Hér eru nokkur sparnaðarráð frá háttvirtum viðskiptafræðingi, sem öll tengjast og mynda þannig nokkrar óhjákvæmilegar leiðir til að spara.
1. Margir eyða tugum, jafnvel hundruðum króna í lása á skápa í ræktinni, svo þeir geti stundað líkamsrækt án þess að hafa áhyggjur af því að peningum þeirra verði stolið.
Sparnaðarráð: Ekki eiga neina peninga. Til þess þarftu að vera í frekar illa borgaðri vinnu eða kunna ekki að fara með peninga en það er þess virði. Í bónus þarftu ekki að læsa skápnum og í kjölfarið ekki að burðast með lykil í ræktinni eins og fáráður.
2. Ég hef heyrt um fólk sem kaupir sér þjófavörn fyrir heimilið og jafnvel bílinn. Þjófavarnir eru dýrar.
Sparnaðarráð: Í beinu framhaldi af því að eiga engan pening; ekki eiga nein verðmæti. Ég hef t.d. ekki læst bílnum mínum í meira en ár. Ekki bara af því hann er Peugeot heldur vegna þess að lásinn datt af. Af því bíllinn er drasl.
3. Að eiga fjölskyldu er dýrt. Ekki bara að versla hluti og mat fyrir afkvæmin heldur er það líka dýrt að t.d. bjóða makanum út að borða eða á stefnumót.
Sparnaðarráð: Í beinu framhaldi af sparnaðarráðum númer 1 og 2; ekki eiga maka og ekki stofna fjölskyldu. Með því geturðu sparað tíma og gríðarlegar fjárhæðir, sem þú átt hvort eð er ekki.
Bónus sparnaðarráð fyrir lengra komna:
4. Húsnæðisleigan þessi árin er svimandi há. En hún þarf ekki að vera það.
Sparnaðarráð: Ef þú hefur fylgt ráðum 1-3 þá er þér ekkert til fyrirstöðu að verða heimilislaus. Ef þú átt engan pening, engar eignir og enga fjölskyldu, af hverju að leigja íbúð? Óþarfi. Lítið mál er að gista í anddyrum fjölbýlishúsa eða í þykkum runnum ókeypis. Í versta falli í fangageymslu.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.