föstudagur, 6. júlí 2012

Kvikmyndarýni síðustu helgar

Um síðustu helgi fór ég á eina mynd í bíó að meðaltali á dag. Sleipir stærðfræðingar geta reiknað að samtals fór ég á tvær myndir á tveimur dögum. Ég fór samtals með fjórum aðilum á þessar tvær myndir eða tveimur að meðaltali á hvora mynd (staðalfrávik 1,414).

Hér eru dómar þeirra (myndanna):

Avengers (í 2D!) (Ísl.: Hefnararnir)
Sundurleitur hópur ofurhetja kemur saman til að berjast gegn Loka, semiguði, sem ætlar að opna vídd til jarðar og yfirbuga jarðarbúa með geimhernum sínum. Byggt á sönnum atburðum.

Myndin er mjög vel gerð og fín afþreying. Handritið er í lagi, þó ég myndi gefa margt fyrir að sjá Robert Downey Jr ekki alltaf leika saman sprelligosahlutverkið. Í þessari leikur hann Sherlock Holmes í járnbúningi.

Myndin gleymist þó fljótt. Það eru liðnir 7 dagar síðan ég sá hana og ég man erfiðlega söguþráðinn. Það gæti þó tengst ellihrörnun minni.

Tvær stjörnur af fjórum.

Svartur á leik (ens.: Black owns a game)
Pínulítill kall að vestan fær gigg í undirheimum Reykjavíkur. Þaðan liggur leiðin í dópneyslu, handrukkun, dópsölu, ást og aðra geðveiki. ATH. Myndin fjallar ekki um skák á nokkurn hátt.

Þetta er með betri íslenskum myndum sem ég hef séð. Leikurinn er mjög góður, sérstaklega hjá Jóhannesi Hauki. Endirinn er þó frekar endaslepptur, en hann sleppur.

Þrjár stjörnur af fjórum.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.