mánudagur, 11. febrúar 2008

Það fer bráðum að renna af mér eftir helgina, sem þýðir að bráðum hafi ég eitthvað að segja. Þangað til eru hér stórkostleg myndbönd:

1. Ef samið væri rapplag um mig (og ca 99% alla aðra í heiminum) þá væri það ca svona:



2. Ef mér fyndist þetta rapplag hér að ofan ekki nógu lýsandi fyrir mig og minn vandaða karakter þá myndi þetta pottþétt duga:



3. Og ef fjalla ætti um hverja einustu bíóferð mína í rapplagi, þá myndi það hljóma svona:




Ég er jafnvel að hugsa um að semja þessi lög bara.

sunnudagur, 10. febrúar 2008

Í gær var árshátíð 365 haldin og ég mætti að sjálfsögðu. Hér eru helstu, birtanlegu atriði kvöldsins:

* Ég drakk 11 gerðir af áfengi (3 bjórtegundir, hvítvín, rauðvín, 2 breezertegundir, koníak og 3 skottegundir).
* Ég dansaði frá mér allt vit, bókstaflega.
* Ég fann ekki á mér.

Ein staðreyndin hér að ofan er lygi.

Restina getið þið lesið í næsta Séð og Heyrt.

laugardagur, 9. febrúar 2008

Það er stefna mín sem forstöðumaður samskiptasviðs körfuknattleiksdeildar meistaraflokks ungmennafélags Álftaness að hafa allt upplýsingakerfið gagnsætt, þeas að allir viti hvað er um að vera. Nýlega barst mér tilkynning frá einum leikmanni liðsins um breytt netfang. Þá vitið þið það. Hér er svarið:

„Sæll [nafn leikmanns].

Sem forstöðumaður samskiptasviðs körfuknattleiksdeildar meistaraflokks ungmennafélags Álftaness, gleður mig að tilkynna þér, óbreyttum leikmanni körfuknattleiksdeildar meistaraflokks ungmennafélags Álftaness, að beiðni þín um breytt tölvupóstfang hefur verið meðtekin. Hún verður tekin fyrir á næsta framkvæmdaráðsfundi samskiptasviðs körfuknattleiksdeildar meistaraflokks ungmennafélags Álftaness og ef samþykkt verður að framkvæma hana, mun beiðnin verða send áfram á framkvæmdastjóra tölvupóstfangsbreytinga körfuknattleiksdeildar meistaraflokks ungmennafélags Álftaness (Finnur Torfi Gunnarsson, eða ég líka), sem mun ráðast í framkvæmdir.

Ég þakka fyrir gott samstarf í þessu verkefni og vona að þú haldir áfram að sýna samstarfsvilja í framtíðinni.

Kv.
Finnur Torfi Gunnarsson
Forstöðumaður samskiptasviðs körfuknattleiksdeildar meistaraflokks ungmennafélags Álftaness
S: 867 0533“


Hann hugsar sig vonandi tvisvar um áður en hann breytir aftur um netfang.

föstudagur, 8. febrúar 2008

Nýlega fannst mynd af mér í körfubolta þar sem ég lít ekki út fyrir að vera í flogakasti eða með harðlífi. Hér er hún. Mér fannst rétt að láta fólk vita að ég er mennskur, þó ég líkist Alien eitthvað á myndinni.

Myndin hefur líka gríðarlegt söfnunargildi, þar sem þetta er eina myndin sem til er af mér við að hitta úr vítaskoti, svo vondur er ég á vítalínunni.
Í dag keyrði ég um 100 km á Peugeot 206 bílnum mínum, sem er enn á sumardekkjunum, án þess að festa mig eða lenda í bobba. Ég hjálpaði hinsvegar þremur náungum að losa sig (gegn mjög sanngjörnu gjaldi).

Þegar ég svo kom heim lagði ég í stæði. Þegar ég ætlaði svo að hagræða bílnum aðeins betur var hann pikkfastur. Heppinn!

fimmtudagur, 7. febrúar 2008

Á leit minni á internetinu fann ég eftirfarandi:

* Ef þú finnur mannshöfuð í þessari kaffibaunahrúgu innan klukkutíma þá ertu snillingur.

* Ef þú finnur ekki mannshöfuð í þessari bananahrúgu innan klukkutíma þá ertu snillingur.

* Ef þú googlar "Risa Hraun" þá er fyrsta niðurstaða heimasíða mín á myspace. Áhugavert.

miðvikudagur, 6. febrúar 2008

Síðustu tvær vikur hef ég:

* Hjálpað þremur einstaklingum við stærðfræði.
* Hjálpað nokkrum einstaklingum með Excel.
* Hjálpað nokkrum einstaklingum við forrita- og þáttaöflun.
* Hjálpað 2. deildar liði við að taka upp leik.
* Hjálpað ríkinu að smíða vegi og sjúkrahús (með skattpeningum).
* Hjálpað bankastjóra Landsbankans við að fjárfesta í gullbakklóru með yfirdrætti mínum.
* Staðið í þessari hjálparstarfsemi til þess eins að hafa eitthvað til að blogga um.

þriðjudagur, 5. febrúar 2008

Samkvæmt þessari frétt hefur Microsoft boðið 46 milljarða dollara í leitarvélina Yahoo. 46 milljarðar dollara gera þrjú þúsund milljarða króna. Í þeirri tölu eru 12 núll (3.000.000.000.000 krónur). 12 er einmitt meira en ég á í banka. Krónur þá, ekki núll.

Mér fannst þetta skemmtileg tilviljun.
Þá er komið að miðnæturfréttum.

* Í gær sigraði UMFÁ Glóa á útivelli í 2. deildinni í körfubolta. Til gamans má geta þess að ég spila með UMFÁ en spilaði þó ekki þennan leik þar sem ég er að kljást við hnjask í nára. Meira um leikinn hér.

* Í morgun fór ég til taugasérfræðing til að láta skoða á mér lappirnar. Ekkert sérstakt kom þar í ljós, þrátt fyrir ca 20 rafstuð sem læknirinn gaf mér í fæturnar, bæði fyrir og eftir að hann stakk nál í kaf í vöðvana. Læknirinn sagði þó á einum (eða tveimur) tímapunkti (eða punktum):
„Þú ert með taugarnar á fáránlegum stöðum í fætinum!“


* Í dag stóð ég við mín áform um að gera ekkert annað en að borða bollur. Ég náði að klára tvær. Ég er mjög seinn að borða.

* Í kvöld fór ég svo á körfuboltaæfingu og rústaði á mér náranum alveg upp á nýtt. Ég stíg mjög fast í vitið.

* Kolla systir mín og Árni Már trúlofuðu sig um helgina. Til hamingju með það! Kolla varð í 2. sæti í trúlofunarleik okkar systkina. Ég er í langsíðasta.

mánudagur, 4. febrúar 2008

Í dag er bolludagur en þá er löglegt að stunda kynferðislega áreitni með því að slá á rassa og öskra "Bolla!". Það geri ég þó ekki.

Það vita það færri að í dag eru bakaðar milljónir svokallaðra bolla, en þær má bara borða á þessum degi. Það hyggst ég gera í dag. Og ekkert annað.

sunnudagur, 3. febrúar 2008

Nú er enn ein vikan liðin og tími til kominn til að líta yfir farinn veg. Þetta gerðist í vikunni:

* Ég fór einu sinni í bíó. Myndin Cloverfield (Ísl.: Skrímsló) varð fyrir valinu. Ég er enn að hugsa hvort þetta sé góð mynd eða vond. Kannski var hún ágæt. Hvernig á ég að vita það?

* Í vikunni voru 45 ár síðan ég missti allt tímaskyn.

* Ég kom fáklæddri stelpu til að gráta í byrjun vikunnar, kviknakinn. Ég var að koma úr sturtu í World Class og að teygja mig í handklæðið mitt þegar stelpa á sundbolnum gekk inn og sá mig frosinn í þessari vandræðalegu stellingu, felandi ekkert. Hún snéri við og hljóp út grátandi (sennilega úr hamingju). Ég grét hinsvegar ekki, heldur kjökraði.

* Restinni er ég búinn að gleyma.

föstudagur, 1. febrúar 2008

Þar sem ég er bæði óákveðinn stjórsnjall og hugmyndalaus með góðan tónlistarsmekk (fyrir utan að kunna ekki á backspace takkann) (að mínu mati), þá dæli ég bara góðum lögum í ykkur fyrir helgina. Það fyrra er raftónlist, sem hentar ekki öllum. Það heitir Das Spiegel og er með Chemical Brothers. Ef einhver leggur út á nafnið og segir það rangt skrifað, þá veit ég það.



Það seinna er ca mitt uppáhalds lag frá árinu 2002 og heitir Get off með Dandy Warhols. Sturlað helvítis lag sem ég fæ ekki leið á:



Góða helgi. Skríðið hægt, dauðadrukkin um gleðinnar dyr.