fimmtudagur, 2. ágúst 2012

Kvikmyndarýni

Eftirfarandi myndir hef ég séð síðustu vikurnar eða svo:

1. The Amazing Spiderman (Ísl.: Hinn stórbrotni Kóngulóarmaður)
Ungur njörður er bitinn af kónguló og fær ofurhæfileika. Hann þarf að berjast gegn risastórri eðlu og fanga ást vinkonu sinnar með hinni hendinni.

Endurgerð ca 10 ára myndar um Spiderman. Algjör óþarfi. Samt fín. Aðeins of væmin fyrir minn smekk.

Ein og hálf stjarna af fjórum.

2. Take the Money and Run (Ísl.: Tak peninga yðar og gakk)
Farið yfir glæpaferil Virgil Starkwell, sem er einn lélegasti glæpamaður sögunnar.

Önnur mynd í leikstjórn Woody Allen. Merkilega góð miðað við hversu gömul hún er. Mörg atriði fengu mig til að hlæja upphátt. Mæli með henni.

Þrjár stjörnur af fjórum.

3. Ted (Ísl.: Ærslabelgurinn)
Bangsi stráks lifnar við. Hann elst upp með bangsanum og bangsinn spilar stóra rullu í lífi hans, þangað til hann fær sér kærustu sem skemmir samband þeirra.

Fyrsta bíómynd í leikstjórn Seth MacFarlane, sem gerir Family Guy þættina. Skemmtilegir leikarar, gróft grín og fínar tæknibrellur gera þessa mynd að fínni skemmtun. Drullufínni jafnvel.

Þrjár stjörnur af fjórum.

4. The Dark Knight Rises (Ísl.: Maður klæddur sem leðurblaka rís)
Maður klæddur sem leðurblaka hefur dregið sig í hlé þegar beljaki með ofbeldisblæti gerir vart við sig í Gotham borg. Leðurblökumaðurinn tekur til sinna ráða.

Líklega besti kvikmyndaþríleikur sem gerður hefur verið (Batman Begins, The Dark Knight og The Dark Knight Rises). Þessi mynd er líklega lélegust af þeim þremur og sennilega ein versta mynd leikstjórans, Christopher Nolan. Samt er þetta frábær mynd.

Þrjár og hálf stjarna af fjórum.


5. Wanderlust (Ísl.: Ferðagirnd)
Ungt par flýr stórborgina og fjárhagsáhyggjur sínar og sest að í kommúnu þar sem frjálsar ástir lifa og allt er yndislegt... á yfirborðinu (spennuhljóð).

Gamanmynd frá leikstjóranum David Wain, sem er með eina fyndnustu vefseríu sem ég hef séð, Wainy Days. Þessi mynd kemst þó ekki í hálfkvisti við netþættina hans. Hún á sína spretti en er yfirleitt frekar dauf og með óvenjulegan húmör.

Tvær stjörnur af fjórum.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.