Þegar ég fer í bíó finnst mér gott að lesa dóma um myndina sem ég ætla að sjá áður en ég legg af stað. Um daginn ætlaði ég svo að kaupa mér skúffuköku en fann hvergi dóma um skúffukökur á internetinu, í blöðum, í útvarpinu eða í sjónvarpinu.
Þetta er ófremdarástand. Því verða hér eftir á þessari síðu skúffukökugagnrýni með stjörnugjöf.
Hér er fyrsta gagnrýnin.
Gerð: Skúffukaka m/súkkulaðikremi í gulum bakka (án gúmmíbangsa).
Framleiðandi: Myllan.
Verð: Kr. 299 í Nóatúni.
Krem: Mjúkt krem sem harðnar ekki nema það sé skilið eftir utan umbúða lengur en sólarhring (gerðist einu sinni fyrir frænda minn). Gríðarlega bragðgott. Fullkomið krem. Mætti þó vera talsvert meira af því vegna lélegs botns. Þrjár stjörnur af fjórum.
Botn: Þurr og leiðinlegur botn. Kakan jafnvel tók upp á því að molna ef lítil sneið var skorin. Ágætur á bragðið. Mætti bæta sykri. Ein stjarna af fjórum.
Samsetning: Það vita það allir sem vit hafa á skúffukökum að þurr botn og mjúkt krem eiga illa saman. Kremið reynir að bjarga því sem bjargað verður en allt kemur fyrir ekki. Myllan má ekki vanmeta samsetningu krems og botns þegar kemur að skúffukökum. Hálf stjarna af fjórum.
Frágangur og útlit: Frágangur er góður. Kremið er snyrtilegt og umbúðir vel hannaðar úr pappa. Auðvelt að opna og allt til fyrirmyndar. Girnileg kaka. Fjórar stjörnur af fjórum.
Skraut: Ekkert skraut er á kökunni sem hvorki er jákvætt né neikvætt. Tvær stjörnur af fjórum.
Niðurstaða: Sæmileg kaka en væri skelfileg ef ekki væri fyrir bragðgott krem.
Tvær stjörnur af fjórum.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.