sunnudagur, 12. desember 2004

Þá hafa 43 tekið þátt í könnuninni um háralitun. Hér eru helstu niðurstöður:

* 20 kvenmenn tóku þátt og 20 karlmenn. 3 hárlausir tóku einnig þátt en þeirra kyn er óákveðið.
* 15 af 20 konum eru með litað hár eða um 75%.
* 3 af 20 körlum eru með litað hár eða um 15%.
* 3 af 43 eru ekki með hár eða um 7%.

Þar hafiði það. Konur lita hárið á sér mun minna mæli en ég (og samfélagið) bjóst við og karlmenn í mun meira mæli. Mjög marktækar niðurstöður sem munu sennilega birtast í vísinda/tískutímaritum nálægt þér næstu daga.
Ég hef nú verið í Fellabæ í rúmlega tvo sólarhringa og hef þurft talsverðan aðlögunartíma enda um allt annað þjóðfélag að ræða. Hér eru nokkur atriði sem ég virðist ekki getað vanist, amk ekki á svona skömmum tíma:

* Á vatnskrönum er kalda vatnið þar sem heita vatnið er á vistinni þar sem ég bý í Reykjavík og öfugt. Getur verið leiðinlegt að súpa á sjóðandi heitu vatni þegar tannburstun á sér stað og þvo sér með ísköldu vatni.

* Í veðurfréttum horfi ég alltaf á Reykjavík þegar talað er um spá dagsins. Einhvern daginn mun ég vonandi líta á Egilsstaði, án þess að þurfa að hugsa áður.

* Það rignir ekkert hérna. Í Reykjavík rignir amk þrisvar á dag.

* Hér er ekkert stress. Í Reykjavík er ekkert nema stress.

* Hér má ekki hlaupa um nakinn án þess að það fréttist út um allt. Í Reykjavík var öllum sama.

laugardagur, 11. desember 2004

Ég vil gjarnan koma á framfæri þakklæti til Ingunnar fyrir smákökurnar sem hún vonandi lagði ekki blóð svita og tár í, og gaf mér fyrir brottför mína til Egilsstaða í gær. Þær brögðuðust mjög vel. Mæli með þeim og einnig síðunni hennar Ingunnar.

Og með þessum orðum hefst leikurinn "smákökur fyrir hlekk" á Veftímaritinu. Hann felur í sér að fólk sendir inn bragðgóðar smákökur og fær í staðinn hlekk á þessari síðu. Heimilisfangið er:

Veftímaritið; við rætur hugans
bt. ritstjórn
Brekkubrún 3b
700 Egilsstaðir
Iceland


ATH. bannað er að eitra kökurnar. Ritstjórinn er með heilan her af smökkurum svo þið náið honum aldrei.
Það lítur út fyrir að mér hafi heldur betur skjátlast með tölfræðiprófið sem ég tók í nóvember en hér spáði ég kolfalli. Úr tölfræðiáfanganum fékk ég þó, ótrúlegt nokk, 8,5 og var 9-12. hæstur í öllum bekknum, sem mér finnst býsna merkilegt.

Allavega, þá þarf ég bara að taka eitt veikindapróf og bíða eftir útkomu úr þremur öðrum prófum. Ljúft.

föstudagur, 10. desember 2004

Þá er ég kominn austur á land, þar sem snjórinn flæðir sem vín.

Flugið var merkilegt fyrir þær sakir að flugvélin skalf allan tímann. Það var reyndar í lagi því ég skalf af hræðslu á sama tíma sem gerði það af verkum að allt var kyrrt í mínum augum.

Það sem gerði flugferðina hinsvegar leiðinlegri en ella var barn í sætinu fyrir framan mig sem grét í hvert skipti sem flugvélin fór að skjálfa, eða ca alla leiðina. Ég ákvað að bregða á það ráð að senda hugskeyti til barnsins þess efnis að ég myndi henda því út um gluggan ef það færi ekki að þagna, um leið og ég horfði í augu þess og það var sem við manninn mælt, barnið grjóthélt kjafti. Það hélt þó áfram að orga þegar það fattaði að rúðurnar eru óbrjótandi í helvítis vélinni, mér til ólukku.
Ég var að koma úr ca 90 mínútna púlkeppni við Óla Rú þar sem ég beið afhroð. Tapaði 8-7 í óþarflega spennandi lokaleik. Allavega, alltaf lærir maður eitthvað nýtt og í þessari ferð lærði ég eftirfarandi:

* Ég hata konur sem eru í glasi, nýbúnar að missa vöxtinn og fegurð æskuáranna og hafa því mun hærra til að fá athygli hins kynsins. Óþolandi lýður.

* Það er hægt að lykta verr en reykingamaður sem hefur baðað sig í sígarettuösku vikum saman og það er með því að fara á poolbar í 90 mínútur.

* Það er sama hversu góður þú heldur að þú sért í pool; þú getur alltaf klúðrað auðveldasta skoti í heimi og þannig tapað leik(jum).

* Það gengur ekki upp að kenna háværum kellingum í glasi um að hafa mistekist auðvelt skot og að brjóta kjuðann á andlitinu á þeim, án þess að vera boðið upp á drykk af öllum viðstöddum.

Kveðjukvöld mitt í Reykjavík að baki og framundan hörkuátök fyrir austan í körfubolta, lyftingum, sundi, göngutúrum, jólagjafakaupum og ofsasvefni.

fimmtudagur, 9. desember 2004

Ef ég sé söngvarann í Brain Police einu sinni enn á rölti um kringluna eða Laugarveginn tryllist ég og sennilega hann líka, enda ég, að öllum líkindum, með óþolandi viðmót. Ekki nóg með að rekast á hann á gangi um bæinn heldur er hann í öllum innlendum sjónvarpsþáttum sem ég horfi á og alltaf á þeim útvarpsstöðvum sem ég hlusta á. Þetta væri alls ekki svo slæmt ef þetta væri ekki mesti töffari landsins og ef ég væri ekki gjörsamlega logandi hræddur við hann.

Allavega, ég fer austur á morgun.
Aðsóknin á þessa síðu hefur aldrei verið meiri. Ég verð að sjálfsögðu að nýta mér það og koma með einhverja könnun. En eins og lesendur síðunnar hafa tekið eftir er ég að ganga í gegnum eina lægstu andlega lægð allra tíma og veit því ekkert um hvað ég á að spyrja.

Hér kemur samt ein spurning sem lengi hefur verið að þvælast í hausnum á mér.





Endilega komið með hugmyndir að könnunum í ummælum, vinsamlegast.
Þá er enn einum deginum lokið og ég búinn að vaka í rúma 12 tíma. Þá fyrst fer eitthvað að gerast því ég stefni beint í daumalandið þar sem ég get gert hvað sem er, með hverri sem er, eins hátt og ég vil.

Það er alveg nauðsynlegt að vaka svona inn á milli svo maður verði ekki geðveikur af öllum dugnaðinum í svefninum.

Skrifa eitthvað sniðugt næst, ég lofa.

miðvikudagur, 8. desember 2004

Skemmtilegt atvik gerðist í kvöld. Ég sat hérna við skrifborðið og borðaði Herrenkuchen með mjólk og horfði á eitthvað í tölvunni þegar mjólkin kláraðist. Ég var ekkert að kippa mér upp við það enda um daglegt brauð að ræða. Ca hálftíma síðar ætlaði ég að ganga frá og setja restina af herrenkucheninni í ísskápinn þegar ég tek eftir því að ég hafði bara borðað helminginni af síðustu sneiðinni, ekki vitandi að ég ætti hana eftir þegar ég kláraði mjólkina. Ég hló mikið, tók svo kökuna og fleigði henni í ruslið, enda ekkert annað að gera í mjólkurlausri stöðunni.

Með þessari sögu hefjast gúrkudagar á veftímaritinu þar sem allt sem gerist verður skráð niður. Þessi ákvörðun stjórnar veftímaritsins var tekin í ljósi þess að ekkert hefur gerst hjá undirrituðum frá því að skólinn kláraðist fyrir rúmum tveimur dögum síðan og ekki búist við því að neitt gerist í nánustu framtíð. Njótið.

þriðjudagur, 7. desember 2004



The Forgotten / Á hálum ís


Fyrir rúmum tveimur vikum fór ég í bíó með Björgvini bróðir og sá myndina The Forgotten, þar sem Julianne Moore er að verða geðveik úr sorg yfir hvarfi sonar hennar. Smámsaman fara minningarnar um son hennar að hverfa á mjög órökréttan og bjánalegan hátt og að lokum verður kátt í höllinni enda hún á hálum ís, en þaðan er íslenska heiti myndarinnar fengið.

Leikurinn er viðunandi enda eru þarna nokkuð góðir leikarar, tæknibrellurnar til fyrirmyndar og fyrstu 5 mínúturnar nokkuð góðar. Restin er drasl og endirinn einn sá fáránlegasti sem ég hef séð í tugi ára. Hræðileg mynd. Hún færð þó hálfa stjörnu af fjórum fyrir tæknibrellurnar. Jafnvel hálfa í viðbót fyrir stofustemninguna í sal þrjú í regnboganum, nema 14" sjónvarpið mitt er aðeins stærra.
Nýlega uppgötvaðist galli á mér. Handarbökin á mér þorna við mikinn kulda og í morgun fékk ég skemmtileg kláðakast í þetta. Þessi galli bætist þá í mjög skrautlegt safn galla þar sem má m.a. finna:

* Ofsastress
* Tourettes syndrome í körfubolta
* Svefnsýki
* Leti við að klippa á mér táneglurnar
* Neglunag
* Vera of góður við mig þegar ég skrifa lista yfir gallana mína
* Háður mat
* Háður því að skrifa bloggfærslur

Hafið þó engar áhyggjur af húðþurrkinum, ég fékk mér Mildison Lipid 1% Kräm í lyfju og þarmeð hefst stríðið gegn göllum mínum. Ég mun þó ekki ráðast í aðra líkamlega galla þar sem þeir eru óyfirstíganlegir heldur meira huga að þeim andlegu.

Ef ég er að gleyma einhverju, endilega bætið þeim við í ummælin.