föstudagur, 11. febrúar 2011

Hversdagslegir viðburðir

1. Vingjarnlegt forrit
Ég hef lengi kvartað undan hversu frek forrit eru á minni, þá sérstaklega hvernig þau taka bara minnið án þess að spyrja nokkurn mann. Svo virðist sem hlustað hafi verið á nöldrið í mér, því forritið sem ég vinn með hjá 365 kann mannasiði:


„Gjörðu svo vel, forrit. Fáðu þér eins mikið minni og þú getur í þig látið“ svara ég alltaf, flissandi.

2. Þurrkur
Ef fólk sér mig þessa dagana og er að velta því fyrir sér hvort ég hafi nýlega breyst í uppvakning eða sé búinn að skipta yfir í krakkhórubransann, þá er svarið neikvætt. Ég er bara að kljást við einhvern rosalegasta varaþurrk allra tíma.

Ég vil biðja gesti og gangandi vinsamlegast um að kyssa alls ekki á þetta bágt. Eina bágtið sem verður verra við læknakossa.

3. Sloan hættir
Hér ætlaði ég að skrifa eitthvað stórkostlega jákvætt og ferskt hresst en sá þá að Jerry Sloan, þjálfari uppáhalds liðs míns, Utah Jazz, sagði upp störfum í gær, eftir 26 ára störf fyrir félagið. Hann var síðasti starfsmaðurinn af gamla skólanum hjá Utah Jazz og hans verður saknað af öllu afli.

Í síðustu viku hætti hljómsveitin the White Stripes (uppáhalds hljómsveitin mín), í gær hætti Jerry Sloan (uppáhalds þjálfarinn minn í uppáhaldsliðinu mínu). Ef fer fram sem horfir hættir þyngdaraflið (uppáhalds aflið mitt) að virka á næstu vikum.

fimmtudagur, 10. febrúar 2011

Hvítu rendurnar

Í vikunni hætti uppáhalds hljómsveitin mín störfum, mér til eymdar. Hljómsveitin er The White Stripes með Jack White í fararbroddi, sem ég leyfi mér að fullyrða að sé einn magnaðasti tónlistarmaður samtímans.

Ég get þó huggað mig við:
  • Að Jack White er enn á lífi.
  • Að Jack White er enn að gefa út tónlist.
  • Að ég fór á tónleika með þeim árið 2006.
  • Að ég get sett tvö uppáhalds lögin mín með the White Stripes á þessa síðu í sjötugasta skiptið.

1. Red Rain



Stórkostlegt lag, söngur, gítarleikur og texti.

2. Take take take



Aðallega magnaður texti.

Svo sorgmæddur er ég yfir því að þessi sveit sé hætt, að ég pissa reglulega á mig með augunum þegar ég hugsa um hana. Ég hafði þó vit á því að fá mér andlitsbleyju áður en ég hóf þessi skrif, svo ég er í góðum málum.

þriðjudagur, 8. febrúar 2011

Hakklyktin

Nýlega lærði ég tvær mikilvægar lexíur þegar ég átti leið í raftækjaverslun á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar þangað var komið og ég að skoða höfuðtól fyrir ræktina, fann ég stórkostlega lykt af steiktu hakki með miklu kryddi og sleikti út um við tilhugsunina.

Ég spáði lítið í hvaðan lyktin bærist eða af hverju hún væri í miðri raftækjaverslun, fyrr en ég sá fimm, 15 ára stráka, alla búna að hjúfra sig saman við að skoða nýtt tölvuleikjahulstur. Þeir voru sveittir, skiljanlega og verulega illa lyktandi. Þetta var þá ekki lykt af hakki.

Lexía 1: Aldrei draga ályktun út frá lykt. ALDREI!

Lexía 2: Það er hægt að tannbursta á sér innanvert nefið til að losna við lykt. Það lagar þó ekki andlegan skaða eða eyðir minningum.

laugardagur, 5. febrúar 2011

Innilokun

Þegar ég vaknaði í dag ætlaði ég að fá mér skál af Cheerios í morgunmat en fattaði fljótt að ég átti hvorki hreina skál né skeið. Svo ég þreif borðbúnaðinn.

Þá áttaði ég mig á því að ég átti hvorki Cheerios né mjólk eða nokkuð annað matarkyns, enda upp runninn innkaupadagur. Svo ég gerði mig kláran í að fara að versla.

Sá ég þá að allt var á kafi í snjó og ég á bæði Peugeot og sumardekkjum. Af tillitsemi við annað fólk í umferðinni (og heimahúsum) ákvað ég að nota bílinn ekki, heldur ganga í næstu verslun sem er í talsverðri fjarlægð.

Kom þá í ljós að á mína afar veiklulegu útiskó var komið gat og ómögulegt að ganga í þeim í snjónum. "Ekkert mál" hugsaði ég "ég á gönguskó, sem eru jafn traustir og dýrustu jeppar... sem ég gleymdi á Egilsstöðum í jólafríinu."

Svo ég ákvað að panta mér pizzu. Þegar pizzasendillinn kom á staðinn fattaði ég að ég átti engan pening, svo ég notaði VISA kortið.

Eftir að hafa borðað pizzu í morgunmat hugsaði ég mér að gera gott úr deginum og skrifa dúndrandi góða bloggfærslu um þetta.

Það var svo ekki fyrr en núna að ég átta mig á að þessi færsla er drepleiðinleg.

fimmtudagur, 3. febrúar 2011

Sparnaðarráð númer 194

Í dag sparaði ég mér tíma til augnlæknis þegar ég tók af mér gleraugun og sá að þau voru bara stórkostlega skítug og að sjón mín hafði þá ekki tekið valhopp aftur á bak í gæðum. Ég var búinn að finna augnlækni og berja í mig kjark til að hringja og panta tíma. Orð fá ekki lýst farginu sem af mér var létt.

Þetta hefði ég mátt gera í fortíðinni. Hver veit, kannski hefði ég aldrei þurft að fara til augnlæknis og þar með ekki þurft að ganga með gleraugu, ef mér hefði bara dottið í hug að gleraugun voru skítug.

Allavega, ég þreif gleraugun og flautaði lítinn lagstúf í tilefni sparnaðarins, þar til ég fattaði að einhver heyrði í mér.

miðvikudagur, 2. febrúar 2011

Fataverslun

Hingað til hef ég forðast að svara ágengum spurningum um það hvaðan ég kaupi fötin mín, þar sem mér skilst að verslunin sé ekki hátt skrifuð á meðal snobbaðra tísku sérfræðinga. Ég þykist yfirleitt hafa gleymt að slökkva á brauðristinni þegar ég heyri þessa spurningu og vippa mér fimlega út úr húsinu, svo lítið beri á.

Í gærkvöldi lá ég í sófanum heima á nærbuxunum og las þriðju bókina í Millenium þríleiknum, Stelpan sem sparkaði í býflugnabúið, þegar ég rakst á brot sem gjörbreytir öllum mínum samskiptum við fólk, þegar kemur að umræðu um fatakaup. Svo virðist sem Mikael nokkur Blomkvist, ein aðalhetja sögunnar, versli nærbuxurnar sínar á sama stað og ég! Að hugsa með sér. Og ég sem hef skammast mín í öll þessi ár, að óþörfu!

Ég get því hér með sagt, með stolti, að ég versla í Dressmann! Hef alltaf gert! Stanslaust! Eins og Mikael Blomkvist.

Afsakið ef þið hafið ekki lesið bókina. Það að hann versli nærbuxur í Dressmann er ekki hluti af plotti bókarinnar, þó þetta sé hápunktur hennar.

þriðjudagur, 1. febrúar 2011

Baráttan gegn fólksfjölgun

Þar sem ég virðist vera einn eftir í vinahópnum til að berjast hatrammri baráttu gegn fólksfjölgun í heiminum (í formi skírlífis) og þar sem sú barátta er alltof auðveld fyrir minn smekk, hef ég fundið ný verkefni sem fylla skulu tilgang lífs míns.

Eitt þessara verkefna kláraði ég í kvöld þegar ég náði hinu fullkomna stæði í ræktinni. Nær innganginum er ekki hægt að leggja án þess að vera sjúkra- eða slökkvibíll. Ég þurfti aðeins að ganga tæplega 50 metra frá bílnum að afgreiðslunni. Þegar ég áttaði mig á þessu hríslaðist um mig allsnægtarunaðshrollur. Svo refsaði ég sjálfum mér fyrir letina og hjólaði 10 kílómetrum meira en venjulega.

Næsta verkefni er að stíga ekki á neinar línur á gangstéttum hér eftir, út ævina. Það verður gaman að lifa þegar það tekst.

laugardagur, 29. janúar 2011

Bragð svitalyktaeyðis

Eftir sturtu nýlega náði ég þeim einkennilega árangri að sprauta svitalyktaeyði upp í mig, í stað handakrikans. Hann bragðaðist ekki eins og hann lyktar, heldur alveg eins og ég; bitur og klaufskur.

fimmtudagur, 27. janúar 2011

Stórar tilkynningar

Tvær stórar tilkynningar:

1. Lántaka
Það gleður mig að tilkynna að ég hef fengið samþykkta umsókn mína til íbúðarlánasjóðs fyrir Maarud snakkpoka (papriku) úr 10-11. Ég hyggst skrifa undir pappíra í 10-11, Lágmúla á morgun að viðstöddum fjármálaráðherra og greiða svo lánið niður næstu 40 árin.

2. Tímamót
Þessi bloggfærsla er númer 4.000 í röðinni frá upphafi. Eins og alþjóð veit byrjaði ég á þessari síðu þann 2. október 2002 og næ þessu markmiði því á aðeins 3.039 dögum. Það þýðir 1,32 færslu að meðaltali á dag, alla daga ársins í þessi rúmlega átta ár eða 9,2 færslur á viku.

En jæja, þráhyggjan heldur áfram þó svona tímamótum er náð.

3ja tíma skrepp

Í dag reyndi ég að fá mér nýtt ökuskírteini þar sem mitt gamla innihélt ekki mynd af mér lengur og ég þarf það til að stofna bankareikning. Upphófst skriffinnskusena: [hlustið á Benny Hill þemalagið á meðan þið lesið]

1. Skrapp úr vinnunni.
2. Fékk vin til að taka af mér passamynd.
3. Setti passamyndina á USB lykil.
4. Fór á sýsluskrifstofuna í Kópavogi, þar sem afgreiðslumaður sagði mér að koma með útprentaða passamynd*. Hann lét mig fá bráðabirgðaskírteini fyrir bankann.
5. Fór í bankann, þar sem starfsmaður sagðist ekki geta tekið við bráðabirgðaskírteini.
6. Kom við í vinnunni, leitaði mér upplýsinga og vann smá.
7. Fór með USB lykilinn á ljósmyndastofu og lét prenta passamyndina út.
8. Fór á sýsluskrifstofuna og sótti um nýtt ökuskírteini. Það tekur tvær vikur að gera nýtt skírteini, sem er 13 dögum of mikið. Þannig að ég bað um nafnskírteini í staðinn, sem á að taka minni tíma. Það gerist á þjóðskrá.
9. Fór á þjóðskrá. Hún hafði verið færð úr stað. Svo ég gekk smá spöl að réttu húsi.
10. Þar var ég beðinn um tvær (útprentaðar) passamyndir, sem ég gleymdi í bílnum.
11. Sæki myndir og sný aftur en er þá beðinn um ökuskírteini. Bráðabirgðaskírteini gæti dugað, en ég gleymdi því líka í bílnum.

Þegar hingað er komið við sögu hafði ég verið við vinnu í tvo tíma og úti að "skreppa" í þrjá tíma, svo ég sagðist ætla að koma síðar þar sem ég vildi hvorki vera rekinn né hlæja** framan í afgreiðslukonuna, sem var þegar mjög pirruð.

En hafið ekki áhyggjur. Ég vann til klukkan 20 í kvöld til að bæta upp fyrir vinnutapið.

* Ég þurfti að taka mynd, setja á USB lykil, láta prenta hana út á "fínan pappír" og láta sýslumann fá, svo hann gæti skannað myndina inn og prentað svo út á ökuskírteinið. Snjallt ferli.

** Með "hlæja" á ég auðvitað við "gráta".

þriðjudagur, 25. janúar 2011

Geispátakið 2011

Ég er gríðarlega ánægður með árangur minn í átakinu "Geispaðu sjaldnar í vinnunni, hálfvitinn þinn" sem ég er eini þátttakandinn í. Það hófst í morgun.

Í gær geispaði ég um 350 sinnum yfir daginn og bjó því til þetta átak. Í gærkvöldi fór ég svo seint að sofa, einhverra hluta vegna, og hef aðeins geispað tvisvar sinnum í morgun. Í fyrra skiptið geispaði ég frá 9:00 til 10:30 og seinna skiptið 10:45 til 12:05.

mánudagur, 24. janúar 2011

Harðkjarna jólabörn

Á göngu minni um Kópavoginn í gærkvöldi sá ég fyrsta jólaskraut ársins:


Rétt um ellefu mánuðum fyrir jól. Harðkjarna jólabörn.

Og með þessari sýn kláraði ég jólaskapið mitt í ár, þremur mánuðum á undan áætlun.