mánudagur, 12. júlí 2004

Það er fátt leiðinlegra en að vakna eftir að hafa dreymt tilfinningaþrunginn draum um kvenmann sem þú þekkir. Jafnvel leiðinlegra er að finna hvernig draumurinn situr eftir í hausnum og þú nærð ekki að gleyma honum. Leiðinlegast er þó að hitta þessa manneskju og reyna að spjalla við hana eins og ekkert hafi í skorist, að láta sem enginn draumur hafi átt sér stað.

Í nótt dreymdi mig ca alla kvenmenn á aldursbilinu 18-30 ára sem ég þekki og gott betur. Ég biðst því fyrirfram afsökunnar á því hversu bjánalegur ég er við ykkur, stúlkur, eða bjánalegri öllu heldur.

Birgitta Haukdal, ef þú lest þetta; ég hef óyggjandi sannanir fyrir því að latex fer þér vel.
Hér er hitaspá mbl.is síðustu daga og raunverulegur hiti sem sýndur var daginn eftir af sömu aðilum:

Fimmtudagur
Spá: 14 stiga hiti. Raunverulegur hiti: 19 stig.

Föstudagur
Spá: 14 stiga hiti. Raunverulegur hiti: 21 stig.

Laugardagur
Spá: 14 stiga hiti. Raunverulegur hiti: 22 stig.

Sunnudagur
Spá: 13 stiga hiti. Raunverulegur hiti 19 stig.

Sjáið þið munstrið sem farið er að myndast hjá þeim? Þess má geta að út þessa viku er aðeins spáð 13 stiga hita á Egilsstöðum. Bömmer.

sunnudagur, 11. júlí 2004

Þá er að ljúka einni mestu letihelgi sem ég hef um ævina upplifað. Ég hef gert eftirfarandi þessa helgi:

* 6 tímar í sundlaug Egilsstaða.
* Sofið í rúmlega 18 tíma.
* Legið og horft á sjónvarp: 3 tímar.
* Legið og horft upp í loftið: 12 tímar.
* Bloggað í 2 tíma.
* Vafrað á netinu 1 tími.
* Reynt að muna hvað ég ætlaði að gera næst: 5 tímar.
* Munað hvað ég ætlaði að gera næst og ákveðið að nenna því ekki: 1 tími.

Á morgun heldur svo lífið áfram, með 20 stiga hita og nakinn mánudag.
Mér blöskraði heldur betur heimska fólks þegar ég sá brot úr Oprah þætti í dag. Þar voru áhorfendurnir í salnum bókstaflega að putta sig í rassgatið yfir "leikurunum" í Shrek 2, þeim Cameron Diaz, Mike Myers og einhverju fleirum. Af hverju í ósköpunum? Ég lít framhjá því, að svo stöddu, að þetta fólk er til að byrja með bara leikarar, hirðfífl nútímans, og mala gull fyrir vikið sem er fáránlegt því það eina sem þau gera er að þykjast vera einhverjir aðrir fyrir framan myndavélar. Að leika færir fólki meiri frægð en t.d. að stjórna landi. Merkilegt.

Allavega, í þetta skiptið baðaði þetta fólk sig í aðdáun fólksins hjá Oprah fyrir myndina Shrek 2. Það eina sem þau gera er að lesa inn fyrir karakterana. Hvað um höfundana að sögunni? Teiknarana? Leikstjórann? Nei nei, þau lesa textann, auðvitað fá þau ríflega milljarð á kjaft fyrir það erfiða hlutverk. Fólk er fífl.

laugardagur, 10. júlí 2004

Í nótt dreymdi mig að ég væri rauðvínslegið lambalæri í ofni. Þegar ég svo vaknaði áttaði ég mig á því að mig hafði ekki verið að dreyma. Í gardínulausa herberginu mínu var 225 gráðu hiti, ég útataður í rauðvíni frá kvöldinu áður og orðinn vel stökkur. Ástæðan: yfir 20 stiga hiti á Egilsstöðum þriðja daginn í röð. Veðurspáin er að ég verði étinn á fimmtudaginn ca þegar það mun næst draga fyrir sólu.
Í gær bar til tíðinda í herstöðvum veftímaritsins þegar ekki var unnt að skrá niður færslu númer tvö þann daginn. Ástæðan virðist einföld en er í raun býsna flókin. Haldið var partý á Helgafellinu þar sem tjaldað var í garði (tók bara ca 90 mínútur að setja það upp), dýrindi kjötstykki grilluð og ágætis núðluklumpur soðinn af mér. Þar á eftir var farið inn og Björgvin sá um skemmtiatriðin í Singstar en það er Karókí leikur.

Allavega, ég reyndi margsinnis að komast frá til að skrifa niður fréttir á þessa síðu en mér var haldið niðri og áfengi neytt ofan í mig. Ég biðst velvirðingar fyrir hönd þeirra sem bera ábyrgð á þessu.

föstudagur, 9. júlí 2004



Jóhann Enskur


Nýlega varð ég þess heiðurs aðnjótandi að sjá myndina Johnny English með Rowan Atkinson í aðalhlutverki. Flestir sem þekkja hr. Atkinson vita að þetta er gamanmynd, nema hann væri búinn að ákveða að fá óskarinn en það hefur hann ekki gert. Hann ætlaði þó að slá í gegn á ameríkumarkaði með þessari mynd, sem misheppnast á versta veg.

Brandararnir eru svo fyrirsjáanlegir að ég hefði getað skrifað alla myndina eftir fyrstu 5 mínúturnar. Alltaf leiðinlegt að sjá góðan gamanleikara með skelfilegan aulahúmor í slappri mynd. Aukaleikararnir eru þó mjög góðir; Natalie Imbruglia og John Malkovich þó að þeir viti sjaldnast hvernig þeir eiga að vera.

Allt í allt slöpp mynd, þó að hugmynd skúrksins sé alls ekki slæm. Hann er þó stoppaður í tæka tíð. Úbs... sagði frá.

Hálf stjarna af fjórum.

fimmtudagur, 8. júlí 2004

Næsta vika verður merkilegt fyrir margar sakir en þó aðallega fyrir að þá mun hausinn á mér springa í loft upp í afgreiðslu skattstofunnar ef fer fram sem horfir en þá fer 67% af skattstofunni í sumarfrí og mun ég því sitja í afgreiðslu skattstofunnar, ekki kunnandi eða vitandi neitt og með engan til að aðstoða mig eða kenna. Ég sé þó björtu hliðina á þessu, því þetta gæti í raun verið verra. Ég gæti t.d. verið neyddur til að mæta nakinn í vinnuna, tjaraður og fiðraður, án gleraugnanna.

Annars lítið í fréttum. Í kvöld lyfti ég og synti ásamt því að halda áfram í kokteilsósu megruninni. Hingað til hef ég misst mínus 4 kíló en ég gefst ekki upp þótt á móti blási.

Í dag kom tímaritið 'Finnur.tk' út frá Neskaupstað, öðru nafni Austurglugginn. Þar var enn eina ferðina vitnað í veftímarit þetta og er það þá í þriðja sinn á skömmum tíma sem það er gert. Háa fimmu á röðina!

Fréttum er þá lokið. Fréttir las Gerður G. Bjarklind. Veriði sæl.
Ég var rétt í þessu að slá metið mitt í að hlusta á rás eitt. Þar sem leiðindarviðtal var á rás tvö, leiðindartónlist á FMníufimmsjö og sami viðbjóðslegi slepjugangurinn á bylgjunni rakst ég óvart á reggíþátt á rás eitt sem fór yfir í umfjöllun um snillinginn Stevie Wonder.

Allavega, nýja metið er 15 mínútur og 32 sekúndur. Þarmeð hef ég bætt metið um 15 mínútur og 25 sekúndur. Það má búast við því metið verði bætt amk árlega til ársins 2.018 þegar ég verð fertugur.

miðvikudagur, 7. júlí 2004

Ég hef ekki hlegið jafn hátt, snjall eða innilega í mörg ár og ég gerði einmitt í dag þegar ég skoðaði fréttablaðið eftir býsna súran vinnudag á skattstofunni. Á blaðsíðu 13, á miðri blaðsíðu var og er þessi frétt.

Ekkert athugavert við textann en sjáið þið eitthvað óvenjulegt við myndina? Aumingja maðurinn og allt það auðvitað. Það er þó ekkert skrifað sérstaklega um þennan mann sem leggur mikið á sig til að kjósa, jafn óvenjulegur og hann er.

Sennilega var ég bara í það vondu skapi að ég gat hlegið að þessu, þó að ég sé alls ekki að hlægja að óförum mannsins. Bara fyndin fréttamennska.
Þessa stundina er ég með talsverða sektarkennd og mér líður verulega illa yfir því að hafa ekki skráð færslu á þessa síðu í rúmlega tólf klukkustundir. Hugsanir eins og "hvað ef allir hætta að elska mig?" og "guð hvað ég er ljótur!" koma upp í hugann um leið og ég glími við ritstíflu á háu stigi (svokallaður rauður kóði á veftímaritinu).

Ég ákveð því hérmeð að bjóða upp á hámenningu enda gefur þetta veftímarit sig út fyrir að aðhyllast henni. Gjörið svo vel:



Mona Lisa megabeib


Ég veit ekki með ykkur en mér líður talsvert betur eftir þessi rit.

þriðjudagur, 6. júlí 2004

Ég hef lokið við að betrumbæta hlekkina hérna hægra megin. Nú getið þið séð smá umsögn um hvern og einn bloggara með því að færa músina yfir hlekkinn.

Ég vil gjarnan undirstrika enn eina ferðina að ef þið eigið bloggsíðu sem þið viljið láta bæta við eða taka út í hlekkjunum, látið mig vita í ummælum eða pósti.

Annars er það helst í fréttum að blogspot síðan er ekki að hlaðast nema hjá lítilli prósentu. Þetta verður vonandi komið á lag fljótlega.

Fleira var það ekki í fréttum í dag, veriði sæl.