þriðjudagur, 31. október 2006

Þessa frétt las ég með miklum áhuga. Allt þar til ég rakst á síðustu línuna. 50 manns á aldrinum 30-50 ára tóku þátt í þessu. Það gerir könnunina algjörlega ómarktæka þar sem úrtakið er agnarsmátt. Fyrir utan auðvitað að prósenturnar sem gefnar eru upp eru glórulausar. Til dæmis eru 9% af þessu úrtaki 4,5 manns. Annað hvort eru þetta 8% eða 10%.

Þessi grein er hinsvegar frábær.

mánudagur, 30. október 2006

Hér eru ömmur
Um ömmur
Frá ömmum
Til amma

Út í hött.

Nóg af vökun fyrir mig. Meira af svefnum.
Það er gríðarlega vandasamt verk að pumpa réttu magni af lofti í körfubolta. Ef pumpað er of litlu lofti þá skoppar boltinn ekkert en ef of miklu lofti er pumpað þá gerist eitthvað miklu verra. Það kom nefnilega fyrir mig um daginn og eftir það fór ég út að ganga. Restin náðist á video. Ég bætti tónlistinni við fyrir dramatísk áhrif.

Kíkið á það hér.

ATH. Þetta er ég, sama hvað hver segir. Ég hef breyst eftir heitt sumar á Egilsstöðum.
Hlaupnir kílómetrar: ca 15
Þar af á hlaupabretti: 2,2
Þar af í körfubolta: 9,5
Þar af í skvass: 3,0
Þar af að ná lyftu: 0,3

Mínútum eytt í að finna Arthúrshugmynd: 750
Fjöldi Arthúrshugmynda sem ég varð að fá: 3
Fengnar Arthúrshugmyndir: 0
Bömmerar yfir hugmyndaleysi: 3

Mínútum eytt í tiltekt: 17
Þar af í uppvask: 17
Þar af í aðra tiltekt: 0

Mínútum ætlað í tiltekt 180
Þar af í uppvask: 17
Þar af í aðra tiltekt: 163

Ég skil ekki af hverju ég hef ekki bloggað oftar, hafandi svona mikið að segja.

föstudagur, 27. október 2006

Nú þegar ég hef verið í sambandi í meira en ár hef ég orðið svolítið vanur því og í kjölfarið mjög ósjálfbjarga þegar ég er ekki nálægt Soffíu.

Dæmi:
Þegar Soffía fór á dansiball á Laugarvatni og gisti þar um daginn keypti ég einn inn í kvöldmatinn. Ég keypti súkkulaðikex.

miðvikudagur, 25. október 2006

Hér er listi yfir það sem ég trúi ekki á:
* Álfa.
* Tröll.
* Jólasveininn.
* Drauga.
* Guð í einhverskonar formi.
* Bleika ósýnilega einhyrninga.
* Spádóma aðra en þá sem byggðir eru upp á tölfræði eða fyrri reynslu.
* Tilgang lífs annan en þann að fjölga sér og skaða ekki aðra.
* Lýðræði í kapítalísku umhverfi.

Ég trúi hinsvegar á:
* Allt sem hægt er að sanna með óyggjandi hætti.
* Tölfræði.
* Nammiát.
* Andrei Kirilenko.
Hér er fyrirbyggjandi færsla. Til að koma í veg fyrir langt svar ef fólk sem ég hef ekki hitt lengi spyr mig í persónu "hvar hefur þú haldið þig?"

Á eftirfarandi stöðum eyði ég mínum meðalsólarhring:

Heima 55% úr sólarhringnum.
Í vinnunni 31% úr sólarhringnum.
Í ræktinni 7% úr sólarhringnum.
Í bílnum 6% úr sólarhringnum.
Í verslun 1% úr sólarhringnum.

Ef þetta er eina spurningin sem þið viljið spyrja mig þá hef ég komið í veg fyrir mannleg samskipti með þessari færslu. Það er það eina góða sem ég hef gert í dag.

þriðjudagur, 24. október 2006

Ég var að átta mig á einu í kjölfar þess að Jónas, samstarfsmaður minn í teiknimyndastrípunum Arthúr, neitaði tillögu að breytingu á Arthúrsíðunni. Tillagan var á þann hátt að einkunnagjöfin á strípurnar yrði flokkuð niður eftir kyni, staðsetningu og aldri þeirra sem gefa einkunn, til að byrja með.

Uppgötvunin er að ég er alveg eins og Adolf Hitler, nema í stað þess að vilja stunda landvinninga, morð á gyðingum og almenn fjöldamorð þá vil ég flokka hvert einasta smáatriði í íslensku samfélagi niður í tölfræði af sama ákafa og sprelligosinn Hitler. Svo er ég líka grænmetisæta og á móti reykingum eins og hann.

Ef ég hef ekki gert það nú þegar þá lokar þessi færsla endanlega fyrir góðan árangur nokkurntíman í pólitík.

sunnudagur, 22. október 2006

Úr því að ég er byrjaður að spyrja spurninga þá kemur ein í viðbót:

Þegar ég kveiki á MP3 spilaranum mínum birtist fyrst mjög illa teiknuð mynd af tveimur hrossum sem standa innan girðingar og síðan hreyfimynd af mjög illa teiknuðum náunga að hlaupa með fótbolta og skjóta honum svo í mark. Þá fyrst get ég byrjað að spila tónlist.

Af hverju?
Nýlega hófu íslendingar hvalveiðar aftur. Svona sé ég þetta:

Rökin fyrir hvalveiðum:
* Það er arðbært að veiða hvali. Svar: Rangt. Norðmenn hættu við að auka hvalveiðikvótann hjá sér þar sem kjötið seldist ekki.
* Hvalkjöt er gott. Svar: Kaupið þá kjötið af Norðmönnum.
* Við þurfum að passa að hvalirnir éti ekki fiskana frá okkur. Svar: Þessir örfáu hvalir sem veiddir verða hafa lítil sem engin áhrif á fiskstofninn.
* Okkur ber að nýta auðlindir okkar. Svar: Ef enginn vill kjötið og þetta skilar ekki hagnaði, jafnvel nettó tapi, af hverju verðum við að veiða hvali?
* Við megum þetta alveg. Það ræður enginn yfir okkur! Svar: Þetta eru ekki rök fyrir hvalveiðum en virðist samt vera helsta ástæðan hjá þeim sem eru fylgjandi hvalveiðum.

Rök gegn hvalveiðum:
* Hvalveiðar skaða ferðamennskubransann. Ef svo ólíklega vill til að hvalveiðar skili hagnaði þá er búið að skaða ferðamennskuna um margfalt meiri pening.
* Skref aftur á bak. Ísland á að reyna að kúpla sig frá veiðum sem mest, auka fjölbreytni í atvinnulífinu og stuðla að aukinni menntun þar sem menntun er lykillinn að góðum lifnaði. Þetta er því skref aftur á bak.
* Enginn tilgangur. Ef þetta er ekki arðbært, þetta skaðar ferðamennskuna og ef hvalirnir sem veiddir verða minnka ekki fiskstofninn, hver er þá tilgangurinn?

Kannski eru einhver rök þarna úti sem ég er að missa af, eins og að hvalir séu illir og okkur beri að myrða þá. Kannski er veiðiaðferðin svo falleg og náttúruleg að íslendingar hafi hreina unun af. Kannski er ég bara "vinstri hálfviti", af því ég vil spyrja spurninga.

föstudagur, 20. október 2006

Við samningaflóðið mitt hafa bæst við nokkrir nýjir samningar:

Fyrir er ég bundinn niður af:
Skuldabréfasamningi (lætur mig greiða af lánum mánaðarlega).
Bílalánasamningi (lætur mig greiða af Bjarna Fel).
LÍNsamningi (lét mig fá peninga).
Leigusamningi (lætur mig fá húsnæði gegn greiðslu).
Munnlegur samningur um að vera Soffíu trúr (sem er ekki erfitt).

Í gær bættust við þrír samningar:
Ráðningasamningur hjá 365 (lætur mig vinna gegn greiðslu).
Útgáfusamningur hjá Skruddu (leyfir þeim að gefa út Arthúr gegn greiðslu).
Auglýsinga/strípusamning við fréttablaðið Austurlandið (leyfir þeim að birta Arthúr gegn auglýsingum).

Ef ég skrifa nafn mitt einu sinni enn æli ég yfir mig allan.

fimmtudagur, 19. október 2006

Þetta er fín afsökun fyrir því að ég hef ekki haft mikinn tíma fyrir bloggið undanfarið, þó að þetta sé ekki ástæðan.

Ég ætla samt að nota hana.
Þetta er býsna ósanngjörn umfjöllun og meðferð á Bandaríkjamönnunum. Það gleymist nefnilega að taka fram að þeir frelsuðu þessa fjölskyldu undan oki Saddams!

þriðjudagur, 17. október 2006

Í dag, þessa mínútu er akkúrat mánuður síðan ég hætti að borða nammi. Eftir 15 mínútur verður svo mánuður liðinn síðan ég byrjaði aftur að borða nammi.

Aldrei aftur!

sunnudagur, 15. október 2006

Ég var að átta mig á einu sem mun spara mér tugþúsundi af mínútum á ári: Sjálfspróf á netinu eru kjaftæði og algjörlega ómarktæk.

Þið sem lítið á sjálfspróf á netinu sem afþreyingu en ekki eitthvað til að byggja líf sitt á: látið sem þið hafið ekki séð þessa færslu.

laugardagur, 14. október 2006

Litlar og vinalegar ábendingar til Flugfélags Íslands:

* Vinsamlegast kaupið sæti í flugvélar ykkar sem ekki eru hönnuð fyrir dverga svo venjulega vaxið fólk getur hvílt hausinn í stað þess sitja með hangandi haus.

* Það mætti vera hærra til lofts svo sauðir reki ekki hausinn alltaf í þegar þeir stíga í flugvélina.

* Það væri ekki vitlaust að fylgjast með hvort ælupokar séu enn í baksætunum. Frekar sóðalegt þegar hávaxna menn, með hangandi haus eftir að hafa rekið hann í, langar að æla í allri ókyrðinni með engan ælupoka.

* Lægra verð væri gott.

Fyrir utan þessi atriði var ferðin í morgun fín.
Ástæðan fyrir bloggleysi undanfarið er sú að það er allt að verða vitlaust hjá mér. Ekki nóg með að nýja vinnan sé handfylli heldur er ég að vinna í verkefni utan vinnu minnar (sem ég tilkynni fljótlega hvað er) sem krefst talsverðs tíma. Svo er ég enn með Arthúr sem tekur alltaf einhvern tíman. Ofan á þetta bætist svo við að ég vinn um helgar á austurlandi við að skrifa bréf fyrir skattinn.

Þarmeð er ekki öll sagan sögð því ég þarf víst að borða líka og það tekur sinn tíma. Til að geta gert þetta allt hef ég ákveðið að skera niður eftirfarandi aðgerðir:

* Þrif.
* Útlitssnyrting (t.d. rakstur, naglaklipp).
* Klósettferðir.
* Persónuleg samtöl.
* Blogg.

Ó...

föstudagur, 13. október 2006

Síðan ég auglýsti eftir mótspilara í veggtennis fyrir tveimur dögum hefur mér borist 0 tilboð.

Það gera að meðaltali:

* 0 tilboð á dag.
* 0,00 tilboð á klukkustund.
* 0,0000 tilboð á mínútu.

Ef ég tek svo meðaltal á sekúndu og margfalda með fjölda sekúndna á ári (rúmlega 31 milljón sekúndna) þá fæ ég að ég muni fá ca 0.000,0000 tilboð á einu ári.

Nokkuð gott.

fimmtudagur, 12. október 2006

Hér er listi yfir þær aðgerðir sem ég vil síst af öllu gera þessa stundina:

1. Skrifa langa bloggfærslu.
Hjálmar Baldursson hefur hafið skrif á netinu. Fyrir ykkur sem ekki þekkið til hans þá er hann myndlistamaður, grínisti og einn fyrirmyndarborgari.

Lesið bloggið hans hér eða ég risti eitthvað ósmekklegt í handlegginn á mér.

miðvikudagur, 11. október 2006

Hér er íþróttasaga mín í hnotskurn:

1982-1992: Fótbolti nánast daglega.
1991-1998: Borðtennis.
12.08.88 : 3ja sæti í bringusundi í Trékyllisvík.
1982- : Skák af og á.
1991- : Körfubolti.
2001- : Lyftingar af og á.
2004- : Bandý af og á.

Og nú í dag gekk ég skrefið til fulls í nýjustu íþróttinni þegar ég keypti mér veggtennisspaða og kúlur fyrir fúlgu fjár:

2006-2073: Veggtennis nánast daglega.

Ef einhverjir áhugamenn um veggtennis hafa áhuga á að spila við mig í Veggsport, hafið samband þar sem hörgull er á mótspilurum.

mánudagur, 9. október 2006

Ég hef það á tilfinningunni að ég muni vakna á morgun sem agnarsmár hluti af risastórri bólu sem í dag hefur verið að angra mig á hökunni á mér.

Framhald síðar.

sunnudagur, 8. október 2006

Frá því ég byrjaði í grunnskóla hef ég alltaf verið þekktur sem sonur skólastjórans en pabbi var bæði skólastjóri Finnbogastaðaskóla og Fellaskóla.

Þegar ég hætti svo í grunnskóla og fór í menntaskólann á Egilsstöðum varð ég ekki þekktur fyrir minn stórkostlega persónuleika heldur fyrir að vera yngri bróðir Styrmis.

Þegar hann svo útskrifaðist hélt ég að minn tími væri kominn. Þá kom Björgvin bróðir í skólann og vakti verðskuldaða athygli, þannig að ég varð þekktur sem eldri bróðir Björgvins.

Þegar ég svo útskrifaðist úr menntaskóla hélt ég að sól mín færi að skína en svo reyndist ekki vera. Ég gerðist næturvörður og var bara ekki þekktur þar sem ég svaf alla daga.

Þegar ég svo fór í Háskólann í Reykjavík varð ég þekktur sem náunginn sem er alltaf með Óla og Daníel.

Þegar nálgaðist útskrift varð ég líka þekktur sem náunginn sem er kærasti Soffíu gellu. Þá hóf ég teiknimyndasögugerð og er nú þekktur sem náunginn sem er með Jónasi í Arthúr.

Kaldhæðnislegt að þó ég hati fólk af öllu hjarta þá verð ég að þekkja fólk til að fólk viti hver ég er. Betra að taka það fram á þessum tímapunkti að ég heiti Finnur.
Nýr bloggari hefur bæst við í safnið. Hann hefur skapað sér þá sérstöðu hjá mér að ég þekki hann mjög lítið en ég þekki þó alla þrjá bræður hans, þá Erling, Elfar og Víði. Þessi heitir hinsvegar Hafþórarinsson (spara pláss).

Hér er hlekkur á hann. Gjörðu svo vel og takk fyrir hlekk á mig og Arthúr.

fimmtudagur, 5. október 2006

Einu sinni þráði ég ekkert heitar en að segja "ég má ekki vera að þessu, ég er á leið á fund". Ég hlakkaði mjög til að verða fullorðinn og geta sagt þetta.

Núna, þegar ég er kominn í vinnu þar sem það eru fundir hvern einasta dag og stundum nokkrir á dag þrái ég ekkert heitar en að segja "Ekkert mál, ég má alveg vera að þessu. Ég er alls ekki á leið á fund."

Ég er að ljúga. Ég elska að fara á fundi!

þriðjudagur, 3. október 2006

Fyrir ykkur sem eruð hrædd við drauga; ég get og ætla hérmeð að eyða draugahræðslu ykkar.

Ég þarf nefnilega að viðurkenna svolítið fyrir ykkur; ég er skyggn. Ég hef ekki séð einn einasta draug um ævina. Þar með telst það full sannað að draugar eru ekki til.

Sjá grafísku útgáfuna af þessari færslu hér.
Ég hef fundið fullkomna leið til að haga mér eins og smábarn og fá allt sem ég vil en líta samt út eins og gáfumenni.

Þegar ég var lítill öskraði ég oft í frekjukasti "já, en samt!!!" og það dugði yfirleitt til að fá mínu framgengt. Með þessu öskri sætti ég mig ekki við rökin gegn hegðan minni og vildi samt fá mitt.

Í dag breyti ég setningunni örlítið með sama árangri: "Já, en samt sem áður!!!" og ég fæ allt sem ég vil.

mánudagur, 2. október 2006

Það er fátt vandræðalegra en að vera nýbyrjaður að vinna á nýjum stað og girða óvart peysuna ofan í buxurnar að aftanverðu eftir fjöruga salernisferð og átta sig ekki á því fyrr en miklu seinna...lesa meira.