Á föstudögum kemur út aukablaðið Föstudagur í Fréttablaðinu. Á öftustu síðu þessa aukablaðs er að finna hlutann "
Frábær föstudagur" en þar segir einhver frá sinni hugmynd að frábærum föstudegi í fimm skrefum,
sjá hér.
Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að ég hafi ekki verið valinn til að lýsa mínum frábæra föstudegi í föstudagsblaðinu á morgun, ekki frekar en hingað til, sem eru talsverð vonbrigði. Sá grunur læðist að mér að ég sé ekki nógu merkilegur. Sá grunur er án nokkurs vafa rangur. Hér er því minn frábæri föstudagur, aðeins fyrir lesendur þessarar síðu:
|
1. Excel |
1. Vakna úthvíldur kl 8:30, eftir að hafa farið snemma að sofa í fyrsta sinn síðan 1993. Fer í vinnuna þar sem ég klára Excel skjal sem veldur straumhvörfum fyrir alla Íslendinga, einhvernveginn.
|
2. Blogg |
2. Fer snemma úr vinnunni. Skrifa stórkostlega bloggfærslu. Svo stórkostlega að netheimurinn logar úr hrifningu. Heil athugasemd er skrifuð við færsluna.
|
3. Rækt |
3. Ég fer í ræktina þar sem ég hleyp og lyfti eins og ég sé troðfullur af orku. Fagra stelpan sem ég þori aldrei að tala við gefur mér auga. Í stað þess að líta undan og verða klökkur úr stressi, fer ég og tala við hana. Kemur í ljós að hún elskar Excel. Sérstaklega breyturnar sumproduct og vlookup.
Eftir rækt fer ég í sund. Þar syndi ég kílómetra í skriðsundi, án þess að drukkna næstum. Að því loknu les ég bók í organdi sól.
|
4. Fréttirnar |
4. Fer svo heim og fylgist með fréttum, þar sem sagt er bæði frá Excelskjalinu mínu og bloggfærslunni. Fagna því með því að skála kóki og Risahrauni. Geng svo upp á eitthvað fjall.
|
5. Bíó |
5. Fer í Smárabíó um kvöldið á einhverja stórmynd í góðum félagsskap. Í bíóinu eru mjög fáir og engir drullusokkar. Að myndinni lokinni held ég heim. Úti er ofurrigning. Ég sofna fljótlega eftir að ég kem heim, við dynjandi rigningartaktinn.