miðvikudagur, 30. nóvember 2005

Það er komið að skyndiprófi. Í þetta sinn er það raunhæft dæmi úr mínu daglega lífi.

Á hádegi í dag varð ég vitni að mjög skrautlegri framkomu. Manneskja setti 100 krónur í sjálfsala í troðfullum matsalnum og bað um diet kók. Þegar ekkert gerðist hóf hún að sparka og lemja í sjálfsalann ásamt því að blóta mjög hátt og snjallt svo glumdi í salnum og vakti það mikla athygli. Þetta gerði hún í þrjár mínútur eða þangað til sjálfsalinn henti peningnum til baka þar sem um stíflu var að ræða í sjálfsalanum.

Þá tók hún sig til og setti peninginn aftur í sjálfsalann og við tók endurtekning á ferlinu. Þegar hún svo ætlaði að setja pening í kassann í þriðja sinn kom þar manneskja að og sagði henni að um bilaðan kassa væri að ræða. Þá hætti hún og verslaði gos í mötuneytinu, við hliðina á sjálfsalanum

Nú kemur prófið; hvaða gerð af manneskju var þetta?
a. Ungur piltur
b. Ung stúlka
c. Miðaldra tussa
d. Halim Al

Á hvað mat manneskjan sjálfsvirðingu sína?
a. 100.000 dollara
b. 100 krónur
c. Tvær sultukrukkur
d. 124.500 krónur fyrir vsk.

Ég held að allir fái tíu á þessu prófi.
Ég var að komast að einu merkilegu varðandi Kára Jósefs. Hann fór í ME (Menntaskólann á Egilsstöðum) á sínum tíma, því næst í IR (Iðnskólann í Reykjavík) og að lokum í HR (Háskólann í Reykjavík).

ME + IR = Meir
ME + HR = Mehr = Þýska yfir Meir.

Þetta er meira en lítil tilviljun.

Allavega, lokapróf í lögfræði eftir hálftíma og ég að missa tökin á hvað er raunverulegt og hvað ekki af stressi.

þriðjudagur, 29. nóvember 2005

Ég rakaði mig í gær, sem er fréttnæmt vegna þess að í dag þekkir mig ekki nokkur maður í skólanum. Þetta er fyrsta vísbendingin um að ég þurfi að raka mig oftar eða aldrei.
Þessari færslu á sennilega enginn eftir að trúa en ég læt reyna á það.

Það er í alvöru til fólk sem...

...þvær sér ekki um hendurnar eftir klósettferðir.
...hefur ekkert betra við peningana sína að gera en að kaupa sér jeppa.
...kaupir sér Kristal og Topp í stað þess að drekka vatn úr krana.
...skrifar færri en tvær bloggfærslur á dag.
...hlustar á Iron Maiden.
...finnst tölfræði ekki skemmtileg.
...hreyfir sig aldrei neitt með góðri samvisku.
...er ekki nákvæmlega eins og ég hvað smekk varðar á öllu.

Ótrúlegt!

mánudagur, 28. nóvember 2005

Ef síðustu tvær færslur eru sérkennilegar og jafnvel leiðinlegar þá er ástæðan sú að ég sat og vann tölfræðiverkefni frá klukkan 14:00 27. nóvember síðastliðinn til klukkan 15:00 daginn eftir, sem gera 25 klukkutíma samfleytt án svefns. Aldrei að blogga svefnlaus.

Ef færslurnar eru hinsvegar ekki svo slæmar þá hef ég enga afsökun.
Það tilkynnist hérmeð að ég hef skipt um stafrænan hlátur eftir mikla umhugsun. Tók ég þessa ákvörðun í kjölfar þess að ég lauk við mína fyrstu rannsókn í dag en hún fól í sér að kanna áhrifavalda á gengi körfuboltaliða í NBA deildinni fyrir Hagnýt Tölfræði II áfangann sem ég tek á þessari önn.

Niðurstöðurnar eru sláandi:

"hohohoho"

Þessi hlátur ætti að fara vel með gráu hárunum á hausnum á mér. NBA rannsóknin sagði mér annars ekkert sem ég vissi ekki áður.
Hér átti að vera færsla um það hversu ömurlegt mér finnst að þurfa að hætta við að skrifa allskonar færslur af því ég finn aldrei neitt fyndið til að segja í endann en þar sem ég virðist ekki getað fundið neitt fyndið til að segja í endann þá verður þessi færsla að standa auð sem stendur.

sunnudagur, 27. nóvember 2005

Mér bauðst í dag að mæta undir eins í munnlegt próf í stjórnun starfsframa til að spara kennaranum tíma, þegar ég átti í raun að fara í prófið einhverntíman á morgun. Ég samþykkti, las fyrir prófið í ca 30 sekúndur og mætti svo galvaskur. Það gekk ágætlega miðað við undirbúning.

Núna þarf ég að klára að skrifa 20 blaðsíðna tölfræðiskýrslu á næsta sólhringi um rannsókn sem ég hef ekki lokið fyllilega. Fyrst þurfti ég samt að tefla við Óla og skrifa þessa færslu.

Eftir að þessari skýrslu verður lokið hef ég sólarhring til að læra fyrir lokaprófið í viðskiptalögfræðinni en ég hef ekki haft tíma til að mæta í einn einasta lögfræðitíma í ca 6 vikur núna.

Það er ekki laust við að ég sé með snert af kæruleysi á versta tíma.

laugardagur, 26. nóvember 2005

Síðustu níu vikur hefur meintur fjörfiskur verið að drepa mig andlega með því að láta svæði nálægt vinstra auganu skjálfa og nötra. Nú er svo komið að ég er farinn að efast um þetta sé fjörfiskur. Fjörfiskar endast sjaldnast lengur en einn dag, hvað þá 63.

Ef ekki er um fjörfisk að ræða þá hlýtur þetta að vera eitthvað annað. Ég hef því dregið saman nokkra möguleika:

* Allur kvíði líkamans safnast saman á einu svæði núna; við vinstra augað.
* Ég er 0,02% flogaveikur, bara við vinstra augað.
* Einhver padda hefur verpt eggjum í svæði nálægt vinstra auganu sem klákust út fyrir 9 vikum.
* Svæðið við vinstra augað skelfur ekki. Allt annað á líkama mínum skelfur auk alls heimsins.

Svo gæti ég auðvitað líka bara skroppið til læknis og látið athuga þetta.
Öðrum leik liðs míns í utandeild Breiðabliks er lokið. Lið mitt, Forsetinn, lék gegn Moppunni í Smáranum í gærkvöldi klukkan 21:00. Eins og áður segir er leikurinn aðeins 2x16 mínútur með engu stoppi, nema síðustu 3 mínútur seinni hálfleiks sem útskýrir lágt stigaskor vonandi. Við töpuðum leiknum 34-32 enda hefur liðið aldrei leikið jafn illa.

Allavega, nóg um smáatriðin. Aðalatriðið er auðvitað að ég var stigahæstur í leiknum með 10 stig eða 31,25% stiga liðsins. Ég held ég geti lofað því að þetta muni aldrei gerast aftur. Hér er tölfræðin mín ásamt heildartölfræðinni:



* Gærkvöldið er grálitað.

föstudagur, 25. nóvember 2005

Ég varð fyrir fremur ónotalegri lífsreynslu í gær í Smáralindinni þegar ég stóð upp við glerhandrið og hugsaði um William Hung. Þá vatt sér að mér stúlka ein, á að giska 16-17 ára, helförðuð og hóf að angra mig. Samtalið var eitthvað á þessa leið:

Glyðran: Vá, djöfull er flott á þér hárið. Rosaflott lína í því.
Ég: Takk! (furðu lostinn).
Glyðran: Hvernig ferðu að þessu? Þetta er svakalegt. Örugglega erfitt að ná svona. Hvar léstu gera þetta?
Ég: (leitandi að falinni myndavél) ha?
Glyðran: Án gríns. Vá. Ég vil fá svona.
Ég: Viltu ekki bara labba áfram?
Glyðran: Nei, ég er ekki að grínast!

Ég hefði lúbarið hana á þessum tímapunkti ef það hefði ekki ruglað hárgreiðslunni minni. Þess í stað snéri ég mér bara undan þangað til hún lét sig hverfa.
Til marks um það hversu utan við mig ég er í dag þá gleymdi ég öllu mínu dóti heima nema skóladótinu. Þetta uppgötvaði ég auðvitað þegar ég var mættur í skólann. Ég var ekki með neitt aðgangskort, engann pening, ekkert kort, engan farsíma og engar nærbuxur. Það var eiginlega bara heppni að ég var í fötum yfirleitt því ég minnist þess ekki að hafa klætt mig í þau í morgun. Þegar ég nefni þá þá man ég ekki eftir því að hafa byrjað þessa bloggfærslu.