fimmtudagur, 17. maí 2012

Tónlist er freisting mín

Fyrir nokkrum mánuðum lá ég andvaka og hugsaði um hvað væri mín freisting. Þetta gerði ég nokkrar nætur í röð eða þar til ég komst að niðurstöðu. Tónlist er freisting mín.

Þegar það var komið í ljós hugsaði ég lengi um hvernig ég gæti komið því best á framfæri. Ég hugsaði um að semja lag, mála listaverk og á einum tímapunkti að fá mér húðflúr. Það var svo á rölti um Kringluna sem ég rakst á hina fullkomnu leið til að sýna fólki hvað freisting mín er:


Peysan kostaði mig dágóða fjárhæð en hún var þess virði. Nú næ ég að tjá mig hvert sem ég fer án þess að segja orð.

Þannig er sagan á bakvið kaupin á þessari peysu. Hún var amk ekki fyrsta peysan sem ég sá og keypti á hlaupum í gegnum Kringluna án þess að máta né sjá hvað á henni stóð. Nei herra minn.

þriðjudagur, 15. maí 2012

Kvikmyndagagnrýni

Í byrjun apríl tók ég áskorun þess efnis að horfa á 45 bíómyndir á þeim 15 frídögum sem ég átti inni frá fyrra ári og þurfti að leysa út sem fyrst, ellagar þeir féllu niður.

Ég náði bara að taka út sex frídaga og horfa á fjórar myndir, þar af tvær síðustu tvo daga (mánuði eftir að áskoruninni lauk). Hér er gagnrýni mín á myndirnar:

The Hunger Games (Ísl.: Sér grefur gröf)
Ung stúlkukind er boðuð á einhverskonar sláturleika, þar sem 24 aðilar keppast um að drepa hvorn annan þar til einn stendur eftir. Myndin gerist í hliðstæðum veruleika eða eitthvað.
Vel leikin en oft á köflum vitlaus mynd. Ágætis skemmtun þó. Það hefði ekki verið hægt að bæta dramatík við myndina þó Bubbi Morthens hefði samið tónlistina fyrir hana.

Dómur: Tvær stjörnur af fjórum.

The Cold Light of Day (Ísl.: Sér grefur gröf)
Gullfallegur karlmaður týnir fjölskyldu sinni og eitthvað. Ég man ekki alveg söguþráðinn, svo leiðinleg var myndin. Og hún var líka verulega illa leikin. En hún var bara 93 mínútur, svo það jafnast næstum út.

Dómur: Hálf stjarna af fjórum.

Get the Gringo / How I Spent My Summer Vacation (Ísl.: Sér grefur gröf)
Mel Gibson leikur miðaldra glæpamann sem lendir í Mexíkósku fangelsi eftir ránstilraun. Fangelsið er lítill bær innan veggja fangelsins og inniheldur mafíu sem Mel Gibson líst ekki á. Hann tekur því til sinna ráða.
Nokkuð góð mynd. Röddin á Mel Gibson gerir myndina. Efast um að hún hefði verið jafn góð með skrollara í aðalhlutverki.

Dómur: Tvær og hálf stjarna af fjórum.

Chronicle (Ísl.: Sér grefur gröf)
Þrír ungir piltar læra að stjórna hlutum með hugarorkunni eftir að hafa rekist á sprunginn örbylgjuofn eða eitthvað sambærilegt. Fylgst er með þróun þeirra og hvernig þeir breytast með hæfileikum sínum. Vel leikin og skemmtileg mynd.

Dómur: Þrjár og hálf stjarna af fjórum.

Næsta áskorun mín er að kaupa mér 15 rúm næstu þrjá daga. Þá tekst mér kannski að kaupa eitt stykki en ég hef verið rúmlaus í ár þegar þetta er ritað.

fimmtudagur, 10. maí 2012

Ástæða dalandi tíðni færslna

Nýlega skoðaði ég tíðni færslna á þessari síðu og komst að því að síðan er smámsaman að deyja. "Af hverju?", spurði ég.



Getur verið að blogg séu að deyja? Að enginn hafi áhuga á að lesa illa ígrundaðar færslur almennings og að það endurspeglist í tíðni færslna? Nei, það getur ekki verið!

Ég kom því með aðra tilgátu: Einhverskonar fylgni er á milli svefnvenja minna og tíðni færslna á síðunni.

Svo ég sótti gögn og setti saman í línurit:



Niðurstaða: Nei. Engin fylgni þar á milli.

Næsta tilgáta: Ég á mér of lítið líf til að ég geti skrifað um hvað ég geri utan vinnu og svefns.

Niðurstaða: Bingó!

mánudagur, 7. maí 2012

Ókláráðar bloggfærslur

Nokkrir punktar sem ég hef skrifað hjá mér:

1. Fullt tungl
Þessar dagana/næturnar er fullt tungl á himni. Þá eru miklar líkur á að fólk sem trúir kjaftæði sé að vara fólk við því að þá séu miklar líkur á að hegðan fólks breytist. Passið ykkur á þeim vitleysingum.

2. Viðbjóður
Ég náði að koma með eina ósmekklegustu lýsingu á því hversu mikið var að gera hjá mér í vinnunni í síðustu viku þegar ég sagði vera meira að gera hjá mér en hjá Nasistayfirmönnum í Auschwitz á lokadögum fangabúðanna. Skömmu síðar skammaðist ég mín fyrir að vera svona ósmekklegur. En ekki nóg til að nefna það ekki hér á blogginu.

3. Umferðardólgur
Ég fann nýja týpu til að hata í umferðinni um daginn þegar ég varð fyrir aðakasti í hringtorgi. Ég tók ytri akgrein inn í og strax út úr hringtorgi um leið og bíll á innri akgrein reyndi að svissa yfir á ytri útrein, þegar tvær útreinar voru úr hringtorginu.

Allavega, viðkomandi fáráður stóð á flautunni á eftir mér og tók ógnandi fram úr þegar við vorum komnir á beinan kafla.

Það er eitt að kunna ekki umferðarreglurnar og annað að halda að maður kunni umferðarreglurnar þegar maður kann þær ekki en þegar maður er orðinn umferðardólgur ofan á allt saman þá er nóg komið. Ég ákvað því að kenna honum lexíu með því að líta á hann með vott að smá pirringi í fasi, sem hann hlýtur að hafa séð í baksýnisspeglinum, áður en hann spólaði út í buskann. Það ætti að sýna honum að abbast ekki upp á mig.

4. Heilsubúðin
Ég fór í heilsubúðina að leita að grænmetishakki, sem virðist ekki fást neinsstaðar lengur. Þegar ég spurði afgreiðslukonuna hvort þau ættu von á því á næstunni sagði hún að ég ætti frekar að versla það í Bónus eða ódýrari verslunum, þetta væri svo dýr búð.

Og það var mín vísbending um að ég ætti að klæða mig betur og kannski raka mig annað slagið, sem ég hef auðvitað ekki gert síðan.

fimmtudagur, 3. maí 2012

Handrit að (ör)stuttmynd

Tímasetning: Hádegi 3. maí 2012

Staðsetning: Úrilla Górillan

Lýsing: Þrír menn sitja við borð og ræða málin. Afgreiðslustelpa gengur upp að borðinu.

Afgreiðslustelpa (AS): Eruði tilbúnir að panta?
Vitleysingur (V): Já, ég ætla að fá pizzu með pepperóní og gúrku.
AS: ...ok, pepperóní og...gúrku...á pizzuna?
V: Já.
AS: ...viltu gúrkuna ofan á pizzuna í ofninum eða að við bætum henni við eftir að pizzan kemur úr ofninum?
V: Bara með í ofninum. Er það ekki venjan?

Afgreiðslustelpan horfir á vitleysinginn eins og hann sé fífl

AS: Nei, það er ekki ve...
V: Ég meina papriku! Shit.
AS: Fjúkk. Ég hef aldrei heyrt um gúrkupizzu.
V: Ég ruglast alltaf á gúrku og papriku.
AS: You're my favorite customer.

-Endir-

Þetta smáleikrit er sannsögulegt.

Smá viðbótarupplýsingar: Vitleysingurinn er ég. Að ruglast á papriku og gúrku er ekki það eina sem hrjáir mig. Ég ruglast líka reglulega á tölustöfunum 81 og 18 og smekklegum fötum og ógeðslegum lörfum.

mánudagur, 30. apríl 2012

Nýtt ljóð

Í dag er ég í fríi frá vinnu vegna frídaga sem ég á eftir að taka út frá í fyrra.

Dagurinn var því nýttur í að semja nýtt ljóð. Að þessu sinni tók ég fyrir efni sem er mér huglægt; ferhyrning.

Ljóðið heitir ferhyrningur


Ljóðið bætist við ljóðasafn mitt sem má finna hér og húðflúrað á bakið á mér.

Ég stefni svo á að halda ljóðaupplestrarkvöld þegar ég hef náð 250 ljóðum.

fimmtudagur, 26. apríl 2012

Skórnir teknir af hillunni

Það gleður mig andlega að tilkynna að ég hef snúið aftur á körfuboltavöllinn, eftir rúmlega 13 mánaða pásu. Það hryggir mig þó talsvert líkamlega.

Svona er ástand líkama míns eftir tvær æfingar:



Rauði liturinn táknar harðsperrur og grái liturinn meiðsli. Ég tognaði á hægri þumli á fyrri æfingunni, hægra hnéið gaf sig eftir seinni æfinguna og ég laskaði á mér sköflunginn á einhverjum tímapunkti. Önnur meiðsl eru krónísk og/eða andleg.

Það er svo rétt núna, fjórum dögum eftir fyrri æfinguna að ég er hættur að ganga um eins og Robocop (eftir harðsperrur). Ég er þó hvergi nærri hættur að kveinka mér.

Á móti kemur að ég skemmti mér konunglega, þrátt fyrir að geta lítið, og ligg í endorfínvímu í sólarhring eftir hverja æfingu. Mæli með því. Ef þið eruð lítið fyrir körfubolta þá mæli ég með heróíni í staðinn.

mánudagur, 23. apríl 2012

Skuggalegur fæðingarblettur

Ég er farinn að hafa smá áhyggjur af fæðingarblettinum sem ég tók eftir fyrir nokkrum árum. Ef ég vissi ekki betur héldi ég að hann væri að stækka.


Ég hef pantað tíma hjá lækni til að taka sýni úr honum og láta senda til rannsóknar. Ég vona að bíllinn sé ekki kominn með húðkrabbamein ofan í ónýta legu í framhjóli.

fimmtudagur, 19. apríl 2012

Nýstárleg auglýsingaherferð

Í dag fékk ég þessi smáskilaboð í símann minn:

Sæll, ef þú ert með til sölu mótorhjólagalla á Ruddum átt þú skilaboð. -www.[ónefnt símafyrirtæki].is

Þetta er nýtt símafyrirtæki sem ég er ekki í áskrift hjá, né hef nokkurntíman skráð símanúmer mitt í neinn leik hjá þeim.

Þetta hlýtur að vera einhver undarlegasta aðferðin til að fá fólk í áskrift til sín, að senda skilaboð á fólk sem mögulega gæti átt "mótorhjólagalla á Ruddum", hvað sem það er.

Allavega, ég á ekki mótorhjólagalla og veit ekki hvað "Ruddum" er, svo ég sleppi að færa mig yfir að þessu sinni.

Draumför

Undirmeðvitund mín gaf mér góða vísbendingu um að ég sé að verða leiðinlegasti maður í heimi þegar mig dreymdi í alla nótt að ég væri að versla í Hagkaup. Þar skoðaði ég mangó ávexti og athugaði hvort fjólublár Gatorate væri kominn aftur í sölu. Hann var ekki kominn aftur í sölu, svo ég hélt áfram að ráfa um búðina þar til ég vaknaði andlega úrvinda eftir þessa drepleiðinlegu verslunarferð.

En ég fékk að eyða deginum með Excel, svo ég er úthvíldur fyrir næsta hræðilega draum. Ég geri ráð fyrir að hann snúist um að taka út ruslið og að ryksuga íbúðina.

laugardagur, 14. apríl 2012

Fallinn

Í gærkvöldi féll ég eftirminnilega á gos- og nammibindindi mínu þegar ég át og drakk eins og svín yfir NBA leik.

Bindindið entist í 28 daga. Á þeim tíma:

1. Sparaði ég mér 20.000 krónur sem annar fóru í nammikaup.
2. Eyddi ég um 70.000 krónum í ávexti.
3. Hrapaði lífsvilji minn niður í dimmustu hyldýpi.
4. Talaði ég ekki um neitt annað en að ég borðaði ekki nammi lengur.
5. Var ég litinn hornauga af nammifélögum mínum, sem reyndu ítrekað að fá mig á nammidjamm.
6. Gréru sprautusárin á handleggnum næstum alveg eftir nammisprautur síðustu ára.

Framundan eru bjartari tímar, amk fyrir mig og tannlækna landsins.

fimmtudagur, 12. apríl 2012

Hitt og þetta

Þetta er að frétta:

Ég bætti við fjórförum á fjórfarasíðuna
Að þessu sinni eru þeir fengnir frá Baldri Beck, körfuboltagúrú með meiru. Sjá hér.

Ég bætti við Excel skjali á Excel.is síðuna
Skjalið sýnir tölfræði leikmanna í Iceland Express deildinni í körfubolta karla nýliðið tímabil (2011-2012, regular season) og býður upp á uppraðanlegar töflur eftir tölfræðiatriðum. Sjá hér.

Óþægileg uppgötvun
Mér finnst alltaf jafn leiðinlegt að átta mig á því að ég er úr kjöti. Fáránleg tilhugsun.

Kvenhylli í ræktinni
Í kvöld ætlaði ég að fara á skíðavél í ræktinni í rólegheitum og hugsa minn gang, eins og venjulega. Þegar þangað var komið og ég farinn að svitna lítrum hrúgaðist kvenfólk allt í kringum mig.

Í fyrstu hélt ég að þetta væri grín svo ég hunsaði þær en þegar 20 mínútur voru liðnar og enn að bætast við kvenfólk var mér hætt að lítast á blikuna. Svo truflandi fannst mér þetta að ég var hættur að geta einbeitt mér að Gossip girl sem var á risavöxnum sjónvarpsskjá fyrir framan skíðaavélarnar. Ég neyddist því til að skipta yfir í hjólin, sem eru með innbyggðu sjónvarpi. Þetta dugði til að hrista þær af mér, í þetta skiptið.