föstudagur, 12. september 2008

Í gærkvöldi spilaði UMFÁ, körfuboltalið mitt, vináttuleik gegn Laugvetningum sem komust upp úr 2. deild á síðasta vetri og munu því spila í 1. deildinni í vetur.

Lauvetningar unnu með rúmlega 20 stiga mun. Ef tekið er tillit til þess að í lið okkar vantaði nokkra lykil leikmenn og að það var lægð yfir landinu þá fást þau úrslit að við sigruðum með 3ja stiga skoti á lokasekúndu.

En nóg um leikinn. Meira um mig.

Ég stóð mig illa. Svo illa stóð ég mig að ef leikur minn væri erótísk spennumynd þá væri ég í hlutverki aðilans sem sleikir hringvöðvann. Nóg um það, að eilífu.

fimmtudagur, 11. september 2008

Í gærkvöldi ætlaði ég að vera hetja og skipta um dekk á Renault bifreið einni.

Löng saga stutt: það byrjaði fljótlega að blæða úr höndunum á mér og ég braut felgulykil eiganda bílsins. Ekki nóg með það heldur braut ég líka minn eigin felgulykil skömmu síðar. Þá ákvað ég að gefast upp, með tárin í augunum.

Þessi atburður ætti að útskýra fyrir fólki dapra grímuklædda náungann í fjólubláa latex samfestingnum, haldandi á brotnum felglulyklum, útataður í blóði á gangi i Hafnarfirði í gærkvöldi.

Ein versta hetjuför mín þessa vikuna.

miðvikudagur, 10. september 2008

Þessi heimsendir sem nokkrar húsmæður á Barnalandi ályktuðu að ætti að eiga sér stað þegar kveikt yrði á öreindahraðlinum hjá CERN í morgun, en nokkur þúsund vísindamenn sögðu að myndi ekki eiga sér stað, er loksins yfirstaðinn. Gott að vera búinn að koma honum frá. Ég er ekki frá því að hann hafi ruglað hárgreiðslunni minni, fjandinn hafi það.

Og með þessum orðum kynni ég bestu bloggfærslu sem ég hef séð. Hún er hér að ofan.

Næstbesta bloggfærslan er hér.

þriðjudagur, 9. september 2008

Í gærkvöldi tók ég ákvörðun sem fól í sér að ég gerði eitthvað með minna en mínútu umhugsun. Skyndiákvörðun svokölluð, er mér sagt að þetta kallist.

Þetta er í fyrsta sinn í yfir 10 ár sem ég tek skyndiákvörðun og í þetta sinn brenndi ég ekki af mér augabrúnirnar né skildi einhvern meðvitundalausan eftir í sökkvandi skipi.

Klukkan 22:20 í gærkvöldi var ég semsagt beðinn um að mæta í bíó kl 22:30 af ungri dömu. Ég þáði, ók öskrandi á staðinn og skemmti mér konunglega.

Það hefur þá verið sannað fyrir mér að skyndiákvarðanir geta verið góðar. Ekki láta koma ykkur á óvart ef ég kýli ykkur bylmingsfast í magann eða segi eitthvað óvenjulegt í næstu samskiptum okkar á milli. Ég er stjórnlaus eftir þessa lífsreynslu.

mánudagur, 8. september 2008

Í gær náði ég þeim árangri að mæta á ættarmót í fyrsta sinn um ævina. Það eitt og sér er ekki svo erfitt, jafnvel skemmtilegt að hitta fullt af ættingjum sem maður hefur ekki hitt áður. Ég ákvað því að gera þetta áhugavert.

Ég fór í jakkafötum sem ég keypti mér fyrir 2 árum og 15 kílóum síðan, þeas þegar ég var 75 kíló. Eins og alþjóð veit er ég 90 kíló núna, þökk sé hreyfingu, heilbrigðum lífstíl og helling af sterum.

Til að gera langa sögu stutta þá varð úr eitt sprenghlægilegasta ættarmót sem haldið hefur verið, allt vegna þröngu jakkafatanna.

sunnudagur, 7. september 2008

Ég á við vandamál að stríða. Ég leita til lesenda síðunnar með þau.

1. Engir körfuboltaskór fást í Reykjavík nema maður vilji borga 20.000 krónur fyrir nafn á NBA leikmanni á skónum auk áföstum ca 2 kg af skartgripum.

Ef einhver getur bent mér á verslun í Reykjavík sem selur venjulega körfuboltaskó þá er ég til í að greiða 10% af verði skónna til viðkomandi. Intersport og Útilíf teljast ekki með þar sem simpansar virðast versla inn skó þar (sjá ástæðu fyrir ofan).

2. Ég pissa að meðaltali 7 sinnum eftir hverja ferð í ræktina. Þetta er orðið talsvert pirrandi vandamál þar sem ég kem eiginlega engu öðru í verk eftir ræktina.

Ef einhver getur bent mér á aðferð til að þurfa aldrei aftur að pissa, þá er ég til í að greiða 10% af ágóða hugmyndarinnar til viðkomandi.

3. Ég get ekki farið snemma að sofa. Ef einhver getur platað mig í rúmið snemma með öllum tiltækum ráðum þá fæ sú hin sama 500 krónur en bara ef ástarmök eru innifalin.

4. Ég get ekki hætt að grína. Ef einhver getur hunsað síðustu 3 atriðin í þessari færslu þá væri það vel þegið.

föstudagur, 5. september 2008


Ég hef lagt það í vana minn síðustu vikur að leggja áherslu á staðhæfingar mínar með orðunum "4 realz", sem þýðist sem "í alvöru". Fyrir aftan þetta set ég svo upphrópunarmerki til að undirstrika alvarleikann. Dæmi um setningu:

Ég er alvarlega að spá í að gerast ofurhetja, 4 realz!

Nýlega sá ég að verðbólgan mælist 14,5% á ári. Það segir mér að á þessum tíma eftir ár yrði ég að segja "4,58 realz!" og eftir 2 ár, ef verðbólgan helst óbreytt (sem hún vonandi gerir) þá væri setningin mín komin upp í "5,24 realz!", sem er glatað.

Ég hef því ákveðið að skipta "4 realz!" út fyrir "í alvöru!" til að koma í veg fyrir misskilning. Takk Davíð Oddsson! 4 realz!

fimmtudagur, 4. september 2008

Björk er, samkvæmt þessari frétt, í fyrsta sæti í kosningu MTV á besta myndbandi allra tíma með myndbandinu við lagið All is full of love.

Myndbandið er gott. En nóg um það. Meira um lagið sjálft.

Fyrir þá sem nenna ekki að hlusta á lagið heldur vilja bara vita hver boðskapur þess er þá hef ég unnið að smá greiningu á laginu. Hér er niðurstaðan:



Hér eru svo gögnin á bakvið rannsóknina:


Samkvæmt Björk er allt fullt af ást.

Heimild:
All is full of love á Youtube.

Næst ætla ég mér að rannsaka hvort þessi fullyrðing Bjarkar standist. Í rannsóknina mun ég nota ca 100 mismunandi hluti, risastóran hamar og hlífðargleraugu.

miðvikudagur, 3. september 2008

Það er komið að því að fara yfir myndir bíóhúsanna!

Tropic thunder
Hef ekki séð hana. Sé hana vonandi í vikunni.

Make it happen
Hef ekki séð þessa, ekki frekar en aðrir gagnkynhneigðir karlmenn.

Mamma mia
Hef ekki séð þessa, ekki frekar en aðrir gagnkynhneigðir karlmenn.

The Rocker
Trommara er bolað úr hljómsveit sem svo verður heimsfræg. 20 árum síðar fær hann uppreisn ælu (rofl?). Þráinn Wilsson er pirrandi til að byrja með en venst fljótt. Fínasta mynd ef maður kemst í gegnum byrjunina. 2 stjörnur af 4.

Get smart
Allt verður vitlaust á kaffihúsinu einn daginn og leyniþjónusta einhver er á hálum ís. Baldni folinn kemur til bjargar. Þetta er sögð vera gamanmynd með hasarívafi en því er öfugt farið. Þetta er vafamynd í gamanhasar. Fín afþreying. 2,5 stjörnur af 4.

Sveitabrúðkaup
Hef ekki séð hana.

The Dark Knight
Maður klæddur í einhverskonar búning sem líkist leðurblöku, Leðurblökumaður ef þið viljið, kemst í klandur þegar geðsjúkur trúðamálaður einstaklingur leikur á alls oddi við að valda stjórnleysi í Gotham City. Hef séð þessa tvisvar og hún varð aðeins betri í seinna skiptið. Samtals 8 stjörnur af 8. 4 stjörnur af 4 að meðaltali.

Star wars - Clone wars
Hef ekki séð hana.

Wall·E
Jörðin hefur verið yfirgefin árið ca 3000 vegna mengunar. Eftir er vélmennið Wall-E. Stórkostleg mynd! Sjáið hana bara og haldiði kjafti. 4 stjörnur af 4.

The Mummy: tomb of the dragon emperor
Hef ekki séð hana.

Skrapp út
Hef ekki séð hana en hef heyrt skelfilegar sögur.

The X-files: I want to believe
Hef ekki séð hana.

The Strangers
Hef ekki séð hana, enda ekki geðsjúklingur.


Mjög dapur bíóárangur að þessu sinni vegna annríkis. Ég hyggst bæta úr því á næstunni.

þriðjudagur, 2. september 2008

Ég tek hádegismat yfirleitt um kl 13 á virkum dögum. Þannig slæ ég tvær flugur í einu höggi:

* Klukkan 13:00 er fámennt í mötuneyti 365. Ég hata fólk.
* Ég get horft á hádegisfréttir Stöðvar 2 á Stöð 2 plús (sem sýnir þá dagskránna klukkutíma síðar).

Allavega, í dag fór ég í mötuneytið kl 13, keypti mér eitthvað að borða og settist niður til að horfa á fréttirnar. Ég heyrði samt ekkert í fréttunum af því einhverjir töluðu saman mjög hátt bakvið mig.

Þegar ég leit við sá ég að þarna voru fréttamennirnir sem voru á skjánum að tala saman. Þannig að ég heyrði ekkert í fréttunum fyrir fréttamönnunum sem voru að lesa fréttirnar. Það munaði engu að ég hefði sagt "Væruði til í að þegja! Ég heyri ekkert hvað þið eruð að segja.". Það hefði farið beint í skemmtisögubókina mína.

mánudagur, 1. september 2008

Þá er helgin að baki. Ég hef tekið saman topp 5 lista yfir þær setningar sem ég sagði oftast:

5. „Andskotinn“. Það fyrsta sem ég segi þegar ég vakna.
4. „Takk“. Ég er með þakklátari mönnum landsins. Þakka að meðaltali þrisvar sinnum fyrir mig við hver viðskipti.
3. „Jó jó“. Svona svara ég í símann. Dæmigert símasvar fyrir okkur rapparana.
2. „GEFÐU STEFNULJÓS HÓRAN ÞÍN!“ Í umferðinni, ræðandi málin við aðra bílstjóra sem heyra ekki í mér.
1. „Ekki segja Gísla að ég hafi borðað þetta“. Ég má ekki borða óhollustu fyrir körfuboltann, samkvæmt Gísla þjálfara. Vel á minnst, ekki segja Gísla að ég hafi skrifað þetta.