föstudagur, 6. ágúst 2004

Eftir að hafa tekið mér hádegismat, leyst af í afgreiðslunni, skroppið á salernið, farið í póstferð, tekið kaffitíma, ætlað að henda út fugli sem rataði hingað inn, búið til nokkur skattkort og bloggað þessa færslu get ég loksins haldið áfram verkefni mínu í vinnunni sem ég reyndar man ekki lengur um hvað snýst. Þá er það bara næsta verkefni sem ég get auðveldlega leyst og það er að fara heim í helgarfrí. En fyrst þetta:

Ég held mér sé óhætt að segja allt vera logandi í ummælum við hverja færslu þessa dagana. Síðustu tvo sólarhringa hafa um 25 ummæli verið skrifuð af utanaðkomandi fólki. Ég þakka kærlega fyrir, endilega haldið þessu áfram. Án ummælanna myndi ég aldrei nenna þessu.
Í þessari viku hef ég tvisvar gleymt að slá mig inn og þrisvar gleymt að slá mig út af skattstofunni sem er skemmtileg tilviljun því á föstudaginn síðasta var ég að monta mig af því að hafa aldrei gleymt að slá mig inn eða út í sumar enda um mikið afrek að ræða þegar að minnislausasta manni alheimsins kemur.

fimmtudagur, 5. ágúst 2004

Í ljósi þess að ég hef ekki getað mikið á körfuboltaæfingum upp á síðkastið hef ég verið að hugsa um að hætta í körfunni í bili og einbeita mér að lyftingunum og að þyngja mig enn meira, eins og ég hef verið að gera í sumar.

Þessi setning hér að ofan sannar að lyftingar minnka heilann því enginn heilvita maður myndi láta svona út úr sér. Ég dæmist því stundarbrjálaður og þetta blogg því ógilt.

Einnig ber að geta þess að þetta er gert í talsverðu flýti þar sem sjoppan lokar eftir 15 mínútur og ég á eftir að klæða mig í sokka. Hafinn er því gríðarlegur eltingaleikur við tímann. Ég læt vita hvernig þetta fer þegar tími gefst til. Ég get líka sent ykkur, þeim sem illa geta sofið fyrir spenningi, sms og látið vita hvernig fór.
Ég keyri um á bíl sem á var upphaflega lagður tollur fyrir að flytja inn í landið og virðisaukaskattur (24,5%) eflaust ofan á það. Hann gengur fyrir bensíni sem kostar í dag 113 krónur lítrinn og af því fer rúmlega 60% í bensínskatt til ríkisins. Ofan á þetta bætast svo bifreiðagjöld sem er eitthvað ákveðið á hvert kíló sem bíllinn er. Ég keyri á þessari tekjulind ríkisins í ÁTVR til að kaupa mér áfengi. Á því er áfengisskattur sem er mismunandi eftir áfengismagni en er ca 80% af verðinu og með áfenginu fæ ég mér brazza sem ég auðvitað greiði 24,5% vask af. Svo keyri ég heim og blogga um þetta allt saman í tölvunni minni sem ég keypti og borgaði þennan fræga vask (24,5%) fyrir pening sem hef unnið mér inn og greitt 38,58% tekjuskatt af. Ef ég hefði ekki keypt mér tölvuna hefði ég lagt peninginn inn á reikning eða keypt hlutabréf fyrir og borgað 10% fjármagnstekjuskatt af vaxtagreiðslunum ef einhverjar yrðu. En þá væri líka mun minna um blogg.

Allavega, það sem ég er að reyna að segja er: Fyllerí um helgina!

miðvikudagur, 4. ágúst 2004

Ég var búinn að skrifa risafærslu um atburði kvöldsins þegar ég strokaði hana út í einhverri geðshræringu. Allavega, hér koma atriðin sem ég var búinn að skreyta með fögrum orðum:

Ég saug rassgat aftur á körfuboltaæfingu í kvöld.
Ég stoppaði fyrir Lárusi Orra landsliðsmanni í fótbolta og fjölskyldu hans á gangbraut.
Hann þakkaði ekki fyrir sig með þakkarveifu.
Ég keyrði yfir hann.
Ég laug þessu síðasta.
Ég klæddi konuna hans úr með augunum.
Ég skil vel að hann hafi ekki þakkað fyrir sig.
Ég er hættur að skrifa.
Eftir þessa setningu.
Ég lofa.
Það fauk í mig í gær þegar ég ætlaði að kaupa mér sykur fyrir mánaðarlaun mín í verslun Olíss, Fellabæ. Þar kom í ljós að það er búið að minnka Risahraunið (50% allrar fæðu minnar) niður í að vera bara sæmilega stórt og til að dreifa athygli alls heiladauða fólksins sem þetta verslar var umbúðunum breytt í glansandi vitleysingapappír. Verðið var óbreytt. Framleiðendur halda líklega að ég muni stara heiladauðum augum á umbúðirnar flissandi, fullur af lotningu og þarmeð taki ekki eftir minnkun innihaldsins. Ekki þessi nammifíkill!
Ég mun héreftir helga líf mitt því að koma Risahrauninu aftur í gömlu góðu umbúðirnar í sömu stærð og áður, sama hvað það kostar.

þriðjudagur, 3. ágúst 2004



Amanda Peet leikur í Samsemd. Hún er gómsæt.


Í gærkvöldi ákvað ég að leggja rækt við minn innri mann, sleppti körfuboltaæfingu þar sem allt benti til þess að enginn myndi mæta og ég nýbúinn að lyfta, og leigði mér myndina Samsemd eða Identity sem mig hefur lengi langað til að sjá. Myndin inniheldur reiðinnar býsn af frægum leikurum sem ég nenni ekki að skrifa því þá þarf ég að hlekkja á þá og það er meiri vinna en ég nenni að standa í að þessu sinni. Smellið bara á hlekkinn að myndinni hér að ofan, fjandinn hafi það.

Allavega, myndin fjallar um 11 manneskjur sem eru strandaglópar á vegahóteli í hellidembu. Allar gerðir karaktera er að finna þarna og það myndast hörkustemning þegar leikurinn stendur sem hæst. Þá fara hótelgestir smámsaman að týna tölunni og upphefst dökk leit að sprelligosanum sem stundar morðiðnina.

Ég held ég hafi aldrei meint eftirfarandi orð jafn mikið: Ekki er allt sem sýnist í þessari mynd.

Hörkuvel leikin mynd með skemmtilegum, óvæntum og því miður alltof langsóttum söguþræði að mér fannst. Endirinn er líka svolítið kjánabangsalegur. 3 stjörnur af fjórum þrátt fyrir það. Mæli með henni.
Mér finnst mjög fyndið að heyra hvernig fólk fagnar eins og það sé að græða þegar því er tilkynnt að það hafi "unnið" ferð til útlanda í einhvern tíma. Ég skal taka dæmi.

Ferðin er undantekningalaust með Iceland Express og oftar en ekki í tvær vikur. Svona lítur þá dæmið út:

30.000 krónur í mesta lagi = Ferðin út og til baka (gefið).
50.000 krónur í minnsta lagi = Uppihald og aðrar vörur í 2 vikur.
100.000 að meðaltali = Tekjur sem viðkomandi verður af við að fara frá vinnu í tvær vikur.

Kostnaðurinn er því 150.000 að meðaltali við að græða ferð út í tvær vikur og fólk fagnar.

mánudagur, 2. ágúst 2004

Þá er búið að kúpla í síðasta skiptið í sumar og sett í efsta gír það sem eftir lifir sumars í ljósi þess að verslunarmannahelginni er lokið. Eftir þrjár vikur fer ég aftur til Reykjavíkur að læra í HR og af því tilefni óska ég eftir eftirfarandi:

* Gistingu frá 22. ágúst - 31. ágúst eða þangað til ég fæ herbergið á stúdentagörðum afhent 1. september. Get borgað fyrir auðvitað.
* Windows NT diskinn til að strauja kærustuna mína eftir leiðindavírus sem hún fékk í minnið.
* Hugmynd að einhverju sem gæti staðið hérna.
* Hugmynd að bloggi fyrir morgundaginn.

Ef þið vilduð vera svo væn að hafa eitthvað af þessu, látið mig vita í ummælunum.
Slæmar ákvarðanir virðast ætla að einkenna þessa verslunarmannahelgi. Hér eru dæmi um nokkrar:

* Ákvað að fara ekki á Akureyri á föstudagskvöldið og djamma þar. Þess í stað gerði ég ekkert og sá eftir þessari ákvörðun allt kvöldið, nóttina og daginn eftir.
* Ákvað að fara til Egilsstaða eftir einn dag á Akureyri á laugardeginum í stað þess að djamma um kvöldið. Sá eftir því alla leiðina til baka og gott betur.
* Ákvað að senda þrjú sms í gær og fékk engin svör. Merki um að smsin hafi ekki verið vel þegin og því sá ég eftir þeim.
* Ákvað að kaupa mér að borða. Keypti smjör og ost. Gleymdi að kaupa brauð.
* Ákvað að bíða eftir að eitthvað gerðist í kvöld, sunnudagskvöld. Sendi ekkert sms þar sem ég læri af mistökum. Sá eftir því í allar þær mínúturnar sem ekkert gerðist eða allt kvöldið.
* Ákvað að verða jákvæður og bjartsýnn nýlega. Það er ekki að ganga upp.
* Ákvað að hætta ekki með þessa dagbók í dag.

Ég ætla því ekki að ákveða neitt á morgun mánudag, ákvörðunarlausa daginn.

sunnudagur, 1. ágúst 2004



Svalasti vondi kall sem ég hef séð í spiderman 2


Á Akureyri í gær ákvað ég í brjálæði mínu að kíkja á myndina Spiderman 2 í bíó með Elmari Loga og Björgvini bróðir.
Myndin fjallar um tilvistarkreppu Spiderman þar sem kvenmenn og skólinn rekast á hans tímatöflu sem ofurhetja. Einnig kemur þarna við sögu flottasta illmenni sem ég hef nokkurntíman séð, Doctor Octopus sem leikinn er af einum af mínum uppáhaldsleikara, Alfred Molina. Önnur hlutverk leika Tobey Maguire, Kirsten Dunst og James Franco.
Allavega, söguþráðurinn er mjög góður, leikurinn jafnvel betri, tæknibrellur til fyrirmyndar og myndin í heild sinni mögnuð. Mæli með henni fyrir alla, nema auðvitað stelpur.
Þrjár og hálf stjarna af fjórum og eitt karlmannlegt hæ fæv.
Fyrir korteri síðan rauf ég eitt loforð sem ég gaf ykkur lesendum í vetur þegar ég talaði um nokkra hluti sem ég mun aldrei gera um ævina. Þegar ég tók til í ísskápnum áðan henti ég út útrunnum mjólkurfernum og tók einnig eina til sem ég hugðist drekka úr. Ég hellti því miður úr vitlausri fernu án þess að taka eftir því og drakk svo heilt glas af ískaldri mjólk sem rann út fyrir 5 dögum.
Ef það koma ekki fleiri færslur þá þakka ég góð kynni.