mánudagur, 13. júlí 2009

Það er komið að ilvolgum smásögum:

1. Hárdrama
Í morgun vaknaði ég í frekar vondu skapi aldrei þessu vant og með hárið upp í loftið. Ég náði öllum lokkunum niður nema einum, sem kom mér í verra skap.

Þegar ég sá fram á að þurfa að ganga með þennan fáránlega lokk upp í loftið í vinnunni við hlátrasköll vinnufélaganna þá greip ég skæri í geðshræringu, klippti lokkinn af og henti honum öskrandi í klósetið.

Kosturinn við þessa glórulausu ákvörðun er að ég lít mun betur út núna. Gallinn er hinsvegar sá að ég lít út eins og geðsjúklingur, sem er reyndar ágætis framför.

2. Hliðarstökk Vínflaska
Ég er ekki mikið fyrir bíla. Eftir að ég keypti Peugeot ruslið mitt fyrir 4 árum hef ég lært að hata bíla, sem er nokkuð góð tilfinning.

En ég sá svo flottan bíl um daginn að hann hefur gjörbreytt lífsskoðunum mínum. Ekki nóg með að ég haldi því nú fram að bílar geti verið flottir heldur langar mig mjög mikið að stofna fjölskyldu, helst strax, svo ég geti keypt þennan fjölskyldubíl:

Dodge Magnum (Ísl.: Hliðarstökk Vínflaska).

Umsóknir sendist á finnurtg@gmail.com.

3. Vinnuævintýri
Í dag tók ég kaffi um klukkan 15:35, þegar ég var viss um að enginn væri lengur í kaffi til að forðast biðröð. Allavega, þegar ég kom þangað var osturinn búinn. Svo ég fékk mér gúrku á brauðsneiðina.

Þegar ég leit svo í kælinn sá ég að ein kókómjólk var eftir, svo ég greip hana, mjög feginn yfir heppni minni. Svo þegar kaffinu var lokið þá fór ég...

...ég get þetta ekki. Það gerðist ekkert merkilegt í vinnunni. OK!?

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.