fimmtudagur, 30. júní 2005

Finnur.tk mælir með...

* Nágrönnum, alltaf.
* Samtökunum 'Miðaldra kellingar gegn nöldri og slúðri' áður en þau verða lögð niður
* Að snúa upp á geirvörturnar. Er mjög gott ef litið er framhjá sársaukanum.
* Vinna 13 tíma á skattstofu einn daginn, fertugasta vinnudaginn í röð og skrifa svo heilsteypta bloggfærslu. Það er ómögulegt.
* Frey Eyjólfssyni útvarpsmanni.
* Núðlum.

Þetta er með betri bröndurum sem ég hef séð um ævina. Það segir reyndar meira um mig en þennan brandara nokkurntíman. Það segir jafnvel meira um mig en nokkuð annað að ég hló þar til ég hóstaði blóði. Þá hætti ég að hlæja. En nóg um mig. Lesið brandarann aftur og smellið á hann fyrir stærri útgáfu.

miðvikudagur, 29. júní 2005

Þá ætla ég að loka enn einum kaflanum í lífi mínu en síðustu vikum hef ég eytt í svartsýni og leiðindi. Nýji kaflinn mun bera hið virðulega heiti "Allt vitlaust á kaffihúsinu" en í honum mun ég vera jákvæður og líta björtum augum á allt, sama hversu ömurlegt það er.

Við skulum byrja á klippingunni sem ég fór í um daginn; besta klipping sem ég hef fengið í langan tíma, þrátt fyrir að ég líti út fyrir að vera eins og illa rökuð lesbísk hóra með hana.

Jákvæðni og bjartsýni, að hætti heimska fólksins, hér kem ég!

Á skattstofunni eru allir svo góðir að enginn vill taka síðasta kökubitann. Þess í stað er síðasti kökubitinn skorinn í hálft ca 20-30 sinnum og restinni hent.

Allavega, ég var búinn að leita í öllum skúffum og hillum hérna við skrifborðið mitt á skattstofunni í morgun þegar ég áttaði mig á því að ég var að leita að skjali í tölvunni. Já, ég svaf yfir mig í morgun og já, ég er og verð mjög utan við mig í dag.

þriðjudagur, 28. júní 2005

Það er allt að verða vitlaust hérna á skattstofunni. Síðustu dagarnir til að fara yfir framtölin eru að líða og fólk keppist við að kasta upp blóði hvort yfir annað af stressi. Ég skrifa því ekki meira í dag. Ekki vegna samviskusemi heldur vegna þess að ég finn illa lyklaborðið lengur fyrir blóði.
Ég svaf býsna glæsilega yfir mig í morgun um þrettán mínútur í fyrsta sinn í sumar. Því fagnaði ég með því að fara öfugt í peysuna og klæða mig í fyrsta krummafótinn frá því ég var 3ja ára, slík var þreytan. Ennfremur er ég ekki frá því að ég hafi dottað undir stýri þar sem ég man ekki eftir ferðinni í vinnuna.

mánudagur, 27. júní 2005

Hér eru nokkur merki þess að lyftingarnar og próteinátið er í raun að valda þyngdaraukningu eins og ráðgert var:

* Brjóstkassinn skoppar þegar gengið eru upp og niður stiga.
* Gallabuxurnar eru hættar að detta niður á neyðarlegum stöðum og í neyðarlegum stellingum.
* Dempari í bílnum brotnar undan.
* Stóllinn í vinnunni gefur sig amk fimm sinnum á dag.
* Fólk er hætt að segja 'guð hvað þú ert alltaf horaður'.
* Skugginn er orðinn 10 kg.
* Vigtin segir það.

Til að fagna hinum Alþjóðlega Bruðldegi fjárfesti ég í eftirfarandi í gær:

kr. 4.000 Bandýkylfa (sjá mynd)
kr. 3.000 Póker spilapeningar
kr. 899 DVD mynd, The Wedding Singer
kr. 200 Kók og prins
______________
kr. 8.099 Alls

Ég hef lagt mitt af mörkum til þessa dags og vona að sem flestir geri það sama.

Framundan eru hinsvegar pókerspilakvöld þar sem hver sá sem sigrar mig verður barinn með bandýkylfu, mögulega til dauða.

sunnudagur, 26. júní 2005

Þar sem ég hef unnið af mér allt sumarið hingað til og sé ekki betur en að restinni verði eytt við vinnu, þegar ég á að vera úti að kynnast nýju fólki, vil ég biðja nýja fólkið að koma til mín í staðinn. Ekki þó á skattstofuna heldur á MSN spjallforritið. MSNið mitt er finnurtg@hotmail.com. Því fleiri því betra og því færri því verra.

Allir velkomnir.
Hér er listi yfir fólk sem er tiltölulega nýlega búið að eignast barn eða er á leiðinni í það stórvirki:

Styrmir Freyr, bróðir.
Daníel Kjartan, vinur.
Björgvin Luther vinur.
Dassi, bróðir Björgvins.
Maggi Tóka, kunningi.
Bryngeir Daði, vinur.
Tvær í HR sem ég þekki en má ekki nafngreina.
Maggý Gauja, kunningi.
Karl Kennedy, nágranni og vinur.
Eyrún Huld, samnemandi úr ME.
Þórey, kunningi frá Eskifirði.

Og hvað geri ég á meðan allir eru að gera það gott? Ég eyði helgum mínum í að vinna, blogga og sofa. Grátlegt.

laugardagur, 25. júní 2005

Þessa dagana geng ég með lyklakippu á mér sem er ekki í frásögu færandi nema fyrir að á henni er fjallað um karakter minn útfrá afmælisdegi mínum; 28. júlí. Þar stendur orðrétt:

Fólk fætt á þessum degi hefur sterka og göfuga skapgerð. Það er fullt bjartsýni á lífið og tilveruna og lætur ekki aðra hafa áhrif á sig. Það er öfundað af öðrum vegna þessara eiginleika en jafnframt dáð og virt.

Við skulum aðeins kíkja nánar á þetta:

..sterka og göfuga skapgerð.“ Ég er mesta rola sem fyrirfinnst. Það er ekkert sterkt eða göfugt við mína skapgerð.

..fullt bjartsýni á lífið og tilveruna..“ Ég er svartsýnasti maðurinn á landinu á allt og alla.

..lætur ekki aðra hafa áhrif á sig.“ Ég lifi fyrir álit annarra. Ef fólki líkar illa við mig þá breytist ég.

..öfundað af öðrum vegna þessa eiginleika..“ Ég get lofað því að ekki nokkur maður öfundar mig af neinu.

..dáð og virt.“ Ég læt vaða yfir mig í flestu og geri allt fyrir fólk sem veldur því að fólk dáir mig hvorki né virðir.

Semsagt; ekki orð er rétt á þessari lyklakippu.
Þegar hingað er komið við sögu er þriðjungur sumarsins búinn og ég hef staðið við 5 af 6 atriðum áætluninnar sem ég setti mér í upphafi. Í áætluninni voru eftirfarandi atriði:

* Vinna alla daga, alltaf.
* Borða á hverjum degi.
* Lyfta annan hvern dag.
* Anda oft á dag.
* Sofa einu sinni á dag.
* Vera kúl, alltaf, allsstaðar.

Um að gera að setja sér lítil markmið til að verða síður fyrir vonbrigðum. 83% árangur er nokkuð gott. Þið megið geta hvaða atriði ég hef ekki staðið við.