sunnudagur, 13. júlí 2003

Ég mæli með því að fólk kíki á myndasíðuna hennar Hörpu. Slatti af góðum myndum þar.

Annars prófaði ég nýjasta skemmtistað Egilsstaða í gær, Vaff næturklúbbinn. Þar var hörkufjör og þónokkuð góð stemning. Ég lék, eins og svo oft, á alls oddi. Bylgja nokkur var með myndavél og ég held ég hafi náð að troða mér inn á hverja einustu mynd. Næst á dagskrá er að fá Bylgju til að birta myndirnar ekki á netinu.

laugardagur, 12. júlí 2003

Ég hef bætt við enn einu laginu hérna til hægri. Í þetta sinn er það lagið Velvet pants með stórhljómsveitinni Propellerheads en þeir gáfu út diskinn 'decksandrumsandrockandroll' 1998 og hafa ekkert gert síðan. Í matrix er lagið 'spybreak!' í senunni þar sem Neo og Trinity skjóta sig í gegnum hús en það er einmitt samið og flutt af propellerheads. Velvet pants hefur fengið minni athygli, þar til núna. Fínt í teitin í kvöld.

Lögin Verse chorus verse með Nirvana og Veridis quo með Daft punk eru einnig komin aftur en þau féllu út á dögunum einhverra hluta vegna.
Í kvöld var opnaður nýr skemmtistaður á Egilsstöðum en í síðustu viku opnaði Café KHB sem þýðir Kaffi KHB á Íslensku. Sá nýji heitir því stórkostlega nafni V Nightclub, Vaff næturklúbbur á Íslensku. Mér reiknast það til að á síðustu tveimur vikum hefur að meðaltali 1 skemmtistaður opnað á Egilsstöðum, sem er fréttnæmt eitt og sér, en það sem vekur athygli mína er að með þessu áframhaldi verða hér 26 skemmtistaðir í árslok og 11. júlí 2004 hvorki meira né minna en 52 skemmtistaðir. Merkilegt hvað Egilsstaðabær er lifandi og að hugsa með sér að ég skuli vera að yfirgefa þennan gleðibæ fyrir daufan bæ, sem Reykjavík vissulega er. En fer fram sem horfir verða þó komir hér rúmlega 200 skemmtistaðir þegar námi mínu lýkur eftir 4 ár þannig að það er óþarfi að hafa áhyggjur.

föstudagur, 11. júlí 2003




Enn ein vonbrigðin í höfuðstöðvum Utah Jazz en í dag tilkynnti besti kraftframherji allra tíma, Karl Malone, að hann væri að yfirgefa Jazz og fara til erkióvinarins; Lakers. Það sem gerir mig hryggan í þessu sambandi er ekki sú staðreynd að Jazz verður án hans heldur meira að Malone skuli hugsa svona. Rotturnar yfirgefa skipið en skipstjórinn sekkur með því, eins og John Stockon.

Malone átti þó 18 góð ár með Jazz og á hann bestu þakkir skildar fyrir það.
Nánast ónotaður fínn mjólkurkexpakki fæst gefins fyrir aðeins 100 krónur, staðgreitt. Áhugasamir smellið hér eða í athugasemdirnar fyrir neðan. Þannig er mál með vexti að ég hef bragðað gróft mjólkurkex og get ekki snúið aftur í að borða fínu gerðina þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Þetta er svipað og þegar ég smakkaði léttmjólk í fyrsta sinn og hætti þarmeð algjörlega að drekka nýmjólk því ég fann rjómafitubragðið.

fimmtudagur, 10. júlí 2003

*Bannað innan 6574,5 daga gamals fólks*

Það er þá til guð eftir allt saman.
Nei ætli það sé ekki bara til fólk sem dýrkar peningaguðinn. Kemur sér vel fyrir okkur ljóta fólkið. Það sem kemur sér jafnvel betur fyrir okkur er að þessi snillingur hér ákvað að sýna okkur allar myndirnar. Takk Davíð.
Þá er komið að fréttum.

Í fréttum er þetta helst:
Óli Rúnar Jónsson, fyrrum (verri) helmingur útvarpsþáttarins 'Riddarar skákborðsins' og núverandi gítarleikari 200.000 dónaleg haust hefur nýlega gert hundruða króna samning við stöð 2 um að lesa inn á teiknimyndir. Hann hefur nú þegar lesið inn fyrir fyrir einn karakter í einu atriði en það er á huldu hvaða teiknimynd það er. Einnig er það óvitað hvaða karakter það er sem fær rödd Óla. Þegar fréttasnápur veftímaritsins 'við rætur hugans' hitti Óla á messenger nýlega sagðist Óli vera mjög spenntur fyrir þessu og ætlaði hann að taka þáttinn upp og sýna gestum og gangandi. Óvíst er hvort hann lesi inn á fleiri teiknimyndir því fréttasnápurinn gleymdi að spyrja. Fréttasnápurinn hefur því verið rekinn.

*Brotnandi frétt / breaking news*
Rétt í þessu var Finnur fulltrúi (ég) að finna tvö blöð á vitlausum stað í möppu einni sem hann hugðist raða í. Hann hélt þó ró sinni, tók blöðin varlega úr og setti á réttan stað áður en hann fékk mjög vægt taugaáfall. Það er þó ekkert sem vatnssopi læknar ekki að sögn vakthafandi læknis. Líðan Finns er eftir atvikum góð.

Fréttum er lokið, að eilífu.

miðvikudagur, 9. júlí 2003

Fyrirsögnin á þessari frétt ætti frekar að vera „Geðheilsu Finns stefnt í voða“. Nágrannar lengi lifi!
Það er komið í ljós að ég fékk glóðarauga eftir helgina. Þegar marblettir eldast verða þeir ljósbrúnir. Það er akkúrat liturinn fyrir neðan augað á mér í dag, ef mjög grant er skoðað. Glóðaraugað sem var greinilega dauft náði að felast bakvið bauginn undir auganu en er að koma í ljós núna og það gleður mig því þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem ég fæ glóðarauga.

Til að vita hvort ætti að skrifa 'glóðarauga' eða 'glóðurauga' fór ég, eins og alltaf þegar ég er í vafa, á google.com og leitaði að báðum orðunum. Það sem oftar finnst nota ég venjulega því sjaldan lýgur almannarómur. Það er þó rangt í þessu tilviki því samkvæmt mjög áræðanlegri heimild er 'glóðarauga' rétt, en ekki 'glóðurauga' eins og google segir. Enn eitt sönnunargagnið sem styrkir stoðir við álit mitt; fólk er fífl.

þriðjudagur, 8. júlí 2003

Bland af óheppni, gleymsku og heimsku gerði ferðina í lyftingasalinn ógleymanlega. Ég og Jökull mættum galvaskir og fljótlega uppgötvaði ég að máttleysi réði ríkjum hjá mér þennan daginn. Ég lyfti þó í ca 50 mínútur en hætti svo til að stelast í íþróttasalinn að skjóta á körfu. Þar voru handboltakappar að æfa (ca 10 stk) og notuðu undir sig allan salinn þannig að ég varð frá að hverfa sem skipti ekki máli því ég ætlaði þá í sund í staðinn en uppgötvaði þá að í sundlauginni voru ca 300.000 manns sem olli því að ég hætti snarlega við það, sem skipti ekki svo miklu máli því ég hafði gleymt sundmiða. Ég gat þó huggað mig við tilhugsunina um að heit og góð sturta biði mín í skiptiklefanum. Þegar ég er orðinn vel nakinn uppgötva ég mér til skelfingar að ég hafði gleymt handklæði. Ég reyndi að hugga mig við að ég gæti amk keypt mér svala eða jafnvel íspinna í sjálfsalanum í afgreiðsunni fyrir 150 krónurnar sem ég hafði með mér. Ég kippti þeim fram og setti á bekkinn á meðan ég skolaði drykkjarílátið á salerninu og þegar ég kom til baka hafði peningnum verið hnuplað.

Ég get þó huggað mig við að Boston Public er á eftir í sjónvarpinu, eða hvað?
Ég óska eftir sjálfboðaliða til að ganga á bakinu á mér sökum gríðarlegs bakverks sem hefur verið að hrjá mig síðustu daga eða frá ballinu á laugardaginn. Viðkomandi má ekki vera of hár því lágt er til lofts í kjallaranum, ekki of þungur því ég er fíngerður og viðkvæmur maður og með smáar tær til að ná á milli rifbeinanna en þar liggur verkurinn.
Umsóknareyðublöð er hægt að fá hjá mér eða umboðsskrifstofu minni og ég minni á að meðlimir vildarklúbbs finnur.tk fá 2% afslátt af því að vera sjálfboðaliðar mínir, eða lærisveinar.
Fyrir nokkrum dögum spurði Jökull mig hversu langt það væri síðan ég missteig mig síðast, en það er vörumerki mitt í körfuboltanum. Ég hafði þá hrósað happi yfir því að hafa ekki meiðst það alvarlega í rúmlega ár þegar hann spurði mig og sagði ég honum það ásamt að þakka honum kærlega fyrir því nú myndi ég örugglega misstíga mig á næstu dögum. Það gerðist svo í gær á körfuboltaæfingu. Takk Jökull.

Ég get samt stigið í fótinn, bara aumur í honum.