þriðjudagur, 30. ágúst 2011

Barnapössun helgarinnar

Um helgina gerðist ég barnapía fyrir bróðir minn Björgvin og konu hans Svetlönu, snemma á laugardagsmorguninn en þau eiga tæplega ársgamla dóttur, Valeríu Dögg.

Í pössuninni klöppuðum við saman höndunum, skiptumst á að bregða hvoru öðru með því að fela okkur á bakvið lófana okkar, skoðuðum saman myndirnar í Lifandi Vísindum og ég sagði ævintýrasögur af Excel og skjölum sem ég hef unnið.

Dæmigerð helgi semsagt, nema í þetta skiptið var ég ekki einn.

Hér er svo mynd af frænku minni, skemmtilegustu manneskju sem ég þekki, að öðrum ólöstuðum (nema Ómari, hann er skíthæll.):


föstudagur, 26. ágúst 2011

Mitt besta poolskot

Ég hef nokkrum sinnum farið að spila pool með vinum mínum síðustu vikur. Í einni slíkri ferð átti ég eitt ótrúlegasta skot sem ég hef séð. Hér er stórbrotin, grafísk lýsing á skotinu:


Lýsing: Ég skaut kúlu í hornið, þannig að hvíta kúlan mín fór í hitt hornið. Hvorug kúlan fór þó ofan í, heldur skutust þær til baka í loftinu, þar sem þær mættust aftur og kúlan sem ég reyndi að skjóta ofan í upphaflega, fór í hitt hornið.

Því miður er ég á því styrkleikastigi í pool að þegar eitthvað flott gerist þá segir fólk "oj" frekar en "vá".

þriðjudagur, 23. ágúst 2011

Bragð drykkja eftir hitastigi

Ég hef loksins látið áralangan draum rætast og útbúið línurit yfir fjóra drykki sem ég drekk annað slagið. Línuritið sýnir hvernig bragð drykkjanna breytist við mismunandi hitastig þeirra.


Það margborgar sig að dreyma nógu smáa drauma. Næsta takmark mitt í lífinu er að kaupa mér nýja sokka. Ef mínar villtustu fantasíur rætast þá ætti það að gerast um þarnæstu helgi.

Og ef það fór framhjá einhverjum í grafinu þá er kaffi viðbjóður, óháð hitastigi.

sunnudagur, 21. ágúst 2011

Sparnaðarráð viðskiptafræðings

Hér eru nokkur sparnaðarráð frá háttvirtum viðskiptafræðingi, sem öll tengjast og mynda þannig nokkrar óhjákvæmilegar leiðir til að spara.

1. Margir eyða tugum, jafnvel hundruðum króna í lása á skápa í ræktinni, svo þeir geti stundað líkamsrækt án þess að hafa áhyggjur af því að peningum þeirra verði stolið.
Sparnaðarráð: Ekki eiga neina peninga. Til þess þarftu að vera í frekar illa borgaðri vinnu eða kunna ekki að fara með peninga en það er þess virði. Í bónus þarftu ekki að læsa skápnum og í kjölfarið ekki að burðast með lykil í ræktinni eins og fáráður.

2. Ég hef heyrt um fólk sem kaupir sér þjófavörn fyrir heimilið og jafnvel bílinn. Þjófavarnir eru dýrar.
Sparnaðarráð: Í beinu framhaldi af því að eiga engan pening; ekki eiga nein verðmæti. Ég hef t.d. ekki læst bílnum mínum í meira en ár. Ekki bara af því hann er Peugeot heldur vegna þess að lásinn datt af. Af því bíllinn er drasl.

3. Að eiga fjölskyldu er dýrt. Ekki bara að versla hluti og mat fyrir afkvæmin heldur er það líka dýrt að t.d. bjóða makanum út að borða eða á stefnumót.
Sparnaðarráð: Í beinu framhaldi af sparnaðarráðum númer 1 og 2; ekki eiga maka og ekki stofna fjölskyldu. Með því geturðu sparað tíma og gríðarlegar fjárhæðir, sem þú átt hvort eð er ekki.

Bónus sparnaðarráð fyrir lengra komna:

4. Húsnæðisleigan þessi árin er svimandi há. En hún þarf ekki að vera það.
Sparnaðarráð: Ef þú hefur fylgt ráðum 1-3 þá er þér ekkert til fyrirstöðu að verða heimilislaus. Ef þú átt engan pening, engar eignir og enga fjölskyldu, af hverju að leigja íbúð? Óþarfi. Lítið mál er að gista í anddyrum fjölbýlishúsa eða í þykkum runnum ókeypis. Í versta falli í fangageymslu.

fimmtudagur, 18. ágúst 2011

Dubstep blöndur

Í gærkvöldi, eftir að hafa borðað ristað brauð með dubstep áleggi, komst ég að því að allt er betra með dass af dubstepi.

Í framhaldinu velti ég því fyrir mér hvort hægt væri að blanda Dubstep við tónlist með sömu áhrifum. Og viti menn, það er hægt.

Hér að neðan eru þrjú klassísk lög blönduð í dubstep og útkoman er nokkuð djöfull góð. Ég vara þó fólk með dubstepóþol við þessum lögum. Einnig fólk sem þolir hnetur illa.

Enya - Sail away



Mamas and the papas - California Dreaming


Raggi Bjarna - Inspector Gadget theme

þriðjudagur, 16. ágúst 2011

Tvífaraveggspjöld

Ég fann tvífara fyrr í dag sem eiga tvennt sameiginlegt; að vera bæði veggspjöld fyrir bíómyndir og að vera mjög svipað uppsett.

No country for old men


Fright night

Þó að veggspjöldin séu eins uppsett þá eru myndirnar sjálfar gjörólíkar. Annars vegar er um að ræða eina af mínum uppáhalds myndum eftir Cohen bræður sem fjallar um mann á flótta undan snargeðveikum leigumorðingja og hinsvegar hryllingsmynd, sem ég auðvitað neita að horfa á. Ekki af því ég er hræddur við þær heldur vegna þess að ég hef ekki gaman af því að pissa á mig (og þá aðila sem sitja nálægt mér).

laugardagur, 13. ágúst 2011

Enska úrvalsdeildin í Excel skjali

Þar sem enska úrvalsdeildin í fótbolta byrjaði í dag útbjó ég smá Excelskjal sem hjálpar til við að fylgjast með stöðunni í deildinni hér.

Annars var ég að fatta hvernig ég get horft á video í símanum mínum. Þannig að ef ég er ekki að horfa á video í tölvunni, þætti í sjónvarpinu eða kvikmyndir í bíói, þá er ég að því í símanum.

Ég vildi að ég hefði aldrei keypt þennan andskotans síma.

fimmtudagur, 11. ágúst 2011

Peugeot getraun



Getraun dagsins: Hvaða fantasíu minni tengist myndin að ofan?
  1. Scarlett Johansson samþykkti að fara á Peugeot rúnt með mér.
  2. Ég hef selt bifreið mína til sex ára fyrir meira en 500 krónur.
  3. Peugeot bifreið mín komst í gegnum skoðun í fyrstu tilraun með aðeins þremur athugasemdum.
  4. Ég keypti mér hafnaboltakylfu í dag til að nota á bílinn eftir vinnu.
  5. Ég hef loksins lært að taka beinar myndir.
  6. Allt að ofan.
  7. Ekkert að ofan.
  8. Atriði 2 og 5.
  9. Atriði 1 og 8.
  10. Ég komst upp úr blogglægðinni sem er að hrjá mig með því að taka þessa mynd.
Fyrir rétt svar fæst eitt stig. Fyrir rangt svar fást mínus 5 stig. Fyrir ekkert svar fást mínus 15 stig.

mánudagur, 8. ágúst 2011

Bílalabb

Það vita ekki margir að ég labba alveg eins og ég teiknaði bíla þegar ég var fimm ára.

„Hvað áttu við, fáránlega fíflið þitt?“ kunna margir eflaust að spyrja. Svarið er tæknilega flókið en nokkuð einfalt á blaði. Hér er loftmynd af gönguferð minni í kvöld:


Þetta er alveg eins og bílarnir sem ég teiknaði fimm ára. Reyndar er þetta alveg eins og bílarnir sem ég teikna í dag. Til sönnunar neita ég að sýna ykkur teikningu mína á bíl, af skömm.

laugardagur, 6. ágúst 2011

Afrek dagsins

Eftir þennan dag mun ég geta bætt við nokkrum afrekum í afrekaskránna mína:

1. Ég gekk í eftirfarandi skóm í 18 mánuði, þar af í tvo mánuði eftir að þeir urðu að drasli.





Afsakið hendina á mér og lélegan fókus. Ég var frekar æstur.

2. Ég fann nýja skó í verslunum Reykjavíkur og nágrennis sem uppfylltu allar þrjár kröfur mínar.
Kröfurnar voru:
  • Þægilegir (ekki tískukjaftæðisskór)
  • Líta ekki út fyrir að vera frá 1983 (ekki risavaxnir, ógeðslegir eða í skærum litum)
  • Kosta minna en 70.000 krónur (og minna en 10.000 krónur).
Síðustu mánuði fann ég aðeins skó sem uppfylltu tvö af þessum þremur skilyrðum, þangað til í dag. Nýju skórnir kostuðu meira að segja aðeins um 8.500 krónur með 50% afslætti.

Þú veist að þú ert fullorðinn þegar þú grætur úr hamingju yfir að hafa fundið góða útiskó.

3. Ég er enn að stækka.
Nýju skórnir, sem fjallað er ítarlega um í atriði tvö hér að ofan, eru í stærð 46 2/3 eða 46,67. Það er um 1,4% stærra skónúmer en ég hef notað hingað til. Svo passa ég erfiðlega í buxur sem ég hef átt lengi. Frábært!

4. Ekki afrek. Bara lag.
Þennan slagara heyrði ég fyrr í dag og mun hlusta á þegar ég hyggst slappa vel af og róa mig niður. Það heitir [Mér er sama] með [Ég veit það ekki]. Það flokkast undir dubstep remix af... einhverjum andskotanum.



miðvikudagur, 3. ágúst 2011

Fjórfarar

Ég hef loksins bætt við nýjum fjórförum. Í þetta sinn eru það fjórir leikarar sem ég rugla oft saman. Sennilega af því ég er rasisti þegar kemur að dökkhærðum mönnum.

Sjá leikarana hér.

mánudagur, 1. ágúst 2011

Bíóferðir vikunnar

Á síðustu dögum hef ég tvisvar farið í bíó. Bíóferðirnar fylgdu öllum mínum reglum um bíóferðir:

1. Engar þrívíddarmyndir. Af hverju að borga meira fyrir eitthvað sem maður hefur engan áhuga á og bætir engu við myndina?

2. Engin Sambíó Álfabakka. Þjónustan þar er hræðileg og þangað virðast bara sækja háværir unglingar sem eru á mörkum þess að kunna að standa upprétt.

3. Bara tíubíó. Allar sýningar fyrir þann tíma innihalda of mörg hávær ungmenni, sem ég vil helst ekki koma nálægt af ótta við smit.

4. Ekki þriðjudagsbíó. Á þriðjudögum eru tilboðssýningar. Á tilboðssýningar er meirihluti gesta fólk sem kann ekki að fara í bíó og veit ekki hvernig á að haga sér.

Í stuttu máli: ég fer í bíó þegar líkurnar á fámenni eru miklar, til dæmis um verslunarmannahelgi klukkan 22:00.

Reglunum fer fjölgandi. Ég mun líklega bæta við reglunni „engar myndir sem frumsýndar voru innan viku“ fljótlega.

Myndirnar sem ég fór á voru:

Horrible Bosses
Ekki jafn fyndin og ég bjóst við. Þó nokkuð góð. 2,5 stjörnur.

Bad teacher
Mun fyndnari en ég bjóst við. Samt ekki nógu góð. 2,5 stjörnur.