föstudagur, 31. júlí 2009

Ég hef lokið flutningum að mestu frá Hafnarfirði yfir í Skipholtið. Lífið í nýju íbúðinni byrjar ekki vel.

Um klukkan 23:30 var ég loksins búinn að flytja allt dótið í nýju íbúðina. Þá tók eftirfarandi atburðarás við:

1. Ég ætlaði að setja upp sjónvarpið og liggja yfir einhverju afslappandi, þar sem ég fann ekki fyrir fótunum á mér vegna þreytu.
- Samverkamaður í flutningum hafði tekið myndlykilinn og DVD spilarann ásamt öllum fjarstýringum í misgripum. Ég gat því bara horft á snjókomu.

2. Ætlaði að lesa bók í rúminu mínu inni í herbergi.
- Þar vantaði peru.

3. Ætlaði að skipta um peru inni í herbergi.
- Ljósakrónan brotnaði ofan á rúmið. Hún var úr gleri. Ryksugan fjarverandi.

4. Ætlaði leggjast í sófann í stofunni og lesa.
- Þá fór rafmagnið af allri blokkinni.

5. Ætlaði að fara að sofa í sófanum í stofunni.
- Þá byrjaði partí í blokkinni.

6. Þá ætlaði ég að liggja og stara upp í loftið í myrkrinu.
- Það tókst!

miðvikudagur, 29. júlí 2009

Hér er plan dagsins og næstu daga:

29.07.09: Vinna fullan vinnudag. Pakka öllu mínu dóti.
30.07.09: Vinna hálfan vinnudag. Flytja allt draslið yfir í nýja íbúð.
31.07.09: Þrífa íbúð sem ég er að flytja úr.
01.08.09: Gubba úr spennufalli. Hætta að skjálfa úr stressi. Borða.

þriðjudagur, 28. júlí 2009

Í dag fagna ég því að jörðin hefur snúist 11.323 sinnum og ferðast um 29.136.570.445 kílómetra síðan ég fæddist.

Sumir myndu segja mig gamlan og einkennilegan. Ég myndi segja mig víðförulan.

mánudagur, 27. júlí 2009

Nýlega kláraði ég bæði bók og geisladisk samtímis. Bókin var The Da Vinci Code og diskurinn La Roux með La Roux. Hér kemur gagnrýni:

1. La Roux - La Roux

Fyrsti diskur þessa dúós frá Bretlandi sem sérhæfir sig í technopoppi ættað frá 1985 og stórkostlegum hárgreiðslum.



In for the kill 3/4
Tigerlily 2/4
Quicksand 4/4
Bulletproof 4/4
Colourless colour 1,5/4
I'm not your toy 4/4
Cover my eyes 4/4
As if by magic 2,5/4
Fascination 2,5/4
Reflections are protections 2,5/4
Armour love 2,5/4
Growing pains 1,5/4
____________________
Alls: 34/48
= 71/100 = 71%

Mjög fínn diskur. Mæli með honum.

2. The Da Vinci Code
Skemmtileg bók. 90%.

sunnudagur, 26. júlí 2009

Þetta er að frétta:

Nýr nágranni
Í gærnótt ætlaði ég að skjótast úr húsi til að versla mér heróín (eða nammi) í Hagkaup. Þegar ég opnaði útidyrahurðina var kónguló búin að smíða stærðarinnar vef í dyragættinni. Þetta samtal átti sér þá stað:

Kónguló: "Góða kvöl...."
*Ég sló hana í andlitið með hnefanum svo hún flaug fram af 2. hæð*
Ég: "GÓÐA KVÖLDIÐ!"
*Munnvatn frussast í allar áttir, slík var bræðin*

Bíóferð
Í kvöld fór ég í bíó á sænsku myndina Män som hatar kvinnor (Ísl.: "Karlmenni sem hata kellingatussur") í lúxussal, hvorki meira né minna. Löng saga stutt: Góð mynd!

Lengi útgáfan: Með betri myndum sem ég hef séð á árinu (af ca 100 myndum). 3,85 stjörnur af 4.

Klækir
Með hjálp klækja og einbeittum brotavilja komst ég yfir nokkur lög með hinum stórkostlega tónlistarmanni Siriusmo, sem er ungur piltur frá Þýskalandi. Hér eru tvö lög sem ég get ekki hætt að hlusta á:

Uppáhaldslagið mitt í dag; Nights/Nights off.



Lizi.

föstudagur, 24. júlí 2009

Ég hef komið með helst til of margar alhæfingar um muninn á kynjunum sem ég hef svo brennt mig illa á stuttu síðar. Síðast talaði ég um að allar konur pissuðu í kopp á meðan allir karla borðuðu popp.

Sú kenning var fljótlega afsönnuð af Sænsku vísindaakademíunni með rannsókn sem spannaði 6 ár af þrotlausum prófunum.

Í dag uppgötvaði ég þó það eina sem aðgreinir kynin. Munurinn á kynjunum er í hnotskurn:

Allir karlmenn elska yfirvaraskegg.
Allar konur hata yfirvaraskegg.


Allt annað er nákvæmlega eins. Rannsóknin er byggð á athugasemdum kynjanna við öllu yfirvaraskeggtengdu á Facebook.

fimmtudagur, 23. júlí 2009

Ég upplifði kvikmyndasenu úr mjög ódýrri gamanmynd í morgun þegar ég vaknaði. Svona var handritið ca:

ÖNNUR HÆÐ Í LAUFVANGI 1. 85 FM ÍBÚÐ.

Finnur gengur fram úr herberginu sínu á nærbuxum einum fata klukkan 8:30 eftir að hafa verið vakinn af hávaðasömum verktökum sem hafa verið að ditta að húsinu síðustu daga. Hann fer í eldhúsið og opnar ísskápinn. Í eldhúsinu er verktaki, búinn að fjarlægja stærðarinnar rúðu úr eina glugga eldhússins.

Finnur lítur á verktakann og aftur í ískápinn.

Finnur (syfjaður)
Góðan dag

Verktaki (undrandi)
Góðan daginn

Finnur lítur mjög snökkt aftur á verktakann, glaðvaknaður.

Finnur (glaðvakandi)
HUH!

Verktaki blikkar skælbrosandi. Finnur yppir öxlum og linsan verður að hring í kringum andlitið á honum. Finnur blikkar. Hringurinn lokast. Klúðurslegur trompet hljómar.

SENA

Standandi lófatak.

Spoiler alert: Verktakinn var með lykla að íbúðinni og datt ekki í hug að fólk væri sofandi út til kl 8 að morgni.

þriðjudagur, 21. júlí 2009

Ég hef orðið var við aukna tilætlunarsemi í minn garð. Tvö símtöl í gær lýsa þessu best. Ath. nöfnum hefur verið breytt.

Fyrra símtalið:
*Síminn minn hringir í smá stund áður en ég næ að svara*
Ég: Sæll
Engilbert: Þrjár hringingar? Heldurðu að ég hafi allan daginn?
Ég: Það var maður að tala við mig í vinnunni.
Engilbert: Mér er sama. Nennirðu að hringja í mig?
Ég: ok.
*Hringi til baka. Ekkert svar*

Seinna símtalið:
Ég: Sæll
Ástþór: Áttu sexkantasett?
Ég: Nei.
Ástþór: Helvítis fífl.
*Símtal fjarar út*

Betra að taka fram að þessi símtöl áttu sér stað en voru sögð í gríni, vonandi.

mánudagur, 20. júlí 2009

Fyrir stuttu síðan missti ég þvag af hrifningu á Vodafone auglýsingunni fyrir Risafrelsi. Blandan af tæknibrellum, gríðarfögrum dömum og stórkostlegu lagi, sem gert var af Don Pedro, fangaði skilningarvit mín.

Don Pedro hafði bara snarað fram þessum 50 sekúndna tónbút eins og ekkert væri. Hér er auglýsingin:



Vegna áskoranna frá áhorfendum ákvað Don Pedro að lengja lagið og nú er það tilbúið; lagið Big með Suzy Thunder:


Hvers vegna Don Pedro ákvað að gera frekar slappt hommapopp úr þessu góða techno lagi mun ég aldrei skilja.

[Hér er hægt að niðurhala laginu í góðum gæðum]
[Hér er textinn. Hann er eftir Halldór Laxness]

Viðbót:
Hér er Louis CK að tala um bloggfærslu mína að ofan. Allt er stórkostlegt og enginn er hamingjusamur.


Mér þykir leitt að vera hluti af þessari vanþakklátu kynslóð. Ég þakka hérmeð fyrir lagið, sem er fríkeypis og ég get ekki hætt að hlusta á.

föstudagur, 17. júlí 2009

Í ágúst 1985, þegar Michael Jackson var upp á sitt besta, var þetta ritað í tímarit:

Michael Jackson: At 40, he will have aged gracefully and will have a handsome, more mature look. In number, his fans will have grown tenfold by the year 2000.

[Lausleg íslensk þýðing: Baldni Folinn Michael Jackson mun hafa elst vel um fertugt og mun hafa huggulegt, þroskaðra útlit. Í tölum mun aðdáendum hans hafa fjölgað tífalt árið 2000.]

Þar að auki var þessi spá um útlit Michael Jackson birt:

Nokkuð góð spá. Sami augnlitur.

fimmtudagur, 16. júlí 2009

Í dag drakk ég einn vítamínríkasta orkudrykk sem ég hef séð. Hann innihélt m.a.:

B12 vítamín: 7567% af ráðlögðum dagskammti.
B6 vítamín: 2200% af ráðlögðum dagskammti.
Niacin sýra: 190% af ráðlögðum dagskammti.

Ég þarf semsagt ekki að neyða ofan í mig B12 vítamín aftur fyrr en í lok september. Ljúft!

Það er ekki það merkilegasta við þennan drykk heldur nafnið á honum. Hann ber það virðulega nafn Extreme energy 6-hour shot, með sloganið "World's most extreme energy shot". TO THE MAX!

Þessi færsla var barin inn með hnefahöggum og lesin upp öskrandi til að tékka innsláttarvillur, skömmu eftir að drykkurinn var drukkinn. Radical orka!

Hér er það sem ég las, sá og heyrði í dag:

1. Frétt í Fréttablaðinu
„Mildi þykir að ungur maður hafi ekki beðið bana þegar bíll sem hann sat í sprakk í tætlur skammt utan við Akranes aðfaranótt mánudags. Maðurinn, sem er tæplega tvítugur, hafði verið að sniffa gas úr níu kílóa gaskút í bílnum og hugðist svo kveikja sér í sígarettu. Þá sprakk bíllinn.“

Ég gapti í ca þrjú korter eftir að hafa lesið fréttina. Til að byrja með; sorglegt hvernig fór fyrir manninum. Orðalag fréttarinnar er þó vægast sagt skrautlegt. Ég gerði þær línur sem mér fannst mest til koma, feitar.

2. Meðmæli Dr. Steve Brule
Doktor nokkur úr þáttunum Tim & Eric awesome show, great job! kemur með góð ráð fyrir einhleypa:


Snilldarþættir.

3. Hljóð í bílnum
Ég heyrði hljóð í bílnum, sem getur ekki talist eðlilegt. Og það eftir að ég hef greitt um 70.000 krónur fyrir að útiloka að hljóðið komi frá pústkerfinu eða bremsuklossunum. Sem minnir mig á þetta lag:



4. Fínt lag
Vafrandi um í Google Chrome fann ég lagið Triple chrome dipped með Michna. Getur ekki verið tilviljun.


Mæli með því að lesendur hlusti á þetta lag með höfuðtól.

miðvikudagur, 15. júlí 2009

Í gær ákvað ég að fara í sund í stað ræktar, þar sem hitinn var óbærilegur. Til að undirstrika dugnað minn valdi ég að mæla sundvegalengdina í megametrun í stað kílómetra.

Svo fann ég bekk og lá þar í 2 tíma, eða þar til ég varð svartasti maður sem ég þekki.

Niðurstaða:
Ég synti alls 0,0 megametra*.
Varð megasvartur* eftir sólbaðið.
Fór á megabömmer* yfir ræktarleysinu síðar um kvöldið.

* 1 mega = 1.000.000. Dæmi: 1 megametri = 1.000.000 metrar eða 1.000 kílómetrar.

mánudagur, 13. júlí 2009

Það er komið að ilvolgum smásögum:

1. Hárdrama
Í morgun vaknaði ég í frekar vondu skapi aldrei þessu vant og með hárið upp í loftið. Ég náði öllum lokkunum niður nema einum, sem kom mér í verra skap.

Þegar ég sá fram á að þurfa að ganga með þennan fáránlega lokk upp í loftið í vinnunni við hlátrasköll vinnufélaganna þá greip ég skæri í geðshræringu, klippti lokkinn af og henti honum öskrandi í klósetið.

Kosturinn við þessa glórulausu ákvörðun er að ég lít mun betur út núna. Gallinn er hinsvegar sá að ég lít út eins og geðsjúklingur, sem er reyndar ágætis framför.

2. Hliðarstökk Vínflaska
Ég er ekki mikið fyrir bíla. Eftir að ég keypti Peugeot ruslið mitt fyrir 4 árum hef ég lært að hata bíla, sem er nokkuð góð tilfinning.

En ég sá svo flottan bíl um daginn að hann hefur gjörbreytt lífsskoðunum mínum. Ekki nóg með að ég haldi því nú fram að bílar geti verið flottir heldur langar mig mjög mikið að stofna fjölskyldu, helst strax, svo ég geti keypt þennan fjölskyldubíl:

Dodge Magnum (Ísl.: Hliðarstökk Vínflaska).

Umsóknir sendist á finnurtg@gmail.com.

3. Vinnuævintýri
Í dag tók ég kaffi um klukkan 15:35, þegar ég var viss um að enginn væri lengur í kaffi til að forðast biðröð. Allavega, þegar ég kom þangað var osturinn búinn. Svo ég fékk mér gúrku á brauðsneiðina.

Þegar ég leit svo í kælinn sá ég að ein kókómjólk var eftir, svo ég greip hana, mjög feginn yfir heppni minni. Svo þegar kaffinu var lokið þá fór ég...

...ég get þetta ekki. Það gerðist ekkert merkilegt í vinnunni. OK!?

sunnudagur, 12. júlí 2009

Svíar eru að gera góða hluti í tónlist þessi árin.

Fyrst var það Abba í þessu myndbandi Ratatat við lagið Shempi (varúð: óhugnarlegt myndband!):


Svo Familjen með det snurrer i min skalle:


Og nú er það Maskinen með slagarann Alla Som Inte Dansar:


Í laginu varpa þeir fram þeirri kenningu að þeir sem ekki dansa séu nauðgarar. Það verður áhugavert að fylgjast með viðbrögðum vísindaheimsins við kenningunni og rannsóknum sem fylgja í kjölfarið.

laugardagur, 11. júlí 2009

Nýlega kom í ljós að ég hef ávaxtað lífeyrissparnað minn um -15,13% hjá Landsbankanum frá byrjun árs 2008. Í kjölfarið fór ég að velta fyrir mér öðrum valmöguleikum:

Valmöguleiki 1: Keppa í lottó fyrir allan peninginn.
Líkurnar á 1. vinningi eru 1 á móti 658.008 eftir að tölunum var fjölgað upp í 40. Ég þyrfti þá að kaupa 658.008 raðir til að vera öruggur. Hver röð kostar 100 krónur.

Það kostar því 65.800.800 að tryggja sér 1. vinning. Gerum ráð fyrir að ég vinni alla útgreidda vinninga fyrir þann pening.

Útgreiddur vinningur síðustu 10 vikur hefur verið um 14.549.847 krónur, þ.e. hagnaður upp á -51.250.953 krónur sem þýðir að ávöxtun yrði -77,89%.

Valmöguleiki 2: Brenna peningana.
Segjum að ég taki út allan lífeyrissparnað minn, ef það væri hægt; 1.000.000 krónur og brenndi hann. Eftir stæðu 0 krónur. Það væri þá ávöxtun upp á -100%.

Valmöguleiki 3: Geyma peninginn undir koddanum.
Tvö vandamál við þetta:

1. Verðbólgan étur upp gildi peninganna.
2. Ég sef verr með seðla undir koddanum.

Ef ég framreikna gildi milljónarinnar minnar frá byrjun árs 2008 með hliðsjón af verðbólgu þá fæ ég út að ég ætti 831.281 krónu eftir sem þýðir -16,87% ávöxtun.

Niðurstaða:
Það var rétt ákvörðun hjá mér að ávaxta fé mitt hjá Landsbankanum. Það er lítillega hagstæðrara en að ávaxta það undir koddanum mínum. Þar datt ég í lukkupottinn.

fimmtudagur, 9. júlí 2009

Ég var að klára að gera Excel skjal í vinnunni sem inniheldur 2.304 gröf. Skjalið er 20 sheets (ísl.: spjöld?), 26 megabæti að stærð og tekur 3 mínútur að opnast, lokast og vistast. Það tók mig ca viku að búa til og mun taka mig 25 vikur að gera úrelt.

En nóg af orðum. Meira af myndum:

miðvikudagur, 8. júlí 2009

Fyrir rúmu ári var rúmt eitt ár í að frumburður Óla Rúnars, vinar míns, yrði eins árs gamall. Frumburðurinn ber heitið Jón Ingi. Þetta vita líklega fáir sem lesa þessa síðu.

Ennþá færri vita að Jón Ingi á sér tvífara:

Jón Ingi að borða hakk í nokkuð góðum gír.

Stewie Griffin, nýteiknaður.

þriðjudagur, 7. júlí 2009

Sá merki atburður átti sér stað í gær að grín númer 250 milljón með nafnið mitt var framkvæmt. Það var eftirfarandi:

"Kannski að Finnur finni það".

Ég fer ekki nánar út í forsöguna. Það að þetta sé 250 milljónasta grínið með nafnið mitt er hinsvegar merkilegt. Það þýðir að hvern einasta dag ævi minnar hefur verið grínst með nafnið mitt 22.120 sinnum að meðaltali. Stundum oftar og stundum sjaldnar.

Ég vona að fólk geri sér grein fyrir því gríðarlega álagi á kímnigáfu mína sem þetta hefur í för með sér.

Í gær gerðist svo enn merkilegri viðburður en þá hitti ég nýju frænku mína, Önnu Maríu, aftur. Í þetta sinn með myndavél.


Anna María er 3. barnabarn foreldra minna, fyrsta barn systur minnar og Árna Más og fyrsta systkinadóttir mín, ef það er orð.

Hún er þeim ofurhæfileika gædd að gráta aldrei og vera alltaf hlæjandi. Einnig slefar hún frekar mikið. En það er víst eðlilegt. Stórskemmtilegt barn!

sunnudagur, 5. júlí 2009

Nokkur fríkeypis og valfrjáls heilræði:

* Fáið ykkur Gmail fyrir emailin ykkar, ókeypis.
- Þegar því er lokið, fáið ykkur gmail notifier. Líka ókeypis.

* Notið Google Reader, til að halda utan um þær síður sem þið lesið, ókeypis.
- Þegar því er lokið, bætið þessu bloggi við readerinn.

* Fáið ykkur Google Chrome vafrann, fyrir fljótlegra vafr, ókeypis.
- Þegar því er lokið, fáið ykkur Risahraun.

* Sjáið myndina The Hangover í bíó, ekki ókeypis.
- Á meðan á henni stendur, hlægið.

* Hlustið á eftirfarandi lög:

1. Reckoner - Radiohead:



2. Mary Poppins Returns - Mary Poppins


Þetta lag er, merkilegt nokk eftir íslending. Mjög gott lag í ræktina.

föstudagur, 3. júlí 2009

Það má vel vera að ástandið á Íslandi sé vont; að tekju- og söluskattur sé að hækka, hátekjuskattur sé að koma, laun séu að lækka, lán séu að hækka, vextir séu mjög háir, verðlag að hækka og atvinnuleysi hátt en...

...ég fæ allavega enn ókeypis í bíó, þar sem Sena er systurfélag 365. Sena var seld nýlega. Þarf að borga í bíó hér eftir, eins og viðbjóðslegur almenningur.

...við getum allavega sótt okkur höfundavarið efni á Piratebay um ókomnar aldir. Piratebay var víst seldur um daginn til kapítalískra svína (ath. ágiskun).

...það kostar ekkert að vera drullusama um þetta.

fimmtudagur, 2. júlí 2009

Rétt í þessu þutu hjá glugganum mínum í vinnunni, á að giska, 2-3 löggu-, slökku- og/eða sjúkrabílar með sírenurnar á fullu.

Af hverju veit ég hvorki hversu margir bílarnir voru né hvaða gerðir þetta voru? Af því ég leit ekki út um gluggann, þrátt fyrir mikla löngun. Svo mikla að ég beit neðri vörina til blóðs.

Samkvæmt skilgreiningunni* er ég þarmeð hættur að vera utan af landi, í fyrsta sinn um ævina!

*Skilgreining á því að vera utan af landi: Sá/sú sem lítur alltaf út um gluggann þegar hann/hún heyrir sírenuvæl, til að sjá hver var að slasa sig/brjóta lög/brenna húsið sitt. Í Reykjavík er þetta tilgangslaust þar sem enginn þekkir neinn.

Eða

*Önnur skilgreining á því að vera utan af landi: Að vera ekki frá stórreykjavíkursvæðinu.

Maður ræður sjálfur.

miðvikudagur, 1. júlí 2009

Þá er komið að enn einu smásögusafninu mínu. Allt sannsögulegt!

1. Ræktarferðin
Ég átti mína verstu ræktarferð hingað til um daginn. Ég hef verið tognaður í úlnlið undanfarið en ekki nógu mikið til að sleppa úr rækt.

Ég fór í bekkpressuna og náði að lyfta 60 kg af króknum og leggja niður aftur. Úlnliðurinn tognaðist illa og ég þurfti að hætta.

Ég lét það ekki á mig fá heldur hjólaði í korter eða þangað til ég var nógu sveittur til að fólk áttaði sig ekki á því að ég væri að gráta (og öskra úr eymd).

2. Lata fíflið
Í gærkvöldi ætlaði ég mér margt. T.d. að fara í bása og skjóta golfkúlum, í bíó, búa til Arthúr, borða og spila póker.

En ég sofnaði klukkan 21:00. Og svaf yfir mig til klukkan 9:30 í morgun, talsvert illa haldinn af legusárum.

3. Peugeot viðgerðir part XVI
Í dag fékk ég þær fréttir að pústkerfið á Peugeot 206 bifreið minni sé að ryðga í sundur. Sama pústkerfi og ég lét setja undir hann viku eftir að ég keypti hann fyrir 3 árum.

Þá hef ég eytt um 100.000 krónum í þennan bíl bara síðasta mánuðinn og samtals í viðgerðir frá upphafi rétt um 70 milljónir króna.