu mánuðir og sérstakir dagar mánaðarins fallið niður. Þetta myndi spara gríðarlegan tíma sem fer í að rita nákvæma dagsetningu þegar hægt er að gera sig skiljanlegan um dagsetningu með fjórum aukastöfum. Dæmi:

Í dag er 2.006,8372. Þeas 83,72% er búið af árinu.

Í framhaldi af því að mánuðir yrðu felldir niður myndi nýjum reglum verið komið á. Nýju "mánaðarmótin" yrðu þegar fyrsti aukastafurinn breytist. Til dæmis væri útborgað árið 2.006,1000 (6. febrúar klukkan 12:00 samkvæmt núverandi kerfi). Árið 2.006,2000 (15. mars klukkan 00:00) væri svo næst útborgað, reikningum dreift og svo framvegis.

Þið kunnið að spyrja, "Af hverju, fyrir utan peninga- og tímasparnað við að rita bara fjóra aukastafi í stað heillar dagsetningar, að gera þetta?". Svarið er einfalt: Af hverju ekki? Tölur eru æði.

Ég mun fljótlega sýna fram á peningalegan sparnað þessarar breytingar.