laugardagur, 30. júlí 2011

Nammineysla mín

Nú er liðin vika frá því ég verslaði síðast inn fyrir heimilið. Venjulega klára ég allt nammi sem keypt er á innan við sólarhring frá innkaupum en ekki þessa vikuna. Daginn sem ég verslaði síðast inn ákvað ég að reyna að eiga nammi alla vikuna. Og það gekk eftir! Í dag á ég ennþá slatta af nammi eftir.

Þeir, sem heyra af þessu afreki mínu (frá mér í (í smsum t.d.)) hrósa mér yfirleitt fyrir mikinn viljastyrk. Ég veit ekki hvað viljastyrkur kemur því við að versla inn sjöfalt magn af nammi en ég tek þau hrós sem ég get.

miðvikudagur, 27. júlí 2011

Hrækt í andlit sköllóttra

Nýju auglýsingar Símans, sem fjalla um náttúrufegurð Íslands eða eitthvað, skarta hinum stórskemmtilega Villa Naglbíti og er þær að finna á Youtube (hér).

Auglýsingarnar eru mjög smekklegar og jafnvel gullfallegar. En ekkert er svo gott að ekki sé hægt að finna eitthvað neikvætt við það.

Eitt gæti böggað hinn almenna miðaldra, sínöldrandi, þunnhærða leiðindapjakk og ætla ég að tækla nöldrið fyrir hönd þeirra allra: Villi Naglbítur nánast bókstaflega skyrpir í andlit sköllóttra með því að skarta akkúrat öfugri hárgreiðslu við þá, hár á toppnum og ekkert á hliðunum.



Þvílík dirfska! Ég vona að hann sé stoltur af sjálfum sér.

laugardagur, 23. júlí 2011

Plöntusæði


Þessi mynd er tekin í Laugardalnum fyrr í dag og sýnir aðeins brotabrot af því magni plöntusæðis sem flýgur um borgina þessa dagana. Myndin sýnir líka hversu vergjarnar plöntur eru og hversu brýn þörfin er fyrir að temja plöntum hlédrægari leiðir til að fjölga sér.

Ef ekki er hægt að kenna þeim að haga sér á almannafæri, þá allavega útbúa einhverskonar plöntusmokka. Það er óþolandi að ganga um garða bæjarins með sæði í hárinu, fjandinn hafi það.

miðvikudagur, 20. júlí 2011

Endursýning á bloggfærslu

Í gærkvöldi áttu þau leiðu mistök sér stað að ég skrifaði þennan pistil aftur, nánast orð fyrir orð, án þess að muna eftir að hafa skrifað hann áður. Pistillinn fékk að vera á síðunni í ca 18 tíma eða þangað til vinur minn benti mér á þetta. Ég eyddi því færslunni.

Sú staðreynd að ég geti skrifað pistil aftur rúmum sex vikum síðar, um nákvæmlega það sama, með sama orðalagi og uppsetningu, er ekki það sorglegasta við þetta. Það sorglega við þetta allt saman er að innihald bloggfærslnanna gerðist tvisvar, með sex vikna millibili.

Það er semsagt ekki nóg að gera þessi mistök einu sinni og skrifa um það á netið. Ég endurtek mistökin og skrifa aftur um það nokkrum vikum síðar.

Ef ég hef skrifað þennan pistil áður þá biðst ég afsökunnar.

mánudagur, 18. júlí 2011

Narcissus og ég

Sjálfhverfa mín náði nýjum hæðum um helgina þegar ég fann tvö Youtube myndbönd sem bæði gætu átt við um mig.

1. Lagið No rain með Blind Melon

Sérstaklega textabrotið

„And I don't understand why I sleep all day
And I start to complain that there's no rain“


Ég var nývaknaður klukkan 17 í gær þegar ég heyrði lagið. Í gær var einmitt 10 dagurinn í röð sem spáð var rigningu en hennar í stað var glaðahelvítis sólskin, mér til mæðu.

2. Radíusflugan Skodahatari

Skiptið út Skoda út fyrir Peugeot og verktaka út fyrir Excel sjúkling, bíðið svo í nokkur ár og voilá! Þetta er ég.

laugardagur, 16. júlí 2011

Litli grænmetisstilkurinn

Í gærkvöldi fékk ég mér salat að borða. Í því fann ég pínulítinn stilk sem var alveg eins og blýantur í laginu. Ég planaði að gera risastóra myndaseríu á þessu bloggi þar sem ég gríntist með þennan stilk, svo ég kippti honum með mér og fór í smá heimsókn. Þar sýndi ég stilkinn og allir öskruðu úr hlátri, skiljanlega.

Þegar ég svo kom heim seinna um kvöldið áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt og týnt stilknum í heimsókninni, svo ég kíkti aftur í heimsókn, í þetta skipti til að leita að honum.

Eftir nokkra tíma leit gafst ég upp og fór út að labba. Svo vaknaði ég.

Einhver handahófskenndasti og asnalegasti draumur sem mig hefur dreymt.

fimmtudagur, 14. júlí 2011

Leti eldamennska

Ég held áfram að blómstra í eldhúsinu með leti-eldamennsku, þ.e. að elda bara það sem ég finn í eldhúsinu (einnig þekkt sem að nenna ekki að fara í verslun). Að neðan er mynd af minni frumlegu hugmynd að steikja egg og franskar saman, ásamt uppskriftinni:



Uppskrift:
1. Steikið egg á pönnu.
2. Steikið franskar kartöflur á pönnu.
3. Saltið að vild.

Einhvern daginn mun ég gefa út matreiðslubók fyrir einhleypa og barnlausa.

mánudagur, 11. júlí 2011

Tvífarar

Ein stærsta mynd sumarsins, Horrible Bosses, kemur til landsins á næstunni. Í henni er að finna tvífara eins fyndnasta karakters sem ég hef séð í grínþáttum: Spaghett:

Tim Heidecker sem Spaghett


Colin Farrell í Horrible Bosses


Þeir eru meira að segja í eins peysu, plús/mínús "eins".

Hér má sjá auglýsingu Spaghett fyrir Sígarettusafa úr þættinum Tim&Erics Awesome Show Great Job.


Hér er svo trailerinn fyrir Horrible Bosses, þar sem Colin Farrell fer á kostum.

föstudagur, 8. júlí 2011

Álit mitt á Peugeot


Eins og sést á þessari mynd er ég ekki einn um álit mitt á Peugeot draslinu mínu. Ég gerði þetta ekki, amk ekki sannanlega og mér dettur ekki til hugar að þrífa þetta.

fimmtudagur, 7. júlí 2011

Augnaðgerð

Ég fór í smá augnaðgerð í morgun þar sem táragöng annars augans á mér voru lagfærð, sem mun hjálpa mér að gráta í framtíðinni. Reyndar fannst mér ég strax skárri á meðan á aðgerðinni stóð.

Eftir aðgerðina fékk ég smá umbúðir í andlitið. Ég var að spá í að mæta í vinnuna og vona að enginn tæki eftir þeim, þar sem ekki nokkur maður tók eftir risa glóðarauganu sem ég fékk í vor, en sleppti því þar sem ég sé erfiðlega með áðurnefndu auga, sem er pirrandi þegar rýnt er í tölur. Ég sé til hvort ég kíki í ræktina svona.

Svo ólíklegt finnst mér reyndar að fólk taki eftir þessu smáræði í andlitinu á mér að hér fyrir neðan er mynd af mér eftir aðgerð. Getið á hvoru auganu aðgerðin var framkvæmd.

Kvöldmatur?


Þennan óskapnað setti ég saman í gærkvöldi þegar ég kom heim úr einum af mínum daglegu miðnæturgöngutúrum um stræti garða stórborgarinnar Kópavogs í leit að einhverju stórhættulegu. Þegar það finnst ekki fer ég yfirleitt heim og fæ mér eitthvað að borða.

Ég tók það litla sem ég átti og var ekki útrunnið, steikti á pönnu, skóflaði upp í mig og kyngdi áður en heilinn náði að greina bragð.

Þetta tók ekki nema korter að matreiða og borða. Að vísu leið mér hræðilega á eftir en það breytir ekki þeirri staðreynd að ég sparaði tíma. Eða eitthvað.

miðvikudagur, 6. júlí 2011

Farsímavandræði

Eins og áður segir fékk ég mér Android síma nýlega. Android símar eru hálfgerðar mini fartölvur, slíkur er fjöldi valkosta í valmyndinni.

Í gærkvöldi lenti ég í mínum fyrstu vandræðum, þegar ég fann ekki hvernig ég hringi úr honum. Eftir fimm mínútna leit ákvað ég að nota talskipunarfídusinn sem Google býður upp á. Það eina sem þarf að gera er að ýta á hnapp og segja hvað ég vil gera, á ensku auðvitað og síminn gerir það.

Ég ýtti á hnappinn og sagði mjög skýrt "CALL ÓLI RÚNAR!". Síminn greindi hvað ég sagði, leitaði uppi Hótel Björk á netinu, fann númerið þar og hringdi fyrir mig. Ég á pantað herbergi þar yfir helgina.

Ég tala bara við Óla seinna.

mánudagur, 4. júlí 2011

Kynslóðir farsíma

Í gær keypti ég mér loksins nýjan síma. Fyrir valinu varð þriðju kynslóðar sími: LG Optimus One með Android stýrikerfi og ég veit ekki hvað og hvað. Ástæðan fyrir kaupunum var sú að erfitt var að tala við fólk í gamla símanum fyrir bergmáli.

Ástæðan var amk ekki sú að mig langaði að nota forrit í Android símanum til að taka tölfræði úr framtíðar útiskokki mínu.

Ég hef þá átt einn síma í fyrstu þremur kynslóðum farsíma. Svona er þróunin hingað til á símakynslóðunum, ásamt spá minni fyrir næstu kynslóðir:

föstudagur, 1. júlí 2011

Lausn allra minna vandamála slegið á frest

Í gær, síðsta dag júní mánaðar, ætlaði ég að ná sambandi við lækninn minn varðandi óþolandi svefnþörf mína, en hann verður í fríi allan júlí. Vinnudegi hans lauk klukkan 16:00. Klukkutíma áður en ég vaknaði.

Ég næ sambandi við hann í ágúst.