Í byrjun apríl tók ég áskorun þess efnis að horfa á 45 bíómyndir á þeim 15 frídögum sem ég átti inni frá fyrra ári og þurfti að leysa út sem fyrst, ellagar þeir féllu niður.
Ég náði bara að taka út sex frídaga og horfa á fjórar myndir, þar af tvær síðustu tvo daga (mánuði eftir að áskoruninni lauk). Hér er gagnrýni mín á myndirnar:
The Hunger Games (Ísl.: Sér grefur gröf)
Ung stúlkukind er boðuð á einhverskonar sláturleika, þar sem 24 aðilar keppast um að drepa hvorn annan þar til einn stendur eftir. Myndin gerist í hliðstæðum veruleika eða eitthvað.
Vel leikin en oft á köflum vitlaus mynd. Ágætis skemmtun þó. Það hefði ekki verið hægt að bæta dramatík við myndina þó Bubbi Morthens hefði samið tónlistina fyrir hana.
Dómur: Tvær stjörnur af fjórum.
The Cold Light of Day (Ísl.: Sér grefur gröf)
Gullfallegur karlmaður týnir fjölskyldu sinni og eitthvað. Ég man ekki alveg söguþráðinn, svo leiðinleg var myndin. Og hún var líka verulega illa leikin. En hún var bara 93 mínútur, svo það jafnast næstum út.
Dómur: Hálf stjarna af fjórum.
Get the Gringo / How I Spent My Summer Vacation (Ísl.: Sér grefur gröf)
Mel Gibson leikur miðaldra glæpamann sem lendir í Mexíkósku fangelsi eftir ránstilraun. Fangelsið er lítill bær innan veggja fangelsins og inniheldur mafíu sem Mel Gibson líst ekki á. Hann tekur því til sinna ráða.
Nokkuð góð mynd. Röddin á Mel Gibson gerir myndina. Efast um að hún hefði verið jafn góð með skrollara í aðalhlutverki.
Dómur: Tvær og hálf stjarna af fjórum.
Chronicle (Ísl.: Sér grefur gröf)
Þrír ungir piltar læra að stjórna hlutum með hugarorkunni eftir að hafa rekist á sprunginn örbylgjuofn eða eitthvað sambærilegt. Fylgst er með þróun þeirra og hvernig þeir breytast með hæfileikum sínum. Vel leikin og skemmtileg mynd.
Dómur: Þrjár og hálf stjarna af fjórum.
Næsta áskorun mín er að kaupa mér 15 rúm næstu þrjá daga. Þá tekst mér kannski að kaupa eitt stykki en ég hef verið rúmlaus í ár þegar þetta er ritað.
Sér grefur gröf, LMAO!
SvaraEyða-BB