þriðjudagur, 17. nóvember 2009

Í gærkvöldi var ég kynntur fyrir frægum sjónvarpsmanni sem "mest introvert náunga landsins sem hatar fólk" af samstarfsmanni mínum sem er þekktur fyrir að vera hreinskilinn.

Þetta er líklega besta lýsing á mér sem ég hef heyrt.

Síðar um kvöldið sagði körfuboltafélagi minn að ég væri alveg eins og þessi skrítni í Black Eyed Peas. Eftir nánari eftirgrenslan komst ég að því að hann átti við Taboo Nawasha (sjá mynd að neðan).


Það er sennilega versta lýsing á mér sem ég hef heyrt. Ég sendi boltann ekkert á umræddan liðsfélaga í leiknum í gær. Hann lærði lexíuna.

mánudagur, 16. nóvember 2009

Nokkrar smásögur úr daglegu lífi mínu:

1. Bílavesen part MMDCCL
Svo virðist sem pústið sé við það að detta undan bílnum mínum. Það er ekki í frásögu færandi, sérstaklega ekki hjá þessari ömurlegu afsökun minni fyrir bifreið, nema af því fyrir 4 mánuðum lét ég setja nýtt pústkerfi undir þetta djöfulsins drasl.

Ég óska hérmeð eftir sjálfboðaliðum í að halda bifvélavirkjanum niðri á meðan ég treð pústinu upp í nefið á honum.

2. Risastórt helvítis epli

Bara. Stórt epli.

3. Veikindi
Síðustu sex daga hef ég talið mig á barmi veikinda. En allt hefur komið fyrir ekki. Í gærkvöldi hélt ég svo að ég væri loksins orðinn veikur en mætti samt í vinnu, þar sem umtalsvert margir fermetrar af verkefnum bíða mín.

Í kvöld var ég svo á báðum áttum hvort ég ætti að spila leik með UMFÁ gegn KKF Þóri en lét mig hafa það, sem mitt síðasta verk fyrir mikil veikindi. Það fór ekki betur en svo að við unnum 68-53, þar sem ég skoraði 13 stig og átti fínan leik.

Ég bíð því áfram eftir því að ég verði almennilega veikur.

4. Myndamaraþon
Í síðustu 8 af 10 bloggfærslum hafa myndir spilað stóra rullu. Með þessari færslu gera það 9 af síðustu 11. Og það er ekki allt; ég hef amk eina færslu í viðbót stútfulla af myndum.

Mér fannst það bara merkilegt.

sunnudagur, 15. nóvember 2009


Í ljósi þess að ég á engan prentara til að prenta út auglýsinguna hér að ofan, sem er fyrir leik UMFÁ gegn KKF Þóri næstkomandi mánudag, mat ég þann kost vænstan í stöðunni að hefja stafræna auglýsingaherferð.

Vinsamlegast smellið á myndina hér að ofan fyrir stærra eintak, prentið út, rammið inn (valkvæmt) og hengið upp á vegg heima hjá ykkur. Mætið svo á leikinn á mánudaginn.

Takk.

laugardagur, 14. nóvember 2009


Það er löngu kominn tími á nýja fjórfara og enn lengra kominn tími á umrædda fjórfara.

Að þessu sinni er það meðleigjandi minn sem á sér fjórfarana. Sjá þá hér.

fimmtudagur, 12. nóvember 2009

Það er ekki í uppáhaldi hjá mér að vera veikur. Það er þó margt leiðinlegra. Leiðinlegast af öllu finnst mér að vera hálfveikur.

Hálfveikindi:
a) Of veikur til að treysta sér í vinnu.
b) Of andlaus til að koma einhverju í verk.
c) Of hress til að liggja á gólfinu grátandi.

Tvennt heldur mér gangandi:
1. Að hafa nóg að gera. Mæta í vinnuna, fara í ræktina, spila körfubolta, fara í bíó, fara ekki í leikhús og svo framvegis.
2. Að liggja, hvar sem er, og vorkenna sjálfum mér. Þetta geri ég bara ef ég er mjög veikur.

Í gærkvöldi hálfveiktist ég. Í dag svaf ég í 12 tíma, borðaði Cheerios og reyndi að koma einhverju í verk, án árangurs.

miðvikudagur, 11. nóvember 2009


Ég hef eytt allri þessari kvöldstund í að setja inn myndir og tölfræði frá leik UMFÁ gegn Snæfelli í gær. Eins og áður segir tapaðist leikurinn naumlega 49-122, þrátt fyrir trúverðug yfirvaraskegg Álftnesinga.

Allavega, myndirnar eru hér. Tölfræðina verðið þið að finna sjálf!

mánudagur, 9. nóvember 2009

Síðastliðna viku hefur verið nóg að gera hjá mér. Hér er dagskráin í grófum dráttum:

Miðvikudagur
Snarvitlaust að gera í vinnunni, þar sem ég kláraði verkefni til að geta tekið 2ja daga frí.
Styrmir bróðir kom til landsins en hann er búsettur í Svíþjóð dags daglega.
Körfuboltaæfing.
Matarboð hjá pabba.

Fimmtudagur
Frí frá vinnu.
Rölt um bæinn með Styrmi. Hlutir sóttir og fólk heimsótt.
Körfuboltaæfing.

Föstudagur
Frí frá vinnu.
Keyrt til Akureyrar með Styrmi.
Spjallað við fjölskylduna, nokkur lög sungin. Dansað. Horft á hryllingsmynd.

Laugardagur
Keyrt til Reykjavíkur með Styrmi og Helga.
Óvænt teiti haldið fyrir Styrmi af vinum hans. Sjá mynd 1 að neðan. Fleiri myndir koma síðar.

Sunnudagur
Matarboð hjá pabba og Laufey konu hans.
Helgi bróðir fer austur.
Lífinu tekið með ró.
Nammipartí með Styrmi, Björgvini, Svetlönu og Sibba. Sjá mynd 2 að neðan.

Mánudagur
Styrmir fer aftur til Svíþjóðar.
Snarvitlaust að gera í vinnunni.
Körfuboltaleikur UMFÁ gegn Snæfelli tapast 49-122 fyrir einhverja óheppni. Liðsmenn UMFÁ skarta yfirvaraskeggi. Myndir síðar.

Mynd 1:


Mynd 2:

laugardagur, 7. nóvember 2009

Síðasta 0,0041 ár hef ég ferðast hvorki fleiri né færri en 850.000.000 millimetra. Þið lásuð rétt; ég ók til Akureyrar í gær og til baka í dag, þar sem Styrmir bróðir er á landinu í fyrsta sinn í nokkur ár.

Þessi mynd var tekin í leiðinni:


Frá vinstri: Mamma, Helgi bróðir, Kolla systir, Styrmir bróðir, Anna María frænka og Árni Már mágur.

Þá vitið þið einu reglu fjölskyldunnar; allir strákar eiga að vera í dökkum fötum og allar stelpur í rauðu.

fimmtudagur, 5. nóvember 2009

Í kvöld fór ég á körfuboltaæfingu. Eftir hana tók ég að mér það frábæra verkefni að dreifa nokkrum eintökum af auglýsingunni fyrir næstkomandi leik (sjá hér) um íþróttahúsið.

Ég ákvað að fara ótroðnar slóðir. Hér hefst því leikurinn "finndu auglýsinguna!".

Fyrsta auglýsingin:

Svar:


Önnur auglýsingin:

Svar:


Þriðju auglýsinguna setti ég á rassinn á mér. Ég geri ráð fyrir húsfylli af smekklausu fólki með rassablæti.

miðvikudagur, 4. nóvember 2009


Ég held að ég hafi varla getað gert hlédrægari og ljótari auglýsingu fyrir jafn risastóran leik og þennan. Snæfell er með betri liðum landsins. UMFÁ er í 2. deild (neðstu deild).

Smellið á myndina fyrir stærra eintak, sem þið getið prentað út og hengt fyrir ofan rúmið ykkar.

Mætið svo á leikinn! Þetta verður fjör.
Í dag vann ég til klukkan 23:15, án þess að fá greitt neitt aukalega. Samt hafði ég á tilfinningunni að ég væri að tapa til kl 23:15.

Ég býst við því að ég fái greitt í upptekni. Ég var of upptekinn til að kaupa mér að borða og sparaði mér þarmeð amk 1.000 krónur. 2.500 ef ég hefði keypt nammi líka.

mánudagur, 2. nóvember 2009

Eftir að hafa leitað að skóm á undir 10.000 krónum í tvo mánuði á meðan ég gekk í handónýtum og lekum skóm, hef ég loksins fundið par.

Við fyrstu myndatöku nýju skónna skalf ég helst til of mikið af stolti. Það verður að hafa það.



Áður en fólk fer að spyrja mig hversu hamingjusamur ég sé í nýju skónnum finnst mér rétt að birta mjög lýsandi mynd yfir líðan mína:

Dansmynd e. Jónas Reyni og mig.
Hún ætti að svara öllum spurningum sem fólk kann að hafa.