sunnudagur, 12. ágúst 2012

Instagram innreið

Ég hef hafið innreið mína á Instragram síðuna. Instagram er símavefsvæði sem heldur utan um myndir sem teknar eru í símum og sendar inn. Ekki ósvipað þeim 250 myndasíðum sem ég hef búið til og lokað í gegnum tíðina.

Hér eru fyrstu fimm myndirnar sem ég sendi inn í vikunni, í réttri röð:

1. Bústaður með pabba.



Skrapp með pabba um síðustu helgi í bústað við Laugarvatn til að vökva plöntur, sem voru að þorna upp í tryllingslegum hita síðustu vikna. Tók þessa mynd til að prófa myndavélina.

2. Valería Dögg frænka.



Í einni af fjölmörgum heimsóknum mínum til Björgvins bróðir, Svetlönu konu hans og Valeríu Daggar, dóttur þeirra í síðustu viku, tók ég þessa mynd þegar Valería sótti mig í stofuna, þar sem ég átti að koma í eldhúsið. Eitt fallegasta og skemmtilegasta barn allra tíma.

3. John Stockton, plasti klæddur.



Þessa fígúru fékk ég gefins fyrir nokkru síðan. Hún stendur á skrifborðinu mínu og starir á mig þegar ég skoða myndir af öðrum körfuboltamönnum. Fyrirgefðu, John Stockton.

4. Annar fallegur dagur að hefjast í Reykjavík.



Ég tók þessa sjálfsmynd einn morguninn, nývaknaður og nokkuð óhress með að þurfa í vinnuna.

5. Allsberar kóngulær í brjáluðum sleik. Rómantíkin verður ekki mikið meiri en þetta.



Rakst á þetta fallega par fyrir utan íbúðina mína, tók mynd, klappaði þeim og óskaði þeim góðs gengis.

Notendanafn mitt á Instagram er finnurtg, bætið mér við ef þið viljið fylgjast áfram með. Annars má líka fylgjast með hér.

mánudagur, 6. ágúst 2012

Bjórlán

Nýlega lánaði ég bróðir mínum fimm bjóra, sem hann gaf svo tengdaforeldrum sínum sem voru í heimsókn. Átta dögum síðar skilaði hann mér sex bjórum til baka. Ég reyndi að skila honum aukabjórnum en hann vék sér fimlega undan.

Ég ávaxtaði semsagt fimm bjóra um einn, sem gerir 20 prósent vöxt lánsins á átta dögum. Það gera 913% ávöxtun á ári, þeas ef hann hefði skilað mér bjórnum ári síðar hefði hann greitt mér 50,6 bjóra.

Þetta eru hærri vextir en hjá smálánafyrirtækjunum. Eini munurinn er að ég vildi ekki ávöxtunina og smálánafyrirtækin þjösnast á fjárhagslega vangefnu fólki.

fimmtudagur, 2. ágúst 2012

Kvikmyndarýni

Eftirfarandi myndir hef ég séð síðustu vikurnar eða svo:

1. The Amazing Spiderman (Ísl.: Hinn stórbrotni Kóngulóarmaður)
Ungur njörður er bitinn af kónguló og fær ofurhæfileika. Hann þarf að berjast gegn risastórri eðlu og fanga ást vinkonu sinnar með hinni hendinni.

Endurgerð ca 10 ára myndar um Spiderman. Algjör óþarfi. Samt fín. Aðeins of væmin fyrir minn smekk.

Ein og hálf stjarna af fjórum.

2. Take the Money and Run (Ísl.: Tak peninga yðar og gakk)
Farið yfir glæpaferil Virgil Starkwell, sem er einn lélegasti glæpamaður sögunnar.

Önnur mynd í leikstjórn Woody Allen. Merkilega góð miðað við hversu gömul hún er. Mörg atriði fengu mig til að hlæja upphátt. Mæli með henni.

Þrjár stjörnur af fjórum.

3. Ted (Ísl.: Ærslabelgurinn)
Bangsi stráks lifnar við. Hann elst upp með bangsanum og bangsinn spilar stóra rullu í lífi hans, þangað til hann fær sér kærustu sem skemmir samband þeirra.

Fyrsta bíómynd í leikstjórn Seth MacFarlane, sem gerir Family Guy þættina. Skemmtilegir leikarar, gróft grín og fínar tæknibrellur gera þessa mynd að fínni skemmtun. Drullufínni jafnvel.

Þrjár stjörnur af fjórum.

4. The Dark Knight Rises (Ísl.: Maður klæddur sem leðurblaka rís)
Maður klæddur sem leðurblaka hefur dregið sig í hlé þegar beljaki með ofbeldisblæti gerir vart við sig í Gotham borg. Leðurblökumaðurinn tekur til sinna ráða.

Líklega besti kvikmyndaþríleikur sem gerður hefur verið (Batman Begins, The Dark Knight og The Dark Knight Rises). Þessi mynd er líklega lélegust af þeim þremur og sennilega ein versta mynd leikstjórans, Christopher Nolan. Samt er þetta frábær mynd.

Þrjár og hálf stjarna af fjórum.


5. Wanderlust (Ísl.: Ferðagirnd)
Ungt par flýr stórborgina og fjárhagsáhyggjur sínar og sest að í kommúnu þar sem frjálsar ástir lifa og allt er yndislegt... á yfirborðinu (spennuhljóð).

Gamanmynd frá leikstjóranum David Wain, sem er með eina fyndnustu vefseríu sem ég hef séð, Wainy Days. Þessi mynd kemst þó ekki í hálfkvisti við netþættina hans. Hún á sína spretti en er yfirleitt frekar dauf og með óvenjulegan húmör.

Tvær stjörnur af fjórum.

föstudagur, 27. júlí 2012

Svitn

Í ræktinni í gær gerði ég smá rannsókn, þegar ég sá fram á að þurfa að klára klukkutíma skokk syndandi, þar sem ég svitnaði meira en góðu hófi gegndi.

Ég settist á æfingarhjól og hjólaði á meðan ég horfði niður og taldi dropana sem láku af hausnum á mér í eina mínútu. Ég taldi 85 dropa.

Einn dropi er líklega um 60 ul (skv. googli) og 1 ul er 1/1.000.000 úr lítra. Einn dropi er því 0,00006 úr lítra. Á einni mínútu svitna ég þá 0,0051 lítrum bara frá hausnum.

Ef ég geri ráð fyrir að allsstaðar á líkamanum svitni ég jafn mikið og (skv. netinu) að höfuðið sé 9% af líkamanum, fæ ég út að allur líkami minn svitnar 0,057 lítrum á mínútu.

Ég er venjulega í klukkutíma í senn í ræktinni, sem gera 3,4 lítra af svita í hvert skipti. Sem betur fer drekk ég á milli 1 og 1,5 lítra af vatni á meðan og 2 lítra af gosi og viðbjóði á eftir.

Það eru smá líkur á að niðurstöðurnar séu örlítið skakkar, þar sem ég hágrét á meðan rannsókninni stóð og að við hliðina á mér var óvenju vel gerð stúlka (sem útskýrir taugaveiklaðan grátinn).

Nú getiði hætt að spyrja hversu mikið ég svitna á klukkutíma í ræktinni við brennslu, í lítrum talið.

þriðjudagur, 24. júlí 2012

Körfuboltahnjask

Í gær tók ég þá meðvituðu ákvörðun að geta ekkert í körfubolta, þegar ég mætti á æfingu á Álftanesi.

Á milli þess sem ég hitti ekki úr neinu skoti og gat ekkert í vörninni (viljandi!), átti ég eina lélegustu hreyfingu síðustu ára þegar ég hlussaði mér á eftir lausum bolta. Svo klunnlega bar ég mig við þetta að ég bæði í senn gaf á mótherja minn og lenti mjög illa á hægri hlið líkama míns.

Í dag get ég illa beitt hægri öxlinni á mér eða horft á mig beran að ofan án þess að dást að glóðarauganu á mjöðminni á mér.

Smellið á "lesa meira" til að sjá mynd af viðbjóðnum. Varúð! Ógeðsleg nekt.

sunnudagur, 22. júlí 2012

Smáhúsnæðislán

Seinni partinn í dag vaknaði ég við þá tilhugsun að stofna smálánafyrirtæki sem einbeitti sér að húsnæðislánum.

Svo ég ræsti Excel og rifjaði upp hvernig vextir þessara fyrirtækja virka.


Þarna má sjá hvernig ársvextir okurlá smálánafyrirtækisins 1909 eru við lengd nokkurra mismunandi upphæða.

Lengsta lánið með hæstu upphæðinni er með 427% ársvexti, sem væri ágætis viðmið þegar kæmi að húsnæðissmálánafyrirtækinu mínu. Smálánin eru endurgreidd í einu lagi, með vöxtum, sem gera þau að kúluláni. Það væri líklega fínt viðmið.

Segjum sem svo að einhver fáráður vildi taka 20 milljón króna smálán hjá mér fyrir íbúð, til 40 ára, eins og vaninn er, nema að hann ætlaði að borga það allt að lánstíma loknum.

Endurgreiðslan yrði 1.461.086 kvintilljónir eða 1,4 milljón kvintilljónir (kr. 1.461.086.227.569.500.000.000.000.000.000.000.000).

Einhverjir myndu kannski kvarta undan því að eiga erfitt með þessa afborgun, svo ég þyrfti líklega að bjóða upp á mánaðarlega afborgun.

Með 427% ársvöxtum yrði þá meðal mánaðarleg jafngreiðslulánsafborgun af 20 milljón króna láni rúmlega 7,1 milljón eða tæpar 6,2 milljónir ef viðkomandi myndi vilja jafnafborgunarlán.

Ég efast þó um að ég myndi bjóða upp á þann möguleika. Það yrði varla þess virði.


föstudagur, 20. júlí 2012

Leyndarmál

Þetta lag heyrði ég í vikunni og hef ekki getað losað það úr hausnum síðan, sem betur fer:



Lagið heitir Leyndarmál með söngvaranum Ásgeiri Trausta. Hann gefur út 10 laga plötu í ágúst. Hér má versla þetta lag og eitt í viðbót, sem er ekki síðra (sumargestur).

Annars er það að frétta af mér að ég ætla að reyna að koma mér í jólaskapið í kvöld með því að horfa á A Christmas Carol, sem er á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 3:35.

Á morgun ætla ég svo að horfa á sprellifjörugu myndina Allt upp í loft á RÚV klukkan 22:10. Það verður spennandi að vita hvaða mynd það er.

Þess á milli ætla ég að sofa, spila körfubolta, vafra stjórnlaust um internetið, fara í ræktina og mögulega leika mér í Excel á nærbuxunum.

fimmtudagur, 19. júlí 2012

Bíó og ballskák

Í kvöld reyndi ég að fara í bíó á myndina Ted með vini mínum. Þegar þangað var komið sá ég að meirihluti miðakaupenda voru unglingar með alltof stórar derhúfur. Því stærri sem derhúfan er, því meiri drullusokkur er eigandi hennar, lærði ég einhversstaðar (sennilega af reynslunni), svo við hættum snarlega við bíóferðina og fórum í pool í staðinn.

Þegar í pool salinn var komið byrjaði ég að svitna eins og ég væri staddur í ræktinni. Ég reyndi að útskýra fyrir líkama mínum á rólegan og yfirvegaðan máta að ég væri að spila pool, en ekki að púla. Það gekk ekki og eftir hávaða rifrildi við hann gekk ég út og skellti á eftir mér. Líkaminn kom skömmu síðar skömmustulegur.

Semsagt: Ted sýningin var troðfull af drullusokkum og ég svitnaði við að spila pool. Náðuð þið því? Gott!

sunnudagur, 15. júlí 2012

Vonbrigði helgarinnar

Ég varð mjög dapur fyrir mannkynið á rölti mínu um Kringluna í gær, þegar ég sá þessa bók:


Bókin inniheldur bara myndir af köttum og öðrum gæludýrum í gervi frægs fólks. Svo vonsvikinn var ég að ég er að hugsa um að skila henni.

Til að hugga mig keypti ég mér, að ég hélt, endalausan poka af Kropp súkkulaði kúlum.


Það var ekki fyrr en eftir kaupin að ég tók eftir smáa letrinu á pokanum sem segir að í pokanum sé "takmarkað magn". Þvílík vonbrigði. Takk kærlega, ríkisstjórn!

miðvikudagur, 11. júlí 2012

Hár

Þetta fann ég í morgun á dekki bíls míns, rétt áður en ég öskurhugsaði "Hvað í fjandanum hef ég gert?!"


Fyrir þá sem skynja ekki tvívídd: Þetta er vænn lokkur af dökku hári, fastur á dekki glæsilegs bíls míns.

Til allrar lukku fann ég hrúgu af þessum sömu dökku mannahárum nálægt, svo ég spólaði ekki óvart yfir hársvörð nýlega heldur var einhver bara rakaður á almannafæri, sennilega nauðugur. Fjúkk.

föstudagur, 6. júlí 2012

Kvikmyndarýni síðustu helgar

Um síðustu helgi fór ég á eina mynd í bíó að meðaltali á dag. Sleipir stærðfræðingar geta reiknað að samtals fór ég á tvær myndir á tveimur dögum. Ég fór samtals með fjórum aðilum á þessar tvær myndir eða tveimur að meðaltali á hvora mynd (staðalfrávik 1,414).

Hér eru dómar þeirra (myndanna):

Avengers (í 2D!) (Ísl.: Hefnararnir)
Sundurleitur hópur ofurhetja kemur saman til að berjast gegn Loka, semiguði, sem ætlar að opna vídd til jarðar og yfirbuga jarðarbúa með geimhernum sínum. Byggt á sönnum atburðum.

Myndin er mjög vel gerð og fín afþreying. Handritið er í lagi, þó ég myndi gefa margt fyrir að sjá Robert Downey Jr ekki alltaf leika saman sprelligosahlutverkið. Í þessari leikur hann Sherlock Holmes í járnbúningi.

Myndin gleymist þó fljótt. Það eru liðnir 7 dagar síðan ég sá hana og ég man erfiðlega söguþráðinn. Það gæti þó tengst ellihrörnun minni.

Tvær stjörnur af fjórum.

Svartur á leik (ens.: Black owns a game)
Pínulítill kall að vestan fær gigg í undirheimum Reykjavíkur. Þaðan liggur leiðin í dópneyslu, handrukkun, dópsölu, ást og aðra geðveiki. ATH. Myndin fjallar ekki um skák á nokkurn hátt.

Þetta er með betri íslenskum myndum sem ég hef séð. Leikurinn er mjög góður, sérstaklega hjá Jóhannesi Hauki. Endirinn er þó frekar endaslepptur, en hann sleppur.

Þrjár stjörnur af fjórum.

mánudagur, 2. júlí 2012

Letidagurinn mikli 2012

Gærdagurinn var nýttur undir latasta dag ársins þegar ég svaf í níu tíma áður en ég fékk mér morgunmat og lagði mig svo aftur í þrjá tíma. Ennfremur sat ég og gerði ekkert allan daginn, sleppti ræktinni og frestaði málun á svölum um nokkra daga.

Merkilegast er þó að ég reyndi, í leti minni, að horfa á þrjár bíómyndir, án árangurs. Hér eru þær og ástæður þess að ég hætti að horfa:

1. Defendor (Ísl.: Varnarmaðor)
Svört gamanmynd um andlega fatlaðan mann sem er hálf misheppnuð ofurhetja.

Ég komst í gegnum 20 mínútur áður en ég gafst upp. Söguþráðinn hef ég séð mörg þúsund sinnum (+/- 998) áður og húmorinn fannst mér í besta falli ömurlegur.

2. Sherlock Holmes II (Ísl.: Sprelligosinn Sherlock sprelligosast í gegnum sprelligosaráðgátu með sprelligosaaðstoðarmanni sínum)
Robert Downey Jr. leikur sprelligosann og slagsmálahundinn Sherlock Holmes sem leysir gátur eins og að drekka (færslan er í boði) jarðarberjasvala.

Þegar korter var liðið af myndinni og búið að troða yfir 250.000 ömurlegum sprelligosabröndurum í hverja glufu handritsins sló ég hnefa í borð og sagði stopp. Aldrei aftur.

3. Take Shelter (Ísl.: Taktu skjól)
Myndin fjallar um mann sem lifir góðu lífi í suðurríkjum BNA (giska ég á) þegar honum fer að dreyma fyrir um válegum atburðum.

Myndin byrjaði vel og virkaði áhugaverð, þangað til andstyggilegt og óvænt bregðuatriði hófst. Ég þoli ekki bregðumyndir og neita að horfa á hryllismyndir, svo ég stoppaði myndina, kófsveittur, skjálfandi og mögulega grátandi.

Samtals horfði ég á 50 mínútur af bíómyndum í gærkvöldi, sem nægir fyrir hálfri stjörnu af fjórum.