mánudagur, 2. nóvember 2009

Eftir að hafa leitað að skóm á undir 10.000 krónum í tvo mánuði á meðan ég gekk í handónýtum og lekum skóm, hef ég loksins fundið par.

Við fyrstu myndatöku nýju skónna skalf ég helst til of mikið af stolti. Það verður að hafa það.



Áður en fólk fer að spyrja mig hversu hamingjusamur ég sé í nýju skónnum finnst mér rétt að birta mjög lýsandi mynd yfir líðan mína:

Dansmynd e. Jónas Reyni og mig.
Hún ætti að svara öllum spurningum sem fólk kann að hafa.

laugardagur, 31. október 2009

Ég hef þurft að upplifa margan hryllinginn á hárgreiðslustofum. Ekki bara ný móðins hárgreiðslur sem ég hef ekki beðið um, heldur einnig aðstæður og viðburði sem ég á erfitt með að tjá mig um.

En ég geri það samt, til að vara aðra við mikilli skömm. Hér er því topp 5 yfir verstu lífsreynslurnar á hárgreiðslustofum:

5. Bartastytting
Klippikonan spurði hvort ég vildi láta snyrta bartana eitthvað. Ég samþykkti það. Þá rakaði hún þá alveg af. Ég var jafnvægislaus í viku á eftir.

4. Hnakkinn rakaður
Klippikonan rakaði allt hár fyrir neðan augu (og ofan háls) í burtu án þess að spyrja mig. Ég var 12 ára og hef ekki enn jafnað mig á þeim hryllingi.

3. Augabrúnir klipptar
Í miðjum klíðum við að klippa á mér hárið tók klippikonan upp á því að greiða augabrúnirnar á mér og klippa þær. Ég náði ekki andanum yfir ósvífninni. Kafnaði næstum.

2. Hárþvottur
Eitt sinn mætti ég svo illa til fara í klippingu að klippikonan krafðist þess að þvo mér um hárið. Þegar ég samþykkti vísaði hún mér að vöskunum, þar sem karlmaður beið mín.

Ég á frekar erfitt með nærveru annarra, er með ca 50 metra í comfort radíus. Ég get ekki ímyndað mér meiri innrás í þann radíus en að láta karlmann þvo mér um hárið. Ég var með vöðvabólgu í 6 mánuði eftir þvottinn og vott af búlimíu.

1. Niðurlæging
Þegar einni klippingunni var lokið spurði ég hvort væri ekki sniðugra að stytta hárið meira svo lokkur hætti að vera boginn. Klippikonan sagðist hafa lausn á því, vippaði fram sléttujárni og notaði á lokkinn. Það virkaði en það er aukaatriði. Ég hef aldrei farið aftur þangað og kýli yfirleitt í vegg þegar ég hugsa um lífsreynsluna.

Þrátt fyrir þessar upplifanir arka ég áfram sterkari en áður, vitandi að ekkert getur brotið mig niður, úr því ég lifði allt þetta af.

föstudagur, 30. október 2009

Ég hef verið með fjörfisk í vinstra augnloki síðustu fjórar vikurnar og í gær bættust við kippir í aftanvert vinstra lærið, sem ég kýs að kalla partífisk (þar sem fjörfiskur einskorðast við augnlok). Ennfremur er ég kinnfiskasoginn, að sögn.

Í dag fékk ég loksins nóg, þegar ég komst að því að það er fiskur í matinn í mötuneytinu. Nóg komið!

fimmtudagur, 29. október 2009

Mig grunar að lagið Air on a g-string hafi aldrei náð þeim vinsældum sem það á skilið því enginn vill segja "ég er að hlusta á Air í g-streng". Amk enginn karlmaður með sjálfsvirðingu.



Án efa fallegasta lag sem samið hefur verið, hvort sem hlustað sé á það í g-streng eða ekki.

mánudagur, 26. október 2009

Ég verð að hrósa Álftanesi fyrir frumlega aðferð til að ná hraðanum niður.

Á Álftanesi eru radarmælar með skjá sem sýnir hversu hratt þú keyrir. En í stað ljóss sem blikkar þegar ekið er of hratt þá birtist mynd af fýlukalli. Og þegar þú keyrir á löglegum hraða birtist broskall.

Árangurinn er glæsilegur; ofsaakstur krakka yngri en 10 ára hefur snarminnkað.
Um helgina æfði ég mig að teipa þumalinn á mér aftur, þar sem hann er tognaður.

Sársaukinn sem fylgir þessari tognun, sem er umtalsverður á stundum, er ekkert miðað við þann sársauka sem fylgir því að rífa teipið af úlnliðnum:


Mér hefur aldrei áður verið eingöngu kalt á hægri úlnliðnum.

föstudagur, 23. október 2009

Ég á pirraðasta blaðaútburðarmann landsins:

Þetta er krumpaður bæklingur frá Krónunni sem ég rétti úr fyrir myndatöku. Honum var troðið inn í pósthólfið í formi bolta. Gerist ca 2-3 sinnum í viku.

Umræddur blaðaútburðarmaður fæst fyrir lítið.

fimmtudagur, 22. október 2009

Í tölfræði síðasta leiks UMFÁ, gegn Mostra, vekur eitt athygli; aðeins einn leikmaður tók ekkert skot utan af velli. Það var ég. Samt skoraði ég 2 stig.

Ég var því með ∞ (endalaus) stig á hvert skot utan af velli. Það má þannig leiða að því líkur að ef ég hefði tekið skot hefði leikurinn líklega verið blásinn af, þar sem stigataflan ræður bara við 999 stig skoruð.

Það er ástæðan fyrir því að ég tók ekkert skot í leiknum.

þriðjudagur, 20. október 2009

Nokkrar misóáhugaverðar fréttir:

1. Svo virðist sem bréfið UMFÁ til Dorrit(ar) hafi verið birt á veffréttasíðunni Pressan.is. Ég kom ekki nálægt því. Mér finnst líklegt að Dorrit hafi sent þeim það.

Ekki nóg með það heldur var umrætt bréf tekið fyrir á stjórnarfundi 365 í dag, skilst mér. Ég geri ráð fyrir að það verði tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi á morgun og mögulega hjá Sameinuðu þjóðunum fyrir helgi.

2. Körfuboltaliðið mitt, UMFÁ, tekur þátt í bikarkeppni KKÍ í ár eins og í fyrra. Dregið var í 1. umferð nýlega. Svo virðist sem UMFÁ muni mæta næstbesta liði landsins; Snæfelli.

Besta lið landsins heitir UMFÁ. Þetta ætti að vera áhugaverður leikur. Hann fer líklega fram mánudaginn 9. nóvember næstkomandi kl 19:45 í Íþróttahúsi Álftaness.

3. Bíómyndir:
Mæli með
Stúlkan sem lék sér að eldinum
The ugly truth

Hvorki né
Surrogates
Funny people

Mæli alls ekki með
Gamer

Mig langar að sjá
9
Jóhannes

mánudagur, 19. október 2009

Eitt besta Excel bloggið á netinu; Pointy haired Dilbert, skrifaði í morgun grein um custom borða í Excel 2007, sem eitt og sér er óendanlega áhugavert eins og gefur að skilja.

Það sem gerir þessa grein jafnvel enn áhugaverðari er að hann skrifar hana eftir ábendingu frá mér. Ekki nóg með það heldur nefnir hann mig á nafn í færslunni.

Glöggir vegfarendur í 105 svæðinu í Reykjavík hafa væntanlega heyrt öskrin við andlegu sælublossana sem framkölluðust hjá mér við lesturinn. Ég biðst velvirðingar á því.

Sjá hér.

sunnudagur, 18. október 2009

Í dag fór ég í keppnisferðalag með liðinu mínu, UMFÁ, til Stykkishólms að keppa við Mostra.

Fyrir þá sem ekki vita hvar það er á landinu (t.d. mig) þá má sjá það á skýringamyndinni hér að neðan:

Tölfræðin
Kílómetrar eknir: 341,02
Tími í keyrslu: 242 mínútur
Stig skoruð af UMFÁ: 63
Stig skoruð af Mostra: 54
Sigrar UMFÁ: 1
Sigrar Mostra: 0
Töp UMFÁ: 0
Töp Mostra: 1
Syfjustig á leið heim (á skalanum 0-10): 7

föstudagur, 16. október 2009

Ég tók skrautlegt atriði í gær þegar ég átti óvart tíma hjá tannlækni kl 16:00 og í klippingu kl 16:30.

Upphafsvandamálin voru eftirfarandi:
1. Ég tafðist í vinnunni og varð seinn fyrir til tannlæknisins.
2. Ég vinn í miðbæ Reykjavíkur. Tannlæknirinn er uppi í Grafarvogi (ca. mörghundruð þúsund kílómetra í burtu).
3. Klukkan 16:00 hefst háannatími í umferðinni = gríðarlega erfitt að komast á milli staða.
4. Ég ek um á Peugeot 206. Sem er kraftlaus. En dugar.

Ég hafði 10 mínútur til að komast til tannlæknisins. Ég mætti klukkan 16:02 eftir að hafa ekið í gegnum nokkra bíla. Þá átti einhver kappi erfitt með að borga, svo tannlæknirinn tafðist. Klukkan 16:15 komst ég loksins að.

Samtal!
Ég: Hvað tekur þetta langan tíma?
T(annlæknir): Ca 20-30 mínútur.
Ég: Fökk.
T: Ertu að flýta þér?
Ég: Ég er að fara í lagning...eh... á mikilvægan viðskiptafund eftir korter.
T: Ok, við skulum reyna að flýta okkur þá.

Tannlæknirinn bókstaflega hljóp í myndatökuna og yfirlitið og kl 16:25 hljóp ég út, 10.000 krónum fátækari.

Þá tók við næsti vandamálapakki:
5. Tannlæknirinn er í Grafarvogi. Hárgreiðslustofan er í miðbæ Reykjavíkur (ca. mörghundruð þúsund kílómetra í burtu).
6. Klukkan 16:25 er nánast hápunktur háannatímans í Reykjavík. Bíll við bíl.
7. Ég ek um á Peugeot 206. Sem er kraftlaus. En dugar.

Eftir frekar spennandi ferð tók ég handbremsubeygju inn á planið hjá hárgreiðslustofunni og hljóp öskrandi inn á stofuna:

Ég: AFSAKIÐ HVAÐ ÉG KEM SEINT!!
H(árgreiðslukona): Ekkert mál.
Ég: Fökk.

Ég bað um James Bond klippinguna.