Ég var að fá afhent bensínafsláttarkort frá Olís. Á því stendur að gegn framvísun miðans fái ég 5 króna afslátt á lítrann í eitt skipti. Mjög rausnarlegt af þeim.
Ég dreg þá ályktun að þessi afsláttur sé veittur í þjónustu, en ekki sjálfsafgreiðslu þar sem sjálfsali getur ekki tekið við svona pappír.
Samkvæmt heimasíðu Olís rukkar fyrirtækið að meðaltali kr. 121 á hvern lítra í sjálfsafgreiðslu. Í þjónustu rukkar fyrirtækið kr. 127,9 á lítrann. Munurinn er kr. 6,9 á lítrann. Ég væri því að greiða kr. 1,9 meira en ég geri venjulega ef ég nota þetta afsláttarkort.
Bíllinn sem ég hef til afnota, en Sjóvá á, [tæknilega séð á Sjóvá ca 60% í honum þar sem ég borga af honum] tekur 50 lítra. Ef ég myndi fylla bílinn myndi ég vera að greiða um kr. 95 aukalega á hvern fylltan tank.
Þennan afsláttarmiða er aðeins hægt að nota á einni ákveðinni Olísstöð. Hún er ca 2 km úr leið fyrir mig (4 km ef leiðin til baka er talin með). Bíllinn minn eyðir ca 9 lítrum á hundraðið innanbæjar sem segir mér að hann er að eyða 0,36 lítrum á þessari aukaleið (og til baka). Ef bensínið er á kr. 122,9 (með afsláttarkortinu), kostar þetta mig 44,2 krónu aukalega.
Ég ek að meðaltali á ca 40 km hraða, með bið á ljósum og þess háttar innifalið. Ég er því 6 mínútur á leiðinni þangað og til baka. Ég tek 5 mínútur í að láta dæla á bílinn og að greiða fyrir. Alls 11 mínútur. Ég met tíma minn á ca kr. 1.500/klst, þar sem ég er örlátur. Þetta kostar mig því kr. 275 í frítíma.
Alls kostar það mig því kr. 139 aukalega í beinhörðum peningum að nýta mér þetta afsláttarkort. Ef ég tek frítíma minn með gera þetta kr. 414.
Takk Olís!
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.