mánudagur, 7. maí 2012

Ókláráðar bloggfærslur

Nokkrir punktar sem ég hef skrifað hjá mér:

1. Fullt tungl
Þessar dagana/næturnar er fullt tungl á himni. Þá eru miklar líkur á að fólk sem trúir kjaftæði sé að vara fólk við því að þá séu miklar líkur á að hegðan fólks breytist. Passið ykkur á þeim vitleysingum.

2. Viðbjóður
Ég náði að koma með eina ósmekklegustu lýsingu á því hversu mikið var að gera hjá mér í vinnunni í síðustu viku þegar ég sagði vera meira að gera hjá mér en hjá Nasistayfirmönnum í Auschwitz á lokadögum fangabúðanna. Skömmu síðar skammaðist ég mín fyrir að vera svona ósmekklegur. En ekki nóg til að nefna það ekki hér á blogginu.

3. Umferðardólgur
Ég fann nýja týpu til að hata í umferðinni um daginn þegar ég varð fyrir aðakasti í hringtorgi. Ég tók ytri akgrein inn í og strax út úr hringtorgi um leið og bíll á innri akgrein reyndi að svissa yfir á ytri útrein, þegar tvær útreinar voru úr hringtorginu.

Allavega, viðkomandi fáráður stóð á flautunni á eftir mér og tók ógnandi fram úr þegar við vorum komnir á beinan kafla.

Það er eitt að kunna ekki umferðarreglurnar og annað að halda að maður kunni umferðarreglurnar þegar maður kann þær ekki en þegar maður er orðinn umferðardólgur ofan á allt saman þá er nóg komið. Ég ákvað því að kenna honum lexíu með því að líta á hann með vott að smá pirringi í fasi, sem hann hlýtur að hafa séð í baksýnisspeglinum, áður en hann spólaði út í buskann. Það ætti að sýna honum að abbast ekki upp á mig.

4. Heilsubúðin
Ég fór í heilsubúðina að leita að grænmetishakki, sem virðist ekki fást neinsstaðar lengur. Þegar ég spurði afgreiðslukonuna hvort þau ættu von á því á næstunni sagði hún að ég ætti frekar að versla það í Bónus eða ódýrari verslunum, þetta væri svo dýr búð.

Og það var mín vísbending um að ég ætti að klæða mig betur og kannski raka mig annað slagið, sem ég hef auðvitað ekki gert síðan.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.